13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 80, sem hér er nú til 1. umr., er búið að vera með þeim ágætum að vera hér oft á dagskrá, en tekið út á víxl með samkomulagi milli mín og eins hv. þm., en sér nú dagsins ljós sem þingmál, sem fyrir er talað. Hér er um að ræða frv. til l. um breyt. á l. nr. 7 23 marz 1972, um breyt. á l. nr. 68 frá 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Og það er sérstakt atriði í þessum lögum, sem afgreitt var með brbl. í sumar og var til nokkurrar umr. þá.

Ástæðan fyrir því, að þessi breyting var gerð, felst í því, sem ég mun nú skýra frá:

Við þá breytingu á almannatryggingakerfinu að tryggja þeim tekjulægstu lágmarkstekjur og með þeim hækkunum, sem orðið hafa, bæði á almennum elli- og örorkulífeyri frá 1. ágúst 1971 og síðar á fjárhæð lágmarkstekjutryggingar, var talið óframkvæmanlegt að afla fjár til almannatryggingakerfisins á sama hátt og áður hefur verið gert, þar sem persónuskattar hefðu þá orðið mjög tilfinnanlega háir á tekjulágu fólki og ekki sízt skólafólki og þar með fjölskyldum þess. Sú ákvörðun var tekin við endurskoðun skattalaga og laga um tekjustofna sveitarfélaga að breyta kerfinu á þann hátt að fella niður persónuskatta til almannatrygginga og sjúkrasamlaga og enn fremur að fella niður framlag sveitar- og bæjarfélaga til almannatrygginga og að hálfu framlag þeirra til sjúkrasamlaga, en tekna til að mæta þessum auknu útgjöldum yrði aflað með tekjuskatti. Þeir aðilar, sem njóta elli- og örorkulífeyris, nutu hins vegar ekki þeirra hlunninda, er af niðurfellingu persónuskattanna leiddi, þar sem greiðsluskylda þeirra hafði fallið niður við það að öðlast rétt til elli- og örorkulífeyris. Hins vegar hefur þetta fólk notið 48% hækkunar á elli- og örorkulífeyri frá 31. júlí 1971 til þessa. Svo sem verið hefur, eru elli- og örorkulífeyrisþegar skattskyldir til tekjuskatts samkv. skattal. frá síðasta vetri af tekjum þeirra, sem skattskyldar eru. Það hefur komið í ljós við skattaálagningu, að af 9500 einhleypum ellilífeyrisþegum höfðu 2600 það háar tekjur, að þeim var gert að greiða tekjuskatt, og af 4300 hjónum, er ellilífeyris njóta, var tekjuskattur lagður á 2800, eða af 14 þús. ellilífeyrisþega var lagður tekjuskattur á 5400 eða 38.6%. Engar sambærilegar tölur eru til fyrir örorkulífeyrisþega, en þeir eru 3500 talsins samkv. upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins. Þar sem ellilífeyrisþegar hafa engan hag af því, að niður voru felldir persónuskattar af ástæðum, sem áður eru skýrðar, og þrátt fyrir hækkaðan ellilífeyri þótti rétt að huga sérstaklega að skattlagningu þessa fólks. í skattal. frá því í marz s.l. var því sem kunnugt er sett nokkur ívilnun fyrir aldraða gjaldendur, hins vegar engin sérstök kerfisbundin ívilnun fyrir örorkulífeyrisþega. Sama gilti um skattalögin 1971 óbreytt. Þar var gert ráð fyrir sérstökum frádrætti fyrir aldraða, en ekki fyrir örorkulífeyrisþega. Við álagningu tekjuskatts í sumar hefur orðið augljóst, að þessi ívilnun nær engan veginn því marki, sem að var stefnt, að draga úr tekjuskattsgreiðslum þeirra ellilífeyrisþega, er minna máttu sín tekjulega. Af þeirri ástæðu eru þessi brbl. sett.

