23.10.1972
Sameinað þing: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1973

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér datt nú í hug undir hinni mjög svo löngu og margþættu ræðu hæstv. fjmrh. gömul saga, sem maður heyrði um Gyðinginn og vaxtavandamál hans, en hann vildi náttúrlega hafa nokkuð út úr sínu fé, eins og við flestir viljum og tók af því 9% rentur, segir sagan. Konunni hans líkaði þetta ekki alls kostar vel og sagði: „Góði minn, sérðu ekki, að þetta er fullhátt“. „Hafðu ekki áhyggjur af því. Þegar guð lítur á töluna, þá er hún 6.“ Þannig virtist mér mismunandi aðstaða koma fram, þegar hæstv. fjmrh. var að bera saman hækkun á milli ára og finna út, að hækkunin 2 s.l. ár hefði verið mjög lítil. Engu að síður sýna fjárlögin, að hreyfingin er um 9 milljarðar ísl. kr. á þessum tveimur árum og er það allnokkuð, úr um 11 milljörðum 1971 upp í um 20 núna. Hvað sem menn vilja kalla þetta í hlutföllum, þá er þetta gífurleg hækkun í krónutölu og ber vott um, að það er verðþensla í landinu og raunverulega verðbólga. Einhvern tíma hefði nú verið sagt, að hér væri um óðaverðbólgu að ræða. Forsendurnar fyrir fjárlagafrv. 1972 eða fyrir yfirstandandi ár voru á þá leið, að það yrði að draga mjög alvarlega úr verðbólgunni, það yrði að lækka útgjöld, svo sem frekast mætti vera, til þess að koma í veg fyrir spennuna, sem ríkti svo víða. Þetta hefur verið ítrekað hér af hálfu hæstv. forsrh. oftar en einu sinni í ræðu. En í fjárl. fyrir árið 1972 sagði orðrétt, — með leyfi forseta:

„Enda þótt útgjöld þessa fjárlagafrv. hækki verulega frá síðustu fjárl., skal það tekið fram, að mjög fast var haldið á því, að aukin útgjöld vegna útþenslu ættu sér ekki stað í ríkiskerfinu, nema þar sem brýna nauðsyn bar til að halda eðlilegri þjónustu og starfsháttum.“

Sem sagt, þrátt fyrir alla viðleitni, að því er sagt er, er nauðsyn á að hækka þetta svona gífurlega. Stjórnarsinnar hafa sagt það, að við býsnuðumst mjög yfir framkvæmdagleði hæstv. ríkisstj. og litum nokkrum öfundaraugum á þá miklu athafnasemi, sem henni fylgdi. Það getur vel verið, að þetta sé rétt hjá hv. þm. En hvað fylgir í kjölfarið? Það er það, sem skiptir meginmáli. Formaður Alþb. sagði í sjónvarpinu í kvöld, og datt mér í hug að koma nánar að því hér síðar, að vandinn væri mjög svipaður og áður, en þó væru viða til gróðapyttir. Hæstv. iðnrh. er ekki hér staddur, en þeir verða varla lengi í þessari iðnbyltingu að búa til eitt ausutetur og ausa hressilega úr þessum gróðapyttum, svo að vandinn hverfi eins og dögg fyrir sólu, fyrst hann er ekki meiri en þetta. — En þegar betur er að gáð, þá ímynda ég mér og ýmsir fleiri, að vandinn sé og muni verða þyngri en svo, að það þurfi bara að ausa með einu ausutetri úr einhverjum gróðapyttum, sem liggi alls staðar í þjóðfélaginu, hjá milliliðum og einhverjum öðrum vondum mönnum, er taka of mikið til sín fyrir lítið starf.

Hæstv. forsrh. boðaði ákveðið í stefnuræðu sinni og það voru hans fyrstu orð: „Stefnan er óbreytt.“ — Við skulum bíða og sjá hvað setur. Vonandi takast hin góðu áform. Það er þjóðarbúinu í hag. En það er ekki margt, sem bendir til þess, að það takist án átaka og jafnvel fórna af hendi þeirra, sem minnst mega sin. Það er augljóst mál, að auka þarf niðurgreiðslur, ef á að tryggja það, að vísitalan verði 117 stig, eins og gert er ráð fyrir. Út voru gefin brbl. í sumar, og þá voru teknar 400 millj. kr. til að auka niðurgreiðslurnar og sett á verðstöðvun. Ég man eftir því, að í Tímanum kom það fram, að þetta yrði gert í samráði við undirnefnd fjvn.

