07.12.1972
Sameinað þing: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

90. mál, staðsetning stjórnarráðsbyggingar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ellert B. Schram fór þess á leit við mig, áður en hann hvarf af landi brott, að ég tæki að mér að mæla fyrir till. til þál. á þskj. 103, um staðsetningu nýrrar stjórnarráðsbyggingar. Mál þetta hefur að undanförnu allmjög verið í sviðsljósinu, og vil ég leyfa mér að hafa að uppistöðu í þeim orðum, sem ég mæli hér, það helzta, sem fram hefur komið í því máli.

Það má segja, að þessi þáltill. sé borin fram í beinu framhaldi af þeim umr., sem urðu hér á hinu háa Alþ. vegna fsp. hv. þm. Ellerts B. Schram til menntmrh, um þetta mál í haust. Það kom ýmislegt fróðlegt fram við þær umr., m.a. að hæstv. forsrh. tók skýrt fram um sína afstöðu, að hún væri þess efnis, að hann væri eindregið fylgjandi því, að á hinni svonefndu Bernhöftstorfu ætti að rísa stjórnarráðsbygging og þau hús, sem þar eru nú fyrir, ættu þar af leiðandi að hverfa. Ég vil leyfa mér fyrst að víkja aðeins að svari hæstv. menntmrh., Magnúsar T. Ólafssonar, við áminnztri fsp. Hann segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar vil ég við þetta tækifæri láta í ljós það almenna sjónarmið, að mér þykir hafa gætt nokkurrar sjónskekkju í almennum umr. um friðun gamalla húsa. Ég tel, að þar hafi ýmsir lagt um of áherzlu á sögufrægð einstakra bygginga eða tilkomumikið útlit. Hins vegar hefur legið um of í láginni almennt menningargildi þess, að einkum í þéttbýli séu varðveitt mannvirki að því marki, að umhverfið veiti íbúunum og þá ekki sízt uppvaxandi kynslóð staðgóða hugmynd um byggingarsögu staðarins, samhengið í þróun verklegrar menningar, lifnaðarhátta og lífskjara í átthögum sínum. Án þessa umhverfisþáttar fæst ekki það lifandi samhengi hverrar kynslóðar við uppruna sinn og fyrirrennara, sem er forsenda þess, að rótfesta skapist. Til þess þarf umhverfisívaf, sem bendir aftur til fyrri kynslóða, engu síður en tengsl við bóklega menningu. Í breytingasamfélagi okkar daga er þörfin á að huga að varðveizlu mannvirkja — og þá frekar samstæðna, en einstakra bygginga — ríkari en nokkru sinni fyrr. Hagkvæmissjónarmið verða auðvitað að fá að njóta sín, en þau mega ekki vera einráð. Friðunarstarf í þágu lifandi menningarsöguþáttar í umhverfi okkar og eftirkomendanna tekst ekki, svo að vel fari, nema almennur skilningur skapist á því, að tilhlýðileg ræktarsemi við mannvirki frá liðinni tíð sé ekki sízti þátturinn í umhverfisvernd. Það er engum hollt, hvorki einstaklingi né samfélagi, að vilja ekki kannast við uppruna sinn.“

Hér vitnaði ég í orð hæstv. menntmrh. og vil ég gjarnan gera þau að mínum. Þarna er allt rétt og skynsamlega mælt, og mættu hv. þm. taka sérstakt mið af því og þá alveg sérstaklega hæstv. forsrh., að hann taki „nótis“ af sínum menntmrh. í þessu efni.

Innihald þeirrar till., sem hér liggur fyrir til umr., er á þessa leið: „Alþingi skorar á ríkisstj. að endurskoða þá ákvörðun, að reist skuli ný stjórnarráðsbygging á lóð ríkissjóðs við Bankastræti, Skólastræti og Amtmannsstíg í Reykjavík.“ Þetta er innihaldið, og ég legg áherzlu á, að það er verið að biðja um endurskoðun þessa máls. Það er engin fyrirskipun um það, með hvaða hætti endurskoða skuli, heldur einvörðungu farið fram á, að þau rök, sem við flm. teljum, að fram hafi komið í málinu síðan fyrri ákvörðun var tekin fyrir 18 árum, verði metin að nýju og á grundvelli þeirra, ef þau reynast með þeim hætti haldgóð, kveðinn upp nýr úrskurður í þessu málí og ný ákvörðun tekin. Við væntum þess fastlega, að þau fjölmörgu rök og málsatvik, sem okkur sýnast liggja til breyttrar ákvörðunar, muni vera nægjanleg.

