13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir orð hv. 1. þm. Reykv. hér, þegar hann aðvarar hæstv. ríkisstj. og bendir henni á, hversu nauðsynlegt það sé, að hún geri sér nú þegar grein fyrir því, til hvaða ráðstafana þurfi að gripa í sambandi við þær aðgerðir, sem fram undan eru. En varðandi þá fsp, eða það svar, sem hæstv. forsrh. kom með út af hugleiðingum hv. 1. þm. Reykv., þar sem hann minntist á, að eina af þeim leiðum, sem valkostanefndin hefur bent á, muni tveir af stjórnarflokkunum hafa samþykkt, þá kom hæstv. forsrh. hér og lýsti því yfir, að svo mundi ekki vera. (Forsrh.: að svo væri ekki.) Að svo væri ekki. Mig langar þess vegna til að snúa þessari spurningu við og spyrja hæstv. forsrh. og hv. 4. þm. Norðurl. v., hvort rétt sé — (Gripið fram í: Hann á ekki sæti í d.) Rétt, hann á ekki sæti í d., en við höfum hér hæstv. 3. þm. Reykv., hæstv. iðnrh. Mig langar til að spyrja þessa tvo ráðh., hvort rétt sé, að einn stjórnarflokkanna hafi þegar afneitað einni af þeim leiðum, sem valkostanefndin hefur bent á, hvort flokkur hæstv. iðnrh. hafi afneitað einni af þeim leiðum, þ.e.a.s. gengislækkunarleiðinni. Ég vildi mjög gjarnan, að annar hvor ráðh. svaraði þessari spurningu.