24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

10. mál, lánveitingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Við umr. við lokin í vor kom til orðaskipta milli mín og hæstv. félmrh., þegar frv. til breyt. á 1. nr. 30 12. maí 1970 var til umr. í Ed. Alþingis. Í þessum umr. kom fram, að ég mætti vera rólegur, því að ráðh. lofaði góðri úrlausn lána úr Byggingarsjóði ríkisins. Og hann undirstrikaði orð mín, að húsnæðismálin ætti að leysa á grundvelli félagslegra sjónarmiða. Mér þykir því hlýða að fá að heyra nokkuð um stöðu þessa máls í dag í þingbyrjun, og eins er það bráðnauðsynlegt fyrir húsbyggjendurna sjálfa að fá staðfest, hvernig lánamálin standa. því hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. á þskj. 10:

„1. Hve mikilli fjárhæð samtals nema lánveitingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins úr Byggingarsjóði ríkisins miðað við 15. okt. 1971 og 1972, annars vegar til nýbygginga og hins vegar til kaupa á eldri íbúðum?

2. Hvernig skiptast þessar lánveitingar eftir kjördæmum?

3. Hve margar eru þær lánsumsóknir vegna nýbygginga, er borizt hafa á þessu ári og enn hafa enga afgreiðslu hlotið?

4. Hve margar eru þær íbúðir, sem aðeins fyrri hluti heildarláns hefur enn verið veittur til, og hvenær verða veitt seinni hluta lán til smíði þeirra íbúða? Munu hin síðarnefndu koma til greiðslu á þessu ári?

5. Hvenær verða veitt frumlán til smíði þeirra íbúða, sem fokheldar hafa orðið frá og með 1. júlí s.l., og hve margar eru þær nú? Hve margar er talið, að þær verði við lok ársins? Er ætlunin að veita frumlán til smíði þeirra allra, er komi til greiðslu fyrir lok þessa árs?

6. Hve mikið fjármagn þarf að útvega nú, svo að unnt sé að veita á þessu ári jafnmörg byggingarlán og gert hefur verið að meðaltali undanfarin 4 ár?

7. Hver úrræði eru á prjónunum nú um frambúðarlausn fyrir Byggingarsjóð ríkisins?