24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

7. mál, endurskoðun skattalaga

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin, og það kom bersýnilega fram, að þessi mál væru í athugun, eins og vera ber. Ég vil, eins og ég minntist á í þessu spjalli mínu áðan, mælast mjög eindregið til þess, að á þessum málum verði tekið af festu. Við vitum það allir, sem hér sitjum, að skattamálin eru það mikilvægur þáttur í þjóðlífinu og snerta alla þegna þjóðfélagsins, að það má ekki kasta höndunum til þessa verks og ég vænti þess og tel það hið fyllsta réttlætismál, að ekki sé gengið of hart að tekjurýru fólki með mikilli skattheimtu og allra sízt þannig, að fólk með þurftartekjur verði fyrir barðinu á henni.

En að öðru leyti vænti ég þess fastlega, að þessi mál verði tekin föstum tökum og betri en hefur tíðkazt hjá fyrrv. ríkisstjórnum.