12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

112. mál, vegagerð á Vesturlandi

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 5. þm. Vesturl. er í fjórum tölul. og eru svörin við spurningunum á þessa leið:

Fyrsti liður spurningarinnar. „Eru þeir vegarkaflar á Ólafsvíkurvegi, sem lagðar hafa verið á síðustu árum, t.d. vegurinn fram hjá Borg á Mýrum og vegurinn milli Grundar og Skjálgar í Kolbeinsstaðahreppi, undirbyggðir þannig, að þeir berí varanlegt slitlag?“ Svarið er þetta: Þessir vegarkaflar eru lagðir með nægjanlegu góðu burðarlagi til þess, að síðar megi leggja á þá fast slitlag úr olíumöl eða öðru efni, án sérstakrar styrkingar.

2. liður spurningar: „Eru einhverjir hlutar vegarins um Hvalfjörð undirbyggðir þannig, að þeir beri varanlegt slitlag?“ Þeir kaflar á Vesturlandsvegi um Hvalfjörð, sem endurbyggðir hafa verið eða endurbættir undanfarin 10 ár, eru þannig undirbyggðir, að setja má á þá fast slitlag án sérstakrar styrkingar í burðarlagi vegarins. Sama gildir raunar einnig um ýmsa enn eldri hluta vegarins. Þeir þurfa tiltölulega litla styrkingu á burðarlagi, til þess að leggja megi á þá fast slitlag.

3. liður spurningar: „Hve langir eru þeir vegarkaflar á Ólafsvíkurvegi í Miklaholtshreppi og Staðarsveit, sem enn hafa ekki verið undirbyggðir, þ.e. eru ruðningsvegir eða troðningar? Liggur fyrir, hvað gerð þessara vegarkafla mundi kosta og hvenær þeirra framkvæmda megi vænta?“ Sá hluti Ólafsvíkurvegar, sem liggur um Miklaholtshrepp og Staðarsveit, þ.e. frá Miklaholtsseli að Fróðárheiði, er um 48 km á lengd. Af þessum 48 km teljast 13.3 km vel uppbyggður vegur. Um 23.4 km eru þannig, að þeir þurfa lagfæringar við, þarf að hækka þá og styrkja, en 11.3 km þarf að endurbyggja frá grunni. Lauslega er áætlað, að kostnaður við að endurbæta og endurbyggja þessa 36.7 km sé um 35 millj. kr., og er endurbyggingarkostnaður við brýr þá ekki meðtalinn. Í gildandi vegáætlun fyrir árin 1972–1975 er áætlað að endurbyggja um 7 km af þessum vegarköflum, og er fjárveiting til þess 5.2 millj. kr. til vegagerðar, en 2.3 millj. kr. til brúargerða. Um frekari framkvæmdir á umræddum hluta Ólafsvíkurvegar fer að sjálfsögðu eftir ákvörðun Alþ. við endurskoðun vegáætlunar fyrir árin 1974–1975 og nýja vegáætlun fyrir árin 1976 og 1977, sem leggja skal fyrir Alþ. samkv. vegal. í lok næsta árs eða í byrjun árs 1974.

4. liður spurningar: „Má vænta þess, að gerðar verði ráðstafanir til lagfæringa á vegi við Kálfá og Bláfeldará í Staðarsveit, svo að árnar stöðvi ekki umferð um Ólafsvíkurveg, eins og gerzt hefur þráfaldlega í frostaköflum á undanförnum vetrum?“ Klakabólstrar, sem truflað hafa umferð um Ólafsvíkurveg hjá Bláfeldará, stafa ekki frá þessari á, heldur frá læk, sem rennur skammt sunnan við ána. Árið 1971 var ætlunin að veita þessum læk í Bláfeldará, en hætta varð við það vegna andstöðu ábúandans á Hólkoti, sem taldi, að í læknum væri mikið af sjóbirtingsseiðum og gæti þessi framkvæmd valdið tjóni á þeim. Þar sem ekki hefur náðst samkomulag um að breyta farvegi lækjarins, verður ekki um annað að ræða en stækka ræsið á læknum og hækka veginn um einn metra á um 400 metra kafla, og mundi sú framkvæmd kosta a.m.k. um 1 millj. kr. Í fyrra var vegurinn hækkaður nokkuð á þessum kafla, en það nægði ekki til þess að hindra klakabólstra í frosthörkum. Við Kálfá, sem kemur fram úr gljúfrum um 800 metra ofan við Ólafsvíkurveg, myndast oft klakabólstrar af þeim sökum, að áin rennur út úr farvegi sínum vegna mikils framburðar af aur. Árið 1971 var ráðgert að dýpka farveginn, en hætta varð við það vegna andstöðu ábúandans á Kálfárvöllum, sem taldi, að þessi framkvæmd gæti skaðað veiði í ánni. Þar sem samkomulag hefur ekki náðst um þessa framkvæmd, verður ekki um annað að ræða en hækka veginn á um 600 metra löngum kafla, en það mundi kosta nálægt 1 millj. kr. Bæði við Kálfá og Bláfeldará hefðu lagfæringar á vatnsfarvegunum kostað tiltölulega lítið fé, og er það rétt hjá fyrirspyrjanda, og sú aðgerð hefði komið að fullu gagni. En þar sem samkomulag hefur ekki náðst við landeigendur eða landnotendur um þessar ódýru framkvæmdir, verður vandinn vegna klakabólstranna ekki leystur á nokkurn annan hátt en með því að hækka veginn á þessum stöðum. Þær framkvæmdir kosta hins vegar svo mikið fé, að ekki verður í þær ráðizt, nema til komi sérstök fjárveiting á vegáætlun.

Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi hafi orðið þess vís af þessum svörum, að af vegagerðarinnar hálfu er unnið af fullri forsjá að undirbyggingu vega með það fyrir augum, að hægt sé að leggja á vegina, sem nú eru lagðir, varanlegt slitlag og þannig unnið að þessum málum af fyrirhyggju, þó að slík vinnubrögð kosti meira fé í bili, en það getur sparazt síðar. Þarna er því tekið fullt tillit til framtíðarinnar.

Um hitt atriðið, klakabólstrana og þær tafir, sem orðið hafa á framkvæmdum af þeim ástæðum, er gott að minnast þess, að þarna stranda skynsamlegar og sjálfsagðar aðgerðir á hinum persónulega eignarrétti.