11.12.1972
Efri deild: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. meiri hl. (Halldór Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. ber með sér, mælir meiri hl. með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Þetta mál er orðið svo mikið rætt hér, að ég tel, að það sé ekki ástæða til að vera margorður um það á þessu stigi.

Það, sem rætt hefur verið, hefur aðallega snúizt um það, hversu ljúft eða óljúft útvegsmönnum hafi verið að fallast á efni frv., og skal ég ekki fullyrða um það. Þeir hefðu eðlilega kosið, að það væri hægt að finna aðra leið til að hjálpa þeim til að mæta þeim erfiðleikum, sem nú ber að höndum. Hins vegar held ég, að það sé alveg ljóst, að verðjöfnunarsjóðurinn er myndaður til þess að mæta sveiflum og erfiðleikum, þegar það verð, sem fæst, dugir ekki. Að vísu er í lögunum, eins og þau hafa verið, talað um, að erfiðleikarnir skuli stafa af verðlækkun. En þeir erfiðleikar, sem nú er um að ræða, eru vegna þess, að það aflast of lítið og ekki nógu hentugur fiskur. Ég held, að það geti út af fyrir sig ekki verið neitt ágreiningsefni, að það sé heimilt að breyta lögum sjóðsins þannig, að þau nái einnig til að mæta þeim erfiðleikum. Og það er það, sem um er að ræða. Breytingin er nánast um að heimila og ákveða, að fé úr þeim varasjóði, sem myndaður er til að mæta óhagkvæmum sveiflum, megi nota til að mæta þeim erfiðleikum, sem nú steðja að. Ég held, að þetta liggi svo ljóst fyrir, að alveg ástæðulaust sé að vera að vefja um það fleiri orðum.