13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef talið mér skylt að vekja athygli á mjög alvarlegu máli, sem er tilefni þess, að ég hef kvatt mér hljóðs núna utan dagskrár. Það munu vera einir 8–10 dagar síðan ríkisstj. barst í hendur álit svonefndrar valkostanefndar um aðgerðir í efnahagsmálunum. En það liggur í augum uppi, að ríkisstj. mátti vera kunnugt um aðalefni þess miklu fyrr. Henni munu hafa borizt við og við ýmsir þættir þessa máls á liðnu eða líðandi hausti, eins og að líkum læfur. Nú var það tilkynnt í ríkisútvarpinu, að þetta álit sé orðið opinbert plagg, sem áður var þó trúnaðarmál þm. En í þessu nál. er fjallað um fjármálaaðgerðir, sem eru þess eðlis, að mjög viðtæk áhrif geta haft á fjárráðstafanir einstaklinga og fyrirtækja. Má þar til nefna gengislækkun, innflutningsgjöld, margs konar skattalagningu, hækkun áfengis og tóbaks og margt fleira. Það er nú altalað, að tveir stjórnarflokkanna séu þegar orðnir sammála um gengislækkun sem eina hinna væntanlegu efnahagsráðstafana. Stangast þetta algerlega á við allar fyrri yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. varðandi efnahagsmál og fullyrðingar einstakra ráðh., þ. á m. hæstv. forsrh., sem og sjálfan stjórnarsáttmálann. En er þetta rétt eða ekki? Gerir ríkisstj. sér ekki grein fyrir því, hversu alvarlegu umróti og mismunun gagnvart þegnunum slíkt ástand hlýtur að skapa? Það er mjög óvanalegt og alvarlegt, að ástand eins og nú hefur ríkt undanfarna daga — og reyndar nokkurn tíma — geti haldið áfram í þjóðfélaginu, án þess að af því leiði verulegt tjón og mismunun e.t.v. á milli þegnanna. Ég hef talið mér skylt að aðvara hæstv. ríkisstj., en ætla ekki að öðru leyti að ræða þessi mál. nema frekara tilefni gefist til.