12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

286. mál, úrbætur í heilbrigðismálum í Ólafsfirði og Norður-Þingeyjarsýslu

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr í fyrsta lagi, hvað gert hafi verið til að fá lækni til Ólafsfjarðar í vetur og hvort líklegt sé, að læknir fáist þangað, og þá hvenær. Eins og hv. þm. munu vita, hefur ekki verið fastur læknir í Ólafsfirði síðan síðsumars 1971, en 5 læknar úr Reykjavík hafa gengt héraðinu um 6–7 mánaða skeið á þessu tímabili. Héraðslæknirinn á Dalvík hefur veitt bráðaþjónustu og yfirleitt farið þangað einu sinni í viku. Nú í haust hefur yfirlæknir á skurðdeild Akureyrarsjúkrahúss, Gauti Arnórsson, tekið að sér að fara þangað einu sinni til tvisvar í viku. Frá og með 1. des. gegna læknar úr Reykjavík héraðinu fram eftir vetri, og er Guðjón Guðnason yfirlæknir á Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar nú starfandi í Ólafsfirði og mun verða þar til áramóta. Arinbjörn Kolbeinsson tekur síðan við af honum og eins og ég sagði, geri ég mér vonir um, að læknar taki þar við einn af öðrum fram eftir vetri.

2. spurningin er, hvað gert hafi verið til að bæta heilbrigðisþjónustu í Norður-Þingeyjarsýslu. Um það er það að segja, að læknisþjónusta í Norður-Þingeyjarsýslu er þrátt fyrir allt betri nú en hún hefur verið undanfarin ár. Á Þórshöfn er settur læknir síðan 1. okt. í haust, Úlfur Ragnarsson, er áður var starfandi læknir í Reykjavík, en kom beint í Þórshafnarhérað úr framhaldsnámi í Danmörku. Úlfur gegnir einnig Raufarhafnarhéraði. En áður en hann fór til útlanda, hafði hann gegnt Vopnafjarðarhéraði um tíma. Það er von heilbrigðisstjórnarinnar, að Úlfur verði um kyrrt í héraðinu.

3. spurningin er, hvort reynt hafi verið að fá lækni til Kópaskers eða Raufarhafnar yfir vetrarmánuðina. Um það atriði, sem varðar Raufarhöfn, hef ég þegar rætt, en þess er ógetið, að þar er ráðinn héraðshjúkrunarkona á staðnum og á staðnum er einnig lyfjaútsala frá lyfsalanum á Húsavík. Hvað viðvíkur Kópaskeri, þá hefur ekki fengizt læknir til búsetu þar alllengi, en settur héraðslæknir í Kópaskershéraði situr í Húsavík, eins og áður og raunar um Raufarhafnarlækni. Á Húsavík situr einnig settur héraðslæknir í Breiðamýrarhéraði, svo að við læknamiðstöð í Húsavík eru nú 3 héraðslæknar. Auk þess má geta þess, að héraðslæknir situr í Vopnafirði, svo að eins og áður er sagt, er heilbrigðisþjónustan á norðaustursvæðinu skárri nú í vetur en hún hefur verið um alllangt tímabil.

Úr því að farið er að ræða um þjónustu í dreifbýli, vil ég vegna annarra þm. greina nokkuð frá ástandi læknisþjónustu í öðrum héruðum. Héraðslæknar eru nú skipaðir í 28 héruð, en settir héraðslæknar í 13. Auk þess eru héraðslæknar settir í 4 héruð í viðbót, en sitja í nágrannahéraði, þ.e.a.s. í Suðureyrarhéraði á Ísafirði, í Hofsóshéraði á Sauðárkróki og í Breiðumýrar- og Kópaskershéraði á Húsavík, eins og ég sagði áðan. Auk þess eru í Neshéraði tveir læknar, en enginn héraðslæknir, en kvartanir hafa ekki borizt um lélega þjónustu þar um árabil, enda þótt þetta ástand hafi varað svo lengi.

Um önnur þeirra héraða, sem verst hefur gengið að fá lækna til að gegna undanfarin ár, er þetta að segja: Enginn læknir er nú í Reykhólahéraði, en Búðardalslæknir gegnir héraðinu. Enginn læknir er í Flateyrarhéraði, en því er gegnt af Þingeyrarhéraðslækni, og verður sú skipun a.m.k. til jóla. Það var læknislaust á Þingeyri 2 vikur í nóv. Eins og áður er Suður eyrarhéraði og Súðavíkurhéraði gegnt af læknum á Ísafirði, en læknir situr nú í Bolungarvík. Erfiðlega hefur gengið að fá héraðslækni til Hólmavíkur, og er þar nú læknastúdent um skamman tíma, en allt bendir til þess, að íslenzkur læknir, sem dvalizt hefur í Svíþjóð að undanförnu, muni fást þangað til starfa fljótlega og dveljast þar um skeið. Læknirinn á Hólmavík gegnir einnig Djúpavíkurhéraði. Á Eskifirði er læknir frá Vífilsstöðum til jóla, en eftir það er gert ráð fyrir, að læknir fari þangað til lengri dvalar. Fáskrúðsfjarðarhéraði er nú gegnt af lækni frá Eskifirði um tíma vegna veikinda.

