13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil svara í stuttu máli þeim fsp., sem hv. 3. þm. Sunnl. beindi til mín.

Eins og ég hef áður sagt, hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um sérstakar efnahagsaðgerðir. Þess vegna get ég ekki gefið yfirlýsingu um það, hvort þær verða afgreiddar fyrir jól eða ekki. En að sjálfsögðu verður leitazt við að flýta þessum málum, eftir því sem kostur er.

Að sjálfsögðu er það svo, að það er ekki algild regla, að þm. fari burt í jólafrí. Það hefur að vísu oft verið hafður sá háttur á, að það hefur verið veitt samþykki af Alþ. hálfu til frestunar á fundum Alþ. til 20. jan. eða um það bil. En ef ekki verður búið að ganga frá þessu fyrir jól, tel ég það eðlilega ósk af hálfu stjórnarandstöðunnar og mun taka hana til greina, að þingið sitji og geti komið saman til fundar hvenær sem er milli jóla og nýárs og strax eftir nýárið, eftir því sem á þarf að halda.

Í öðru lagi spurði hann um það, hvort stefnt yrði að því, að 3. umr. fjárl. lyki fyrir jól. Svarið við þeirri spurningu er já. Það er stefnt að því. Það er stefnt að því að afgreiða fjárlög fyrir jól. Út af því, sem hann sagði varðandi samninga við sjávarútveginn, þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að þeir samningar geti hafizt, þó að ekki sé búið endanlega að taka ákvörðun um það, í hverju efnahagsaðgerðirnar verða fólgnar, því að það er ein forsenda, sem menn ganga út frá í öllum þessum umr. um efnahagsmál. Hún er sú, að það verður að skapa útflutningsatvinnuvegunum rekstrargrundvöll.