Enn hef ég ekki séð stafkrók um þetta og ekki heyrt neitt, fyrr en lítils háttar var drepið á þetta hér áðan, og ég verð að segja það eins og sá þm., sem talaði hér á undan mér hér, að ég náði ekki sundurliðun á þessum 400 millj. Ég vildi mjög gjarnan mælast til þess við hæstv. fjmrh., að hann sundurliðaði þetta á blaði og léti þm. það í té við tækifæri, því að mér finnst það skipta máli, hvar á að taka þessar 400 millj., og að við vitum það hreinlega. En þetta dugar fram að áramótum, — þessar 404 millj., — en vandinn er ekki þar með leystur. Ef vísitalan á að vera áfram 117 stig, þá þarf miklu, miklu meiri upphæðir til að halda þessu í slíku jafnvægi. En hvernig á að taka þá peninga? Jú, eins og ég drap á áðan, þá eru til ágóðapyttir, sem bara á að ausa úr, og afrakstrinum dreift út í þjóðfélagið. Það á að færa stórkostlegt fjármagn á milli manna, og það kom fram í viðtali við hæstv. sjútvrh. og viðskrh. í Þjóðviljanum í gær, að það ætti að skattleggja eyðsluna. Þýðir þetta hærri söluskatt eða vissan neyzluskatt eða ákveðinn tekjuskatt eða hvað þýðir þetta? — Stefnan er óbreytt. — En hver er stefnan? Það er í raun og veru beðið eftir stefnunni. Það er sett á laggirnar sérstök rannsóknarnefnd til þess að undirbúa lausn efnahagsmálanna og mér er alveg til efs á þessu stigi, að fjöldamargir hæstv. stuðningsmenn ríkisstj. hafi hugmynd um, hvernig þessi lausn á að vera. Ég er efins um það. Það getur vel verið, að Alþb: menn hafi fengið smjörþefinn af því, sem í vændum er, þegar þeir voru að þinga um helgina, en ég er ekki viss um, að hinir viti það. Það kemur í ljós bráðlega, og við hinir getum þess vegna verið rólegir, því að þetta á ekki að vera mjög erfitt mál. En ég trúi því ekki, að það sé svona þægilega létt, því miður.

En fari svo, að það sé takmark að halda vísitölunni í 117 stigum, og fari svo, að við eigum að byggja á innflutningi svo miklum, sem fjárl. gera ráð fyrir, þá skapar það verðbólgu í landinu. Það er alveg óhjákvæmilegt annað. Hún bitnar fyrr eða síðar á krónunni með einu eða öðru móti. Þessi hæstv. ríkisstj. hefur lýst því margsinnis yfir, að hún fari ekki út í gengisfellingu, og ég met það mjög mikils. Ég er alls ekki talsmaður gengisfellingar. Það er nú öðru nær. En þá er bara þetta, hvernig er hægt að draga úr framkvæmdum, án þess að það komi illa við, því að það getur ekki farið saman að halda uppi jafn mikilli spennu og er í þjóðfélaginu í dag og tryggja gildi krónunnar og sjá fyrir svo miklum niðurgreiðslum, svo að allt komi heim og saman? Það er óhugsandi, þó að góður vilji fylgi. Enda er nú svo komið, þrátt fyrir gott verðlag á útflutningsafurðum, að ríkisstj. er tilneydd til þess að láta verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins gefa eigendum sínum ávísun úr sparisjóðsbók sinni, svo að ekki komi til rekstrarstöðvunar. Þetta er ekki stór upphæð í ár, innan við 100 millj., sennilega 70–90 millj. eftir afla, en samt er þetta nokkur vísbending, um það, sem fram undan er, því miður. Útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur eiga að hækka um 110 millj. Það var mjög gott árferði í ár í landbúnaðinum, og vonandi hafa bændur sett mikið á, því að þrátt fyrir allt tókst að heyja mikið og bústofn kom vel af fjalli. Þess vegna er hagsæld til landsins og menn ættu að vera þar bjartsýnir. En samt sem áður þarf að stórauka útflutningsuppbætur, — enn eitt vandamálið. Og það er svo undarlegt, að flokkur hæstv. fjmrh. og landbrh., sem telur sig hafa verið í forsvari fyrir bændastéttina í áratugi, — og við hinir, sem höfum viljað gagnrýna það kerfi og sagt, að það héldi ekki svona áfram, — samt sem áður skilur hann við það enn í dag þannig, að þegar er verið að tala um hag bænda af Framsóknarleiðtogunum hér á hv. Alþ., þá er alltaf sagt, að bændur séu tekjurýrasta stétt á landinu. Enn bólar ekkert á því, ekki í þessum fjárl. a.m.k. Þó er boðað frv. þeim til hagsbóta, sem vonandi verður raunhæft. Er vandi þeirra leystur með aukningu útflutningsuppbóta? Fjöldi smábænda á áfram við erfiðleika að stríða og því meiri sem verðbólgan verður verri viðureignar.

