11.12.1972
Neðri deild: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Frsm. minni hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 138, leggur minni hl. allshn. til, að frv. þessu verði vísað frá, þar sem ekkert liggur fyrir að svo stöddu um það, að til leigunáms á hvalveiðiskipi eða skipum þurfi að gripa nú í fyrirsjáanlegri framtíð. Aðgerð sem þessi, að taka atvinnutæki leigunámi um ótiltekinn tíma, er svo róttæk, að það er að sjálfsögðu ekki ástæða til þess að grípa til hennar nema í brýnni nauðsyn. Með þessu er ekki sagt, að við í minni hl. allshn. drögum í efa þá nauðsyn, sem var á setningu brbl. á s.l. hausti, né þörf Landhelgisgæzlunnar á auknum skipakosti. Það, sem við leggjum hins vegar fyrst og fremst áherzlu á, er, að hinn 14. okt. s.l. tókust samningar um leigu eins hvalveiðiskips milli forráðamanna Hvals h/f og dómsmrn. Í þeim samningum er það ákvæði um leigutímann, að Landhelgisgæzlan skuli tilkynna Hval h/f það fyrir 1. marz n.k., hversu lengi hún telji nauðsynlegt að hafa skipið á leigu. Eins og sakir standa nú, hefur þess vegna í fyrsta lagi ekki reynt á það, hvort Landhelgisgæzlan telji sér nauðsynlegt að hafa hvalveiðiskipið til gæzlustarfa eftir 1. maí n.k., og í öðru lagi liggur ekki fyrir, hvernig forráðamenn Hvals h/f muni taka því, ef Landhelgisgæzlan telur nauðsynlegt að hafa skipið áfram á leigu næsta sumar. Meðan á það hefur ekki reynt, teljum við ekki eðlilegt að samþykkja lög um leigunám hvalveiðiskipa, eins og gert er ráð fyrir í frv. á þskj. 30. Hins vegar getum við fallizt á það, ef það verður talin leið til samkomulags, að frv. þetta verði látið bíða afgreiðslu, þangað til sýnt verður um þörf Landhelgisgæzlunnar fyrir hvalveiðiskip, og ef sú þörf verður fyrir bendi, hver viðbrögð forráðamanna Hvals verða. Ef hæstv. dómsmrh. getur á það fallizt, stendur ekki á minni hl. allshn. að draga til baka till. sína um rökstudda dagskrá á þskj. 138.

Að lokum vil ég segja það, að um efnisatriði málsins að öðru leyti er ekki ágreiningur. Það er ekki ágreiningur um þörf Landhelgisgæzlunnar fyrir hvalveiðiskip. Hér er einungis um það að tefla, að við í minni hl. teljum ekki ástæðu til svo róttækrar löggjafar, nema í ljós komi, að þörf sé fyrir hana.