Það mun hafa verið árið 1954, að á 50 ára afmæli heimastjórnar, að þáv. ríkisstj. gaf út tilkynningu þess efnis, að hún vildi gjarnan minnast þess merkisafmælis með því, að reist yrði ný stjórnarráðsbygging. Og á þingi 1954 munu þeir hafa flutt um það till. saman, Ólafur Thors og Steingrímur Steinþórsson, að reist skyldi nýtt stjórnarráðshús í Reykjavík. Var sú till. til þál. samþykkt og þá tekin ákvörðun um, að húsið skyldi reist á fyrrgreindum stað. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið, og alveg sérstaklega nú undanfarið hafa umr, skapazt um þetta mál og ýmislegt nýtt komið fram, sérstaklega hið breytta viðhorf alls almennings til umhverfisverndar.

Ég vil leyfa mér að geta um, hver er hvati þess að málið hefur sérstaklega komið á dagskrá hér í þingi nú, og hann er sá, að hinn 26. júlí s.l. ritar hæstv. forsrh. borgarráði Reykjavíkur bréf, þar sem ítrekað er það, sem áður hafði verið ákveðið af ríkisstj., fyrrv. ríkisstj., um að gefa Reykjavíkurborg húsin, sem á Bernhöftsstorfu standa, með það fyrir augum, að þau yrðu flutt til Árbæjar á kostnað ríkissjóðs. Þá virðist kominn skriður á það mál, að ríkisstj. hugsi sér að reisa byggingu á þessum stað, stjórnarráðshús, og biður um svar borgarráðs um afstöðu til þeirrar ákvörðunar ríkisstj., enda standi það boð, sem áður hafi verið gert um að gefa Reykjavíkurborg þessi hús og kosta til flutnings þeirra. Borgarstjóri svarar þessu bréfi hæstv. forsrh. með bréfi, dags. 22. ágúst 1972, og vil ég leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa kafla úr því bréfi, þar sem að mínum dómi kemur allglögglega fram, að nú eru mjög breytt viðhorf frá því, sem bréfaskriftir um þetta mál áttu sér stað milli þáv. hæstv. fjmrh. Gunnars Thoroddsens og þáv. borgarstjóra árið 1964. Þar segir:

„Borgarráð er þeirrar skoðunar, að þar sem hér sé um að ræða mjög viðkvæman stað í hjarta borgarinnar, þurfi við skipulagningu og hugsanlega byggingu á þessum byggingarreit mjög að vanda til alls undirbúnings og sérstaklega að taka tillit til umhverfisins, einkum Stjórnarráðshússins og húss Menntask. í Reykjavík, sem eru sitt til hvorrar handar við umrædda lóð ríkisins. Sumir draga í efa, að unnt sé að teikna á þessari lóð byggingu, sem geti fallið vel inn í þetta umhverfi, án þess að rjúfa heildarmyndina. En aðrir telja, að arkitektar eigi að geta leyst þetta verkefni og teiknað á lóðinni tiltölulega lága byggingu, sem taki mið af næsta umhverfi. Er spurningin, hvort ekki væri rétt að hafa um þetta verkefni almenna samkeppni meðal arkitekta. Þá ber og að hafa í huga,“ segir borgarstjóri, „að sterkar raddir, sem eiga sér fylgjendur í borgarráði og borgarstjórn, eru uppi um það, að nú þegar eigi að lýsa yfir friðun þessara húsa. Með tilliti til þess, sem að framan greinir, telur borgarráð, að á meðan ekki hefur verið sýnd og samþykkt teikning að nýju stjórnarráðshúsi, sem uppfylli þau skilyrði að falla vel að umhverfinu og að vera innan hóflegra stærðarmarka, sé ekki unnt að taka ákvörðun um það nú að rífa svonefnda Bernhöftstorfu og flytja tvö hús hennar í Árbæjarsafn.“

