23.10.1972
Sameinað þing: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1973

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Fjárlög eru jafnan eitt mikilvægasta mál hvers Alþ., og það er með nokkurri eftirvæntingu, sem ekki aðeins alþm., heldur þjóðin öll bíður þess, að fjárlagafrv. sé lagt fram. Svo var að vonum einnig nú, ekki sízt eftir þau ósköp, sem á undan voru gengin, þ.e.a.s. eftir fyrstu fjárlög vinstri stjórnarinnar fyrir árið 1972, þar sem útgjöld ríkissjóðs voru á einu ári hækkuð um 50%. Og ég hygg, að þó að hæstv. fjmrh. sé snjall í prósentureikningi, — ég held, að ég hafi aldrei í neinni ræðu áður heyrt jafnmargar prósentur lesnar upp eins og hann gerði hér í dag, — þá verði harla erfitt fyrir hann að afsanna þessa staðreynd. Það er að vísu hægt að halda því fram, eins og hann gerði, að fjárlög eða ríkisreikningurinn 1971 hefði orðið hærri en fjárlög urðu. Það er ekkert nýtt mál. Við eigum líka eftir að sjá það, hvað ríkisreikningurinn 1972 verður hár, þegar öll kurl eru komin til grafar. En ég var satt að segja farinn að halda, að hæstv. ráðh. mundi komast svo langt í prósentureikningi sínum, að honum tækist bæði að sanna það, að fjárlög hefðu farið lækkandi og jafnframt að skattar hefðu farið lækkandi, hvað þá að yfirdráttur ríkissjóðs við Seðlabankann hefði farið lækkandi. Það er nú svo augljóst mál, að hann er ekki umtalsverður sá litli yfirdráttur, sem þar er, þannig að samtímis þessu, þegar talað er um ýmsa aðra þætti þessa máls og staðreyndirnar, sem við augum blasa, þá er dálítið erfitt að fá þetta dæmi til þess að ganga upp. Hæstv. ráðh. hefur áður verið dálítið seinheppinn í prósentuútreikningum, en það var, þegar hann fór að reikna ábyrgð skattal. á s.l. vetri. Það er vonandi að ekki fari eins með prósentuútreikninga hans í þetta skiptið.

En það er eitt atriði, sem ég vildi beina til hæstv. ráðh., af því að mér er persónulega vel við hann. Og það er að hætta þeim hlálega hætti að hafa eftir orðtæki, sem ýmsir meðráðh. hans nota nú kannske meira en hann, þó að hann hafi nokkuð notað það til þessa, þ.e. að tala um, þegar hann er komin í vandræði með eitthvað, að það sé vegna arfsins frá fyrrv. stjórn. Það er ekki endalaust hægt að lifa á svona tali. Það er er ekki endalaust hægt að koma sér út úr öllum vandræðum með því að segja bara það eitt: Ja, það voru nú þessir vondu menn, sem voru á undan. Eftir visst árabil hljóta menn að taka lítið mark á þessu og láta sér detta það í hug: Eru þeir menn, sem hafa tekið við völdum, þess ekki umkomnir að breyta þessu ástandi? Og ekki sízt verður þetta hlálegt fyrir þá sök, að enn þá hefur ekki verið fundin viðurkenning á því, að nokkuð af því, sem þeim var eftir skilið, hafi í rauninni verið slæmur arfur. Okkur er sagt, að launahækkanir til opinberra starfsmanna og launahækkanir yfirleitt hafi verið, bæði í fyrra og í ár, og verði á næsta ári höfuðorsök útgjaldahækkunar ríkissjóðs. Ég veit ekki betur en hinir ágætu stjórnarliðar séu allra manna mestir talsmenn fyrir kauphækkunum. Og ég man ekki betur en svo, að í fjárlagafrv. í fyrra væri í grg. þess tekið fram, að kauphækkanir til opinberra starfsmanna hefðu verið sjálfsagðar. Og það er meira að segja talað um útgjöld til almannatrygginga sem einn þátt í arfinum. Þetta eru tveir hæstu útgjaldaliðirnir. Samtímis stærir ríkisstj. sig af því, að hún hafi ætlað að gerbreyta um stefnu með auknum félagslegum umbótum. Þetta eru tveir langhæstu liðirnir fjárlagafrv., bæði í fyrra og nú, og hvernig má þetta samrýmast, ef þetta er allt saman svona ágætt, þessar umbætur báðar? Bæði er sjálfsagt að greiða ríkisstarfsmönnum jafnt sem öðrum eðlileg laun og jafnframt sjálfsagt, ekki aðeins að halda í það, sem samþ. var af fyrrv. ríkisstj., heldur jafnvel að auka tryggingabæturnar til almennings. En þetta eru höfuðorsakir hækkananna, að manni er sagt. Samhliða er þetta hinn slæmi arfur, og í þriðja lagi er þetta dæmi um hina ágætu stefnu núv. ríkisstj.

Þetta dæmi fæ ég ekki til að ganga upp. Það er kannske vegna skilningsleysis míns, en hæstv. ráðh. kemur mér þá vonandi inn á réttar brautir í því. Að vísu rakst ég á nokkuð, sem koma mér dálítið kynlega fyrir sjónir, ekki sízt vegna lokaáskorunar hæstv. ráðh. um það, að vonandi hefðu menn ekki gleymt orðum sínum. Ég held, að hann hafi talað nokkuð ákveðnum rómi um það í lok ræðu sinnar áðan. Og vitanlega er það hárrétt, að menn eiga að lifa í samræmi við þær kenningar, sem þeir hafa haldið fram. Og ég efast ekkert um það, — ég vil a.m.k. vonast til þess, — að hæstv. ráðh. hafi alveg þá sömu skoðun nú eins og hann hafði fyrir örfáum árum, þegar hann var í stjórnarandstöðu. En það vildi svo einkennilega til, að ég rakst á ræðu hæstv. ráðh., sem hann flutti við 1. umr. fjárl. fyrir árið 1971, þ.e.a.s. í sambandi við síðustu fjárlög, sem hér voru til meðferðar, áður en hann tók á sig ábyrgðina á fjárlagagerðinni. Og einhvern veginn finnst mér, að þessa ræðu hefði jafnvel mátt flytja sem gagnrýni á þetta fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir nú. Ef breytt er nokkrum tölum, sem ekki eiga við, þá hefði ég getað lesið þessa ræðu hér upp. En af því að mér finnst leiðinlegt að nota ræður annarra manna og dálítið hlálegt að koma hæstv. ráðh. í þann vanda að þurfa að svara sjálfum sér, þá ætla ég að sleppa þessu. En ég ætla þó að nota fyrstu setninguna a.m.k. Hún hljóðar þannig: „Fjárlög eru spegilmynd af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstj., sem að þeim stendur. Fjárlagafrv. (þá fyrir árið 1971) er góð sönnun fyrir gildi þessarar reglu. Einkenni þess sem fyrri fjárl. ríkisstj. er verðbólga og útþennsla ríkiskerfisins.

Dettur nú nokkrum í hug, að þetta eigi við í dag? Það skyldi þó ekki vera. Það er bara einn galli á þessari setningu. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðh., að fjárlög eiga að vera spegilmynd af efnahagsstefnu ríkisstj. En það bara vantar myndina í rammann núna. Þetta frv., sem við höfum fyrir framan okkur, er myndlaust eða a.m.k. myndin er sá óskapnaður, að það er ómögulegt að lesa út úr henni nokkra einustu efnahagsstefnu. Enda forðaðist hæstv. ráðh. mjög vandlega að tala um slíka stefnu í sinni ræðu áðan, þó að hann kæmi víða við.

Hann reiknaði líka út fyrir tveimur árum, að ég held, mjög fróðlegan útreikning. Hann hefði gjarnan mátt halda þeim útreikningi áfram núna, af því að honum er svo annt um útreikninga og prósentutölur. Hann reiknaði það út, hvað fjárl. mundu verða orðin há árið 2000 með áframhaldi þeirrar stjórnarstefnu, sem þá var ríkjandi. Að vísu benti ég honum á þá, að það væri harla mikil svartsýni, ef hann héldi það, að þeir kæmust ekki til valda fyrr en árið 2000. Enda fór það nú svo, að þeir komust til valda fyrr. En vildi nú ekki hæstv. ráðh. vera svo elskulegur að endurskoða þennan útreikning, sem hlýtur að sjálfsögðu að verða miklu hagstæðari þjóðinni, eftir að hann er tekinn við og getur nú komið við sinni stefnu?