Hvað skyldi kosta að reisa bú í dag? Ætli það sé ekki einn arfurinn, sem við höfum gefið þessum einstæðu bændum? Sennilega er það. Nei, það vantaði ekki í kosningabaráttuna. Þá var öllu lofað. Þá voru þreyttir menn í ráðherrastólunum, úrræðalausir, vissu ekki, hvað þeir áttu að gera, létu næstum því reka á reiðanum, eins og sagt er, fyrir veðri og vindi. Eina lausnin var að fá nýja menn inn með úrræðin á hverjum fingri,og sjá, þá skyldi enginn vandi vera. Það skyldi engin óeðlileg þensla verða í þjóðarbúinu, og allt átti að vera stöðugt og gott. En reynslan er því miður heldur bitur. 9 milljarðar á tveimur árum, úr 11 milljörðum í 20. Þetta segir ekki alla söguna, því að það vantar mikið til enn þá, virðist manni, ef á að leysa þann vanda, sem fram undan er og halda vísitölunni í 117 stigum og tryggja það, að atvinnulífið geti snúizt með eðlilegum hætti. Framkvæmdastofnunin var sett á laggirnar, og var margt gott gert með því frv., og ég vona, að það eigi eftir að sýna árangur. En samt sem áður sér maður lítið bóla á ávöxtunum í skipulagningunni, svo að þeir eiga eitthvað erfitt með að koma sér saman um þættina eða taka ákvörðun, sem leiði til góðrar niðurstöðu.

En það er annað, sem hefur ekki staðið á. Það er aukning á mannafla í ríkiskerfinu. Hann er mikill, og ég get ekki betur séð en sú skrá, sem fylgir fjárlagafrv. hér aftast um mannafla þar, sé ófullkomin. Það þarf að fá það á hreint, hverjir eru fastir starfsmenn og hverjir eru lausráðnir. Það þarf að fá það á hreint, hvenær yfirvinna er bókuð, því að í ljós kom á einum fundi undirnefndar í sumar, að það liggur alls ekki ljóst fyrir, ef maður vill vita það fljótlega, hve mikil yfirvinna er greidd, en hægt er að finna það út, en kostar mikla vinnu. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. mjög fyrir það, hvað hann hefur verið jákvæður í því efni að leggja því lið, að ríkisbókhaldið allt geti skilað okkur betri niðurstöðu, sérstaklega vel sundurgreindri og það fljótt. Það er mjög mikilvægt. En það er kominn fjöldi manns inn. Það væri líka fróðlegt að vita, hvað bremsunefndin, ef hún starfar eitthvað, hefur samþykkt marga. Ég spurði um þetta hér í fyrra og hæstv. forsrh. svaraði: „Ég ætla, að bremsunefndin hafi fjallað um þessar ráðningar.“ Auðvitað snjallt svar, en sagði hvorki af né á. Ég verð því að vænta þess, að bremsunefndin hafi fjallað um þennan fjölda, sem kominn er inn í fjárl. núna og sagt er frá. Ef ég man rétt, er á bls. 161 sagt, að í skýringum þeim, sem á eftir fari, verði sem fyrr greint frá öllum nýráðningum stofnana í mannafla. En mér er kunnugt um, að það starfa fleiri en hér kemur fram, og þess vegna bað ég um sundurliðun á fastráðnu fólki og lausráðnu. Auðvitað þarf ríkisvaldið góðan liðsafla alveg eins og allir aðrir. En það á bara að liggja á hreinu og ekkert að vera að fela það og hafa um það ákveðnar reglur og tryggja því fólki líka, sem er lausráðið, eðlileg réttindi, bæði í lífeyrissjóði og öðru. Það er ekkert síður mikilvægt.

