07.12.1972
Sameinað þing: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

102. mál, greiðsla ríkisframlaga samkvæmt jarðræktarlögum

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 9. landsk. þm. að flytja till. til þál. um greiðslu ríkisframlaga samkv. jarðræktarlögum á þskj. 127. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar, að stefnt skuli að því, að ríkisframlög samkv. Il. kafla jarðræktarlaga verði greidd út á framkvæmdaári. Þessu marki verði náð í áföngum, svo fljótt sem verða má, en þó eigi minna á næsta ári en sem svarar 20% af þeirri fjárhæð, sem ella kæmi til útborgunar árið 1974.“

Ég vil í upphafi láta þess getið, að mér hefði þótt æskilegra, að hæstv. landbrh. og fjmrh. væri hér viðstaddur, þegar mál sem þetta er til umr. Málið kemur að vísu aftur til framhaldsumr., en þar sem þetta málefni snertir afgreiðslu fjárl. fyrir næsta ár, hefði það verið að mínu mati mun æskilegra, ef hæstv. ráðh. hefði verið hér viðstaddur.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, hefur sú regla gilt um ríkisframlög samkv. II. kafla jarðræktarl., að þau eru greidd út til bænda yfirleitt ári eftir að framkvæmdir eru unnar og úttekt þeirra hefur farið fram. Þessi regla er búin að gilda um langan aldur, að ég bygg, og hefur þó stundum komið til orða, að þörf væri á að breyta hér um, eins og farið er fram á með þessari till. Að þessu sinni er sérstakt tilefni til, að breyting verði gerð. Eins og kunnugt er, var jarðræktarl. breytt á síðasta Alþ., og við þær breytingar, sem þá voru gerðar á l., voru þau framlög, sem til þessa hafa verið greidd út af Landnámi ríkisins, felld inn í jarðræktarl. Landnám ríkisins hefur um nokkurt árabil greitt út framlög á nokkra þætti jarðræktarframkvæmda, og sá háttur hefur jafnan verið á hafður af Landnámi ríkisins að leitast við að greiða þessi framlög út á sama ári og úttekt fer fram. Það er þess vegna augljóst, að við þá breytingu, að þessi framlög eru felld inn í jarðræktarl., ef sömu skipan verður haldið þar eins og verið hefur, er stigið skref til baka bændum landsins til óhagræðis með því að greiða hluta jarðræktarframlaganna ári síðar til bænda heldur en gerzt hefur til þessa. Þetta fyrirkomulag er einnig að mínu mati úrelt, vegna þess að yfirleitt er úttektum skilað það tímanlega, að unnt á að vera þess vegna að greiða framlögin a.m.k. að verulegu leyti á framkvæmdaári. Það er almenn regla um framlög ríkisins til annarra framkvæmda, að þau eru greidd jafnóðum og verk er unnið.

Ef reynt er að gera sér grein fyrir því, hve mikið fé hér er um að ræða, þá er nokkuð að því vikið í grg. till., og segir þar, að á fjárl. yfirstandandi árs sé gert ráð fyrir því, að Landnám ríkisins hafi til ráðstöfunar 22.8 millj. til framlaga út á ræktunarframkvæmdir af þessu tagi, þ.e. þær framkvæmdir, sem við breytingu jarðræktarl. voru felldar þar inn. Á sömu fjárl. er gert ráð fyrir því, að greiðslur samkv. II. kafla jarðræktarl. nemi 122.6 millj. kr. Hlutdeild þess fjár, sem samkv. þessu hefur farið í gegnum hendur Landnáms ríkisins og bændur þannig fengið í sínar hendur á sama ári og verk er unnið, er þess vegna um 16% af því heildarfjármagni, sem fer til framlaga vegna jarðræktarframkvæmda í landinu.

Till. þessi gerir ráð fyrir því, að stefnt skuli að því marki, að framlögin verði greidd öll út á framkvæmdaári. Hér er þó farið hófsamlega í sakirnar, þannig að það er gert ráð fyrir því eftir till., að þessu marki verði náð í áföngum og að á næsta ári verði þó eigi minna fé varið í þessu skyni en svo, að því marki verði náð, að 20% framlaganna verði greidd út á framkvæmdaárinu. Það er því litlu meira fé en verið hefði, ef hinni fyrri reglu hefði verið fylgt, að hluti framlaganna hefði sem fyrr farið í gegnum hendur Landnáms ríkisins samkv. l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl., sem var, eins og ég fyrr sagði, 16% af þessu fjármagni í heild.

Sú lagabreyting, sem gerð var í fyrra, er því sérstakt tilefni til þess, að þessu málí sé hreyft nú. Eins og ég hef þegar sagt, er það sjálfsagðara en fyrr, til þess að ekki sé með þeirri lagabreytingu stigíð skref til baka að þessu leyti. Við þurfum að stefna að því, þegar breytt er lögum á hv. Alþ., að stiga skrefin fram á við, og var það gert að sumu leyti við þessa lagabreytingu, og skal það viðurkennt, en við þurfum að gæta þess um leið að stíga jafnframt ekki skref til baka.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þessa till. öllu fleiri orð. Ég vænti þess, að hv. alþm. sé fullljóst, hvað hér er um að ræða, en ég tel þó ástæðu til þess að vekja á því athygli, að hér er ekki verið að fara fram á neitt nýtt fjármagn, heldur einvörðungu tilfærslu á fé, þannig að nokkuð af því fjármagni, sem eftir gildandi skipulagi kæmi til útborgunar á árinu 1974, kæmi þess í stað til greiðslu til bænda og samtaka þeirra á árinu 1974. Í flestum tilvikum eru það ræktunarsamtök bændanna sjálfra, sem vinna að framkvæmdum á sviði jarðræktar, og með því að framlög ríkisins til þessara framkvæmda fást ekki greidd fyrr en ári síðar en verk er unnið, er ljóst, að það þrengir að fjárhag þessara samtaka og skapar bændum erfiðleika við að standa straum af þessum fjárgreiðslum.

Ég vænti þess, að ýmsum hv. þm. sé það kunnugt, að a.m.k. ýmis þessara ræktunarsamtaka eigi við þröngan fjárhag að búa, og þess er því full þörf, að haldið sé í horfinu að þessu leyti í stað þess að stiga skref til baka.

Ég mun ekki hafa um þetta öllu fleiri orð nú, en vænti þess, að afgreiðslu þessarar till. verði hraðað, eftir því sem föng eru á, með tilliti til þess, að ef hún hlyti jákvæða afgreiðslu hér á hinu háa Alþ., væri unnt að taka hana til greina við afgreiðslu fjárlaga nú fyrir jólin.

Ég legg svo til. herra forseti, að till. verði vísað til atvmn.