Ég ætla ekki að reyna að reikna út, hvað fjárl. verða árið 2000. Ég hygg, að núllin verði þá orðin svo mörg aftan við einhverja ákveðna tölu, að það sé í rauninni ólíklegt, að menn átti sig á þeim stjarnafræðilegu tölum, sem þá kæmu út. Staðreyndin, sem við okkur blasir, er sú, að fjárl. ná nú 20 milljörðum. Annað fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar gerir ráð fyrir 20 milljarða útgjöldum, sem er, — eða má gera ráð fyrir að verði eftir meðferð Alþ., — um það bil tvöföldun frá fjárl. fyrir árið 1971, og geri aðrir betur. Ég hef sagt áður nú í haust, að vonandi takist engum að slá það met. Og vitanleg tjóa ekki neinir prósentuútreikningar í þessum sökum, vegna þess að það blasir við öllum, sem það mál hugsa, að tvöföldun, t.d. 1000 millj., er allt annað en tvöföldun 10 þús. eða 20 þús. millj., þannig, að prósentutölur einar koma hæstv. ráðh. ekki að haldi. Það er staðreynd, að hann er methafi í háum tölum. Honum hefur tekizt að slá hvarvetna öll þau met í eyðslu, sem áður hafa verið sett. Það eru 20 milljarðarnir, sem þjóðin starir á í dag, og ég held, að flestir séu sammála um það, hvað sem líður öllum prósentuútreikningi hæstv. ráðh., þá getur hann aldrei reiknað sig frá þessari tölu, a.m.k. ekki niður á við, því að það er ljóst, sem ég mun síðar koma að, að það er enn mjög langt frá því, að öll kurl séu komin til grafar. Þetta eru aðeins almennar hugleiðingar út af þeim almenna málflutningi, sem ræða hæstv. ráðh. einkenndist af, en ég mun nú reyna að víkja að málinu á svipaðan hátt og hæstv. ráðh. gerði eða í svipaðri röð efnisatriða, til þess að það verði þægilegra að átta sig á samhengi málsins.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, þegar hann gerði grein fyrir árinu 1971, að það hefði verið arfur fyrrv. ríkisstj., sem skapaði hallareksturinn á því ári. En á því ári gerðust þau ósköp, að staða ríkissjóðs versnaði miðað við árið áður um 800 millj. kr. Í stað þess að árið 1970 var um 460 millj. kr. greiðsluafgangur hjá ríkissjóði, þá tókst hæstv. ráðh. á fáum mánuðum að koma þessu yfir í 339 millj. kr. greiðsluhalla. Og þetta er náttúrlega allt saman arfur frá fyrrv. stjórn. Og í hverju var þessi arfur fólginn? Hæstv. ráðh. vék sér algerlega undan þeirri skyldu að gera grein fyrir því, hvað hann aðhafðist, eftir að hann kom í stjórnarsess. Ég er ekki að segja, að það hafi verið illt verk, sem hann vann. En frá sjónarmiði ríkisbúskaparins var það fjarstæða að gera það, sem ríkisstj. þá gerði. En það var að ákveða að láta lög um almannatryggingar taka þá þegar gildi, og leggja allan þunga þeirra útgjalda á ríkissjóð, sem raunar varð ekki hjá komizt, þar sem sveitarfélögin gátu ekki bætt sér upp þann útgjaldaauka, sem varð af þeim sökum. Jafnframt var ákveðið að halda áfram niðurgreiðslum til áramóta. Niðurgreiðslunum hefði mátt halda áfram, og það hefði ekki leitt til halla fyrir ríkissjóð, og það voru líka nægar umframtekjur hjá ríkissjóði til þess að greiða þær umframlaunahækkanir, sem ráðh. lagði svo mikið upp úr í sinni ræðu. En hér var um að ræða 650 millj. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Hefðu þessar ráðstafanir ekki verið gerðar, þá hefði ríkisbúskapurinn einnig verið með greiðsluafgangi árið 1971, sem var auðvitað þjóðarnauðsyn miðað við þá þenslu, sem var orðin í þjóðfélaginu.

Nú munu menn spyrja, hvort ég sé á móti bótum til gamals fólks? Allir vita nú, hvað hæstv. núv. ríkisstj. hefur verið góð við gamla fólkið. Það sýndu nú skattalögin í fyrra. En því fer víðs fjarri. Ég er ekkert að fordæma það út af fyrir sig, að hæstv. ráðh., án þess að hafa nokkra peninga til þess, ákvæði að greiða þarna um 500 millj. úr ríkissjóði með því að láta þegar taka gildi löggjöf, sem átti að taka gildi þá um næstu áramót og sem fyrrv. ríkisstj. ætlaði ekki að láta taka gildi fyrr, vegna þess að hún hafði ekki fjármagn til þess og taldi það ábyrgðarleysi að gera það, þó að um gott mál væri að ræða, án fjárráða. En hæstv. ráðh. bar skylda til, eins og ástandið var í efnahagsmálum þjóðarinnar og horfur, að gera samtímis tekjuöflunarráðstafanir til þess að mæta þessum útgjöldum. Það er vissulega rétt, að gamla fólkinu veitti ekkert af þessum peningum og þessum bótum og að þessi löggjöf fyrrv. ríkisstj. tæki þegar gildi, en það var skylt að afla fjár til þess að standa undir þessum útgjöldum. Það er þetta ábyrgðarleysi í þessu efni, sem ber að átelja og leiddi til þess greiðsluhalla, um 340 millj. kr., á mesta góðæri í sögu þjóðarinnar, sem við stöndum nú andspænis og hæstv. ráðh. hefur hér lokið við að gera Alþ. grein fyrir.

Þegar lá fyrir að afgreiða fjárl. fyrir árið 1972, þá var það algerlega ljóst, að mikið þensluástand var framundan í efnahagslífi þjóðarinnar. Og hvort sem þar var um arf að ræða eða ekki, þá skipti það engu máli. Ríkisstj., sem er við völd og ætlar sér að stjórna, ber skylda til að mæta vandanum og reyna að leysa hann, hver sem á sök á honum. Það dugir ekki bara að hrópa: „Ég á enga sök“ og láta svo fljóta sofandi að feigðarósi. Það verður að mæta vandanum á réttan hátt. Þetta gerði hæstv. ríkisstj. ekki. Hún skapaði beinlínis með aðgerðum sínum stóraukið þennsluástand í þjóðfélaginu með fjárl. sínum, sem út af fyrir sig hefðu verið góðra gjalda verð, ef í þeim hefði falizt ráðstafanir til þess að safna fjármunum, leggja til hliðar digra sjóði. Menn vita nú, hvað digrir sjóðirnir eru, sem til eru í landinu í dag, og þarf ég ekki að rekja þá sögu, En að ausa út öllu þessu fé, þótt það kunni að vera til hinna gagnlegustu þarfa í þjóðfélaginu, það er auðvitað stórvitaverð stefna. Það var ekki nóg með það, að fjárlög væru hækkuð um 5.6 milljarða, sem var um það bil samanlögð hækkun fjárl. síðustu fjögur árin þar á undan, heldur var boginn spenntur eða þaninn enn meir með því að leggja fram framkvæmdaáætlun, þar sem um var að ræða þreföldun fjáröflunar til framkvæmda og sjöföldun fjáröflunar í útgáfu spariskírteina. Út af fyrir sig er fjáröflun innanlands góðra gjalda verð á þenslutímum, en það gildir það sama um það og ég áðan sagði um ríkisbúskapinn, að það getur verið góðra gjalda vert að safna fé og jafnvel að leggja á háa skatta, ef það er lagt til hliðar til að vinna gegn þenslu. En með þessum ráðstöfunum og að dreifa út öllu þessu fé, þó að, — eins og ég endurtek, — að það væri til hinna þarflegustu hluta, þá var aukið á vandann, það var dregið vinnuafl frá atvinnuvegunum, þegar hvarvetna skorti vinnuafl og auðvitað framkvæmd alröng stjórnarstefna í heild, vegna þess að þegar þensla er almennt í þjóðfélaginu, þegar framkvæmdavilji einstaklinga og atvinnuvega er mikill, þá á hið opinbera að draga saman seglin, en hins vegar öfugt, þegar samdráttur verður í atvinnulífinu og menn standa andspænis atvinnuleysi, þá á að dreifa út auknu fjármagni, eins og gert var á árunum 1968–1969, jafnvel þótt það kosti hallarekstur hjá ríkissjóði, eins og þá var. Nú hefur boginn verið þaninn svo, að það er vitað, að það á sér þegar stað bæði stórfelldur skortur á vinnuafli, en þó kannske það, sem er enn verra, verulegar yfirborganir, sem leiða til stóraukinna vandræða fyrir atvinnuvegina. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. svarar þessu með því, að þetta hafi verið arfur. Það getur svo sem vel verið. Og hann um það. En þetta er nú einu sinni staðreynd, og hæstv. ríkisstj. bar, ef hún var stjórnhæf, að taka á þessum vanda. Ég man, að ég las í grg. frá sérfræðingum ríkisstj., — sem eru mjög skynsamir og glöggir menn og ríkisstj. hefur nú haft vit á að leita til. þó að hún ætlaði sér að treysta á brjóstvitið, þegar hún tók við völdum, en núna þegar hún er búin að sigla öllu í strand, þá á að fara til þeirra og biðja þá að leysa vandann og finna einhver úrræði. — En ég sá þar, ég man ekki orðrétt setninguna, held, að hún hafi verið eitthvað á þá leið, þegar búið var að hugleiða, hvaða áhrif þessi útgjaldaauki og framkvæmdahraði ríkisstj. og umbótavilji, skulum við kalla það, muni hafa í för með sér, að sennilega verði að láta þetta ganga yfir. Það kann að vera, að menn geti huggað sig við þetta í bili, en ég held, að afleiðingarnar af þessari rausn, bæði árið 1971 og 1972, — sem hæstv. ráðh. hneykslast mjög yfir, að menn hafi kallað veizluhöld, — þær minni dálítið á svipað og henti blessaðan Allende í Chile. Ég vona, að það sama hendi nú ekki núv, ríkisstj. Hann vildi gera margt og mikið fyrir alla þjóðfélagsborgara, en það hefndi sín fljótlega. Það er bara, að það fari ekki eins. Ég óska sannarlega ekki þjóðinni þess, að það fari á sama hátt. Út í þá sálma skal ég nú ekki fara, það gefst kostur á að ræða það við hæstv. forsrh. hygg ég, næstu daga, þegar kemur til umr, hér í þinginu frv. um það, sem maður hefur nú aldrei haldið, að henti núv. ríkisstj. að taka nákvæmlega upp starfsbætti fyrrv. ríkisstj. sem mest voru fordæmir og byrja á að safna í sarpinn vandamálunum, eins og það var orðað, en ég skal ekki fara lengra út í þá sálma. Það gefst tækifæri til að ræða það þar.

