12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

106. mál, viðbótarritlaun til rithöfunda

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi virðist furða sig á því að leita þurfi til Framkvæmdastofnunarinnar m.a. til að ráða því máli til lykta, sem hér um ræðir. Hér er um það að ræða m.a. að tilgreina fjárhæðir, sem liggja ekki ljósar fyrir neins staðar. Ég veit ekki, hvaða stofnun er til þess fallnari en sú deild Framkvæmdastofnunarinnar, sem fjallar um hagrannsóknir. Hvað það varðar að skipa menn til að setja reglur um úthlutun, hefur afstaða mín verið frá öndverðu, að eigi væri tímabært að setja menn til að vinna það verk, fyrr en eygja mætti, hver niðurstaða yrði af athugun á fjármagni því, sem til skipta kemur.