13.12.1972
Efri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

39. mál, orlof

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla að vera mjög stuttorður, m.a. vegna þess, að ég hef áhuga á, að þetta mál komist áfram hér í hv. d. og einnig næsta mál á dagskrá, sem mér skilst, að hv. 5. þm. Vestf. hafi einnig áhuga á, þó að það kæmi ekki fram í þeirri löngu ræðu, sem bann hélt hér og fór þó allviða.

Ég hef þá því helzt til að svara, að hann hélt því fram með tilvísun í ákveðna fundargerð, sem hann kannske hefur ljósrit af, — ég skal ekki segja um það, ég hef aldrei lesið hana, –að því væri slegið alveg föstu, að um þessa skerðingu hefði orðið samkomulag í n. og fyrirvarinn væri m.a. háður því, að þetta samkomulag væri raunverulega rofið með þeirri breytingu, sem nú á að gera á lögunum. Nú er það svo í fyrsta lagi, að orlofsmálin eru yfirleitt ekki samningamál, þau eru löggjafaratriði, sem löggjafinn getur auðvitað breytt á hverri stundu, eins og honum sýnist, án tillits til þess, hvað aðilar málsins hafa um það að segja. Hér er um félagsleg málefni að ræða, sem orðið er hefð og venja, að fari að lögum, og ég get ekki séð, að neinn geti um það samið, neinn utan sala Alþ. geti samið um það, að lögin skuli, hvorki ákveðin né óákveðin tíma, vera svo eða svo. Valdið er auðvitað hjá löggjafarþinginu í þessum efnum sem öðrum lagamálum.

Ég hef ekki mikið um þetta að segja frekar. Ég hef kynnt mér bæði afstöðu og skoðanir fyrirsvarsmanna Alþýðusambandsins í n., og það fer ekkert á milli mála, að þær eru, eins og ég gat um, að þetta væri látið óátalið, og er þess vegna ekki talið upp í þeirri fundargerð, sem hv. ræðumaður benti á sem ágreiningsatriði, vegna þess að ákvæði 2. gr. voru talin trygging fyrir því, að þarna gæti ekki verið um að ræða skerðingu á orlofsfé til sjómanna og ekki heldur giftra kvenna. Það er sannleikurinn í málinu. Ég tel alveg ástæðulaust að vera að draga grandvarann embættismann inn í deilurnar um málið, ef einhverjar deilur eru, sem mér sýnist vera raunar þarflausar, þar sem þeir hv. nm., sem hafa gert fyrirvara, eru þó með málinu. Þó að hv. 5. þm. Vestf. segði áðan, að það gegndi mikilli furðu, að ríkisstj. skyldi með slíku frv. vera að leggja auknar byrðar á útgerðina, þegar hún herðist í bökkum, en er því samt fylgjandi, er hann þá ekki að höggva eins nærri sjálfum sér og hæstv. ríkisstj. Ég held, að við verðum að taka það mál til umr. við annað tækifæri, og það gefst sjálfsagt innan tíðar. Ég veit ekki annað en það hafi verið eilífðarviðfangsefni stjórnvalda, bæði þeirrar ríkisstj., sem nú er við völd, og hinnar fyrri, að sjá útgerðinni í landinu fyrir viðunanlegum rekstrargrundvelli, og ég held, að þetta mál verði alveg að skiljast frá því. Ég held, að hvorki þjóðarbúskapnum né útgerðinni verði bjargað með því að fara að skerða sérstaklega réttindi sjómannastéttarinnar.

En það var svo í öðru orðinu að heyra á þessum hv. þm., að það væri ekki allt með felldu samt sem áður að hafa þetta svona, vegna þess að innbyrðis mismunur yrði svo mikill á orlofi sjómanna, sumum gengi vel, þeir hefðu háan aflahlut og fengju mikið í orlofsfé, aðrir drægju varla bein úr sjó og fengju lítið. Ég hafði reyndar heyrt það sem þjóðsögu, að þessi hv. þm. hefði einu sinni verið jafnaðarmaður og snúið snögglega til þeirrar pólitísku trúar, sem hann nú hefur. En ég er nú alveg sannfærður um, að þessi saga er sönn, því að þetta lýsir svo mikilli jafnaðarmennsku, að ég hlýt að dást að því. En væri þá ekki líka réttara, ef málið er svona, að sjómennirnir, verkamennirnir og fleiri gerðu t.d. kröfu til þess að fá sama orlofsfé og hæstlaunuðu embættismennirnir í landinu, þó maður fari nú ekki hærra en í laun hv. alþm? Í því væri auðvitað sönn jafnaðarmennska, sem ég skyldi ekki hafa mikið á móti. En hér er málum þannig háttað, að mér er ekki kunnugt um, að um þetta gildi neinar reglur nokkurs staðar í veröldinni aðrar en þær, að orlofsfé sé í hlutfalli við laun, og orlof því í því fólgið, að menn fái í einhverju formi greidd vinnulaun, meðan á orlofi stendur. Það má vel vera, að á þessu megi gera grundvallarbreytingu, en ég hygg, að þá þætti ýmsum nóg um, sem vilja halda í það, að hér byggist allt á samningum, sem aldrei megi rjúfa. Það væri meira en litil breyting.

Ég tel svo ekki ástæðu, herra forseti, til þess að tefja málið með neinu þvargi um þetta. Mér sýnist það liggja ljóst fyrir, að menn eru sammála um, að þessa breytingu beri að gera á l. og það beri ekki að skerða orlofsréttindi sjómanna umfram aðra. Og viðvíkjandi því, að það sé eitthvað óeðlilegt við það, að þeir hafi orlofsfé af sínum aflahlut, þá gildir þar auðvitað nákvæmlega sama og um aðrar stéttir. Þær hafa orlofsfé í hlutfalli við sín laun, og þar er enginn munur á. Ég bendi t.d. á, að ýmsir, sem taldir eru hafa allgóðar tekjur, hafa t.d. ákvæðisvinnu, svo sem iðnaðarmenn og fleiri, — ég nefni ekki hálaunaða embættismenn, — hafa orlofsfé af sínum tekjum eins og þeir fá þær með ákvæðisvinnu, og það tel ég alveg sambærilegt við sjómennina. En ekkert af þessu er aðalatriði málsins, heldur það, að menn eru sammála um, að þessi breyting skuli gerð, og þá finnst mér fara bezt á því, að menn geri breytinguna án þess að fara í nokkra fýlu út af henni.