06.12.1972
Neðri deild: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

21. mál, Jafnlaunaráð

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. hafa haft nægan og góðan tíma til að hugleiða þetta mál. sem liggur hér fyrir til umr, á þskj. 21. Frv. þetta hefur legið hér frá því í byrjun þings að kalla má, auk þess sem nálega sams konar frv. var flutt hér á þinginu í fyrra, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Ég ætla að taka það fram, að ég hef ekki myndað mér neina endanlega skoðun á þessu máli, enda þótt ég sé í mörgum atriðum mjög gagnrýninn á það, taldi enda rétt og eðlilegt að bíða eftir þeim umr., sem hér kynnu að verða um málið, áður en ég myndaði mér endanlega skoðun á málinu.

Hér er lagt til, að myndaður verði nýr dómstóll í landinu, og það hlýtur að vera vegna þess, að dómstól vanti, sem geti gegnt því hlutverki, sem þessu Jafnlaunaráði, eins og það er nefnt, er ætlað. Fyrir því er lagt til að stofna til þessa dómstóls, að hér ríki afar mikið ófremdarástand í þeim efnum og þeim atriðum, sem þessi dómstóll eða Jafnlaunaráð á að koma til með að fjalla um.

Ég álít í fyrsta lagi, að við höfum hér fyrir í landinu dómstóla, sem eru fullfærir um að gegna því hlutverki, sem þessum aukadómstól er ætlað að gera. Og í öðru lagi álít ég, að ástandið sé ekki nálægt því eins slæmt í þessum efnum og hv. flm. vilja vera láta, bæði í frv. og grg. þess. Hefur ástandið á þessu sviði hvað varðar launamisrétti eða misrétti á vinnumarkaði milli karla og kvenna farið stórkostlega batnandi á undanförnum árum. Ég hygg, að það sé kannske meira fyrir vanþekkingu hv. flm. á starfsemi verkalýðshreyfingarinnar, sem svo fast er kveðið að orði í ýmsum atriðum, hvað þetta mál varðar, í þessu frv., sem við höfum fyrir augum.

Hér er lagt til í 1. gr., að „konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og að öðru leyti sambærileg störf“. Þegar lög voru sett, — ég hygg nr. 60 frá 1961, — um sömu laun fyrir sömu störf, höfðu vinnuveitendur uppi þær skoðanir, að í stað þess, að sett yrði í lögin ákvæði um sömu laun fyrir sömu vinnu, yrði tekið ákvæði um jafnverðmæt störf. Menn mega ekki skilja orð mín svo, að ég telji það sönnun fyrir því, að rétt hafi verið að taka inn hitt orðalagið, þótt vinnuveitendur héldu þessu fram á sínum tíma. Ég hef þó þá skoðun, að það sé alveg rangt, sem segir í grg. um 1. gr. þessa frv., að þetta ákvæði um jafnverðmæt störf fari lengra en það, sem kveður á í núgildandi lögum um sömu störf. Ég held, að þessu sé þveröfugt varið. Það segir hér í 4. gr., 6. lið, að Jafnlaunaráði beri „að vega og meta ráðningar- og/eða kjarasamninga til samræmis við ákvæði 1. og 2, gr.“ o.s.frv.

Jafnlaunaráð á að hafa frumkvæði í því að taka og vega og meta ráðningarsamninga og kjarasamninga verkalýðsfélaga. Ég hygg, að það sé komið að því á öðrum stað í grg., þar sem beinlínis er þannig til orða tekið, að maður skyldi ætla, að verkalýðsfélög og samningaaðilar vinnumarkaðarins væru ekki til þess fullfærir að orða sína samninga, svo að vel fari. Látum það gott heita. En allt innihald þessa frv. er á þá vísu, að hér sé ríkjandi hið ægilegasta ástand á vinnumarkaðinum hvað varðar misrétti, þar sem kynjunum sé mjög mismunað, bæði hvað laun snertir og varðandi stöðuveitingar. Ég játa, að fjarri fer því, að jöfnuður í þessum efnum hafi náðst og nægjanlega hafi verið að því staðið, að konur njóti þess jafnræðis, sem þeim ber. En ég endurtek, að stórkostlega mikið hefur áunnizt í þessum efnum, og vil ég þá minna á það, sem hér var sett í lög árið 1961 um launajafnrétti karla og kvenna. Og ég vil rifja það upp hér og nú, að í framhaldi af þeim lögum var sett á stofn jafnlaunanefnd, sem skipuð var fulltrúa skipuðum af ráðh., sem var Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, núv. hæstv. félmrh. átti sæti í þeirri n. og einnig fulltrúi vinnuveitenda, Barði Friðriksson. Ótalmörg mál komu til úrskurðar þessarar n., og hún starfaði, að ég ætla, í ein 6 ár. Ég held, að hún hafi afgreitt öll slík mál ágreiningslaust, og auðvitað varð sú starfsemi og framkvæmd lögunum til mikils framdráttar og til þess að eyða mjög því misrétti, sem áður hafði verið.