Þegar kemur að úrræðum við þessum mikla vanda, sem fram undan er að sögn hæstv. ríkisstj., þá verður fróðlegt að sjá, hvernig sú kaka skal bökuð. Verður það ekki hálfgert blandað krydd, sem sett verður í kökuna þá? Við skulum sjá. Ef á að byggja á 14% aukningu í innflutningi áfram, og það hefur komið hér áður fram í kvöld og mér þykir rétt að undirstrika það, þýðir það hvorki meira né minna en, að á tveimur árum má ætla, að óhagstæður greiðslujöfnuður nemi milli 7 og 8 milljörðum. Það er ekki svo lítið. Og þó að gjaldeyrisstaða okkar í augnablikinu sé á pappírnum góð, þá man ég eftir greinum í Tímanum, þar sem gert var grín að því, er fyrrv. ríkisstj. tók langtímalán, og slíkt kallað herfileg blekking í gjaldeyrisstöðunni. En nú þegja sömu „skribentar“. Bezt er að rifja það ekki meira upp, svo að það komi ekki illa við um stöðu gjaldeyrissjóðsins í dag. Ég sé, að hv. ritstjóri Tímans brosir, en ég ætlast ekki til, að hann rifji upp fyrri skrif í þessu efni. Þau koma illa við, eins og ég sagði áðan.

Skattamálin voru eðlilega mjög á dagskrá í vor, og hæstv. fjmrh. undirstrikaði það enn einu sinni, að það var alger forsenda fyrir þessari fjármálastjórn að fá ný skattalög. Gott og vel. Þeir hlýddu ekki á þær aðvaranir, sem við höfðum í frammi í stjórnarandstöðunni. Þeir voru bjartsýnir, og í sumar birtist ein af þessum snjöllu greinum eftir einu hv. þm. Ég sé nú ekki þm.- skrána hérna, svo að ég get ekki vitnað rétt í hann, en það var Stefán Valgeirsson, sem skrifaði þá grein, heiftarlega árás á Alþfl. Þar boðaði hann enga skattahækkun. Allt væri blekking, sem við sögðum. Hann hefur ekki skrifað grein aftur, eftir að niðurstöður skattal. lágu fyrir og brbl. komu fram. Hann hefur heldur ekki sézt mikið á bryggjunni í smáþorpunum í kjördæmi sínu og talað við sjómennina, sem fengu seðilinn frá hæstv. fjmrh. og ríkisstj. Væri betur, að hann væri búinn að laga það, sem misfór áður og væri þá maður að meiri. Allt í lagi með það. Okkur getur missézt, báðum, þessum góðu vinum mínum og mér. En niðurstaðan liggur núna á borðinu, og við getum svo deilt um það í rólegheitum seinna.

Nei, það var slæmur arfur frá viðreisninni, þessi skattalöggjöf. Hún átti allt að tryggja til handa þeim ríku, en mala niður þá fátæku. Og það varð auðvitað að breyta þeirri skattalöggjöf í slíkum flýti, að ekki gafst tími til að athuga þetta í rólegheitum né hlusta á vissar ábendingar, sem við höfðum fram að færa. Þetta skyldi keyrt í gegn, þó að afleiðingarnar yrðu slæmar. Sjálfsagt er margt gott í þessari löggjöf, og ég samþykki margt, sem þar var sett fram. En kapp er bezt með forsjá í þessu sem öðru.

