13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal ekki tala eins hátt og hv. síðasti ræðumaður. Ég held satt að segja, að sá vandi, sem fyrir hendi er, verði ekki leystur með hávaðanum einum, og ég held ekki heldur, að það flýti neitt fyrir ákvörðunum hjá stjórninni, þó að talað sé um það í þeim tón, sem hv. síðasti þm. gerði. En hann vildi koma á framfæri aðvörun, og það er sjálfsagt að taka því vel, þegar það er vel meint.

Hv. þm. talaði um, að mikil vandræði muni hljótast af því, að ekki lægju fyrir ákvarðanir, og nefndi í því sambandi, hvort mér væri kunnugt um það, að farið væri að spekúlera“ með gjaldeyri, erlendan gjaldeyri. Út af því vil ég segja það, að mér hafa ekki borizt til eyrna neinar fréttir frá viðskiptabönkunum um, að óeðlilegar gjaldeyrisyfirfærslur ættu sér stað nú. Ég geri ráð fyrir því, að á þessum tíma sé jafnan mikið um gjaldeyrisyfirfærslur í viðskiptabönkunum. En það er sjálfsagt, að taka slíkt til athugunar, ef það er svo, að slíkt eigi sér stað. En ég hef ekki orðið var við það. Hvort meira hefur kveðið að sölu áfengis nú að undanförnu en áður, skal ég heldur ekkert um segja. Ég hef ekki komið í þær búðir og ekki kynnt mér það sérstaklega. En hitt veit ég, að það er vandamál, sem hefur oft borið á góma, að áfengisneyzla og áfengiskaup þar af leiðandi væru heldur meiri en æskilegt væri í þjóðfélaginu.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að sér væri kunnugt um, að fulltrúum í Alþýðusambandsstjórn hefðu borizt þættir úr skýrslu valkostanefndar, þá vil ég upplýsa það, að í skipunarbréfi n. var það beint tekið fram, að hún skyldi hafa sérstakt samráð við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Það samráð hygg ég, að hafi fyrst og fremst verið í því fólgið, að fulltrúar frá báðum þessum aðilum ræddu við hagrannsóknastjóra og hagrannsóknastjóri lét þessum aðilum í té sem trúnaðarmál þætti úr þessari skýrslu, jafnóðum og þeir urðu til. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að það hafi aldrei verið gert neitt þar upp á milli fulltrúa Alþýðusambandsins og fulltrúa Vinnuveitendasambandsins. (JóhH: Ekki heldur fulltrúa ríkisstj.?) Ekki heldur fulltrúa ríkisstj.? (Gripið fram í.) Nei, það er ekki rétt. Við fengum hana ekki í hendur fyrr en tilsettan dag, sem ég hef dagsett í bréfi þar um, þegar hún barst mér í hendur. Mér bárust í hendur öll eintökin, sem ríkisstj. fékk, og ég útbýtti þeim á ríkisstjórnarfundi. hetta vildi ég aðeins taka fram.

Hitt er svo augljóst mál, að það er áhugamál stjórnarinnar, að það verði sem fyrst tekin ákvörðun um efnahagsmálin, og ég tek undir það með hv, síðasta ræðumanni, að það er óheppilegt, að það verði á því langur dráttur. Annað mál er, að sjálfsagt gætu þeir, sem sögufróðir eru, rakið ýmis dæmi úr þingsögunni um, að það hafi verið annasamir dagar fyrir jól og jafnvel að það hafi átt sér stað, að bjargráð þau, sem í burðarliðnum voru, hafi ekki birzt fyrr en á nýju ári. En það ætla ég ekki að fara að rifja upp hér. Það þjónar engum tilgangi.