05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

92. mál, vátrygging fiskiskipa

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er um það, hvort vænta megi frá hendi ráðh. till. eða frv. til l. um vátryggingu fiskiskipa, sem miði að lækkun vátryggingariðgjalda, sbr. yfirlýsingu í málefnasamningi ríkisstj. Í þessu skyni skipaði ég fyrir nærri ári sérstaka n. ýmissa þeirra aðila, sem hér eiga einkum hlut að máli, og þessi n. vann verk sitt tiltölulega fljótlega og skilaði nál. í marzmánuði 1972 eða á þessu ári. En því miður var niðurstaða þessarar n. mjög á annan veg en ég hafði óskað eftir og gert mér hugmyndir um. Síðan hefur málið verið til umr. í rn. við viðkomandi aðila nokkrum sinnum, en ekki hefur fengizt nein samstaða enn um breytingar á því tryggingakerfi, sem í gildi hefur verið og ég hef lýst yfir óánægju minni með og margir aðrir, þar sem ég hef talið það mjög kostnaðarsamt. Ég hef hins vegar ekki vegna áframhaldandi viðræðna við aðila um málið talið rétt að flytja hér frv. um, að breytingar yrðu gerðar á þessu kerfi í þeim anda, sem ég hefði óskað eftir, vegna þess að það er mjög hæpið að knýja fram breytingar í þessum efnum í andstöðu við þá, sem við kerfið eiga að búa. Nú verða þessi mál enn til umr. í sambandi við rekstrargrundvöll sjávarútvegsins fyrir næsta ár, og reynir þá enn á, hvort samkomulag geti tekizt um að breyta þessu kerfi í verulegum atriðum. Ég get því ekki svarað því á þessari stundu, hvort búast megi við á næstunni frv. um málið, en niðurstaða þessarar n., sem ég gat um, var í aðalatriðum að halda sig við það kerfi, sem verið hefur, með tiltölulega litlum breytingum. Það er að sjálfsögðu hægt að gera nokkrar breytingar á því kerfi, sem gætu verið til bóta, en ég hef ekki sætt mig við það enn þá, að ekki sé hægt að gera hér á meiri háttar breytingu, og af því bíður málið enn sem komið er. En ég geri mér vonir um, að hægt verði að breyta þessu kerfi, sem flestir viðurkenna, að sé stórgallað, þó að þeir fáist ekki enn þá til samkomulags um neitt nýtt form í þessum efnum.

Ég vænti, að þetta upplýsi málið, eftir því sem hægt er að upplýsa það á þessu stigi, og þetta sé fullnægjandi fyrir bv. fyrirspyrjanda.