Ákvæði brbl. byggjast á því, að þau auka þá ívilnun, sem áður var veitt, þannig, í stað þess að miða við að hámarki 5 þús. kr. tekjuskattsniðurfellingu hjá öldruðum, að miða við 22 þús. kr. hjá hjónum og 14 þús. hjá einhleypum. Þessar tölur eru valdar þannig, að þær svara nokkurn veginn til þeirra persónuskatta, sem lagðir hefðu verið á að óbreyttu tekjuöflunarkerfi trygginganna. En í stað þess að láta lækkun réna, eins og er í núgildandi reglum, þannig að hún hverfi alveg, þegar skatturinn nær 10 þús. kr., teygir þetta kerfi sig með einhverjum ívilnunum upp í 56 þús. kr. skatt hjá einhleypum og 88 þús. kr. skatt hjá hjónum. Þessi ívilnun þýðir, að einhleypir eru tekjuskattsfrjálsir allt að 200 þús. kr. nettótekjum og greiða ekki óskertan tekjuskatt, þ.e.a.s. tekjuskatt af sömu tekjum og aðrir gjaldendur, fyrr en við 300 þús. kr. nettótekjur miðað við tekjur ársins 1971. Enn fremur má nefna sem dæmi, að tekjuskattur að upphæð 25 þús. kr. hjá einhleypum lækkar um 10 þús. kr. og skattur að upphæð 35 þús. kr. lækkar um 7 þús. Fyrir hjón yrðu þessar tölur þannig, að þau yrðu tekjuskattsfrjáls allt að 300 þús. kr. nettótekjum og greiða ekki óskertan tekjuskatt fyrr en við 450 þús. kr. nettótekjur. Tekjuskattur hjóna upp að upphæð 38 þús. kr. lækkar um 16 700 kr., og skattur að upphæð 55 þús. kr. lækkar um 11 þús. kr. fyrir ofan tekjumörkin 300 þús. kr. hjá einhleypum og 450 þús. kr. hjá öðrum öldruðum. Hins vegar er öðrum öldruðum ætlað að leggja eins og öðrum mönnum með sömu tekjur og framfærslubyrði til almannaþarfa og tekjuöflunar og taka þátt í því sem aðrir að tryggja þá tekjulægstu í hópnum, aldraða og öryrkja, svo að þeir njóti lágmarkstekna, og forða þeim tekjulægstu í hópi hinna yngri frá því að greiða háa persónuskatta, enda eru í hópi gjaldenda 67 ára og eldri gjaldendur, sem enn þá eru í fullri atvinnu.

Að lokum má benda á, að af hinni nýju ívilnun samkv. brbl. leiðir, að af 4500 öldruðum hjónum þurfa 2100 að greiða einhvern tekjuskatt, þar af þó aðeins 1200 óskertan skatt. Af 9500 einhleypum öldruðum þurfa 1850 að greiða einhvern tekjuskatt og þar af 700 óskertan. Niðurstaðan er því sú, að af öldruðum gjaldendum greiða í heild 4000 eða 28.6% tekjuskatt, þar af 1900 eða 13% óskertan tekjuskatt.

Með brbl. er, eins og hér að framan hefur verið lýst, ákveðin almenn kerfisbundin ívilnun fyrir aldraða gjaldendur og örorkulífeyrisþega. Í sumum tilfellum, sem af eðlilegum ástæðum eru algengari hjá þessum hópi en öðrum, kann þessi ívilnun að vera ónóg. Þegar svo stendur á, að tekjur í ár eru mun minni en í fyrra vegna veikinda og gjaldþolið því skert. En þá ætti að koma til heimildarákvæði í 52 gr. skattal., sem í þessu sambandi er sérstök ástæða til að vekja athygli á.

Ég hef, herra forseti, gert grein fyrir þeirri ástæðu, sem lá til þess, að þessi lög voru gefin út sem brbl. Um það má að sjálfsögðu deila, hvort það á að vera svo, að aldur skuli verða til þess að gera fólk skattfrjálst, alveg án tillits til tekna. Ég hef sjálfur lýst þeirri skoðun, að ég lít ekki svo á, að það sé réttmætt. Hins vegar eru möguleikar til þess, að njóta þess, ef sérstakar breytingar hafa orðið á högum þess, eins og bent er á í tilvitnun í 52. gr. tekjuskattsl. Það má líka um það deila og það hefur verið um það deilt að gefa út þessi brbl. Ég hef þá lífsskoðun, að það sé á engan hátt neitt unnið við það að berja höfðinu við stein, þegar maður er sjálfur sannfærður um, að réttara sé að framkvæma verkið eins og þarna var gert. Það kom í ljós, að tekjur hjá sumu af þessu fólki voru meiri en reiknað var með. Skatturinn var því hærri en reiknað var með, og þá var ekkert annað að gera en ganga í það verk að leiðrétta það strax, eins og gert var.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.