Það var mikið rætt um stöðu Seðlabankans, og með alls konar reikningslistum og samanburði var fengin sú niðurstaða, að raunverulega væri staða Seðlabankans svo góð í dag, að ekkert væri athugavert við hana, bókstaflega ekki neitt. Mig varðar lítið um hlutfallstölur. Ef skuld ríkisins við Seðlabankann er hátt í tvo milljarða, þá er hún allveruleg, hvað sem einhverjar hlutfallstölur segja. Og af hverju að taka um einnar millj. kr. lán til langs tíma til þess að þurrka þessa skuld út? Auðvitað til þess að bæta stöðuna, því að hún er erfið. En framkvæmdir með svona vinnubrögðum hefðu ekki verið taldar skynsamlegar af heimilisföður, nema af ótta við gífurlega verðbólgu, þess vegna sé einnig nauðsynlegt, að ríkið framkvæmi sem allra fyrst, áður en allt verður miklu, miklu dýrara en ella, og í harðri samkeppni við bæjarfélög og einstaklinga.

En hvers vegna skyldu nú fulltrúar hæstv. ríkisstj. eða Seðlabankans vera að hringja út um land og biðja vissa lífeyrissjóði að kaupa sparilánin? Er það vegna svona góðrar stöðu ríkissjóðs? En þetta á sér stað í dag, þeir eru að hringja í félagssjóði úti um land og biðja um kaup á skuldabréfunum fyrir stórfé. Já, það er gott og vel. Stundum hafa nú þessir fulltrúar hæstv. ríkisstj. sagt, að það þyrfti að draga fé frá Reykjavík út á landsbyggðina, en nú er dregið frá landsbyggðinni, sennilega inn í Seðlabankann og svo Seðlabankinn inn í ríkissjóð og í Framkvæmdastofnunina. Þá er bara, að það verði ekki sagan um einbjörn í tvíbjörn og tvíbjörn í þríbjörn og svo karlinn í kerlinguna og kerlingin í kálfinn, en ekkert gekk.

Dæmið er nú ekki glæsilegra en það. En staðan er góð, og það skiptir öllu máli hlutfallslega. Það var margundirstrikað af hæstv. ráðh. Jafnvel Sölvi Helgason hefði mátt vera hreykinn af öllum þessum hlutfallstölum, svo haganlega komu þær út hæstv. ríkisstj. í hag.

Nei, stjórn peningamála getur verið erfið á Íslandi. Það þekkjum við af biturri reynslu, og að mínu mati hefur verðbólgan fellt flestar ríkisstjórnir, og kannske á hún eftir að reynast þessari hv. vinstri ríkisstjórn mjög erfið. En úrræðin eru svo létt, segir formaður Alþb., það eru alls staðar gróðapyttir, og það er bara að fá sér ausu og ausa upp úr þeim og færa á milli í þjóðfélaginu á einfaldan og góðan hátt. Þó sagði hann nú: aðalatriðið er framtíðarlausnin. En framtíðarlausnin getur ekki byggzt á svona einfaldri aðferð, það er útilokað. Hún byggist af traustum grunni og getur ekkert annað en byggzt á traustum grunni með langtímauppbyggingu. Sú uppbygging kann að vera hæg um tíma, en hún þarf að vera skipulögð og raunhæf. Það væri gaman að geta gert allt í einu. Það væri gaman að geta byggt stóra skóla á tveimur árum eða þremur. En fjárlagafrv. segir fjögur ár, af því nú er ekki hægt að fara hraðar. Svo að ég vitni í aðra gamla sögu, langt að sótta, hefur verið sagt um einn svertingja, sem var í forsvari og fylgd í stórum leiðangri í Afríku, en leiðangurinn vildi flýta sér hratt og komast mjög áfram, að hann sagði: Ég fer ekki lengra. — Og þeir spurðu: Hvers vegna? Ég vil ekki fara hraðar en það, að ég hafi stjórn á sjálfum mér og sálu minni. — Það er hægt að gleðjast yfir velgengninni og hún er vissulega til í dag. Og ef ég man rétt, þá sagði hæstv. forsrh. að því í ræðu sinni og sagði orðrétt, með leyfi forseta, á bls. 8, að þegar litið er til efnahags þjóðarinnar, atvinnuástands, neyzlustigs og lífsafkomu fólksins, er enginn voði á ferð, þó að við yrðum að lækka ofurlítið seglin um stundarsakir. Í sjálfu sér er þetta rétt staðhæfing. En næst samstaða um þetta, þannig að þjóðarbúið hafi gott af því?

