12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

112. mál, vegagerð á Vesturlandi

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir samgrh. 4 fsp. um vegagerð á Vesturlandi, svo hljóðandi:

„1. Eru þeir vegarkaflar á Ólafsvíkurvegi, sem lagðir hafa verið á síðustu árum, t.d. vegurinn fram hjá Borg á Mýrum og vegurinn milli Grundar og Skjálgar í Kolbeinsstaðahreppi, undirbyggðir þannig, að þeir beri varanlegt slitlag?

2. Eru einhverjir hlutar vegarins um Hvalfjörð undirbyggðir þannig, að þeir beri varanlegt slitlag?

3. Hve langir eru þeir vagarkaflar á Ólafsvíkurvegi í Miklaholtshreppi og Staðarsveit, sem enn hafa ekki veríð undirbyggðir, þ.e. eru ruðningsvegir eða troðningar? Liggur fyrir, hvað gerð þessara vegarkafla mundi kosta og hvenær þeirra framkvæmd megi vænta?

4. Má vænta þess, að gerðar verði ráðstafanir til lagfæringa á vegi við Kálfá og Bláfeldará í Staðarsveit, svo að árnar stöðvi ekki umferð um Ólafsvíkurveg, eins og gerzt hefur þráfaldlega í frostaköflum á undanförnum vetrum?“

Ég hef spurt þessara spurninga í því augnamiði að fá svör við því, hver væru sjónarmið yfirvalda og framkvæmdaaðila vegamála í tveimur veigamiklum atriðum í sambandi við gerð vega úti á landsbyggðinni, jöfnum höndum sem ég er að leita upplýsinga um framkvæmdir í vegagerð á Vesturlandi.

Í fyrsta lagi er ég að leitast fyrir um að fá svör við því, hvort verið sé að undirbyggja vegi á miklum umferðarleiðum, eins og t.d. leiðinni vestur á Snæfellsnes, án þess að um undirbúning undir varanlega vegagerð sé að ræða. Sé svo, en ég vona, að svo sé ekki, væru þær framkvæmdir raunverulega að tefja fyrir því, að varanlegir vegir, sem verða að koma innan mjög stutts tíma, kæmu. Það þýðir, að eftir nokkur ár verður að leggja annan veg við hliðina á þeim vegi, sem nú er verið að gera.

Í öðru lagi er ég með 3. og 4. spurningu minni að leitast við að fá svar við hví, hvort vegagerðin reyni ekki að lagfæra smávegarkafla, sem við ýmsar aðstæður verða ófærir og stöðva alla um ferð á stóru svæði, þótt vegakerfið umhverfis sé í góðu lagi. Dæmi um slíka vegarkafla er vegurinn um Bláfeld í Staðarsveit. Þar hefur vetur eftir vetur og dag eftir dag stöðvazt umferð, þótt leiðin vestur héðan frá Reykjavík að Bláfeldi og frá Bláfeldi yfir Fróðárheiði og fyrir Jökul hafi verið opin öllum farartækjum. Þegar við hv. alþm. nutum gestrisni forsetahjónanna á Bessastöðum í góðu yfirlæti s.l. fimmtudag, máttu þeir, sem ætluðu sér þennan dag vestur á utanvert Snæfellsnes, hafa það að bíða í marga klukkutíma við Bláfeld, meðan tæki vegagerðarinnar voru að komast á staðinn og opna nokkurra metra vegarkafla til umferðar.

Ég fór vestur s.l. föstudagsmorgun og kom aftur á sunnudag, snjóadaginn mikla hér í borg. Alla leiðina frá Hellissandi til Reykjavíkur var kaflinn við Bláfeld sá eini, þar sem ekkert mátti breyta veðri eða annað út af bera, svo að umferð stöðvaðist. Kostnaður vegagerðarinnar við að opna þennan vegarkafla hlýtur fyrir löngu að vera margfaldur við þann kostnað, sem kostar að lagfæra hann.

Annað, sem ég nefni í 3. og 4. spurningu, ruðningsvegirnir í Miklaholtshreppi og Staðarsveit og vegurinn við Kálfá, er svipaðs eðlis. Þessir kaflar lokast við ótrúlegustu aðstæður, þótt allt sé fært í kring. Í svari hæstv. ráðh. kemur vonandi fram, hvað kostar að gera þarna sæmilegan veg. Vonandi er, að þar sé ekki um svo stóra upphæð að ræða, að sú vegagerð þurfi að bíða mörg ár enn. En ef svo ótrúlega skyldi fara, að bíða þyrfti með varanlegar framkvæmdir, verður ekki undan því komizt að gera þarna minni háttar framkvæmdir og lagfæra verstu staðina. Lagning varanlegra hraðbrauta er góð, og við gleðjumst yfir hverjum nýjum áfanga í gerð varanlegra vega. En stjórn vegamála má ekki vera svo upptekin í þeim framkvæmdum, að það gleymist að lagfæra smávandamál á þjóðbrautunum, sem sums staðar mætti frekar flokka undir viðhald en nýbyggingu og kæmi fram sem sparnaður viðhaldsfjármagns.