12.12.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hér hefur verið hreyft utan dagskrár máli, sem vakið hefur alþjóðarathygli og vakið menn hér til umr. og umhugsunar, en það eru þeir atburðir, sem mjög hafa farið í vöxt hin síðari ár, sérstaklega hin síðustu ár, í sambandi við afbrot unglinga. Ég tel, að þær umr., sem hér hafa farið fram, hafi verið mjög gagnlegar, menn hafi reynt að kryfja málið til mergjar, eftir því sem þeim hefur sýnzt, og viljað þar leggja sitt bezta til. Aðeins einn ræðumaður fór nokkuð út fyrir þennan ramma og kom að mínum dómi með mjög óvenjulega skýringu, en það var hæstv. heilbrmrh. Hann taldi, að hér væri ekki um sérstakt unglingavandamál að ræða, heldur væri þetta sjúkdómseinkenni á þjóðfélaginu. Ég vil mótmæla því, að þetta sé rétt skoðun, að þjóðfélagið í heild, eins og hann vildi vera láta, sé orðið sjúkt að þessu leyti. Ég vil benda á það, að það er langsamlega mest áberandi, sem hefur verið að gerast síðustu mánuðina hér á þéttbýlissvæðinu. Það getur vel verið, að þetta fylgi þétthýlinu, að slíkt vandamál komi upp, en ég vil mjög mótmæla því, að þjóðfélagið í heild sé orðið sjúkt af þessu. Ég hygg, að ef skýrslur um þetta utan úr dreifbýlinu séu skoðaðar, þá séu þessi vandamál þar ekki nærri eins áberandi og hér hefur verið bent á, að væri í þéttbýlinu. Það var þó annað frekar, sem ég vildi mjög andmæla af því, sem kom fram í ræðu hæstv. heilbrh., en það var það, að þetta væri efnahagsvandamál eða tilheyrði efnahagsvandamálunum og stafaði, eins og hann sagði, af þeim gengislækkunum, sem hér hafa átt sér stað undanfarin ár. Ég vil biðja hæstv. ráðh. skýringar á þessu. Og er það ekki rétt hjá mér, að þessi vandamál hafi verið að verða meira og meira áberandi hin síðari ár? Hér hefur engin gengisbreyting átt sér stað síðan 1968. En einmitt hin síðari ár og hina allra síðustu mánuði er þetta farið að verða meira og meira áberandi í þjóðfélaginu. Hvernig er hægt að koma þessu saman við gengisbreytingar fyrri ára, er mér ákaflega torskilið. Mig langaði að fá skýringar á því hjá hæstv. heilbrmrh., hvernig hann kemur þessum tveimur málum heim og saman. Ég get það ekki.

Ég ætla ekki að fara að kryfja þessi mál neitt til mergjar. Hér hafa komið fram margar skynsamlegar og að mínum dómi eðlilegar ábendingar í sambandi við þessi mál og ábendingar um það, sem þyrfti að gera til úrbóta, og skal ég ekki þar við neinu bæta. Ég vildi aðeins koma þessu að, sem ég hef sagt, að ég mótmæli því, að þetta sé almennt sjúkdómseinkenni hjá íslendingum, þessi faraldur, sem gengið hefur yfir hérna undanfarna mánuði, og mótmæli þó enn frekar, að þetta sé vegna þeirra gengisbreytinga, sem orðið hafa á undanförnum árum.