Þetta er svar borgarstjóra við bréfi hæstv. forsrh. frá 22. ágúst í sumar. Hann telur þá ástæður með þeim hætti, að ekki sé unnt að taka ákvörðun um þetta nú. Það virðist liggja í augum uppi og má finna þess fleiri dæmi í rökræðum manna um þetta mál, að á þessum stað finnist ekki nægjanlegt rými fyrir stjórnarráðsbyggingu, sem neitt nálægt því mundi rýma starfslið stjórnarráðsins. Og þeir, sem hafa mest í frammi tal um hagkvæmnisástæður, ættu að hafa það í huga, að lítil skynsemi hlýtur að teljast í því að fara að reisa byggingu, sem aðeins mundi nægja fyrir hluta alls stjórnarráðsins, sér í lagi í landi, þar sem rými er nóg til þessara hluta, og í borg eins og Reykjavík. Það er mjög mikilvægt atriði, og ég dreg það af því, sem segir í bréfi borgarstjóra, að þarna gæti ekki verið um stóra byggingu að tefla og hún mundi engan veginn nægja til þess að hýsa stjórnarráð Íslands. Þetta er mergurinn málsins að mínum dómi, hvað varðar staðsetningu stjórnarráðsbyggingarinnar sjálfrar.

Þá er þess að geta, svo að við horfum aðeins fram hjá sjálfum húsunum á Bernhöftstorfunni, að beggja vegna þeirra standa mjög merkilegar byggingar, og ég hygg, að enginn ágreiningur sé um það, að þær byggingar eigi að standa um ókomna tíð. Það er menntaskólahúsið í Reykjavík, íþaka og svo á hinn veginn Stjórnarráðshúsið, gamla tugthúsið. Ef þarna risi á lóðinni steinhús, að ég tali nú ekki um, sem nægja mundi til þess að hýsa allt stjórnarráðið, þá liggur í augum uppi, að þessar tvær merku byggingar, Menntaskólinn og Stjórnarráðshúsið, yrðu eins og smábýslög sitt til hvorrar handar við þá steinlímshöll. sem þar yrði staðsett. Um það er ég ekki í nokkrum vafa.

Það hefur komið mjög fram í umr. að undanförnu, að íslendingar eru vissulega fátækir af gömlum minjum, sér í lagi þegar um hús er að ræða. Þetta á sínar eðlilegu skýringar. Lengst af áttum við í harðri lífsbaráttu og höfðum ekki til þess tíma að huga að slíkum verðmætum. Jafnvel gekk svo langt, að þótt hlutur væri vissulega mjög virtur í augum íslendinga og hugum, eins og skinnbækurnar gömlu, að í neyð sinni neyddist þjóðin jafnvel til þess að nota skinnhandritin til þeirra hluta, sem þeim var ekki ætlað, eins og í bætur á föt og sóla á skó. En nú er þetta gerbreytt. Viðhorf manna er gerbreytt til þess arna, og fyrir því er risin upp mjög eindregin andstaða við þær hugmyndir að hrófla við þessari einu heillegu götumynd frá síðustu öld, frá frumbernsku Reykjavíkur að kalla má, sem enn fyrirfinnst. Ég veitti því athygli, að hér hefur verið lagt fram í þingi frv. til l. á þskj. 120 um Húsafriðunarsjóð. Það er mjög merk tillaga, og ég get strax lýst yfir mjög eindregnu fylgi mínu við hana og vek athygli manna á þeirri grg., mjög merkri, sem því frv. fylgir og styrkir allt það mál, sem ég hef hér að flytja mjög.

Ég vil þá leyfa mér að vitna til þess, sem segir í bréfi frá húsfriðunarnefnd, dags. 23. febr. 1970. 23. febrúar 1970 skrifar húsfriðunarnefnd, sem starfar eftir þjóðminjalögum, þáv. forsrh., dr. Bjarna Benediktssyni, á þessa leið, og enda þótt það sé allmikil lesning, þá eru þar fram taldir allir meginþættir þessa máls, svo að ég sé mér ekki annað fært en að lesa bréfið í heild sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsfriðunarnefnd, sem skipuð er samkv. þjóðminjalögum, nr. 52 frá 19. maí 1969, ræddi á fundum sínum 11. og 18. þ. m. um gömlu húsin ofan við Lækjargötu og framtíð þeirra. Það er Bernhöftshúsið svonefnda, geymsluhúsið sunnan þess, Gimli og Landlæknishúsið svokallaða, fyrrum hús Stefáns Gunnlaugssonar bæjarfógeta, svo og bakhúsin meðfram Skólastræti. Ástæðan til þess, að n. tók þessi hús til umr. þegar á öðrum fundi sínum, eru fréttir, sem nýlega hafa birzt í dagblöðum um, að fyrirhugað væri að byggja nýtt stjórnarráðshús á þessum stað og að þegar væri farið að teikna húsið. N. þykir mjög miður, ef þessi hús verða fjarlægð, enda eru þan meðal þeirra húsa, sem lagt hefur verið til við borgarráð Reykjavíkur, að varðveitt verði til framtíðar á sínum stað.