Á það er vert að minna, að á þessum vetri eru 4 héraðslæknar í löngum fríum, þ.e.a.s. héraðslæknirinn á Siglufirði, Sigurður Sigurðsson, héraðslæknirinn í Vík, Vigfús Magnússon, héraðslæknirinn á Selfossi, Brynleifur Steingrímsson, og héraðslæknirinn í Vestmannaeyjum, Örn Bjarnason. Allir þessir læknar eru í námsleyfum, og er gert ráð fyrir, að þeir komi allir til starfa að nýju í héraði. Erfiðlega hefur gengið að fá fasta lækna vegna afleysinga þessara lækna. Á Siglufirði eru læknastúdentar sjúkrahúslækni til aðstoðar í héraðinu, en læknar af Kleppi hafa gengt læknisstörfum í Vík í Mýrdal og læknar úr Reykjavík hafa hlaupið undir bagga á Selfossi, en sjúkrahúslæknirinn er settur héraðslæknir. Um þetta vandamál væri ástæða til þess að ræða allmikið í ítarlegu máli, því að hér er um að ræða mál, sem brennur mjög þungt bæði á heilbrigðísstjórninni og almenningi um allt land. Því miður er nú enginn tími til þess í sambandi við fsp. Ég ræddi þessi mál ítarlega hér í fyrra og gerði grein fyrir þeim hugmyndum, sem ég hefði um framtíðarskipulag þessarar þjónustu, en þó að menn finni þar skynsamlegt skipulag, mun að sjálfsögðu taka langan tíma að koma því í framkvæmd.

En mig langar að fara örfáum orðum um aðgerðir til skjótra úrbóta á læknisþjónustunni, sem binda má nokkrar vonir við. Í læknadeild hefur fjölgað verulega hin síðustu ár. Undanfarin 10 ár hafa útskrifazt að meðaltall 20 læknar á ári, og eins og ég hef áður lagt áherzlu á hér á þingi, tel ég, að þar hafi verið um allt of lága tölu að ræða og mjög óeðlilega takmörkun. Árgangarnir munu hins vegar stækka verulega næstu árin, svo að árið 1974 má búast við 40–50 nýjum, útskrifuðum læknum. Nýlega hefur komið til framkvæmda reglugerð sú, sem sett var í samræmi við lög frá síðasta þingi og olli þá nokkrum umr. hér í þinginu. Einn liður þeirra laga heimilaði styrkveitingu allt að 200 þús. kr. á ári til læknastúdenta með því skilyrði, að styrkþegar gegndu ársþjónustu í héraði að námi loknu. Ýmsir urðu til þess að draga í efa, að hér væri um að ræða raunhæfa till., en raunin varð þó sú, að 27 stúdentar sóttu um slíkan styrk, og fyrstu 10 styrkirnir voru veittir í haust. Næsta veiting fer fram fljótlega eftir áramót. Í lögunum frá siðasta þingi fólst einnig heimild til að stofna 6 eins árs aðstoðarlæknisstöður við ríkisspítalana, sem væru bundnar skilyrðum um þjónustu í héraði allt að 6 mánuðum á tímabilinu. Þessar till. eru enn í athugun hjá Læknafélagi Íslands. Samkv. þessum sömu lögum var heimilað að ráða fleiri en 6 héraðshjúkrunarkonur, og á þessu ári hefur verið veitt heimíld til þess að ráða alls 18 héraðshjúkrunarkonur, og fleiri beiðnir hafa borizt frá sveitarstjórnum. Þá hefur starfsaðstaða lækna þegar batnað verulega, og í frv. til l. um heilbrigðisþjónustu, sem ég vona, að verði afgreitt á þessu þingi, þótt það sé ekki enn komið fram, er gert ráð fyrir stórbættri aðstöðu héraðslækna, þ. á m. aðstoð hjúkrunarkvenna, meinatækna og annars starfsliðs. Þá er einnig ráðgert, að stofnaður verði kennslustóll í heimilislækningum á næstunni, og má gera ráð fyrir, að almennum lækningum verði með því gert hærra undir höfði.

Af þessu sést, að verið er að gera allveruleg átök til að reyna að bæta læknisþjónustuna með sem styztum aðdraganda. Margar nágrannaþjóðir okkar hafa reist heilsugæzlustöðvar og hafið kennslu í heimilislækningum. Könnun á því, hversu þessi ráð hafa dugað, bendir ekki til, að skjótra úrlausna sé að vænta varðandi læknisþjónustu í dreifbýli, enda líður sjálfsagt langur tími, áður en skipulagsbreytingar, sem hér hefur verið minnzt á, bera ávöxt. Víða hafa komið fram till. um róttækari og skjótvirkari aðgerðir, en þær eru að samtvinna meira en verið hefur læknisþjónustu innan og utan sjúkrahúsa. Víða, t.d. í Englandi, hefur verið farið inn á þá braut að gefa heilsugæzlulæknum kost á ráðningu við sjúkrahús og sjúkrahúslæknum jafnframt kost á því að starfa við heilsugæzlustöðvar. Þessi ráðstöfun hefur haft í för með sér, að auðveldar gengur að manna heilsugæzlustöðvar en áður. Einangrun almennra lækna frá sjúkrahúsum hefur að margra áliti í för með sér minni viðhaldsmenntun og hættara er á faglegri stöðnun. E.t.v. er þetta aðalástæðan til þess, að erfitt er að fá unga lækna til að starfa sem almennir læknar. Auk þess má geta þess í sambandi við aðstæður á Íslandi, að naumast má búast við því, að almennir læknar flykkist út á land, meðan mjög verulegur skortur er á almennum læknum einnig á Reykjavíkursvæðinu.

Þær ráðstafanir, sem að mínu áliti gagna helzt til skjótra úrlausna, eru í fyrsta lagi meiri samvinna milli sjúkrahúsa og almennra lækna en verið hefur og að stóru sjúkrahúsin, sem mörg eru allvel mönnuð, sendi menn út á landsbyggðina, eins og unnið hefur verið skipulega að nú í rúmt ár, í öðru lagi aukin menntun og fjölgun ýmissa heilbrigðisstétta og svo í þriðja lagi nauðsynin á fjölgun lækna.