12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

286. mál, úrbætur í heilbrigðismálum í Ólafsfirði og Norður-Þingeyjarsýslu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langaði aðeins til þess að vekja athygli á því, að þrátt fyrir mikla viðleitni til að bjarga í þessu stóra vandamáli, þá er það svo, að það er ósköp svipaður fjöldi læknishéraða án fastráðins læknis nú og hefur verið undanfarin ár. Þetta er mikið alvörumál. Þau héruð, sem eru án læknisþjónustu nú, eru flest fámenn, en þjóðinni mikil nauðsyn, að haldið sé við byggð þar. Það er vegna þess, að á flestum þessara staða fer fram mikil fiskvinnsla, þetta eru sjávarútvegshéruð, og það er mikil hætta á því, ef ekki verður úr bætt hið skjótasta, að þá flykkist fólkið burt frá þessum stöðum í enn ríkara mæli en verið hefur. Ólafsfjörður er þarna undantekning. Það er gott hérað og mannmargt, og eru þess vegna allar líkur á, að þar leysist vandinn á næstunni. Ég vil vekja sérstaka athygli á, að álit mitt er það, að í þessum litlu héruðum sé alls ekki búið að læknum sem skyldi. Og það er í raun og veru vonlaust að ætla sér að fá menn til að setjast að í þessum fámennu héruðum, ef ekki verður gerbreyting á aðhúð þeirra og aðstöðu. Þetta held ég, að sé einmitt verkefni til að vinna að núna, meðan verið er að finna möguleika á því að fá þangað lækna. Vandamálið er það, að okkur vantar um það bil 10 menn til viðbótar, þá yrði þetta nokkurn veginn í sæmilegu lagi. Því held ég, að ef gerð væri gagnskör að því að gefa rn. nokkurn veginn sjálfdæmi um þá aðbúð og þau kjör, sem menn fengju fyrir að vera þarna a.m.k. 2–3 ár, þá mundi kannske verða auðveldara um vik en ella.