Hér segir í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Þá sýna ýmsar athuganir, að raunborgun er hærri til karla en kvenna, enda þótt þau gegni sömu störfum, og ríkrar tilhneigingar gætir til að ganga fram hjá konum við hækkun í starfi.“ Ég skal ekkert um það fullyrða, hvað hv. flm. hafa fyrir sér í því, þegar slíkt sem þetta er sett hér fram. En gjarnan vildi ég fá upplýsingar um, hvaða rannsóknir liggja að baki þessari fullyrðingu.

Svo segir hér: „Þeir einstaklingar, sem eru þannig misrétti beittir, eiga oft örðugt um vik að fá leiðréttingu mála sinna.“ Ég hef átt þess kost að starfa að þessum málum í hálfan annan áratug, og þessi fullyrðing er alröng. Þeir launþegar, sem misrétti hafa verið beittir, hafa átt greiðan aðgang að sínum verkalýðsfélögum til að fá leiðréttingu mála sinna, og sá dómstóll. sem mestmegnis hefur haft með þessi mál að gera, hefur tekið þau til meðferðar og eins og að líkum lætur sem hlutlaus dómstóll afgreitt þau þannig, að enginn hefur yfir að kvarta. Það má kannske segja, að í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938, — sem eru mjög merkileg lög og hafa reynzt verkalýðshreyfingunni að mörgu leyti ákaflega vel, enda þótt þau e.t.v. þarfnist endurskoðunar nú, — það má e.t.v. segja, að í þeim kafla þeirra, sem fjallar um félagsdóm, mættu vera ýmis fyllri ákvæði, sem t.d. gerðu þeim dómstóli kleift að taka til meðferðar ýmislegt af því, sem ábótavant er og nauðsynlegt er, að hans verksvið næði yfir. Þá er að athuga það sérstaklega, hvort ekki ætti að endurskoða þau lög, ef á þætti skorta, að þau næðu fyllilega tilgangi sínum, en ekki að grípa til þess að setja upp nýja yfirbyggingu, eins og hér er lagt til.

Þá er hér, — svo að ég grípi niður á þetta á við og dreif. — ákvæði í 6. gr., sem hv. 4. landsk. þm., frsm. málsins, vakti athygli þingheims sérstaklega á sem mjög mikilsverðum rétti til handa þeim, sem þetta mál varðar, og það ákvæði hljóðar svo:

„Nú breyta dómstólar úrskurði Jafnlaunaráðs til lækkunar, og á þá atvinnurekandinn ekki endurkröfurétt á launþegann fyrir tímabilið frá uppkvaðningu úrskurðar Jafnlaunaráðs til niðurstöðu dómstóla.“

Ég vil líka vekja athygli á þessu ákvæði alveg sérstaklega, af því að þetta er brot á þeim réttarvenjum, sem hafa tíðkazt á Íslandi. Áfrýjun hefur a.m.k. í fébótamáli ævinlega haft, eftir því sem mér er tjáð, frestandi áhrif, þannig að fullnægingu dóms, sem kveðinn hefur verið upp, er frestað, meðan hann gengur á síðara dómsstig. Þetta leiðréttist, ef ég hef ekki rétt fyrir mér í því, að þetta sé venjan í íslenzku réttarfari. Og þá er það auðvitað ekkert smámál, ef á að breyta því með þessu, ef þetta frv. verður að lögum.

