13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

2. mál, Fósturskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil helzt ekki lengja þessar umr. um orð og merkingar þeirra úr hófi fram, en tel þó rétt að benda flm. till. á þskj. 139 á það, að þeir hafa ekki horft nógu vitt, þegar þeir voru að kanna sameiginlegar beygingarmyndir. Fóstra er ekki aðeins eignarfall fleirtölu af kvenkynsorðinu fóstra og karlkynsorðinu fóstri, það er einnig eignarfall fleirtölu af hvorugkynsorðinu fóstur, sem merkir, eins og síðasti ræðumaður sagði, lífveruna á aldursskeiðinu, áður en fæðing fer fram. Ef ætlunin hefur verið að svipta gárunga tilefni til útúrsnúninga og gamansemi, þá tel ég vera farið úr öskunni í eldinn með því að víkja þarna úr eintölunni í fleirtöluna. En eins og ég vék að í fyrri ræðu minni, tel ég Alþ. ekki sæmandi að láta spéhræðslu verða til þess, að sniðgengið sé hið íslenzkulegasta og þjálasta heiti á stofnun, sem verið er að veita nafn.