Svo sem komið hefur fram í fréttum, hefur á undanförnum tveimur árum farið fram svonefnd húsakönnun í Reykjavík. Fékk borgarráð þá Hörð Ágústsson skólastjóra og Þorstein Gunnarsson arkitekt, sem báðir eiga sæti í húsfriðunarnefnd, til að gera vandlega könnun á gamla borgarhlutanum með tilliti til þess, hvaða hús og húsaheildir skyldi varðveita framvegis á sínum stað, hver skyldu flutt og varðveitt annars staðar og hver mætti rífa, án þess að veruleg eftirsjón væri að. Skoðunargerð þessari er nú sem næst lokið. Hafa þeir, sem hana framkvæmdu, tekið til athugunar hvert hús á því svæði, sem ástæða þótti til að rannsaka, athugað það svo gaumgæfilega sem efni stóðu til, rannsakað það frá sögulegu og byggingarsögulegu sjónarmiði, stöðu þess í núverandi húsaheild, athugað varðveizluástand þess og síðan gefið því einkunn út frá þessum atriðum. Við skoðunargerð þessa var tekið tillit til aðalskipulags Reykjavíkur, sem samþ. var árið 1967. Niðurstöður þeirra eru í stuttu máli þær, að þeir telja gömlu miðborgina, þ.e.a.s. kvosina, sem afmarkast af Aðalstræti að vestan, höfninni að norðan, Lækjargötu að austan og Tjörninni að sunnan, orðna svo sundurleita og búið að byggja þar svo mikið af nýjum húsum og mörg gömlu húsanna, sem eftir eru, séu orðin það breytt og í svo miklu ósamræmi við byggðarheildina eins og hún er nú, að vart sé ástæða til að leggja til, að húsaheildir séu þar varðveittar. Reyndar eru þarna nokkur hús, sem þeir leggja eindregið til, að varðveitt verði, svo sem að sjálfsögðu alþingishúsið og dómkirkjan, Landsbankahúsið og iðnaðarmannahúsið gamla, en örfá önnur skulu flutt til útisafna, svo sem hús Jakobs Sveinssonar við Kirkjutorg og húsið Hafnarstræti 16. Húsin umhverfis kvosina virðast hins vegar hafa varðveizt mun betur, og þar er á nokkrum stöðum heildarsvipur byggðarinnar mjög góður. Leggja þeir Hörður og Þorsteinn til, að nokkur slík svæði verði varðveitt.

Svo er um umhverfi Tjarnarinnar, þ.e. Tjarnargötu að vestan og Fríkirkjuveg að austan, Suðurgötu, Vesturgötu á kafla, Stýrimannastíg og hluta af Þingholtsstræti. En sú húsaheild, sem þeir leggja hvað mesta áherzlu á, að varðveitt verði til framtíðarinnar, er húsaröðin austan Lækjargötunnar.“ — Sú húsaheild, sem þeir leggja hvað mesta áherzlu á, að varðveitt verði til framtíðarinnar, er einmitt sú margumtalaða Bernhöftstorfa, og síðan Menntaskólinn og Íþaka öðrum megin og Stjórnarráðshúsið hinum megin. Síðan segir áfram:

„Þarna er um einstæða byggðarheild að ræða allt frá Stjórnarráðshúsinu gamla og suður að Bókhlöðustig 2. Næsta hús við Stjórnarráðshúsið er Bernhöftshúsið með bakaríinu, eitt formfegursta hús sinnar gerðar, smíðað 1838. Síðan tekur við vörugeymsluhúsið, afar fallegt og stílhreint í einfaldleika sínum. En þá tekur við Gimli, sem er hið eina þessara húsa, sem ætti að hverfa, þar sem það brýtur mjög í bága við byggðarheildina og tilheyrir allt öðrum tíma en hin húsin. Sunnan við Gimli er síðan húsið, sem Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti reisti og bjó í, en síðar Guðmundur Björnsson landlæknir. Hann lét reisa turninn sunnan við húsið, sem að vísu er framandi þar, en er teiknaður af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt, fyrsta menntaða íslenzka arkitektinum, sem starfaði hér heima, og í sjálfu sér mjög smekkleg bygging. Sunnan við Amtmannsstíginn tekur síðan við í þessari sömu röð Menntaskólinn, glæsilegasta timburhús og ein sögufrægasta bygging, sem til er hérlendis, þar sem í er t.d. alþingissalurinn gamli. Sunnan við Menntaskólann er svo bókhlaðan, merkilegt steinhús og nátengt skólanum. En þessi röð endar síðan með húsinu Bókhlöðustígur 2, sem nýlega hefur verið gert mjög smekklega við og ætlunin er að láta standa til frambúðar.