Það er allt of langt mál að fara að ræða þann vanda, sem við stöndum andspænis nú 1972 varðandi ýmsa þá þætti, sem snerta þessa miklu þenslu. En ríkisstj. spennti sannarlega bogann of hátt að því leyti til, að það er gert ráð fyrir og búið að samþykkja framkvæmdir, sem ég sé ekki, hvernig hún ætlar að afla fjár til. Henni hugkvæmdist það, að hún gæti aukið og það væru engin takmörk fyrir því, hvað hægt væri að selja spariskírteini ríkissjóðs, sennilega vegna þess, að hún hefur reiknað með, að eftir að þessi stjórn væri tekin við völdum, þá væri hægt að bjóða út endalaust magn, vegna þess að nú þyrði enginn að eiga peninga lengur. En einhvern veginn hefur það nú farið svo, að menn vantreysta ekki peningum alveg þannig, að það hefur ekki tekizt að selja þessi skírteini, ekki einu sinni að hálfu leyti. Af þeim 500 millj., sem ríkisstj. bauð út eða ætlaði sér að bjóða út, hafa ekki selzt nema um 200 millj., og hygg ég ekki líklegt, að mikið seljist til viðbótar af þeirri upphæð fram til áramóta. Þetta lánsútboð var gagnrýnt af okkur sjálfstæðismönnum sérstaklega af þeirri ástæðu, að með þessu móti væri verið að draga úr því allt of litla fjármagni, sem þegar væri fyrir hendi til aðstoðar atvinnulífinu og til þess að fjármagna nauðsynlega þróun þess og þann vaxtarbrodd, sem viða væri í því vegna bjartsýni þeirrar, sem tók að gera vart við sig á árinu 1970 og hæstv. ríkisstj, hefur ekki enn tekizt að kæfa alveg. En látum það vera. Svona virðist þetta dæmi standa, að það geti reynzt erfitt að afla fjár til þeirra framkvæmda, sem gert var hér ráð fyrir.

Hæstv. ráðh. vildi ekki fullyrða mikið um það, hver yrði útkoma ársins 1972, og ég vil auðvitað heldur ekkert um það fullyrða, fyrr en það dæmi liggur fyrir. Og vitanlega getur í því efni gerzt ýmislegt til áramóta. Ríkissjóður hefur tekið á sig veruleg ný útgjöld með verðstöðvuninni. Að vísu má segja, að hann hafi kannske unnið eitthvað á móti. Ég hef ekki tölulega útreikninga um það, og hæstv. ráðh. birti ekkert um það hvorki tölur né prósentur. En ég held, að það sé ekki of mikil svartsýni að gera ráð fyrir því, að það verði greiðsluhalli bjá ríkissjóði í ár, þrátt fyrir þær óhemjutekjur, sem nú streyma í sjóðinn og sem eru, eins og hæstv. ráðh. sagði, alllangt umfram það, sem gert hafði verið ráð fyrir. Að vísu hefur þetta m.a. fengizt með því, að hæstv. ráðh, er farinn að éta fyrirfram, ef svo má segja. Hann hefur hraðað innheimtu söluskatts um einn mánuð. Það getur hann ekki gert á næsta ári, nema fara að láta borga söluskattinn fyrirfram. Og með þessu móti hefur hann fengið drjúga summu í ríkissjóðinn á þessu ári, en það er aðeins í eitt skipti. Það eru því horfur á, að með öllum tilfæringum takist hæstv. ráðh., ekki sízt þar sem skattarnir koma til með að gefa mun hærri tekjur, heldur en gert var ráð fyrir, að láta þetta verða mun meira tekjuár en jafnvel hæstv. ráðh. dreymdi um. Þrátt fyrir það munu samt verða einhver ráð til þess að koma öllum þessum tekjum í lóg þannig, að það takist einnig að skila halla á þessu ári. Og horfir þá vissulega mjög illa og er ekki í miklu samræmi við þá áskorun hæstv. ráðh. í fjárlagafrv. nú og raunar einnig í fyrra, að það bæri brýna nauðsyn til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Greiðsluhallalaus fjárlög eru góð út af fyrir sig, ef um raunverulega greiðsluhallalaus fjárlög er að ræða, en ekki aðeins sýndartölur.

Hæstv. ráðh. hafði lagt í það allmikla vinnu eða látið einhvern leggja í það allmikla vinnu að afsanna það, að ríkissjóður væri í mikilli skuld við Seðlabankann. Ég man nú ekki, hvort hann reiknaði þetta ein 8 eða 10 ár aftur í tímann og sagði, að hún væri ekkert einsdæmi, staðan við Seðlabankann. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt, að á vissum tíma árs er alltaf yfirdráttur við Seðlabankann. Og vitanlega hlýtur sá yfirdráttur að vaxa eftir því sem fjárlög hækka, nema ráðstafanir séu gerðar til þess, að ríkissjóður eigi eitthvert rekstrarfé, sem hæstv. ráðh. kom inn á, að væri nauðsynlegt, og ég er honum algerlega sammála. Og þær hugmyndir höfðu áður komið fram, að nauðsynlegt væri að safna þessu fé. Og ég er honum líka alveg sammála, þó að það sé kannske ljótt að segja það hér, að eina ráðið til að safna þessu fé sé að taka lán, sem geri mönnum ókleift annað en standa andspænis því að borga afborgun af þessu láni, því að reynslan er sú því miður, að það gengur erfiðlega að halda í greiðsluafgang á fjárl. hér á hinu háa Alþ. Ég man, án þess að ég ætli að fara að draga hæstv. forseta inn í þessar umr., að í fjmrh.- tíð hans, við unnum einu sinni hér saman fyrir langalöngu, þá hafði hann þann hátt á til að mæta þessum vandræðum í þingi að hafa alltaf svolítið í pokahorninu. Hann var forsjáll maður og hafði því dálítinn sjóð, sem hann sýndi ekki, fyrr en búið var að afgreiða fjárlög. Nú er þetta ekki lengur hægt vegna þess, að nú er búið að koma þessu öllu inn í það gott kerfi, til góðs eða illa, að áætlanir eru gerðar af sérfræðingum, og það verður að sýna þessar tölur eins og mönnum þykir þær líklegar hverju sinni, svo að þessar varnaraðgerðir, sem núv. hæstv. fjmrh. beitti, eru ekki lengur til staðar, og ég skal ekki gagnrýna þá ráðstöfun hæstv. núv. fjmrh., þó að hann reyni að mynda þennan sjóð með því að taka lán fyrirfram og setja menn andspænis því, að það þurfi að borga af þessu láni. Gallinn er bara sá, að ég er ákaflega hræddur um, að mest af þessu láni fari í að borga hallarekstur ríkissjóðs og það sé alls ekki verið að safna neinum rekstrarsjóði fyrir ríkið og það er miklu lakara. Ef reksturshalli heldur áfram hjá ríkissjóði, þá étur það að sjálfsögðu upp þennan sjóð. En ef tækist að hafa greiðsluhallalausan ríkisbúskap og hafa sjóð, sem sannarlega veitti ekkert af, að væri um 1000 millj. kr., þá gerðist það auðvitað ekki, sem nú gerist, að ríkissjóður, hvort sem yfirdráttur hans er nú 1000 millj. eða 2000 millj., við getum látið það liggja á milli hluta, þó að það hafi auðvitað miklu meiri þýðingu hvað sem öllum prósentum líður, þegar menn fara upp í 2000 millj., þá hefur slík sveifla mjög óheppileg áhrif á efnahagskerfið og bankakerfið og fjármögnunarmöguleika þannig, að hér er auðvitað um brýna nauðsyn að ræða, sem ég skal ekki gagnrýna. Ég gagnrýni aftur á móti hitt, og það er í framhaldi af því, sem ég hef áður sagt, að það, sem olli hinum stórfellda yfirdrætti hjá Seðlabankanum, sem stundum hefur verið talað um í blöðum og ég sé ekkert merkilegt við, þó að sé talað um, vegna þess að það er áhyggjuefni, þegar slíkur yfirdráttur er kominn jafnvel upp undir 2000 millj. kr., þá ber brýna nauðsyn til þess að koma á þessu skipulagi, sem hér er gert ráð fyrir. Auk þess má nú geta þess, sem ekki hefur áður, að ég held, skeð í jafnstórum mæli eins og nú er og stafar auðvitað af erfiðleikum í fjáröflun, að einn aðalfjárfestingarsjóður landsins mun hafa verið kominn upp í nálægt 500 millj. kr. yfirdrátt bjá Seðlabankanum, en ætti um jafnháan yfirdrátt, eins og var venja áður fyrir 2–3 árum, að ríkissjóður kæmist hæst. Þetta er auðvitað geigvænleg þróun. En þetta heldur auðvitað áfram að spinna upp á sig og það eyðileggur þessar út af fyrir sig skynsamlegu ráðstafanir hæstv. ráðh., ef hann heldur áfram að hafa hallarekstur á ríkisbúinu í mesta góðæri. Hvað á þá að gera, þegar að þrengir?

