24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

7. mál, endurskoðun skattalaga

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Eins og þingheim rekur minni til, voru gerðar þær breytingar á síðasta þingi á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, er brýnastar þóttu. Jafnframt var skattanefnd þeirri, er undirbjó lögin, falið að vinna áfram að heildarendurskoðun skattal. Reynslan hefur sýnt, að á núgildandi skattal. eru augljósir ágallar. Við álagningu tekjuskatts var persónufrádráttur of lágur og skattstiginu allt of brattur, þannig að fólk með miðlungstekjur lenti í sama skattstiga og hátekjumenn. Í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþ., er gert ráð fyrir, að skattvísitalan verði 128 stig. Af því leiðir, að persónufrádráttur hækkar fyrir einstaklinga úr 145 þús. kr. í 185 600 kr., fyrir hjón úr 224 þús. kr. í 281 600 kr. og fyrir barn úr 30 þús. kr. í 38 400 kr. Jafnframt breytast skattþrepin þannig, að 50 þús. kr. skattþrepið hækkar í 64 þús. kr. og 75 þús. kr. skattþrepið — í 96 þús. kr. Ekki fer á milli mála, að þessi breyting á skattvísitölunni er til bóta fyrir skattgreiðendur. En ég er enn þeirrar skoðunar, að skattstiginn sé allt of brattur og beri að laga hann enn frekar. Að vísu missir ríkissjóður einhverjar tekjur við það, en þeirra verður þá að afla eftir öðrum leiðum. Í þessu sambandi má geta, að áætlað er í fjárlagafrv., að tekjuskattur einstaklinga hækki um 1347 millj. kr. frá fyrra ári. Ég tel, að ríkisstj. beri að forðast það að seilast um of við skattheimtu í vasa fólks, sem hefur litlar tekjur eða miðlungstekjur. Einnig hygg ég, að reynslan hafi sannað, að hin nýju skattalög hafi ekki megnað að sporna gegn því, að láta eðlil. fjárupphæðir af hendi rakna til sameiginlegra þarfa þegnanna. En skattalög geta ekki ein komið í veg fyrir skattsvik. Til þess þarf að koma þróttmikið skattheimtueftirlit og ströng viðurlög við skattsvikum. Í þessum efnum erum við Íslendingar miklir eftirbátar annarra þjóða, þótt skattheimtueftirlit hafi vissulega aukizt á síðari árum. En skattsvikin í þjóðfélaginu eru óþolandi.

Mér er fullkomlega ljóst, að vart er við því að búast, að heildarendurskoðun skattal. geti legið fyrir á þessu þingi, þar sem n. hefur aðeins starfað hálft ár, en ég tel afar miklivægt, að gerðar verði nauðsynlegar lagfæringar á skattal. eða þau verði gaumgæfilega athuguð fyrir næsta skattár, þ.e.a.s. framtalsárið 1973. Vil ég sem dæmi taka þessar breytingar. 1. Skattastiginn lækki. 2. Viðurlög við skattsvikum verði hert. 3. Látið verði af að skattleggja bætur almannatrygginga, svo sem ellilífeyri, fjölskyldubætur, örorkubætur, mæðralaun og barnalífeyri. Þetta felur í sér samræmingu skatta- og tryggingalöggjafar. 4. Látið verði af því að heimila mönnum til frádráttar við tekjuskatt ótakmarkaðar vaxtaskuldir. 5. Greidd húsaleiga verði heimiluð til frádráttar að hluta. Með því fengist betri trygging fyrir, að húsaleiga væri rétt uppgefin til skatts, og komið yrði til móts við tekjurýra leigjendur, sem oft og tíðum leigja húsnæði fyrir okurleigu. 6. Tekið verði fyrir það, að menn geti selt lendur og lóðir, sem margfaldazt hafa í verði vegna legu og verðbólgu, með gífurlegum hagnaði, án þess að greiða eyri af honum í ríkissjóð.

Þessi atriði, sem nú hafa verið talin, mætti með góðu móti lögfesta, án þess að heildarendurskoðun skattal. kæmi til. Og ekki má gleyma staðgreiðslukerfi skatta, sem næði eingöngu til launþega og ætti að þurfa tiltölulega lítinn undirbúning. Síðustu till. um staðgreiðslukerfi voru of víðtækar og döguðu því uppi. Það er vitaskuld með öllu óviðunandi, að laun fjölmargra manna skuli mestöll ef ekki öll hverfa í skattgreiðslu síðustu mánuði ársins. Má nærri geta, að skattgreiðendur kunni stjórnvöldum litlar þakkir fyrir, jafnvel þótt álagningin kynni að vera réttlát. Ástæðan fyrir því, að ég ber fram fsp. um endurskoðun skattal. til hæstv. fjmrh., er að benda á nokkra agnúa, sem mér þykir brýnt að sverfa sem fyrst af skattal., en einnig að vekja athygli á, að þeir menn, sem vinna að heildarendurskoðun skattal., þyrftu að geta helgað sig því starfi heilir og óskiptir. Mig uggir, að þeir ágætu menn, sem í n. sitja, séu svo önnum kafnir við önnur störf, að þeir fái ekki sinnt endurskoðun skattakerfisins; ég tala nú ekki um, ef þeir eiga að rannsaka allt tekjuöflunarkerfi ríkisins og fella það inn í einn allsherjarlagabáli, eins og hæstv. fjmrh. greindi frá í fjárlagaræðu sinni. Skattamál snerta beint eða óbeint alla þegna þjóðfélagsins. Það segir sig því sjálft, að ekki má undir neinum kringumstæðum kasta höndunum til þeirra. Það þarf ný vinnubrögð. Ollum er kunnugt um, með hvaða vettlingatökum skattamál hafa verið tekin á Íslandi frá því að tíund lagðist af. Fsp. mínar eru í senn hvatning og ábending um að herða nú róðurinn. Fsp. eru á þskj. 7 og hljóða þannig: „1. Hvað líður störfum skattanefndar og endurskoðun skattal.? 2. Hver er starfsaðstaða nm.? 3. Er þess ekki að vænta, að endurskoðun skattal. verði lögð fram á þessu þingi það tímanlega, að unnt verði að taka skattal. til rækilegrar meðferðar og gera á þeim nauðsynlegar lagfæringar fyrir næsta skattár?“