13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

2. mál, Fósturskóli Íslands

Páll Þorsteinason:

Herra forseti. Eins og brtt á þskj. 139 sýnir, stend ég að þeirri breyt., sem þar er fram borin, ásamt þremur öðrum hv. þm. 2. flm. þeirrar brtt., hv. 1. þm. Vestf., hefur raunar gert fullnægjandi grein fyrir því, hvers vegna þessi till. er fram borin. En ég vil þó leyfa mér að láta koma fram það sjónarmið, sem liggur því til grundvallar, að ég hef gerzt meðflm. að þessari brtt.

Það liggur í augum uppi, að hér er um að ræða samsett orð, og enginn mun neita því, að samsetningin fósturskóli er rétt mynduð í íslenzku máli og fer ekki illa í munni. En um samsetningar af þessu tagi, þar sem ákveðin eru heiti á menntastofnunum, er tvennt til um merkinguna: annars vegar fyrri hluti orðsins sé kenndur við starfsgreinina, verknaðinn, og á hinn bóginn, að fyrri hlutinn sé bundinn við starfsstéttina. Hvort tveggja þetta er til í okkar máli og í löggjöf. Þó hygg ég, að það hafi a.m.k. á síðari árum fremur sótt í það horf að tengja þetta við starfsstéttina, sbr. að búnaðarskóla var breytt í bændaskóla fyrir allmörgum árum, og fleiri hliðstæð dæmi mætti nefna. Það er augljóst, að nafn skólans, eins og það er nú, fóstruskóli, er bundið við starfsstéttina, við þær konur, sem þar gegna starfi. En með þeirri breyt., sem gerð er á nafninu í frv. og hæstv. ráðh. hefur mælt fyrir, er þessu breytt þannig, að hugsun ráðh. er að miða við starfsgreinina. Okkur í menntmn. sýndist ekki svo öruggt sem það virðist vera frá sjónarmiði ráðh., að almennt áttuðu menn sig á þessari tilfærslu, og að nokkur hætta yrði, að menn tengdu þennan skóla, ef hann héti fósturskóli, við það aldursskeið lífverunnar, áður en fæðing fer fram, og yrði það kannske til nokkuð mikillar gamansemi.

Um fóstrunarskólann skal ég ekki vera fjölorður, er þar vitanlega miðað við, að merkingin sé bundin við starfstéttina. En mér er þetta orð: fóstrun og það í samtengingu eða samböndum við aðra orðstofna a.m.k. ekki munntamt, það liggur mér ekki á tungu. Má vera, að þetta sé gott íslenzkt orð, sem er að ryðja sér til rúms, en ég hygg, að það sé ekki fornt í málinu. Og þá kem ég loks að því að árétta það, sem hv. 1. þm. Vestf. tók fram, að það er ein regla mjög algeng í íslenzku máli um samsetningar orða, að fyrri hlutinn sé í eignarfalli, ýmist eignarfalli eintölu eða eignarfalli fleirtölu, sbr. kvennaskóli, bændaskóli, unglingaskóli, allt eignarfallssamsetningar og fyrri hlutinn í eignarfalli fleirtölu. Og þegar á það er litið, að eignarfall fleirtölu, af bæði karlkynsog kvenkynsorðum, fóstra og fóstri, er með sömu beygingu: fóstra, þótti okkur, sem stöndum að brtt. á þskj. 139 ekki illa fara, að fyrri hluti orðsins yrði myndaður á þennan veg.