Hæstv. ráðh. flýtti sér dálítið mikið í ræðu sinni, þegar hann kom að því að gera grein fyrir 400 millj. kr. sparnaði, hvar hann hefði verið tekinn. Og ég held, að flestir hafi nú verið litlu nær. Hann sleppti jafnvel því að reikna, hve margar prósentur hvert rn. hefði átt að spara. Ég gat nú ekki skrifað hjá mér, — hann las það svo hratt, — hvaðan sparnaðurinn ætti að koma, nema það eitt, að mér skilst, að stjórn atvinnuleysistrygginga hafi verið skrifað og þær vinsamlega beðnar að falla frá um 100 millj. kr. kröfu á ríkissjóð, sem auðvitað gerist ekki nema með tvennum hætti annað hvort þeirri leið að draga úr fjárveitingu til húslánakerfisins, sem allir vita, að er nú í stórkostlegum þrengingum og mjög hefur staðið upp á ríkisstj. að fjármagna á nauðsynlegan hátt, eða þá þessi sjóður verður að ganga á varasjóð sinn. Öðruvísi er þetta ekki hægt. Og ég er ósköp hræddur um, að ég hefði fengið kveðju frá hæstv. ráðh., ef í sparnaðarfrv., sem hér var til meðferðar fyrir nokkram árum, hefði verið stungið upp á slíku. Síðan var bara almennt reiknað út, að þetta og þetta rn., eitt á að spara 100 millj., annað 30 millj, og þriðja 40 millj., þangað til hæstv. ráðh. fékk töluna 400 millj. Og nú vissi hann alls ekki, hvort rn. hefðu sparað þessar millj. Og ég verð nú að leyfa mér að efast um það, að menntmrn. takist að spara 100 millj. Það eru mikil kraftaverk, sem þar eiga þá að gerast umfram það, sem áður hefur gerzt, og það væri saga til næsta bæjar, ef það tækist. Ég efast nú um það, að aðrir hæstv. félagar hans í ríkisstj. séu búnir að skila alveg sundurliðuðum lista yfir það, hvað þeir ætli að spara, svo að hæstv. ráðh. hafi þessar 400 millj. Ég verð a.m.k. að segja það, að þegar hann er að gera Alþ. grein fyrir þessu, þá er það naumast viðhlítandi að varpa fram svona tölum. Þegar fyrrv. ríkisstj. gerði sínar sparnaðartill., þá var það gert í sundurliðuðu frv. Menn gat greint á um það, hvort rétt væri að spara þetta eða hitt. En það var nákvæmlega sundurliðað eftir fjárlagaliðum, hvað ætti að spara, og enginn lét sér detta í hug að senda hverjum ráðh. miða: Þú sparar góði þetta og þú sparar hitt einhvers staðar. Það a.m.k. verð ég að segja, að þá eru þetta afburða snillingar og dyggir menn í ríkisstj., a.m.k. við hæstv. fjmrh., dyggari heldur en þegar þeir voru að reyna að laumast undan því að bera ábyrgð á skattal. hans í fyrra, ef þeir ætla að taka því með þökkum, að hann stingi að þeim miða til þess að draga úr útgjöldum og láti það gott heita og tæki það eins og það stæði í biblíunni.

Ég held, að ég eyði þá ekki fleiri orðum að árinu 1972, enda eins og hæstv. ráðh. gat um, þá er enn þá nokkuð eftir af því ári og því ekkert að undra, að ýmislegt geti breytzt fram til ársloka, og því ekkert um það að sakast, þó að ekki sé endanlega frá því greint. En ég er ósköp hræddur um það, miðað við það, sem ég hef hér minnzt á og sérstaklega, ef hann rennur út í sandinn þessi 400 millj. sparnaður, að það verði skrítin útkoma og heldur ógiftusamleg á þessu ári ekki siður en árinu 1971, hvort sem verður reynt að komast út úr vandanum með því að segja, að það sé arfur. Við heyrum það þá næsta haust.

Hér liggur svo fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1973. Eins og ég sagði í upphafi máls míns og vitnaði þá til gamallar ræðu hæstv. ráðh. um, að fjárlagafrv. væri spegilmynd af efnahagsstefnunni á hverjum tíma, þá veit ég nú satt að segja ekki, hvað á að segja um þetta frv. Mér finnst það óhugnanlega mikið vera farið að sverja sig í ætt við fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar sálugu, en hún lagði síðustu tvö fjárlagafrv. sín fyrir þingið á nokkuð svipaðan hátt og þetta frv. er. Það var, — ég veit ekki, hvort maður má segja í þessu tilfelli, að botninn sé suður í Borgarfirði, — en það vantaði algerlega í bæði þau frv. allt það sem vantar í þetta frv. Í öðru tilfellinu var þetta afsakað með því, að embættismenn væru að rannsaka vandann, og það er í rauninni það sama, sem hér er verið að gera. Það er verið að rannsaka vandann, sem manni að vísu skildist nú í fyrra, að ríkisstj. vissi þá nákvæmlega, hvað væri stór, þegar hún tók við völdum og úthlutaði og beinlínis beitti sér fyrir stórfelldum kauphækkunum og kjarabótum í þjóðfélaginu. En látum það vera, að það hafi upplýstst fyrir henni, að hún hafi mátt skoða eitthvað betur. En um hitt frv. frá vinstri stjórnartímanum, þar var sömu sögu að segja, að í það vantaði öll úrræði og þá var því haldið fram, að það hefði ekki tekizt að hafa samráð við þm. stjórnarflokkanna. Nú veit ég ekki einu sinni. hvort þeir hafa verið kallaðir saman til þess að ræða vandann núna, enda skiptir það kannske minnstu máli. En alla vega er ekki hægt að sjá neitt í þessu frv., hver vandinn er, vegna þess að hann er blátt áfram ósköp einfaldlega þurrkaður út, gersamlega. Og hæstv. ráðh. segir, að það sé miðað við sáralitla kauphækkun og þetta sé allt harla gott. Ja, ég veit ekki, hvar menn lifa, hvort þeir eru enn þá hér á jörðinni eða hvort þeir eru komnir upp á tunglið, ef þeir halda það, að það sé hægt að horfa svona á þessa mynd.

Eins og ég segi, þá er ekki hægt að saka hæstv. ríkisstj. út af fyrir sig um það, að hún leggi ekki fram till., sem hún á ekki til og bíður eftir, að aðrir leggi henni upp í hendurnar. En þá er í rauninni ekki heldur hægt að ræða þetta frv. Það er eins og ég sagði vandinn er þurrkaður út á þann einfalda hátt, að allar ráðstafanir vegna verðstöðvunar eru afnumdar, en samtímis er gert ráð fyrir því, að vísitala hækki ekki neitt um næstu áramót. Það, sem gerðist með verðstöðvunarlögunum, var tvennt og í rauninni þrennt: Það var frestað kaupgjaldsgreiðslum eða í rauninni kaupgjald skorið niður. Það var frestað að taka endanlega ákvörðun um verðlagningu búvara til áramóta og það voru ákveðnar niðurgreiðslur, allmörg stig, til þess að jafna þarna metin og ákveðið að halda kaupgjaldsvísitölunni þannig, að hún færi ekki yfir 117 stig, eins og fjárlagafrv. er miðað við. Ef halda ætti áfram þessari stefnu, þá kostaði þetta út af fyrir sig 800–1000 millj. kr. Og nú vill svo til, að það hafa sannazt upp anzi mikil vandamál. Það virðist, þó að hæstv. ríkisstj. vilji nú lítið um það tala núna, að það sé að nálgast ný hrollvekja, sem þótti henta að tala um á s.l. ári, því að það vita allir, að það eru a.m.k. 5 stig, sem skella yfir nú um áramótin eða kringum áramótin í hækkuðu verðlagi til viðbótar því, sem niður er greitt. Og niðurgreiðsla þessara stiga mundi kosta 800– 1000 millj., sem mundi þarna koma til viðbótar. Þessu er ekki gert ráð fyrir í frv., hvorugri þessari tölu, og er nú raunar vitað, að verðhækkanir um næstu áramót munu verða enn meiri og verðhækkanir, sem leiða af kauphækkunum, sem þegar er vitað um á næsta ári, munu hér enn bætast við og ég skal ekki reyna að gizka á, hvað það verður. Nei, nei, ekkert af þessu, — þetta er bara þurrkað út og hæstv. ráðh. segir, að það verði Alþ., sem eigi að leysa þennan vanda. Sennilega verður frv. um þetta lagt fyrir Alþ., en ég geri nú ráð fyrir því, að ríkisstj. reyni að marka einhverja stefnu í þessum efnum, áður en yfir lýkur, ef hún þá nær samkomulagi um nokkra stefnu til þess að mæta þessum vanda. En það sér auðvitað hver heilvita maður, að ef ekki er ætlunin, og ég endurtek það, ef ekki er ætlunin að framkvæma stórkostlega kjaraskerðingu, kannske að biðja verkalýðssamtökin eins og vinstri stjórnin gamla gerði að gefa eftir svona 17 stig eða eitthvað álíka, þá er sjáanlegt, að ríkisstj. stendur andspænis því að verða að taka upp stórkostlegar upph. til þess að halda niðri verðl. og ekki nóg með það, heldur einnig til þess að aðst. útflutningsatvinnuv. Og þó að það sé í bili hægt að veita þeim þá merkilegu aðstoð að leyfa sjávarútveginum að bjarga sér úr sínu öngþveiti með því að nota sitt eigið sparifé, þá verður það nú ekki endalaust gert. Þetta er þess vegna staðreynd, sem við fyrr eða síðar hljótum að standa andspænis hér í þinginu, og í rauninni er ekki hægt að meta þetta mál. fyrr en að því kemur. Og í sannleika sagt er ekkert nýtt að finna í þessu frv. Þegar þessar ráðstafanir allar eru teknar, er engin ábending gerð um það, hvað eigi að gera í efnahagsmálunum og, enga nýbreytni að finna í frv. Það er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum félagslegum umbótum á þessu ári. Það að vísu kostar allverulega hækkun að mig minnir um 700 millj. eða eitthvað slíkt til almannatrygginga, en það er vegna ráðstafana, sem búið var að ákveða á s.l. þingi og mér skilst, að það sé ekki gert ráð fyrir neinum nýjum breytingum á þessu þingi, þá í sannleika sagt hefði þetta frv. hér ósköp vel getað verið samið af þeim ágætu embættismönnum, sem hæstv. ráðh. hefur á að skipa og eru vissulega hinir færustu og prýðilegustu menn. Og mér er nær að halda, að frv. hefði jafnvel verið lægra og meiri sparnaðartilhneiging í því, ef embættismennirnir hefðu fengið að ráða sjálfir heldur en hæstv. ráðh. hefði farið að koma þar nærri. En sleppum því. Ég skal víkja að sparnaðinum síðar.

