12.12.1972
Sameinað þing: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

112. mál, vegagerð á Vesturlandi

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans við spurningum mínum. Ég er mjög ánægður með fyrra svarið í sambandi við lagningu veganna. Það er mjög ánægjulegt til þess að vita, að á þá kafla, sem verið er að leggja úti um land, skuli hægt að leggja varanlegt slitlag án þess að endurbyggja þá að neinu ráði til viðbótar, þegar að því kemur, að fjármagn verður til þess að leggja varanlega vegi úti um landið.

En ég varð svolítið hissa á svarinu í sambandi við árnar. Þar upplýsti ráðh., að við Kálfá þyrfti að hækka veginn á um 600 m kafla til þess að forðast klakabólstrana. Ég hef náttúrlega ekki neina aðstöðu til þess að rengja mælingar og útfærslu vegamálaskrifstofunnar á þessu, en eftir mínum leikmannsaugum, held ég, að það mætti kannske frekar kalla þessa metra 60 en 600 til þess að afstýra því, að Kálfá renni yfir veginn. Aftur á móti við Bláfeldará, þar sem vegurinn er sokkinn eða siginn í mýri á dálítið löngum kafla, held ég, að aðalvandamálið væri leyst með kannske rúmlega 40 metra kafla í staðinn fyrir 400 metra kafla, a.m.k. varðandi bólstrana.

Viðvíkjandi svörum ráðh. í sambandi við troðningana í Miklaholtshreppi og Staðarsveit, finnst mér um að ræða dálítið stóra upphæð, ef það sjónarmið ætti að ráða að bjarga þessum torfærum, sem eru alltaf að skapast undir hinum merkilegustu kringumstæðum. Þar eru ekki einu sinni, beld ég, 11.3 km, sem þyrfti að laga með tiltölulega litlum kostnaði, heldur miklu styttri leið. Ég held, að það sé eitt af því, sem vegagerðin verður svolítið að líta á, að alls konar vandamál á vegakerfinu eyðileggi ekki vegakerfið út frá sér til beggja hliða, eins og á sér stað sérstaklega í Staðarsveit.

Ég þakka svo ráðh. fyrir hans svör.