12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika alveg sérstaklega síðustu orð hv. síðasta ræðumanns. Ég held, að það ætti að vera hlutverk geðsjúkrahúsanna að sinna málum þessara ungmenna, og ég vil vona, að hv. þm., sem er úr læknastétt og margreyndur áhugamaður um þau málefni, vilji beita áhrifum sínum í þá átt, að geðsjúkrahús ríkisins séu einnig til að sinna þessu hlutverki, — sinna því hlutverki að framkvæma rannsókn á og taka við til meðferðar geðveilum mönnum, yngri eða eldri, sem hefur orðið á að fremja afbrot.

Að öðru leyti vil ég taka fram til að forða frá misskilningi, sem hefur kannske alls ekki verið neinn misskilningur, varðandi það, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að Breiðuvík heyrir ekki undir mig.