12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

99. mál, framkvæmd leyfisveitinga og annarra veiðitakmarkana í sjávarútvegi

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. greinargóð svör. Þar kom greinilega fram það, sem ég var fyrst og fremst að sækjast eftir, að farið er nánast sagt undantekningalaust eftir till. og umsögnum fiskifræðinga. Þetta sýnist mér, að nauðsynlegt sé að liggi fyrir, þannig að allir geri sér grein fyrir þessari staðreynd.

En hitt er annað mál, að ýmsar þær upplýsingar, sem komu fram hjá hæstv. ráðh., gefa ástæður til vangaveltu, sem er ekki tími til hér, eins og t.d. hvernig eigi að takmarka þessar veiðar, þannig að árangursríkast sé. Ber að takmarka þær eingöngu við ákveðið heildarmagn eða jafnframt við veiði í mánuði hverjum eða dagveiði o.s.frv.? Þarna eru ýmsar leiðir, sem geta haft mikil áhrif í framkvæmd á afkomu byggðarlaga og einstaklinga, og sýnist mér full ástæða til að skoða það allt mjög vandlega og veit raunar, að það er gert á vegum rn. Svarið gefur einnig ástæðu til hugleiðinga um það, hvort nægilegt samræmi sé á milli slíkra takmarkana og ýmiss konar fjárfestingar á sviði sjávarútvegsins á þeim sviðum, þar sem leyfisveitingar eru við hafðar. T.d. var mjög mikil fjárfesting í vélakosti og öðrum aðbúnaði í sambandi við skelfiskveiðar á Breiðafirði. Við getum nefnt fleiri slík dæmi, þar sem lánað hefur verið úr opinberum sjóðum til slíkra framkvæmda, og virðist ekki, a.m.k. í fljótu bragði, að þar hafi verið um eðlilega samræmingu að ræða. En þetta er annað mál, en þó mál, sem mér virðist, að mætti athuga, þó að í annað skipti sé.