Þá er kennt um miklum aflabresti, og sagt er að 20–30 þús. tonn í minnkandi bolfiskveiði í sumar valdi þessum vanda. Það hefði einhvern tíma ekki þótt stórkostlegt, þó að afli á Íslandi minnki um nokkra tugi þús. tonna. Nú það er auðvitað slæmt fyrir viss svæði, sem hafa lent í þessu, og viss úthöld eru í vandræðum. En það var líka annar afli, sem jókst og gaf mikið í aðra hönd, þannig lagað, að þetta er ekki eina ástæðan, þessi aflabrestur um 20 –40 þús. tonn. Það er miklu, miklu fleira. Það er heildarstjórnin. Þrátt fyrir það að yfirlýst er, að stefnan sé óbreytt, þá er það heildarstjórnin, sem ekki ræður við þann vanda, sem fram undan er, og þá þróun, sem á sér hér stað, í fjármálakerfi þjóðarinnar. Verðbólgan vex og vex eins og snjóbolti, sem hleður utan á sig, og krónurnar verða fleiri og fleiri, en þær mega vist ekki minnka á pappírnum. Gengið á að vera óbreytt þrátt fyrir allt. En það er bara að það þá komi ekki eitthvert uppbótakerfi og það skapist ekki allt í einu tugir gengna, eins og var einu sinni þekkt hér. Aðeins á Suðurnesjum einum ríktu á milli fiskvinnslufyrirtækja í tíð vinstri ríkisstjórnar 1956–58 tugir gengna. En þá var kerfið orðið þannig, að það var borgað upp eftir útflutningsverðmæti og nýting afla var mjög misjöfn, eftir vinnslustöðum og eftir hvaða verkunaraðferðir fiskurinn fór í. Ef til vill á að innleiða þetta aftur og einhverjir snjallir menn reikna út, hvað þú átt að fá. Enginn veit raunverulega, hvað hann á að fá, né getur gert áætlanir fyrir sjálfan sig um eðlilegan rekstur, því að það eru einhverjir aðrir svo miklu, miklu snjallari menn, sem úthluta honum því, sem þeim sýnist.

Þrátt fyrir allar árásirnar á fyrrv. ríkisstj. er það nú einu sinni staðreynd að á síðastliðnum áratug hafa lífskjör á Íslandi batnað og verið betri en nokkru sinni áður. Þó er þrástagazt á því, að sú ríkisstj. hafi ekki ráðið neitt við neitt og skilið við allt í kaldakoli og þessi slæmi arfur sé enn að ganga aftur, þrátt fyrir að nær 16 mánuðir séu síðan sú ríkisstj. lét af völdum. Ég veit ekki, hvað þeir ætla að skemmta sér lengi við þetta í fjárlagagerð og rökræðum hér á Alþ., en það hlýtur nú að vera farið að draga af þeim draug, eftir því sem líður fram á þetta ár og fram á hið næsta. Og undarlegt er það með öllu þessu skipulagi, sem boðað var, ef ekki er hægt að koma í veg fyrir, að þessi áhrif vari svo lengi.

Í ræðu sinni kom fjmrh. eðlilega mjög viða við og talaði um tekjuöflunina hér í löngu máli. Og hún er auðvitað forsenda fyrir öllu því, sem á að gera, eins og fjárlagafrv. ber með sér, og byggt á þeirri áætlun, að innflutningur verði áfram svona mikill. Endurskoðun skattalaganna fer fram, og sennilega sjáum við einhverja breytingu á þessu þingi, þó er það ekki öruggt. En grundvallaratriðið er, svo. að öll uppbygging fjárlagafrv. fari ekki úr skorðum, að innflutningurinn verði svona mikill og eyðslan svona mikil. Grundvöllurinn er ekki sterkari en það, þegar þetta er skoðað niður í kjölinn, því miður.

Ef ég hef tekið rétt eftir í ræðu hæstv. fjmrh., þá sagði hann: Það er á valdi Alþ. að fjármagna auknar niðurgreiðslur fyrir árið 1973, svo að vísitalan haldist óbreytt. Framkvæmdaáætlunin á eftir að koma með þessu frv., og munum við þess vegna sjá heildarmyndina betur en við getum séð í dag. Eins og sagt var hér áðan á undan mér, er þetta rammi án heildarmyndar, og þess vegna ætla ég ekki að eyða tíma í það, þar sem umr. eru orðnar langar, að fara að lesa upp einstaka talnaliði, því að þm. geta lesið það sjálfir á borðunum hjá sér og gert samanburð.

