05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

91. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég er sammála hv. 4. þm. Reykv. um það, að brýnasta verkefnið í íslenzkum skóla- og menntamálum nú er að ráða bót á þeim vanköntum, sem eru á verk- og tæknimenntun í landinu, lyfta þeim námsbrautum á hærra stig en þær hafa náð hingað til og búa svo um hnúta, að þær séu í engu eftirbátar hinna hefðbundnari bóklegu námsbrauta, hvorki í aðbúnaði né í áliti manna. En ég vil einnig skýra frá því, að ég taldi ekki rétt, að það lagasetningarstarf, sem hér er fram undan, hæfist fyrr en um það leyti sem væntanlegt grunnskólafrv. lægi nokkurn veginn fyrir, því að ljóst er, að starfið að því að móta nýtt fyrirkomulag verk- og tæknimenntunar hlýtur að byggjast á þeim grundvelli, sem væntanlega verður lagður með lögum, sem sett verða um grunnskóla. Þarna verður að vera mjög náið samhengi á milli, vegna þess að eitt versta meinið í skólakerfi okkar hefur lengi verið, hversu sundurlaust og sundurslitið það getur verið, hversu hætt er við, að menn lendi þar í blindgötum, þar sem þeir lokist inni og geti ekki fetað sig þrep af þrepi um skólakerfið. Það skiptir afar miklu máli, að fyrir þessa hættu sé girt í þeirri lagasetningu, sem framundan er, bæði um grunnskóla og verk- og tæknimenntun.