Í 5. gr. segir enn fremur, að kærendur og sóknaraðilar máls fyrir Jafnlaunaráði geta verið einstaklingar, sem telji brot á lögum þessum beinast gegn sér o.s.frv. Auðvitað er mikilsvert, að einstaklingnum sé gefin sem fyllst réttindi. En ég vil vekja athygli á því, að einstaklingur í verkalýðsfélagi, sem vill sækja rétt sinn, snýr sér með málið skv. þeirri venju, sem nú tíðkast, til síns verkalýðsfélags, sem er hans fyrirsjón og hlýtur að eiga að vera. Og því ber ekki að neita, að í hópi launþega eru oft og tíðum einstaklingar, sem leita til félaga sinna með mál, sem engan veginn standast rétt mat eða skynsamlegt og eru kannske í einstöku tilfellum þverbrot á þeim samningum, sem stéttarfélagið hefur gert fyrir þeirra hönd. Hins er að gæta, að verkalýðsfélögin reka auðvitað af kappi þau mál, sem reynast vera þannig vaxin, að einstaklingurinn eigi rétt á lagfæringu. En ég álít einmitt, að það sé nauðsynlegt, að sjálf verkalýðsfélögin, sem eru fyrirsjón einstaklingsins og óneitanlega hefur tekizt vel til í þeim efnum á Íslandi, séu hlekkur á milli einstaklingsins og dómstólsins. Það álít ég vera eðlilega leið í þessu máli.

Það segir hér í grg.: „Sú staðreynd blasir við, að þau störf, sem konur vinna í þjóðfélaginu, eru metin til lágra launa.“ Að vísu má segja, að kannske er þetta að stærri hluta, en ekki er hægt að alhæfa þetta eins og þarna er gert og stenzt ekki. Þannig er þetta um ýmis atriði í frv. og grg., að þar er um, að því er mér virðist, allmiklar órökstuddar fullyrðingar að tefla. En þetta frv. hefur legið hér áður fyrir þingi svo til óbreytt frá því sem nú er, og það var leitað umsagnar um þetta frv. á síðasta ári, og ég er sannfærður um það, að hv. 1. flm., hv. 4. landsk. þm., mundi hafa vísað til þeirra umsagna, sem þá komu fram um málið, ef hv. þm. hefði talið þær umsagnir til sérstaks framdráttar málinu. Ég gríp hér aðeins niður í umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og svo umsögn Alþýðusambands Íslands og legg áherzlu á, að þetta eru umsagnir um næstum því nákvæmlega sams konar frv. og hér liggur fyrir til umr. Breytingin er aðeins e.t.v. í því, að nú má þó áfrýja úrskurði Jafnlaunadómsins, sem ekki var lagt til í fyrra, og var út af fyrir sig furðulegt að hafa ekki það ákvæði í frv. þá, svo að að því leyti gengur þetta frv. í rétta átt. En með bréfi, dags. ~2. marz 1972, sendi Bandalag starfsmanna ríkis og hæja umsögn sína um þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr. Vil ég — með leyfi hæstv. forseta, af því að bréfið er stutt, leyfa mér að lesa það. Stjórn BSRB segir á þessa leið:

„Eins og fram kemur í grg. frv., gerir íslenzk löggjöf ráð fyrir jafnrétti karla og kvenna í launamálum og einnig sama rétti til starfa.“ Þeir vekja strax athygli á þessari staðreynd. Hitt er svo alveg rétt, að það hefur ekki tekizt sem skyldi og ekki nægjanlega vel enn að koma þessu jafnrétti á, enda þótt, eins og ég segi, okkur hraðfari fram og nálgumst mjög viðunanlegt ástand í þessum sökum. Svo segir áfram: „Enn vantar mikið á,“ það er þeirra álit, BSRB, „að jafnrétti ríki í reynd, þótt það hafi verið fest í íslenzkri löggjöf, og er stjórn BSRB þeirrar skoðunar, að nýtt átak þurfi til þess að tryggja framkvæmd löggjafar um þetta efni. hetta átak þarf að dómi stjórnar BSRB að framkvæma á félagslegum grundvelli með starfi stéttarsamtaka landsins, félagssamtaka kvenna og stjórnvalda, og í þessu sambandi er höfuðnauðsyn, að konur taki virkari þátt en hingað til í starfi stéttarfélaga. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur þá reynslu af lögskipuðum gerðardómi í kjaramálum, að samtökin berjast fyrir afnámi lagaákvæða um dómstóla til ákvörðunar um kjaramál opinberra starfsmanna. Með hliðsjón af því getur stjórn BSRB ekki mælt með því, að sett verði löggjöf um nýjan dómstól til þess að úrskurða um kjaramál kvenna.“