Þessi húsaröð er elzta, ósnerta húsaröðin í Reykjavík. Húsin eru öll frá svipuðum tíma, frá því um miðja síðustu öld, að Stjórnarráðshúsinu undanskildu og Gimli, en þar stóð ekkert hús áður. Þessi hús hafa alla tíð sett mjög sterkt svipmót á Reykjavík, og velflestar gamlar yfirlitsmyndir af Reykjavík eru teknar með það fyrir augum, að þessi hús sjáist á þeim.

Húsfriðunarnefnd hefur athugað vandlega þessi áminnztu hús og einnig rætt gaumgæfilega till. þeirra Harðar Ágústssonar og Þorsteins Gunnarssonar, og er það einróma álit húsfriðunarnefndar, að þarna séu mikil menningarverðmæti, sem undir engum kringumstæðum megi skemma, og þarna sé einstakt tækifæri til þess að varðveita svolítinn hluta af yfirbragði Reykjavíkur frá því um miðja 19. öld.

Aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir, að umferðaræð verði opnuð vestan um Túngötu og Kirkjustræti upp Amtmannsstig, sem breikki þar til norðurs, og síðan inn Grettisgötu. Mun breikkun Amtmannsstigs nema sem svarar breidd turnsins við hús Stefáns Gunnlaugssonar. Stórhýsi á þessum stað mundi stórskemma og reyndar eyðileggja svip Stjórnarráðshússins gamla og Menntaskólans.“ Þetta er álit húsfriðunarnefndar, sem ég er að lesa hér upp. Og það heldur áfram og segir: „Það eru því eindregin tilmæli húsfriðunarnefndar til hæstv. ríkisstj., að hún endurskoði ákvörðun sína um nýtt stjórnarráðshús á þessum stað og hlutist til um, að þessi gömlu hús ofan Lækjargötunnar verði friðuð til ókominna tíma. Það yrði mjög jákvætt spor fyrir húsafriðun á Íslandi, ef ríkisstj. vildi ganga á undan með góðu fordæmi og sýna hug sinn til verndunar menningarminja. Trúir n. ekki öðru en önnur svæði í borginni standi til boða fyrir stjórnarráðsbyggingu, og vill í því tilefni benda á till. Helga Finsens, sem getið er um í fskj. bréfs þessa, um byggingu skrifstofuhúss ofan við Stjórnarráðshúsið gamla.“

Þá kemur n. inn á að vísa til þess, að mál sem þessi, friðun húsa, hafi verið rædd á ráðherrafundum í Evrópuráði og gerðar þar um sérstakar samþykktir, t.d. á einum fundi, sem var boðið til fulltrúum frá Vestur-Evrópu, að vísu öllum löndum nema Íslandi, og má því vera, að ályktanir þess fundar hafi farið fram hjá íslenzkum stjórnarvöldum. Til þess fundar í Evrópuráðinu var boðað, þar eð mönnum ofbauð hin geigvænlega eyðing menningarverðmæta hvarvetna um lönd á síðari árum. Húsfriðunarnefnd endar bréf sitt á þessu:

„Húsfriðunarnefnd væntir þess, að hæstv. ríkisstj. taki mál þetta til vandlegrar íhugunar hið fyrsta.“

Og það er tilgangurinn með þeirri till. til þál., sem nú er flutt hér, að skora á hæstv. ríkisstj. að taka þetta mál til vandlegrar íhugunar á nýjan leik og endurskoðunar, ef þess er nokkur kostur.

