12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

286. mál, úrbætur í heilbrigðismálum í Ólafsfirði og Norður-Þingeyjarsýslu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Út af þeirri fsp., sem hér er á dagskrá, hefur hæstv. heilbrmrh. farið nokkuð inn á þau vandamál, sem við er að etja í heild varðandi læknamál strjálbýlisins, og rakið nokkuð þær úrbætur, sem hann telur, að helzt þurfi að gera, til þess að þarna verði ráðin bót á. Í máli ráðh. virtist mér, að ekki kæmi fram það, sem ég tel kannske hvað mestu skipta í þessu sambandi, en það er að gæta þess, að uppbygging sjúkrahúsa og starfsaðstaða lækna úti um land verði ekki á eftir í þróuninni í þessum efnum. Ég tel, að það sé tímabært, úr því að þessi mál koma á dagskrá, að láta það koma hér fram, vegna þess að fyrir dyrum stendur afgreiðsla fjárlaga, að þess verði að gæta, að fjárveitingar til sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva úti á landi verði ekki skornar svo niður, að til vandræða horfi og það beinlínis leiði til þess, að læknar og hjúkrunarfólk sjái sér ekki fært annað en hverfa frá þessum stöðum. Þetta er kannske það alvarlegasta, sem við er að etja, og þetta er málefni, sem er nú á dagskrá og verður á dagskrá næstu daga við afgreiðslu fjárlaga.