Á frv. er sem sagt harla lítið að ræða. Framkvæmdaáætlun fylgir engin. Það er kannske út af fyrir sig ekkert að undra, þó að hún fylgi ekki, vegna þess að raunar er ekki hægt að gera ráð fyrir, að það sé hægt að gera neina handbæra framkvæmdaáætlun, fyrr en vitað er, hvaða efnahagsstefnu á að fylgja, svo að ég saka ekki hæstv. ráðh. um það nema síður sé. En það leiðir hins vegar til þess, að það er auðvitað ómögulegt að gera sér grein fyrir því eða meta það, hvað verði framkvæmdahliðin á þessum fjárl. eða á ríkisbúskapnum á næsta ári.

Það er hins vegar ljóst af þessu frv., að það er ekki gert ráð fyrir neinum hækkunum á framkvæmdaliðum. Ég er heldur ekkert að lasta það út af fyrir sig miðað við það, sem ég hef hér haldið fram áður, að við búum við þensluástand. En engu að síður er ég nú ósköp hræddur um, að það verði erfitt að koma þessu frv. hér gegnum hið háa Alþ., án þess að taka tillit til nokkurra atriða í því efni, og skal ég þá aðeins halda mér að háum póstum.

Framlög til skóla eða skólabygginga hafa verið skorin niður í frv. um 170 millj. frá till. menntmrn. Í frv. er sagt, að það sé gert ráð fyrir að miða við fjögurra ára greiðslutíma til skólanna í stað þriggja ára, eins og var í gildandi lögum eða þeim lögum, sem sett voru fyrir tveimur árum um það efni. Látum það gott heita. En það verður auðvitað að beygja sig fyrir því að borga þá samkv. þessari fjögurra ára áætlun og mér er nær að halda, að í þessum 170 millj., sem niður eru skornar, sé ekkert til nýrra skóla, heldur séu skornar niður um 170 millj., sem sé nauðsynlegt að taka vegna skuldbindinga í sambandi við skóla, sem eru komnir á framkvæmdaáætlun. Og hvaða þýðingu hefur þá að skera þetta niður. Er þetta ekki bara til að blekkja sjálfan sig? Það getur vel verið, að það sé nóg að hækka framlög til hafna um eitthvað 13 millj. og hafa óbreyttar fjárveitingar til flugvalla og 11 millj. kr. hækkun til sjúkrahúsa. Ég veit það ekki. En einhvern veginn finnst mér, að það kunni nú eitthvað að standa í ýmsum og það jafnvel stuðningsmönnum ríkisstj. að biðja ekki um einhverja viðbót við þessa pósta. Að auki er svo það, sem gerist hér í annað sinn, að námslán og styrkir til námsmanna eru stórkostlega skornir niður. í fyrra var það gert með þeirri afsökun, sem vel kann að vera rétt, ég skal ekkert vefengja það, að till. um þetta efni hafi ekki legið fyrir, þegar fjárlagafrv. var samþ. Að vísu er nú tiltölulega einfalt að gera sér grein fyrir, hve há þessi upphæð á að vera. Það var fyrir þremur árum síðan, að ég hygg, gerð um það ákveðin áætlun í samráði við fyrrv. ríkisstj., að þetta skyldi hækka í áföngum miðað við þær áætlanir, sem samtök námsmanna voru með. Og ef á að fullnægja þeirri áætlun og ekki beinlínis að draga úr þessum framlögum, þá vantar hér 100 millj. kr. að því þó tilskildu, að það fáist 110 millj. kr. lán, sem ég hef enga trú á að fáist, vegna þess að það er algerlega óeðlilegt að fjármagna þetta með þeim hætti. Ég hygg, að lánið, sem tekið var í fyrra, hafi verið um 60 millj. Ég nefni hér aðeins tvö dæmi, þar sem tölurnar leika á hundruðum millj. kr., sem ég sé ekki, hvernig á að forðast — ég segi bara forðast, og hugsa þá um hagsmuni ríkissjóðsins, — að taka inn í fjárlög auk þeirrar aukningar, sem verður á framkvæmdaliðum. Ég held það sé að blekkja hreinlega sjálfan sig að gera ráð fyrir, að þær tölur fái staðizt, sem í frv. eru.

Ég, eins og ég áðan sagði, nefni þessi tvö dæmi aðeins af handahófi, af því að það eru háar tölur, en það eru auðvitað fjöldamörg önnur atriði, sem ég hirði ekki að elta ólar við, sem hægt er að minnast á hér í sambandi við það, hvað kunna að vera óraunhæfar áætlanir. Ég veit, að hæstv. ráðh. mun tíunda þetta, enda gerði hann það í framsöguræðu sinni og nefndi ýmsar hækkanir til góðra og gegnra mála, sem hann vill láta koma hér á móti til að sýna góðvilja til framkvæmda. En það tjóar auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut, vegna þess að menn sætta sig ekki við það að fá ekki fé til skóla fyrir það, að því sé veitt í eitthvað annað. Það þýðir ekkert að rugla málum þannig saman, þó að þær geti allar verið góðra gjalda verðar, þær fjárveitingar, sem þar um ræðir. Og mér finnst það ekki hafa nokkra þýðingu fyrir fjmrh., hver sem hann er, að vera að blekkja sig með villandi tölum eða allt of lágum tölum, eins og ég hef hér getið um. Það kann að vera svar við þessu, sem hæstv. ráðh. sagði, að endurskoða ætti námslánakerfið. Ég veit það ekki. Hefur ríkisstj. e.t.v. í hyggju að lækka eða draga úr stuðningi við námsmenn. Það fólst ekki í orðum hæstv. ráðh., en ef það er ætlunin að mæta þessum vanda með þeim hætti, þá veit maður það.

Hæstv. ráðh. flutti margar prósentutölur, eins og ég áðan sagði, og við lesum þær vafalaust í Tímanum næstu daga og getum þá skoðað þær. En þær segja auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut um það, sem hann vildi taka til meðferðar, vegna þess, að þótt þessi og þessi útgjaldaliður hækki um þetta og þetta mörg prósent, þá hefur fólk ekki nokkra minnstu hugmynd um það, hvort hér var um að ræða óumflýjanlegar hækkanir vegna aukins tilkostnaðar eða hvort hér var um að ræða einhverjar nýjar fjárveitingar eða ekki. Dæmið verður að takast á allt annan hátt heldur en hæstv. ráðh. gerði, ef hv. þm. eiga að fá nokkra mynd af því, sem hér er verið að tala um.

Vaxtahækkanir eru mikill útgjaldaauki í þessu frv., sem ekki er að undra vegna vaxandi skulda og um það er ekki að fást. Það er útgjaldaliður, sem verður að kyngja. En ég hafði dálítið gaman af því — og það er kannske vegna þess, að ég hafði þessa ágætu ræðu hæstv. ráðh. frá 1971 hjá mér, — hvað hann eyddi löngum tíma í það að tala um hálfa og heila starfsmenn, sem hefði verið aukið við hér og þar í ríkiskerfinu. Sums staðar voru ekki nema hálfir og þetta var allt svo lítið. Ég tala nú ekki um í fjmrn. Ég skal taka það skýrt fram, að ég öfunda hann ekkert af því og gagnrýni hann ekkert fyrir það, þó að hann bæti við starfsmönnum í fjmrn., ég tala nú ekki um hagsýslustofnun, eins og hann gat um. Mér er allt of annt um þá stofnun til þess og tel hana það gagnlega, sem ég mun síðar koma að, til þess að vera að sjá eftir því. En það var eins og hæstv. ráðh. fyndi eitthvað til þess, að hann kynni að hafa talað eitthvað um þetta áður og þá kannske eitthvað í öðrum dúr. Ég gæti lesið hérna úr ræðunni, sem ég hef, en ég ætla að sleppa því, um starfsmannaaukningu og útþenslu ríkisbáknsins, sérstaklega stjórnarráðsins. Nú eru það tvær stofnanir, sem þenjast alveg sérstaklega út í þessu frv., og hæstv. ráðh. vék mjög mikið að annarri þeirra, stjórnarráðinu, og taldi upp þessa hálfu og heilu starfsmenn. Þar hefur orðið veruleg þensla, og hæstv. ráðh. hafa ekki sparað það að taka sér aðstoðarráðherra og ýmislegt gott fólk, sem þeir hafa vafalaust leitt þarna sér til ráðuneytis, og skal ég síður en svo finna að því fólki og út af fyrir sig ekki finna að því, þó að hér hafi ekki farið fram stórfelldur niðurskurður, vegna þess að ég hef og fjmrh. á undan mér bent á það, að þetta eilífa tal um niðurskurð í ríkisbálkninu og um það, að stjórnarráðið megi ekki bæta við sig starfsliði, æðsta stjórn landsins megi ekki hafa nægilegt starfslið til að hafa eftirlit með ríkiskerfinu, þetta er frá mínum bæjardyrum ákaflega simpil leið til þess að ná til eyrna fólks og fá það til þess að halda, að eitthvað væri í ólagi og hér væri einhver spilling á ferðinni. En þess vegna verð ég að segja það, að ég sé ekki, að hæstv. ráðh. þurfi að vera svona óskaplega viðkvæmur, nema þá með hliðsjón af fyrri orðum, þó að það þurfi að bæta við fáeinum starfsmönnum við æðstu stjórn landsins, heldur þykir mér vænt um, að hann er þó búinn að átta sig á því og það er þó góður arfur, verð ég að segja, frá fyrrv. stjórn, skoðanaarfur, að þetta hafi allt verið óraunsætt tal, sem hann hafði hér áður í sínum ræðum, þegar hann var að óskapast yfir þessu. Ég held jafnvel, að hann hafi nokkrum sinnum talað um utanferðir og risnu líka, man ég eftir í gömlum ræðum. Ég held, að hann hafi ekki minnzt á þetta núna. En mér þætti gaman, ef hann benti á, hvar í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að spara til utanferða og risnu og mér þætti jafnvel gaman að vita, hvort hv. þm. hafa orðið mikið varir við það, síðan hæstv. ríkisstj. tók við völdum, að menn hafi forðazt utanferðir og úr veizluhöldum hafi mikið verið dregið. Þetta er heldur ekki stór útgjaldaliður og mér hefur alltaf fundizt þetta, þó að það sé sjálfsagt að hafa aðhald í þessum efnum, næsta hégómlegt í samanburði við öll útgjöld fjárl. að gera veður út af þessu. En þetta hefur nú verið gert á undanförnum árum, áður en þessi umbótastjórn alþýðunnar tók við völdum. Nú er þetta allt orðið harla gott og nytsamlegt. Þá veit maður líka það.