Ég vil láta þess getið, að Arkitektafélag Íslands hefur mjög beitt sér fyrir því, að þessi byggðarheild yrði varðveitt, og með bréfi til hæstv. forsrh. 9. ágúst s.l. skrifar stjórn þess hæstv. forsrh, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Arkitektafélags Íslands vill hér með fara þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún veiti henni og þeim aðilum öðrum, sem áhuga hafa á varðveizlu Bernhöftstorfu, leyfi til þess að hreinsa til umhverfis húsin, lagfæra þau og mála að utan ríkissjóði að kostnaðarlausu.“ Segir síðar í bréfinu: „Arkitektafélag Íslands hefur haft verndun torfunnar á stefnuskrá sinni undanfarin tvö og hálft ár, m.a. efnt til almennrar samkeppni um, á hvern hátt torfan gæti haft hlutverki að gegna í miðbænum um ókomin ár.“

Það er sem sé boð Arkitektafélagsins til hæstv. ríkisstj., að það taki að sér að gera við þessi hús og gera þau upp ríkissjóði að kostnaðarlausu.

Menn hafa haft á orði, að þetta væru fúaspýtur einar. En gjarnan hafa þeir hinir sömu andstæðingar þessarar varðveizlu látið þess getið, að það mætti gjarnan flytja þau í Árbæ hreppaflutningi. Það fer auðvitað illa saman að tala um, að þetta séu fúaspýtur og að það megi reisa húsin á nýjan leik uppi í Árbæ. En það hefur verið rannsakað af manni með sérþekkingu, að allir aðalmáttarviðir þessara húsa eru heilir og til þess fullfærir að bera þau um ókomin ár, ef þau verða gerð vandlega upp að utan.

Ég hef hér í höndum bréf frá Arkitektafélagi Íslands til borgarráðs, sem dags. er 7. ágúst í sumar, þar sem Arkitektafélagið rekur á svipaðan máta og húsfriðunarnefnd ástæðurnar fyrir því, að Arkitektafélagið sækir þetta mál svo afar fast sem raun ber vitni, að ekki verði farið eyðandi hendi yfir þennan merkilega borgarhluta. Ég vil aðeins grípa niður í einstök atriði, sem fram koma í grg. Arkitektafélagsins. Þeir ræða um menningarlegt og sögulegt gildi húsanna og segja: „Húsaröðin frá Stjórnarráðshúsinu og suður að Íþöku, að báðum þessum húsum meðtöldum, er heilleg götumynd, sú eina, sem varðveitzt hefur óskert frá síðustu öld.“ Þeir skora á borgarráð, sem þetta bréf er stílað til, að heita áhrifum sínum, til þess að forða megi frá því, að þessi stórmerka heimild, menningarsöguleg í öllu tilliti, verði varðveitt fyrir ókomnar kynslóðir.

Ég hef svo litlu við mál mitt að bæta umfram það, sem ég hef þegar sagt. Ég legg áherzlu á það, sem margsinnis hefur verið ítrekað, að hér er um að tefla einu heillegu húsaröðina í Reykjavíkurborg, sem til er. Það er húsaröðin frá manndómsárum Jóns Sigurðssonar, sem í einu af þeim húsum, sem myndar þessa heild, stjórnaði Alþingi íslendinga. Það kann að vera, að ýmsum sýnist lítið til um þetta nú, en þó að ekki sé horft lengra fram í tímann en eina öld, þá kynnu að vera uppí menn, sem gjarnan eigi að fá augum að líta, hvernig byggingarstíll og umhverfi var hið næsta, þar sem forseti vor stjórnaði Alþ. Íslendinga. Og ekki nóg með það, að hún fái að líta það augum, heldur einnig að sú merka stofnun, menntaskólinn gamli, gamli latínuskólinn og alþingshúsið, það hús væri þá ekki horfið í skuggann eins og útikamar við stóra steinlimsbyggingu stjórnarráðs í Reykjavík. Og ég verð að segja það, einmitt í tilefni af því, sem fram kom hjá hæstv. forsrh., — því miður sé ég, að hann er ekki viðstaddur, — en af því, sem fram kom hjá honum í umr. um fsp. hv. þm. Ellerts B. Schram fyrir nokkru, að hann fullyrti, að allur þorri almennings væri þeirrar skoðunar, að það bæri að fjarlægja þessi hús, sem á Bernhöftstorfu standa, þá leyfi ég mér að draga í efa, að sú fullyrðing fái staðizt, og marka það af ýmsu því, sem nú hina síðustu daga hefur gerzt, m.a. að stofnað hefur verið til samtaka til þess að berjast fyrir verndun þessara menningarverðmæta. Ég er að vísu ekki Reykvíkingur, en allt frá því að ég kom hingað fyrst fyrir um 20 árum hefur mér fallið einstaklega vel yfirbragð borgarinnar á þessum stað, á þessum stað og í Tjarnargötu alveg sérstaklega, eins og suður á Grímsstaðaholti, og mundu þó ýmsir ekki telja byggingar þar um slóðir til hinna merkustu eða verðmætustu, ef menn vilja reikna allt í krónum og aurum. Má ég þá t.d. nefna þar Litlu-Brekku og enn fleiri byggingar frá gamalli tíð, sem hrein unun er að ganga fram hjá á kyrrum lognkvöldum í Skerjafirði, þegar menn þurfa aðeins að komast í smásnertingu við land sitt og náttúru, og geta það vel innan sjálfra borgarmarkanna, og það er merkilegt og fátítt um höfuðborgir í Evrópu í dag.

