06.12.1972
Efri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, en mér sýnist nauðsynlegt bæði að undirstrika og taka undir ýmislegt af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði og sömuleiðis að leiðrétta smámisskilning, sem mér finnst koma þar fram. Mér finnst rétt, að ég geri það, þar sem ég hef verið ábyrgur fyrir meðferð þessa máls undanfarin síðustu ár í starfi mínu sem opinber starfsmaður.

Í fyrsta lagi held ég, að það sé vafasamt að gefa vonir um, að frekari rekstur sem slíkur geti orðið í Flatey. Ég held, að það sé fjölmargt, sem mælir gegn því. Vil vekja athygli á því, að í fyrri áætlunum var gert ráð fyrir því, að þang yrði þurrkað að Reykhólum og síðan flutt út í Flatey og umskipað þar og sett í annað og stærra skip, en við ítarlegar athuganir á þeirri meðferð reyndist hún alls ekki arðbær og því nauðsynlegt að gera ráð fyrir útskipunarhöfn eða bryggju við verksmiðjuna á Reykhólum. Ég vil taka það fram, að ég mundi sízt hafa á mótí því, ef slíkt gæti orðið í Flatey, en ég held, að ég megi fullyrða, að athuganir sem hafa beinzt að þessu, hafa ekki verið jákvæðar.

Einnig sýnist mér sjálfsagt, eins og ég sagði áðan, hafandi veitt þessu nokkra forstöðu, að taka undir það, sem sagt hefur verið um fjölmarga ágæta menn, vísindamenn, sem að þessu máli hafa starfað. Má þar raunar nefna menn eins og prófessor Þorbjörn Sigurgeirsson, sem vann að því á fyrstu árunum, þegar það var hjá rannsóknaráði. En enginn maður hefur unnið af eins mikilli þrautsegju að þessu máli og Sigurður V. Hallsson verkfræðingur, eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni. Hann gerði það fyrst sem starfsmaður Raforkumálaskrifstofunnar, síðan sem ráðgefandi verkfræðingur á vegum þeirrar skrifstofu, og Orkustofnunarinnar og loks á vegum rannsóknaráðs. Ég vil leggja á það ríka áherzlu, að eina ástæðan fyrir því, að Sigurður V. Hallsson vann ekki að þeirri áætlanagerð, sem nú er lögð fram um þangverksmiðjuna, er sú, að hann óskaði ekki sjálfur eftir því, hann hafnaði því og kaus að vinna að þessu máli eftir öðrum leiðum, og hef ég út af fyrir sig ekkert við það að athuga. Það var af þeirri ástæðu, að rannsóknaráð varð að fela starfsmanni sínu, dr. Vilhjálmi Lúðvíkssyni, að annast þetta mál í stórum ríkara mæli en gert hafði verið ráð fyrir. Sömuleiðis var leitað til Rannsóknastofnunar iðnaðarins um vissar tilraunir, og ég vil einnig, að það komi fram, að starfsmenn þeirrar stofnunar inntu þær af höndum með mestu ágætum og eru niðurstöður, sem þaðan fengust, grundvallarupplýsingar í öllu þessu máli. Þetta er aðeins til nánari upplýsinga, sem mér þótti rétt, að hér lægju fyrir.

Það er einnig rétt hjá síðasta hv. ræðumanni, að ýmsir aðilar hafa styrkt þetta mái. Má bæta atvinnujöfnunarsjóði við upptalningu hans. Hins vegar held ég, að það sé misskilningur að ætla, að Atlantshafsbandalagið hafi styrkt þetta mál sem slíkt með styrk af síðasta ári til almennrar undirstöðuathugunar á þörungagróðri við strendur landsins. Með þeim styrk, sem er veittur dr. Sigurði Jónssyni og Sigurði V. Hallssyni, er einmitt lögð á það áherzla, að sá styrkur er ætlaður til grundvallarrannsókna, en ekki til rannsókna á hinu hagnýta svíði, sem hér er fyrst og fremst um að ræða. En það er fjarri mér að vera á nokkurn máta að draga úr mikilvægi þess styrks. Allar grundvallarupplýsingar um þörungagróður við strendur landsins eru að sjálfsögðu mikilvægar, þó að ekki séu þær í beinum tengslum við það hagnýta markmið, sem að var unnið með þangþurrkunarstöð á Reykhólum.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. einnig, að lengi hafa verið tengsl við Alginate Industries, en áhugi á þangi héðan kom ekki fram verulega fyrr en á s.l. ári. Ég vil einnig, að það komi hér fram, að fulltrúi frá Alginate Industries kom hingað til lands fyrir áeggjan Sjávaryrkjunnar hf., sem þá hafði verið stofnuð. En rannsóknaráð var þá einnig í málinu og kom inn í það í vaxandi mæli á eftir, þegar ljóst var, að umsvif þessa máls öll væru langtum meiri en það fyrirtæki, þótt ágætt sé, fengi ráðið við. Ég vil leggja á það áherzlu, að það var í fullu samráði við forustumenn Sjávaryrkjunnar hf. Og ég tek undir það, að það fyrirtæki, eins og ég hef sagt áður, er mikilvægur þáttur í þessu máli. En ég hygg, að enginn geri sér betur grein fyrir því en heimamenn, sem að þessu fyrirtæki standa, að þeir hafa hvergi nærri bolmagn til þess að ráða við svo stórt fyrirtæki sem hér um ræðir, enda höfðu þeir það ekki í huga, þegar það fyrirtæki var stofnað, og hafa hvað eftir annað lagt á það ríka áherzlu í mín eyru. Ég tel mjög mikilvægt, að þeir taki þátt í þessu, en vil, að það komi fram, að í viðræðum, sem ég hef átt við stjórn þess fyrirtækis, hafa þeir lagt á það sjálfir ríka áherzlu, að eignarhluti hins opinbera verði mjög mikill og a.m.k., eins og þeir orðuðu það, verði hið opinbera og heimamenn með meiri hl. í þessu fyrirtæki. Kemur þar fram afar svipað sjónarmið og var ríkjandi um Kísiliðjuna við Mývatn. Þar óskuðu heimamenn einnig eftir slíku fyrirkomulagi. En þetta verður að sjálfsögðu til nánari athugunar, þegar væntanlegt fyrirtæki verður sett á stofn, og ég veit, að við vonumst til, að úr því verði.

Fleiri orð ætla ég ekki að hafa. Ég vil aðeins segja að lokum, að það þarf að mínu viti dálítið mikið ímyndunarafl til að tengja þessa verksmiðju Vestfjarðaáætlun, en sumir hafa það. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég harma það einnig, að Vestfjarðaáætlun hefur dregizt. Vonandi verður unnt að hraða atvinnuþætti Vestfjarðaáætlunar á næstunni.