06.12.1972
Efri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð til lýsa fylgi við fram komið frv. og þá ánægjulegu stefnu hjá hæstv. iðnrh. að tala svo vel fyrir slíku frv. Ég man eftir því, þegar fylgt var úr hlaði frv. um kísilgúrinn og breytingum á fjármögnun við þann rekstur, að þá voru ekki allir á einu máli um þau vinnubrögð. En nú hefur hæstv. ráðh. lært af reynslunni. (Gripið fram í.) Nei, þegar viðbótin kom um fjármögnunina, þá var hv. þm. og ráðh. kominn inn á Alþ. (Gripið fram í.) Það voru ýmis orð látin falla, sem hægt væri að fletta upp í, en ég ætla ekki að gera það í þetta skipti. Ég bara lýsi ánægju minni yfir þeirri hugarfarsbreytingu, sem hæstv. ráðh. hefur tekið, og það munu áreiðanlega fleiri taka eftir þeirri hugarfarsbreytingu. Nú er ekkert að því að hafa erlent fjármagn til hjálpar við eðlilega uppbyggingu.

Ég vil einnig undirstrika það mjög, að ríkinu beri að eiga hér meiri hl. Ríkið verður að koma þessu fyrirtæki af stað raunverulega, aðrir hafa ekki til þess bolmagn. Það hefur a.m.k. ekki komið fram. Upphæðin er að vísu ekki mikil, og sú viðmiðunartala, um 128–130 millj., sem stofnkostnaður er ráðgerður, er ekki stærri en sú tízkutala í dag, sem talað er um, þegar allir eru að sækja um einhverja fjárveitingu, þ.e.a.s. miðað við togaraverð, þannig að sumum mundi ekki vaxa það í augum. Engu að síður er þetta svo há tala, a.m.k. gagnvart heimamönnum, að þeir munu ekki ráða við hana. Þess vegna er eðlilegt, að ríkið leggi málinu rækilega lið og verði frumkvöðull að þessari uppbyggingu.

Ég vona, að þetta takist allt vel og áætlanir, sem fyrir liggja, séu svo raunverulegar, að við getum treyst þeim og fyrirtækið hefji starfrækslu innan tveggja til þriggja ára og sómasamlegur afrakstur sé tryggður. Auðvitað getur margt skeð. Það eru stórar áætlanir á döfinni á efnahagssviðinu, og þá mun áreiðanlega verða nauðsyn á að tryggja iðnaðinum sinn skammt eins og öðrum útflutningsgreinum. Miðað við ræðu hæstv. iðnrh. áðan, geri ég ráð fyrir því, að hann muni ekki vera neitt léttur á árinni, ef þarf að taka í hana varðandi þann þátt þjóðarbúskaparins.

Sem sagt, ég lýsi ánægju minni yfir frv., og ég lýsi líka ánægju minni enn einu sinni yfir hínum breytta tón, sem ég skynjaði í orðum hæstv. ráðh.