Ég ætla aðeins að undirstrika það, á hvaða grundvelli þetta fjárlagafrv. er byggt, af því að hann er hæpinn, því miður. Ég man þó eftir einum lið, sem rétt er að vekja athygli á að þarf að hækka að mínu viti, sérstaklega ef á að halda áfram að treysta undirstöðuatvinnuvegina, en það hefur verið aðall, að þeir segja, þessarar hæstv. ríkisstj., en það er að auka fjölbreytni í sjávarútvegi. En ef ég man rétt, þá fellur niður styrkur til leitarskipa hjá Hafrannsóknastofnuninni, minni skipanna, sem eru að leita að humar og rækju o.fl. skelfisktegundum. Þetta tel ég illa farið, og það má eiginlega varla eiga sér stað. Við höfum ekki fengið enn í fjvn. forsvarsmenn stofnunarinnar í heimsókn, og ég veit þess vegna ekki, hvað hefur skeð, en það er aðeins vinsamleg ábending til hæstv. fjmrh., að þetta mál verði athugað aftur, því að ég veit, að hann leggur því lið, að þetta falli ekki niður.

Hann fjallaði hér um nefndarstörf, kostnað í sambandi við n. Ég hef átt sæti í undirn. fjvn. Við höfum farið í ýmis ríkisfyrirtæki, við höfum tekið fyrir ákveðna málaflokka, og það tel ég mjög nauðsynlegt, það hjálpar okkur í vinnu við erindalestur og frágang fjárlaga í n. Það er líka mjög athyglisvert, þar sem að hv. ráðh. sagði: Námskeið verða haldin fyrir forsvarsmenn ríkisfyrirtækja og hjálpað til að hafa rekstur sinn bagkvæmari og betri. Vissulega hefur maður grun um það, að víða er ekki gætt þeirrar hagkvæmni, sem unnt er að framkvæma hjá sumum ríkisstofnunum. Þetta er verulega þakkarvert. En hér þarf að koma til meira. Raunverulega þarf að ákveða verksvið undirn. fjvn. Mér finnst persónulega a.m.k., að við höfum ekki fastmótað verksvið, og ef við eigum að gera fastar og ákveðnar till., þá liggur það í hlutarins eðli, að við þyrftum a.m.k. að fá eins konar erindisbréf. Okkur hafa verið sýndar ýmsar hugmyndir, og við höfum verið beðnir að fjalla um þessar hugmyndir og segja álit okkar á þeim, m.a. sameiningu verkstæða, sameiningu mötuneytanna, nýtt fyrirkomulag í mötuneytakerfinu, sem er orðið mjög stórt mál og á eftir að skipta ríkissjóð jafnvel hundruðum millj. í framtíðinni. Og þarf að taka föstum tökum. Þetta er stórmál og fer ört vaxandi fyrir ríkissjóð, ef ekki er gerð raunhæf skipulagning á næstunni. Svo er annað, ferðalögin. Setja þarf upp ákveðnar reglur um ferðalög erlendis. Við höfum fengið yfirlit yfir ferðalög nokkurra stofnana, og það er mjög misjafnt, hvað menn ferðast á vegum þessara stofnana, — mjög misjafnt. Sumir virðast vera afar mikið erlendis, svo ekki sér meira sagt.

Mikið átak hefur verið gert og var gert í bílamálum ríkisstofnana, og er það komið í fastar skorður og ég held í sæmilegt horf. En þessu þarf að fylgja eftir, og það má ekki fara aftur úr böndunum. Aðeins hefur bryddað á því, að menn hlýddu ekki þeim reglum, sem settar hafa verið. En það þarf að halda fast við þær reglur, sem hagsýslan og fjmrn. hafa sett, og fylgja því vel eftir. Allt þetta ber að þakka, og það er góður vilji í fjmrn. til þess að leysa slík vandamál. og það ber að meta það, þegar menn vilja taka ábendingum undirn. eða frá öðrum þm. með jákvæðri afstöðu, og þakka það.