Þá koma nefndirnar. Það hefur verið gefin út bók um allar nefndirnar og hæstv. ráðh. var hræddur um, að vinstri stjórninni yrðu kenndar allar þessar nefndir. Nú held ég, að þetta sé allt of mikil viðkvæmni. Ég held, að það hafi engum dottið í hug. En kannske er hæstv. ríkisstj. orðin svo hrædd við, hvað hún er að gera, að hún heldur, að sér verði kennt um allt, sem miður fer í þjóðfélaginu. Hæstv. ráðh. hafði lagt í það mikla vinnu eða látið einhverja leggja í það mikla vinnu og það er kannske ekki vanþörf á að bæta við svona tveimur og hálfum manni til að reikna út, að vísu ekki í prósentum held ég, en í tölum, hvað nefndum hefði fjölgað. Það hafa verið skipaðar 50 nýjar nefndir eða a.m.k. 40 af ríkisstj., en ég held, að það séu 50, ef með eru taldar nefndir, sem hafa verið skipaðar samkv. ályktunum Alþ. með góðum vilja ríkisstj. Öðruvísi hafa mál ekki verið hér samþykkt, að mér sé kunnugt um. Hæstv. ráðh. sagði, að nettó væri þetta ekki nema 14 nefnda aukning, og þótti harla gott. Ég held, ef ég man rétt, — mér er kannske farið að förlast, — að hæstv. fjmrh. hafi talið það lítinn vanda hér áður fyrr að fækka nefndum og að draga úr öllu þessu nefndafargani, eins og hann stundum orðaði það, svo að ég hygg, að þetta verði ekki sérstaklega aðdáunarvert, þó að ríkisstj. hafi tekizt það mikla afrek að fjölga ekki nefndunum nema um 14, sem þá eru skipaðar af rn., eftir allt talið um nauðsyn þess að draga saman nefndabálkið.

Það gladdi mig að heyra það í ræðu hæstv. ráðh., að hann gerir ráð fyrir að leggja fyrir þetta Alþ. lög um fasteignamatsstofnun. Það mál hafði verið undirbúið í ríkisstj. og frv. gert að l. um það efni, þegar ég fór úr rn. Það skal játað, að við töldum nauðsynlegt að endurskoða það frv., en hér er um að ræða mikið nauðsynjamál, ef ekki á að fara forgörðum það merkilega verk, sem unnið hefur verið í fasteignamatinu á undanförnum árum og með því orðið gerbylting í þeim efnum. Ég vonast því til, að það verði orð að sönnu hjá hæstv. ráðh., að hann geti látið þeirri frv.- samningu miða það áfram, að hægt verði að leggja það fyrir þetta þing.

Þá ætla ég að koma að tekjuöfluninni, sem er nú einn geigvænlegasti þátturinn í allri þessari hörmungasögu hæstv. ríkisstj. Hæstv. ráðh. skýrði frá tekjum ársins í ár, sem eru aðallega tvíþættar, annars vegar tekjur af innflutningi og aðrar óbeinar tekjur og hins vegar tekjur af beinum sköttum. Og í fjárlagafrv. gerði hann grein fyrir því, að miðað væri við 10% aukna neyzu í landinu og 14% aukningu innfl. Við það væri tekjuáætlun fjárl. miðuð. Þetta þykir mér geigvænlegasti þáttur þessa máls, vegna þess að hér er um að ræða alvarlegustu drættina í myndinni af þjóðarbúskap okkar í dag. Við eigum að vísu gjaldeyrisvarasjóð, sem lítur myndarlega út enn í dag, um 5 þús. millj. kr., en hvernig er þessi gjaldeyrisvarasjóður byggður upp? Hann er byggður upp með stórkostlegri erlendum lántökum en áður hafa þekkzt. Framkvæmdastofnunin hefur látið frá sér fara skýrslu um þetta mál, sem útskýrir, hvað hér hefur verið að gerast og breytinguna, sem orðið hefur í þessu efni núna síðustu árin. Það var orðinn allríflegur gjaldeyrisvarasjóður, þegar ríkisstj. tók við, og menn hefur undrað það, hvernig stæði á því, að ekkert gengi á þennan sjóð miðað við þann óhemjuinnflutning, sem verið hefur. Viðskiptajöfnuðurinn við útlönd segir auðvitað sína sögu um það, hver hinn raunverulegi efnahagur þjóðarinnar er og hvað við höfum til ráðstöfunar. 1969 var viðskiptajöfnuður hagstæður um 361 millj. 1970 var hann hagstæður um 651 millj. En 1971 var hann óhagstæður um 3986 millj. Og það er gert ráð fyrir óhagstæðum viðskiptajöfnuði á árinu 1972 eftir bráðabirgðaáætlun um 4000 millj. Og það er gert ráð fyrir því, og á því byggist 14% aukning innflutnings, að um 4–6 þús. millj. greiðsluhalli verði einnig á árinu 1973. En hvernig í ósköpunum má þetta vera, að það skuli vera til gjaldeyrisvarasjóður, en samt svo ofboðslegur halli, að hann er á tveimur árum um 8 milljarðar? Það gerist eingöngu með stórkostlegum lántökum. Við lifum sem sagt um efni fram, en höldum áfram að taka lán, meðan við eigum lánstraust til. Það er eins og við í einkalifi okkar héldum áfram að lifa, eins og ég segi, langt um efni fram og vera flott menn og gerðum það með þeim hætti að reyna að slá lán hvar sem við gætum svo lengi sem það væri fært. En það er ekki endalaust fært. Og ef við skoðum það, þá sjáum við, að lántökurnar eða hinn svokallaði fjárhagsjöfnuður, sem gefur gleggsta mynd af því, að fjármagnsjöfnuðurinn hefur orðið 1437 millj. 1969, aðeins 273 millj. 1970, en 5358 millj. árið 1971 og það er gert ráð fyrir, ef auðið verður, bæði árið 1972 og 1973, að taka lán erlendis, og það er eitt helzta viðfangsefni fjármálasérfræðinga ríkisins og Seðlabankans að leita eftir lánum til þess að jafna þennan halla, borga eitt lán með öðru, svo að ekki þurfi að ganga í gjaldeyrisvarasjóðinn, sem annars mundi hverfa sem dögg fyrir sólu. Skuldir ríkisins segja líka til sín á þann veg, að gert er ráð fyrir því, að langtíma erlendar skuldir bæði opinberra og einkaaðila verði í árslok 1972 17 þús. millj. kr. Þær voru 14.4 milljarðar 1971 og 11 milljarðar í árslok 1970. Ef áfram heldur, þá er nokkurn veginn hægt að ímynda sér það, hvernig talan liti út í árslok 1973. Hin mikla tekjuöflun ríkissjóðs, sem allt þetta 20 milljarða apparat hæstv. fjmrh. hvílir á, þó að hann sleppi nú þeim 2–3 milljörðum, sem sjáanlega verður að taka inn í fjárlögin, það er lágmarkið, ef á að fleyta skútunni áfram og þá er það byggt á því, að við höldum áfram að lifa um efni fram, að við höldum áfram að búa við stórkostlegan, óhagstæðan greiðslujöfnuð, sem verði milli 4 og jafnvel 5 milljarðar á næsta ári. Þetta er nú búskapurinn og þetta er nú búskapur í lagi. Þessari mynd vék nú hæstv. ráðh. ekki að í máli sínu áðan, og ásaka ég hann ekki fyrir það, það er kannske mannlegt. En ég held, að við hljótum öll að sjá það, að ef við ætlum að búa með þessum hætti, þá sé uggvænlegt fram undan. Ég skal ekki eyða mörgum orðum að skattvísitölunni, aðeins þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann hefur nú fallizt á það sjónarmið, sem hann fordæmdi í fyrra, en sem við sjálfstæðismenn þá héldum fram, að eðlilegt væri að miða skattvísitölu við það, að það héldist, að skattarnir yrðu sama hlutfall af tekjum, því að það er gert ráð fyrir því í frv., að tekjur manna vaxi um 30%, svo að hér er ekki um neina sérstaka stórfellda ívilnun að ræða hjá hæstv. ráðh., enda gerir hann ráð fyrir 1300 millj. kr. aukningu í beinum sköttum, og auðvitað er nú ekki hægt að segja, að það stafi eingöngu af því, að það fjölgi skattgreiðendum eða fólki í landinu. Þetta hlýtur auðvitað að merkja það, sem er út af fyrir sig ekkert undarlegt, að miðað við 30% tekjuaukningu, þá auðvitað vaxa skattarnir engu að síður. En hins vegar stendur það auðvitað eftir, sem við bentum á í fyrra, að skattvísitalan þá var áætluð alveg óeðlilega lág og sem sýndi sig í þeim ósköpum, sem yfir þjóðina hafa gengið í sambandi við skattalög hæstv. ríkisstj.

