13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. En ég hefði kunnað betur við, að hæstv. ráðh. hefðu svarað fsp., sem hér var fram borin áðan, áður en ég kom í pontuna, því að ráðh. eiga forgang að því að taka til máls á undan þm. En það var hæstv. forsrh., sem gaf mér tilefni til þess að biðja um orðið.

Hæstv. ráðh. sagði: Það er alls ekki rétttúlkun á málefnasamningnum, að ríkisstj. hafi heitið því að hafa aldrei gengislækkun í stjórnartíð sinni. Það, sem átt er við í stjórnarsáttmálanum, sagði ráðh, er það, að ríkisstj. mundi ekki beita gengisbreytingu við þann vanda, sem við blasti, þegar hún tók við völdum. Þetta kemur auðvitað engum á óvart, vegna þess að hæstv. forsrh. hefur lýst því, hvernig ástandið var í þjóðfélaginu við stjórnarskiptin. Hann hefur gefið vottorð um það áður. Það fór fram allnákvæm úttekt á þjóðarbúinu við stjórnarskiptin. Hæstv. forsrh. gaf yfirlýsingu í nóv. 1971 um það, hvernig ástand atvinnuveganna og þjóðarbúsins var, og það var glæsilegt. Það var svo glæsilegt, að hæstv. ríkisstj. taldi fært að lofa 20% kauphækkun á tveimur árum, styttingu vinnuviku og lengingu orlofs. Það undrar engan, þótt hæstv. ráðh. hafi ekki þá verið í huga gengislækkun.

Hæstv. ríkisstj. tók við góðu búi, blómlegu búi. En það er nú, sem allt er komið í strand, allt er komið í öngþveiti. En hæstv. forsrh. talaði síðast í sjónvarp í haust og lýsti því yfir, að þessi ríkisstj. mundi ekki framkvæma gengislækkun. Ég man eftir því, að ég horfði á ráðh. segja þetta. Ég man ekki nákvæmlega, hvenær þetta var. Ég hygg, að það hafi verið í okt. Hæstv. fjmrh. var á fundi austur á Selfossi, að ég ætla 10. nóv. s.l., og blað framsóknarmanna á Suðurlandi segir frá þessum fundi. Það er feitletruð fyrirsögn á frásögninni innan gæsalappa, höfð eftir hæstv. fjmrh. Þessi ríkisstj. fer ekki út í gengisbreytingu. Það er ekki lengra síðan en 11. nóv. s.l., sem þetta er haft eftir hæstv. fjmrh. Ég er alveg sannfærður um, að ritstjóri Þjóðólfs hefur haft þetta rétt eftir ráðh. Þetta er innan tilvitnunarmerkja. Ég er einnig viss um það, að hæstv. fjmrh. þrætir ekki fyrir að hafa sagt þetta. Fleiri ráðh. hafa sagt eitthvað þessu líkt.

Mér þykir út af fyrir sig vænt um, að hæstv. forsrh. gefur enn fyrrv. ríkisstj. góðan vitnisburð og segir, að það hafi alls ekki verið meiningin að beita gengislækkun við þann vanda, sem blasti við á miðju sumri 1971. Þá var vandinn ekki stór. Ef ríkisstj. hefði hafzt eitthvað að, þegar verðstöðvunarlögin runnu út á því ári, í stað þess að halda að sér höndum, þá væri ekki við þann vanda að etja, sem nú er. Það er grátlegt, að það skuli nú vera talað um 15–16% gengislækkun í því góðæri, sem verið hefur. Það hefur verið góðæri, síðan núv. ríkisstj. kom til valda, bæði til lands og til sjávar. Það blandast engum hugur um það. Þegar gengisbreytingin var gerð á árunum 1967–1968, minnkuðu útflutningstekjur landsmanna um 50%, og þá skildu flestir, nema sumir í fyrrv. stjórnarandstöðu, að þörf var á aðgerðum. Síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða aukizt. Það hefur aukizt frá 1970 úr 10 þús. millj. í 11 þús. og 5 hundr. millj. 1971 og spáin er, að það aukist um 9% á þessu ári eða í 12500 millj. Á þeim tíma, sem þetta gerist, er talað um hallærisráðstafanir og gengislækkun. Það segja sumir, að þetta sé í samræmi við margt annað. Hæstv. forsrh. sagði í viðtali við dagblaðið Vísi í gær, að það væri meiningin að afgreiða fjárlög fyrir jól, en fólk gæti haldið jólagleði, því að skattarnir mundu tæplega koma fyrir jól. En samt á að afgreiða fjárlög. Nú er verið að útbýta brtt, fyrir 2. umr. Þessar brtt. eru ekkert háar. Þær eru lítill hluti af því, sem koma skal. En alþm. eiga að ræða 2. umr, á morgun og sennilega ljúka henni aðra nótt án þess að hafa hugmynd um, hvað í farvatninu er, hvað fjárl. munu raunverulega hækka og hvaða tekjuöflun ríkisstj. ætlar að hafa til þess að brúa það bil, sem er bæði á fjárl. og framkvæmdaáætluninni.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki við þetta tækifæri að fara að halda neina eldhúsdagsræðu yfir hæstv. ríkisstj., en ég gat ekki að mér gert, þegar hæstv. forsrh. fór að tala um að það, sem í Ólafskveri stæði, væri rangtúlkað, ef sagt væri, að ríkisstj. hafi lofað því, að framkvæma ekki gengislækkun á valdatímabilinu. Ég held, að allir þm. og allir, sem hafa lesið þetta kver, jafnvel þótt þeir hafi ekki lesið það nema einu sinni, hafi skilið það svo, að ríkisstj. mundi ekki framkvæma gengislækkun á valdatíma sínum.