Hvað fram undan er varðandi sjálfa rekstrarstöðuna í þjóðarbúinu, þá liggur það ljóst fyrir, að við sjávarsíðuna eru vandamál. Togaraflotinn er rekinn með tapi. Hann þarf þegar á styrk að halda, sem nemur 25 millj. úr ríkissjóði. Af hálfu iðnaðarins hefur því verið lýst yfir, að hann standi nú á mörkum hallarekstrar. Viðskiptahalli við útlönd er mjög alvarlegur. Og það kom fram í viðtali í kvöld við einn af forsvarsmönnum annars stærsta stuðningsflokks ríkisstj., að vandinn sé ekki geigvænlegur. Ég tel, að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða. Raunverulega er ástandið þannig, að við sjáum fram á rekstrarstöðvun aðalatvinnuveganna, nema stórkostleg tekjuöflun eigi sér stað. Og enn meiri tekjuöflun er nauðsynleg, ef á að halda vísitölunni í 117 stigum og eins að framkvæma þá samninga, að 6% eigi að koma óskert 1. marz 1973 samkvæmt kjarasamningum. Þá þarf hér stórkostlegt fjármagn til að halda þessu öllu eðlilega, ef verðbólgan á ekki að færa. allt í kaf. Við vitum ekki, hvernig ríkisstj. hyggst leysa þetta, og það er þess vegna út í hött að vera að eyða löngum tíma í vangaveltur um þessi úrræði, því að við verðum að bíða eftir því hér. Sérstök n. úti í bæ er að baka þessa köku, og hún mun verða sýnd Alþ. bráðlega. Þá kemur í ljós, hvernig hún kann að smakkast.

Því miður sýnist mér, að stefnan sé verðbólgustefna, hvernig sem á það er litið. Og því miður sýnist mér að fyrr eða síðar verðum við að taka upp millifærslu- eða uppbótakerfi til að halda atvinnuvegunum gangandi. Og þá þarf að reikna út: þú átt að fá þetta og hinn á að fá hitt. Við höfum ágæta Framkvæmdastofnun og snjalla reikningsmenn þar. Kannske eru þeir færir um að leysa þetta allt saman? Framkvæmdaáætlunin kemur bráðlega frá þeim, og þeir sýna okkur þess vegna fjárlagadæmið í heild. Þá getum við tekið raunhæfari afstöðu til þessara talna, sem við höfum fyrir framan okkur, og ég mun því sleppa því, eins og ég sagði áðan, að fara að lesa upp einstakar tölur og gera samanburð, vegna þess að það er ekki raunhæft, eins og ástandið er í dag. Þetta á eftir að breytast verulega, a.m.k. í stórum liðum, jafnvei svo að skipti milljörðum, a.m.k. á annan milljarð, ef að líkum lætur.

En þrátt fyrir þetta, þá vona ég, að svo fari, að við getum haldið áfram eðlilegu atvinnulífi hér á landi og það verði full atvinna. Það er fyrir öllu, að þessi litla vesæla króna, sem viðreisnin að sögn var nærri búin að ganga af dauðri, geti nú haldið gildi sínu áfram. Vonandi kemur ekki til stórkostlegrar millifærslu né gengisfellingar.

Hæstv. ríkisstj. hefur marg ítrekað það, að hún muni ekki grípa til slíkra ráðstafana. Hún ætlaði sér ekki meiri afrek í verðbólgunni en að hafa verðbólguna svipaða og í nágrannalöndunum. Það hefði nú ekki verið úr vegi, að fylgt hefði smáskrá frá Norðurlöndunum og Englandi í þessari löngu ræðu hæstv. fjmrh., þar sem einhver hlutfallareikningur væri látinn fylgja, þannig við sæjum hreyfinguna hér heima í samanburði við það, sem væri að gerast hjá keppinautunum. Það hefði gefið okkur örlítið betri hugmynd um stöðuna. En þessu var auðvitað sleppt. Menn geta sjálfir spáð í hvers vegna. En það skulu vera mín lokaorð þrátt fyrir allt, að vel megi takast til og hér verði full atvinna ok vetrarvertíð geti hafizt með eðlilegum hætti, eins og til stendur.