Hæstv. ráðh. vék hér dálítið að skattal. Ég hélt nú satt að segja, að hann mundi bíða með það, þangað til hann leggur fram hin merkilegu brbl. sín, sem mun nú, að ég hygg, vera einsdæmi, að það þurfi að breyta skattal. eftir að skattar hafa verið álagðir, að menn hafi ekki hugsað málið betur, þegar þeir lögðu skattana á, en það frv. út af fyrir sig, — sem ber að þakka, að hæstv. ráðh. skyldi átta sig á villu síns vegar, — það stafaði auðvitað eingöngu af því, að það var flumbrað með skattálagabreytingarnar s.l. vetur. Og það eru auðvitað engin rök að reyna að halda því fram, hvort sem það var þá eða nú, að það hafi verið óumflýjanlegt að breyta þessum lögum og það hafi verið svo óumflýanlegt, að þetta yrði í vissu formi, að það hafi ekki einu sinni mátt hlusta á ábendingar, sem fram komu. Hæstv. ráðh. getur hér ekkert afsakað sig, vegna þess að það komu beinlínis fram till. hér í þinginu, þar sem var lögð áherzla á, að þetta mundi hafa þessi áhrif fyrir gamla fólkið, þó að við sleppum nú öðrum. En á það var ekki hlustað. Það var formfest. En síðan, þá reynist nauðsynlegt að setja um þetta brbl. á miðju sumri, þegar verður slík ólga út af skattal., að slíkt mun einsdæmi hérlendis. Og hæst töluðu þeir, sem ríkisstj. taldi sig þó vera mestan málsvara fyrir og hæstv. ráðh. ætlaði alveg sérstaklega að gera gott. Ég held, að það hafi verið minnst kvartað af þeim, sem hann sagði, að hefði verið alveg þjóðarnauðsyn að breyta skattal. til að ná til, en það voru félögin, sem hann sagði, að ég hefði ætlað að gera skattfrjáls. Ég held, að þau hafi ekki kvartað svo mikið, a.m.k. var það lítið samanborið við gamla fólkið og raunar hinn almenna skattgreiðanda, sem nú fær umslögin sín tóm heim, allan þorra af fólkinu, sem fær nokkrar kr. í umslaginu á hverjum föstudegi eða um hver mánaðarmót, Auðvitað var skattahækkunin á s.l. ári óhæfileg, og þó að það hafi verið góðra gjalda vert að afnema nefskatta, þá í fyrsta lagi kom það að engu leyti til góða hinum eldri borgurum í þjóðfélaginu, þeir borga ekki nefskatta. Og í öðru lagi kom þetta niður á hinum almenna launþega að því leyti til, að hér var nú ríkissjóður líka að reyna að ná til sín aftur svolitlum gróða með því að spara allt að 4% í kaupgjaldsvísitölu, þannig að þetta var nú ekki allt af eintómum gæðum gert, að þetta þótti óumflýjanlegt. Það var varað við því þá af hálfu okkar sjálfstæðismanna að flumbra ekki að breytingu á skattal. Það var búið að koma í gang heildarendurskoðun skattkerfisins með ákveðnum hætti, og ég tel það ekki vera til neinna bóta, að hæstv. ráðh. hefur breytt þeirri nefndaskipun, sem áður hafði verið ákveðin í þessu efni. Ég tek fram, að ég treysti fullkomlega þeim mönnum, sem að þessu vinna núna og fagna því sérstaklega, að hann hefur verið valið sem forstöðumann þar þann mann, sem var áður formaður í fyrri skattalaganefnd. En ég held, að það sé heilbrigt að reyna að vinna að þessari skattalöggjöf á þann hátt að draga inn í þetta mál fulltrúa frá helztu hagsmunasamtökum, launþegum, vinnuveitendum og bændum auk sveitarfélaganna að sjálfsögðu, eins og gert var í þeirri nefndaskipun, sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. var búin að ákveða og raunar var þegar að fara í gang til að vinna að heildarendurskoðun í framhaldi af þeirra endurskoðun, sem gerð hafði verið þá áður og lögin, sem afnumin voru nú með síðustu skattalögum, voru afleiðing af. Ég held því, — þó að ég voni, — að margt gott komi út úr starfi þessarar n., þá sé það ekki til bóta að breyta þeim vinnubrögðum, sem áður voru ákveðin í því efni og ég spyr nú einnig: Voru ekki tvær n., sem störfuðu að þessu á s.l. ári, þannig að hvor n. á að starfa áfram? Ég held, að önnur hafi verið að fást við tekjustofna sveitarfélaga, en hin tekjustofna ríkisins. Það er kannske smámál. Manni skilst, að í rauninni hafi höfuðnauðsynin til þessarar lagabreytingar í fyrra, sem hefur leitt af sér alla þessa skattpíningu verið sú, að koma í veg fyrir, að gildi tækju skattalög, sem áttu að taka gildi um síðustu áramót og sem rétt er, að þó að þau hefðu að geyma mikilvæg fríðindi fyrir almenning, m.a. fyrir gamla fólkið, sem felld voru úr gildi með lögum hæstv. núv. ríkisstj., þá voru þau lög fyrst og fremst samin til þess að stuðla að aukinni eigin fjármyndun í atvinnurekstri landsmanna til þess að gera íslenzkan atvinnurekstur samkeppnishæfan við atvinnurekstur í öðrum EFTA-löndum í samræmi við samkomulag, sem var búið að gera um það efni, þegar við gengum í EFTA, að það séu eingöngu auðmenn og aðrir, sem eiga hlutafé, það væri allt of langt mál að fara út í það hér. Það er auðvitað alger fásinna. Og það þykir í hverju einasta þjóðfélagi eðlilegt og sjálfsagt að stuðla að því, að menn vilji eiga hlutafé í fyrirtækjum. Og það vill nú svo til síðustu árin, sem sennilega allir hv. þm. þekkja, að víðs vegar um landið hafa verið stofnuð almenningshlutafélög með þátttöku mikils fjölda fólks, sem hefur lagt fram fé sitt, oft með mikilli áhættu og lítilli von um endurgreiðslu til þess að koma þar upp atvinnufyrirtækjum til að tryggja atvinnu á viðkomandi stöðum. Ég held, að þetta séu engir auðmenn, sem hér eiga hlut að máli. Og ég held, að það sé hægt að ná til auðmannanna með allt öðrum hætti heldur en eyðileggja þennan möguleika, sem þarna var um að ræða, og eyðileggja um leið þá meginreglu, að íslenzkur atvinnurekstur eigi að vera jafnsettur og atvinnurekstur samkeppnisþjóðanna; það mátti vissulega gera með allt öðrum hætti. Það var m.a. í þessum lögum, sem hæstv. fjmrh. vildi koma fyrir kattarnef, sett ákvæði til þess að tryggja það, — sem ekki er í dag og sem hann einnig afnumdi, — að ekki væri hægt að draga fé út úr atvinnurekstrinum nema þá með æði miklum viðurlögum. En það er einmitt einn stórkostlegur galli í íslenzkum atvinnurekstri og íslenzkum atvinnufyrirtækjum, sem mörg eru smá, að þar er ruglað saman allt of mikið efnahag félaganna og eigenda, og þessu þarf vitanlega að breyta eins og var gert ráð fyrir. Og ég sé, að hæstv. ráðh. skilur í rauninni ekki hugtakið fyrningar, ef hann heldur það, að flýtifyrningar leiði til þess, að þá fengju menn miklu meira en ella í heildina talað. Þeir fyrna fyrr, en þeir fyrna ekkert meira en hægt er að fyrna, hvor aðferðin sem höfð er. Og ég skýt því nú hér aðeins fram til hugleiðingar fyrir hæstv. iðnrh., að ef hann ætlar nú að koma á þessari stórkostlegu iðnbyltingu, sem hann talar um, þó að það sé nú víst vafasamt um höfundaréttin að henni, — en ef hún á að komast á, þá lízt mér ekki á, ef ekki á að búa betur að atvinnurekstrinum skattalega heldur en nú er gert og ef á sérstaklega að láta ráða það hugarfar, sem virðist vera ráðandi hjá hæstv. fjmrh., að það eigi að ná sér sem mest niðri á atvinnurekstrinum. Ég held, að hann ætti að tala við vini sína uppi í SÍS til þess að vita, hvort þeir eru sérstaklega hrifnir af þessari stefnu og fletta upp í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra Kaupfélags Eyfirðinga og sjá, hvað þeir álíta um afleiðingar þeirrar stjórnarstefnu, sem hæstv. ríkisstj. nú fylgir, hvort það séu ekki lofsyrði, sem hann vildi þá prenta næst í Tímann. Ég held, að hún hafi ekki verið prentuð þar. Nei, það bar enga þörf til þess, og var miður, verð ég að segja. Mig furðar á því með mann eins og hæstv. núv. fjmrh., sem ég hef talið miklu gætnari mann en svo, hve hér er farið að með miklu gáleysi í sambandi við skattalög. Það var verið að fikta við löggjöf, sem er allt of flókin og margþætt til þess að hlaupa megi til á nokkrum vikum og heimta af mönnum till. um mál, sem alls ekki er möguleiki á svo stuttum tíma að gera sér til hlítar grein fyrir hvernig muni verka.