Ég verð að segja, að ég er ekki Reykvíkingur, en mér er nær að halda, að mér rynni enn meir blóð til skyldunnar, ef ég væri það, þegar svo er komið, að menn ætla að fara eyðandi eldi um þetta merka svipmót og þurrka út þann sterka drátt í svipmóti Reykjavíkur, sem þessar byggingar eru. Og ég vænti þess fastlega (Gripið fram í: En vill nokkur búa í kofunum?) Það skiptir engu máli, hvort nokkur vill búa þar eða ekki, og þá eru Íslendingar orðnir vandlátir, ef þeir vilja ekki búa í þessum fallegu, ágætu húsum, þegar er búið að gera þau íbúðarhæf. Það er víða verr búið en þar. Og það er ekkert aðalatriði, bað sjónarmið, hvort þau verði hæf til íbúðar. Örugglega má ganga þann veg frá þeim, að þau geti orðið safnahús. Ég veit ekkert um það, hvort nokkur vill búa í Nonnahúsinu á Akureyri. Ég hef ekki kannað það. Hins vegar þykir það hið merkasta hús, og það er Akureyringum til stórsóma, hvernig þeir hafa varðveitt hús Nonna og séra Matthíasar Jochumssonar. Ég kom í Nonnahús í sumar. Það er ekki að marka mig kannske, ég gæti vel hugsað mér að búa þar, en ég býst ekki við, að það yrði almennt talið boðlegt nú á dögum.

Ég legg svo að lokum áherzlu á, að sú till., sem við fjórir þm. berum fram á þskj. 103, er till. þess efnis, að við viljum áfrýja þessu máli. Segjum svo, að fyrir 18 árum hafi verið kveðinn upp úrskurður í undirrétti þess efnis, að á þessari lóð skyldi byggð stjórnarráðsbygging. Nú viljum við áfrýja þessum úrskurði eftir 18 ár, þar sem okkur sýnast ýmis rök hniga að því, að eðlilegt sé að endurskoða þetta. Og ég trúi ekki, að hv. þingheimur vilji neita okkur um að áfrýja þessu til endurskoðunar, og ég er alveg sannfærður um það, að hæstv. forsrh., sem hefur kennt mönnum og brautskráð til dómaraembætta, hann mun áreiðanlega ekki vilja Fella þessa till. og neita okkur þar með um það að áfrýja þessum 18 ára gamla úrskurði, þessum 18 ára gamla dómi, sem ekki hefur verið fullnægt. Ég trúi því ekki, hvaða afstöðu sem hv. þm. hafa yfirleitt til þessa máls í sjálfu sér, til bygginganna sjálfra, sem er auðvitað mikið mál, þá trúi ég því ekki, að þeir vilji koma í veg fyrir með því t.d. að fella þessa till., að þetta mál verði endurskoðað. Ég er sannfærður um, að þessi till, um endurskoðun á staðsetningu nýrrar stjórnarráðsbyggingar mun hljóta byr hér á hinu háa Alþ., því að engu getur verið glatað með því, að málið verði rannsakað ofan í kjölinn. Ég hef rakið hér frá ýmsum mjög málsmetandi aðilum rök, sem ættu að nægja til þess, að menn geti fellt sig við það a.m.k., að þetta verði tekið til rækilegrar yfirvegunar á nýjan leik, og auðvitað er það von okkar, sem að þessu máli stöndum, að sú rannsókn muni leiða til þess, að það verði gerbreytt um stefnu.