19.10.1972
Neðri deild: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tefja afgreiðslu málsins með neinum málalengingum og ætla ekki að gera það heldur, því að eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan, þá fer þetta frv. væntanlega til n., sem ég á sæti í, og mér gefst þar kostur á að koma þeim aths. að, sem ég tel, að þurfi að koma.

Ég verð að segja það, að það gladdi mig nokkuð sú yfirlýsing, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, að það væri raunverulega alveg á valdi eigenda sjóðsins, hvort tekjur hans yrðu skertar á þennan eða annan hátt. Ég verð að segja, að ef þetta er þannig að hans dómi, að það sé sjóðsstjórnin ein, en ekki stjórnvöld, sem geta ráðið þessu, þá horfir málið fyrir eigendum sjóðsins náttúrulega mun betur við, því að væntanlega hafa þeir manndóm í sér til þess að sjá um það, að þeirra fulltrúar í stjórninni séu ekki að eyðileggja sjóðinn í höndunum á þeim.

Um það, hvort ég hef misskilið lögin, ætla ég ekki að fara að ræða 7. gr. laganna, verður örugglega skoðuð í þeirri nefnd, sem málið fær, og þá kemur í Ljós, hvaða umboð stjórnin hefur til þess að ráðstafa sjóðnum á annan veg heldur en ég tel að lögin afmarki álveg greinilega í 6. gr.

Það, sem hæstv. ráðherra sagði og vildi leggja mér þau orð í munn, að rekstrarörðugleikar fiskiðnaðarins væru eingöngu vegna vinnulaunahækkana og við sæjum alltaf eftir öllum vinnulaunahækkunum, þá vil ég benda honum á það, að vinnulaun voru ákveðin með samningum milli atvinnurekenda og launþega, og ég veit ekki til, að hvorki ég né annar þm. úr mínum flokki hafi nokkurn ríma haft nokkuð við það að athuga eða hreyft mótmælum við þeim. Þegar vinnutímastyttingin var hér ákveðin á Alþingi á s.l. vetri, þá man ég ekki betur en hún hafi verið samþykkt alveg samhljóða og mótatkvæðalaust, þannig að hvorki verður því dróttað að mér né öðrum með nokkrum rökum, að við höfum talið þær kauphækkanir eftir, sem orðið hafa á árinu. Það eru samningsatriði á milli réttra aðila, sem við höfum viðurkennt og ekkert haft við að athuga.

En ég vil koma aðeins að því enn, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að hæstv. ráðh. vill halda því fram og endurtekur það hér, að hann telji, að það sé einvörðungu af aflabresti eða 18% minnkandi afla, sem erfiðleikar fiskiðnaðarins stafi. Ég tel alveg hiklaust, þetta fái ekki staðizt. Ég tel, að það hafi sýnt sig, og eins og hv. 1. þm. Reykn. benti hér á áðan, þá eru aðrar atvinnugreinar einnig farnar að kvarta undan þeim verðhækkunum sem hafa verið, og telja sinn rekstur í hættu. Ég vil vitna til þess, sem hefur verið birt opinberlega í skýrslu Kaupfélags Eyfirðinga, sem hér hefur verið minnzt á og var minnzt á í útvarpsumræðunum, að þeir telja vissulega, að þær verðhækkanir, sem hafa orðið í tíð núv. hæstv. ríkisstj. stefni í þá átt, að öllum atvinnurekstri í landinu sé hætta búin, þannig að það er vissulega fleira en minnkandi afli, sem verkar á það, að aðstaða fiskiðnaðarins er eins og hún er í dag. Ég vil t.d. benda á það, að í einni verstöð í Vestmannaeyjum þar var aflinn 1970 um 53 þús. tonn, hann lækkar, ef ég man rétt, ofan í 43 þús. tonn árið 1971. Frystihúsin þar hafa aldrei kvartað undan því eða telja, að það væri nein kollsteypa hjá þeim, þó að aflinn minnkaði þarna upp undir 20%. Ég veit ekki til, að þau hafi talið, eða að þeirra afkoma hafi verið þannig, að þau hafi haft ástæðu til þess. Það var samtímis verðhækkun á erlendum markaði, sem bætti þeim þetta upp. Það hafa líka orðið verðhækkanir á þessu ári, sem vissulega hafa bætt upp aðstöðu fiskvinnslunnar, eins og hæstv. ráðh. minntist réttilega á.

En ég kom hér fyrst og fremst upp í ræðustólinn aftur til þess að undirstrika það, sem hæstv. ráðherra sagði, að hann teldi, að það væri einvörðungu á valdi sjóðsstjórnarinnar að ákveða um greiðslur úr sjóðnum, og gaf það í skyn, að hann hvorki teldi sig hafa heimild til þess né löngun til þess að skipta sér neitt af þessum málum. Um þessa ákvörðun núna er hægt að deila endalaust, og ég tel mig vita, að það sé alveg rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan, að sjóðsstjórninni var í raun og veru stillt upp við vegg og hún látin vinna eftir ákveðinni línu, um það hvernig ætti að komast út úr vandanum síðastu 3 mánuði ársins með að halda gangandi útgerð og fiskvinnslu hér á landi.