Þetta er umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og aðalinntak hennar er, að þeir geti ekki mælt með því, að sett verði löggjöf um nýjan dómstól til þess að úrskurða um kjaramál kvenna. Síðan kem ég að umsögn Alþýðusambands Íslands. Nú skal því skotið hér inn í, að í frv. á þskj. 21 og grg. með því virðist mér margsinnis koma fram, að konur starfi lítið sem ekkert og hafi lítil áhrif í launþegasamtökunum yfirleitt. Ég vil mótmæla þessu og benda á, að t.d. verkakvennafé]agið Framsókn, Eining á Akureyri, meðan hún var og hét. og Framtíðin í Hafnarfirði o.fl. víða um land hafa staðið nú a.m.k. um langa hríð alveg jafnvel í stöðu sinni innan verkalýðssamtakanna og karlafélögin, verkamannafélögin og önnur verkalýðsfélög, og eiga þar engan minni rétt. En umsögn Alþýðusambands Íslands er dags. 21. febr. 1972 og h]jóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Allshn. Nd. Alþ. hefur með bréfi, dags. 15. nóv. s.l., beiðzt umsagnar Alþýðusambands Íslands um frv. til l. um Jafnlaunadóm,“ — eins og það hét þá. Það heitir Jafnlaunaráð núna. — „Eins og fram kemur í ákvæðum frv. og grg. með því, er megintilgangur þess sá að tryggja betur en nú er gert jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu og þá sérstaklega koma í veg fyrir launamisrétti milli kynja. Alþýðusamband Íslands er því viðhorfi, sem hér um ræðir, fyllilega sammála, enda hefur það með ýmsum hætti leitazt við að skapa sem viðtækast jafnræði kynjanna í launa- og kjaramálum og orðið þar verulega ágengt á síðari rímum.

Alþýðusambandið telur, að til bóta verði, að ákveðinn dómstóll fjallaði um ágreining, sem upp kæmi vegna meintra brota á lögum, samningum og alþjóðlegum skuldbindingum, sem lúta að því að tryggja félagslegt og fjárhagslegt jafnræði kynjanna í atvinnulífinu, en bendir á, að eðli málsins skv. komi til greina að fela Félagsdómi slík verkefni, enda væru þá gerðar viðeigandi breytingar á lögum um þann dómstól.“

Og að síðustu segir Alþýðusambandið í umsögn sinni: „Þá telur Alþýðusambandið, að æskilegt væri, að fram færi víðtæk og nákvæm rannsókn á því, hvernig í raun er háttað launajafnrétti karla og kvenna í íslenzku atvinnulífi, og telur, að slík rannsókn væri eðlilegur undanfari frekari löggjafar en nú er í gildi um þau efni.“

Ég vek sérstaklega athygli á þessari umsögn. í fyrsta lagi er aðalinntak hennar, að Alþýðusambandinu hafi orðið verulega ágengt í þessum efnum á undanförnum árum, sem satt er og sannanlegt. í öðru lagi, að þessi verkefni, sem Jafnlaunaráðið á að hafa með höndum, væri eðlilegra að fela Félagsdómi. Í þriðja lagi, að áður en hafizt yrði handa um frekari löggjöf í þessu efni, færi fram nákvæm rannsókn á launajafnrétti karla og kvenna á Íslandi og í íslenzku atvinnulífi.

Það fer ekkert á milli mála, að þegar Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sendu umsagnir sínar um þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., lögðu þau beinlínis til, að málið yrði ekki gert að lögum. Og ég fyrir mitt leyti vil taka mið af þessum skoðunum og hef gert. En ég legg áherzlu á það, að nú, þegar þetta mál gengur til n., verði enn á ný leitað alveg sérstaklega umsagnar verkalýðssamtakanna. Það kann að vera, að viðhorf þeirra sé í einhverju breytt. — Ég legg ákaflega mikla áherzlu á það og legg mikið upp úr því að mínu leyti, hvaða afstöðu þau taka til þessa máls. Enn fremur á vitanlega að leita umsagnar annarra aðila vinnumarkaðarins. En ég endurtek það alveg sérstaklega, að ég vil hlusta á þau rök, sem Alþýðusamband Íslands alveg sér í lagi mundi vilja tefla fram í þessu máli.