Ég tek undir með hæstv. ráðh., að æskilegt er, að skattaeftirlitið verði eflt sem mest og fagna ég því og minni á, að það er nú einn arfurinn, — ég man ekki, hvort hann minnti sérstaklega á það, — frá fyrrv. ríkisstj., að skatteftirlitinu var þá komið á. Og það er vissulega rétt hjá honum, að það ber að stuðla að því, að menn greiði sína tíund skilvíslega, og það er ein mesta ástæðan fyrir óánægju fólks með skatta, ef mismunur á sér stað vegna grunsemda um skattsvik, þannig að hann skal vissulega hafa allan stuðning varðandi það að efla þessa deild.

Varðandi hagsýslustofnunina, þá vil ég einnig taka undir allt það ágæta, sem hann sagði um þá stofnun og fagna því mati, sem hann hefur á gildi hennar. Hún er einn arfahluturinn, sem féll til hæstv. ráðh. úr búi fráfarandi stjórnar, sem kom á fót þessari stofnun til þess að vinna skipulega bæði að samningu fjárl. og að hagstjórnar- og hagsýslumálum og sparnaðarmálum. Öll þau mál, sem hann tiltók í því efni, að væri verið að vinna að, eru einnig arfur, vegna þess að það var hafin athugun allra þeirra mála, þegar hæstv. ráðh. tók við í ríkisstj. og ég fagna því, að því skuli haldið áfram. Ég efast heldur ekkert um góðan vilja hans til þess að stuðla að því, að áfram verði haldið á þeirri braut og tek undir það, sem hann sagði, að það er ekki hægt að vinna að hagsýslumálum og endurskipulagningu í ríkiskerfinu nema með kerfisbundnu starfi. Og ég fagna því mjög, að hann er nú kominn á þá skoðun.

Ræða mín er nú orðin harla löng, og skal ég því ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég hef vakið athygli á því, að hæstv. ríkisstj. hafi tekið við góðu þjóðarbúi. Hún tók vil hallalausum ríkisrekstri og reyndar drjúgum tekjuafgangi. Hún tók við stórum verðjöfnunarsjóði fyrir sjávarútveginn, hún tók við gildum varasjóði, sem ekki hafði verið myndaður með þeim hætti að jafna aðeins hallarekstur upp með erlendum lántökum, þó að þær hafi að vísu verið allmiklar. Og hún tók við verðstöðvun, sem hún hefði vissulega getað hagnýtt sér til góðs, ef hún hefði haft til þess það framtak og þann manndóm, sem þurfti og viljað horfast í augu við vandamálin af raunsæi. því miður valdi hún þann kostinn að gera það ekki. Hún setti upp prógramm, þar sem öllum var lofað öllu, og þetta þurfti allt að gerast í hvelli. Þess vegna þurfti að ausa úr ríkissjóði hundruðum millj. umfram það, sem þar var til. Þess vegna þurfti að framkvæma tafarlausar kaupgjaldshækkanir og ýmsan kostnaðarauka fyrir atvinnulífið í landinu, án þess að gera sér grein fyrir því, hvort gjaldþolværi hér fyrir hendi eða ekki, og þess vegna var þessi góði arfur gerður að engu. Og nú stendur ríkisstj. andspænis sínum eigin verkum, hvernig hún á að mæta eyðslustefnunni, útþenslustefnunni, hinni geysilegu útgjaldaaukningu ríkissjóðs, hinum geysilega tilkostnaðarauka atvinnuveganna, sem staðfest var á s.l. vetri í sambandi við umr. um verðstöðvunarl. þá við verkalýðssamtökin. Það stafaði fyrst og fremst að þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hafði gert á ýmsum sviðum. Gagnvart þessum vanda stendur hæstv. núv. ríkisstj. í dag, og það tjóar ekki neitt fyrir hæstv. ráðh., þó að hann hafi í lok ræðu sinnar hvesst sig nokkuð og sagt, að efnahagsvandinn, sem við stæðum nú andspænis, væri arfur — að sjálfsögðu, — sem ríkisstj. nú þyrfti að fást við. Það er ekki arfur. Það er ill meðferð á arfi, sem hér kemur til. Það eru slæmir erfingjar, sem komust í búið og hafa sólundað því. Og þess vegna er svo komið, sem nú blasir við í dag og sem hæstv. ráðh., — ekki eingöngu fjmrh., hann er ekki sekastur manna um það, heldur ríkisstj. í heild, — verða nú að horfast í augu við. Það var nánast dálítið broslegt, þegar hæstv. ráðh. fór að fordæma fyrrv. ríkisstj. fyrir niðurgreiðslur, en áttaði sig svo skyndilega á því, að niðurgreiðslurnar hafa verið stórauknar hjá núv. ríkisstj., þannig að hann skaut því þó inn í lokin, að því miður hefði nú orðið að grípa til niðurgreiðslna aftur, svo að ég skildi nú ekki, hvað þetta dæmi átti að þýða. Ég er honum alveg sammála um það, að niðurgreiðslur í heild eru vandræðatilhögun. En við skulum nú alveg sleppa að tala um arf í þeim efnum. Niðurgreiðslur hafa verið notaðar af öllum ríkisstj. sem þáttur í viðureign við efnahagsvandræði og hvort þær eru góðar eða slæmar eða ekki, það fer eftir atvikum, það fer eftir, hvaða tilgangi tekst að ná með þeim. En staðreynd málsins er sú, að hæstv. ríkisstj. leggur hér fram fjárlagafrv. Það er myndlaus rammi. Hvenær sú mynd verður okkur sýnd, sem á að festast í þennan ramma, það hefur enginn hugmynd um, víst ekki hæstv. ríkisstj. sjálf. Sérfræðingar vinna nú baki brotnu að því að reyna að lagfæra það, sem ríkisstj. með brjóstviti sínu eyðilagði og reyna að finna úrræði til þess að leysa ríkisstj. niður úr þeim gálga, sem hún hefur hengt sig upp í. Og ég vona, að þeir komist allir lifandi til jarðar, ég er nú ekki það illgjarn, og ekki sízt vonast ég til þess vegna þjóðarinnar í heild. En við skulum sameiginlega gera okkur fulla grein fyrir því og alveg sleppa öllu hnútukasti í sambandi við það, að við stöndum andspænis stórkostlegum vanda. Við getum eytt hér tímanum til þess að fjalla um það dögum saman, hver eigi mesta sök á þeim vanda, en þetta er stórfelldur vandi, sem verður að leysa, vandi, sem sérhver ríkisstj., sem ætlar sér að sitja að völdum, verður á hverjum tíma að hafa forustu um að leysa. Og þar tjóar ekkert að smeygja sér undan, nema með þeim eina hætti að segja af sér og viðurkenna, að ekki sé hægt að leysa vandann. Það er út af fyrir sig það, sem forsvarsmaður og foringi vinstri stjórnarinnar sálugu hafði manndóm til að gera á sínum tíma. Þegar hann gat ekki leyst vandann, þá sagði hann af sér, og aðrir þurftu að taka við að leysa hann. Hvort slíkt gerist núna, skal ég engu spá um, en það væri vissulega manndómur út af fyrir sig. Hvort núv. ríkisstj. á þann manndóm til eða ekki, veit ég heldur ekki. En staðreynd málsins er sú, að fjárlagafrv., sem við hér erum að ræða, erum við að ræða meir af skyldurækni heldur en það, að við höfum í rauninni nokkurn grundvöll til þess að fjalla um vandamál þjóðarinnar á raunhæfan hátt, vegna þess að frv. leggur engan grundvöll að slíkum alvöruumr., ef svo má segja. Við verðum þess vegna að bíða og sjá, hvað hæstv. ríkisstj. kann að sýna okkur á sínum tíma sem till. sínar í þeim mikla vanda, sem þjóðin óneitanlega kemur til með að standa andspænis um næstu áramót. Hvort eitthvert kraftaverk gerist þá, sem hæstv. ríkisstj. virðist helzt búast við, — því að allt er miðað við áramót, það skal ég ekki um segja, en ég er nú ekki það trúaður á kraftaverk, að þó að ég viti, að þau geti gerzt, en að það gerist með þeim hætti, sem virðist helzt stefnt að hjá hæstv. ríkisstj., án þess að þar þurfi neitt höndum til að taka, það held ég, að gerist ekki, en það kann að vera, að það sé hægt og ég vona það og reyndar veit það, að á öllum vanda er einhver lausn og við skulum vona, að hann verði fundinn með þeim hætti, sem geti orðið þjóðinni til sem mestrar blessunar og stuðli að þeim framförum í þjóðfélaginu, sem ég veit, að við erum öll sammála um, að vilja viðhalda og efla svo sem bezt verður á kosið.