12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

106. mál, viðbótarritlaun til rithöfunda

Fyrirspyrjandi (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta mál virðist í meðförum hæstv. ríkisstj. gerast nokkru flóknara en flm. till. höfðu ætlazt til eða gert ráð fyrir. Það er ekki aðeins, að hæstv. menntmrh. og rn. hans fjalli um það, heldur hefur fjmrh. líka skipað n. í málið, og í þriðja lagi hefur verið leitað til Framkvæmdastofnunar ríkisins um málefni þetta. Framkvæmdastofnunin virðist því ætla að færa út kvíarnar og gerast menningarstofnun ofan á allt annað.

Ég lýsi ánægju yfir því fyrirheiti hæstv. ráðh., að við endanlega afgreiðslu fjárlaga muni verða tekið tillit til þessa, og skil það svo, að þá verði tekin upp fjárveiting, sem ætla má að nemi andvirði söluskatts af bókum. Mér þykir líka vænt um, að fyrirspurn mín hefur haft þau áhrif, að hæstv. ráðh. hefur nú haft samráð við Rithöfundasamband Íslands og félög rithöfunda og beðið þau um að vera með í ráðum um samningu þeirra tillagna, sem þál. gerði ráð fyrir, en það hafði ekki verið gert, þegar fyrirspurnin var flutt. Fyrirspurnin var að sjálfsögðu flutt vegna þess, að mönnum þótti þetta ferðalag ríkisstj. ganga grátlega seint. En ég vænti þess, að nú fari þessu máli heldur að skila í áttina og að efndir verði á því, sem Alþ. lagði fyrir ríkisstj. að undirbúa.