13.12.1972
Neðri deild: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Við setningu skattal. á s.l. þingi gagnrýndi stjórnarandstaðan mjög með hvaða hætti sú lagasetning fór fram. Við sjálfstæðismenn lögðum til, að haldið yrði áfram á þeirri braut, sem frá var horfið vorið 1971, og haldið yrði áfram þeirri endurskoðun skattal., sem hófst árið 1970, þegar fjmrh. fyrri ríkisstj. skipaði n, embættismanna til þess að endurskoða skattal. Framsfl. hafði alla tíð í stjórnarandstöðu ekki uppi neinar till. um, með hvaða hætti hann teldi, að skattalögum skyldi skipað hér hjá okkur, og við setningu l. 1971 var því ekki heldur að heilsa, að Framsfl., þá undir forustu núv. formanns þingflokks framsóknarmanna, Þórarins Þórarinssonar, gerði neinar till. í sambandi við breytingu á skattal. Hins vegar höfðu einstakir þm. Framsfl. komið fram með ýmsar till. um breytingar á skattal., sem þeir töldu, að væru til bóta, og vil ég þar sérstaklega benda á eina till., sem m.a. þeir hv. þm. Jón Skaftason og Ingvar Gíslason fluttu. Það var í sambandi við skattlagningu aldraðra. Í stað þess að taka raunhæft á málum 1970 og 1971, þegar þingflokkunum var gefið tækifæri til þess að tilnefna menn í n. til að fylgjast með endurskoðun skattal. og koma þá fram með brtt. varðandi þá stefnu, sem Framsfl. vildi, að farið yrði eftir í skattamálum, þá kom aðeins fram hjá framsóknarmönnunum tili. um rökstudda dagskrá, að endurskoðuninni yrði frestað og málinu vísað frá. Það var hins vegar gripið til þess að gera tortryggilega mjög gagnlega till., sem þá var lögfest. Það var um skattfrelsi arðs af hlutafé. Hér var um að ræða atriði sem tekið hafði verið upp í löggjöf nágrannaþjóða okkar og var talið mjög til þess að auka á eigin fjármunamyndun fyrirtækja. Og eftir að hér hófst sala á spariskírteinum með sömu kjörum og sparifé hafði verið allt frá því 1960, var talið mjög eðlilegt og nauðsynlegt, til þess að atvinnureksturinn, fyrirtækin, gæti fengið fjármagn til eigin fjármunamyndunar, að örlitlum hluta af þeim arði, sem útborgaður yrði, væru gefin sömu réttindi og sparifé og þeim spariskírteinum, sem seld hafa verið. Hér voru hins vegar settar mjög miklar skorður við því, hvernig hægt væri að nota þetta ákvæði. Það var gert ráð fyrir því, að aðeins 10% arð af hlutafé væri heimilað til frádrags undir þessum kringumstæðum, en allt frá því 1962, að skattal. var breytt hér, var félögum, sem greiddu arð, heimilt að draga frá til skattlagningar arðgreiðslur hjá félögunum sem næmi 10% af hlutafé. Það, sem hér gerðist, var, að í stað þess, að skattfrádráttur væri veittur félögum, var hann felldur niður, ef þess var eigi óskað, og hann látinn koma hluthöfunum til góða.

Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma. Ég vildi aðeins rifja þetta upp, til þess að menn áttuðu sig á því, hverjar hefðu verið till. Framsfl., þegar hann var í stjórnarandstöðu, því að svo mjög er skrifað um það í blöðum Framsfl. nú, hvernig stjórnarandstaða eigi að haga sér, og þar er verið að gefa núverandi stjórnarandstöðu ráðlegginar. En þegar þær eru nú lesnar sýnast þær ekki fara heim og saman við þeirra eigin hegðun hér í um það bil 12 ár. Það var því mjög fróðlegt, þegar núv. ríkisstj. tók við völdum og menn gerðu sér grein fyrir því, að skattal. yrðu tekin til endurskoðunar, eins og þeir höfðu þá lýst yfir, og það kom líka á daginn í stjórnarsamningnum, þeim margumtalaða, ólafskveri, sem nefnt hefur verið og menn lesa nú kannske meira en oft áður til þess að bera saman það, sem sagt er í dag, og það, sem stendur í því kveri. En það var skýrt mörkuð stefna hjá stjórninni, hvað gera skyldi. Það átti að tryggja undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, það átti að jafna skattbyrðinni á meðal þjóðfélagsþegnanna betur en gert hafði verið í tíð viðreisnarstjórnarinnar, betur en gerðist 1971 með þeirri skattalöggjöf, sem viðreisnarstjórnin beitti sér fyrir og stjórnarandstaðan þá, núv. stjórnarflokkar, greiddi atkv. gegn. Stefna núv. stjórnarflokka var fyrst og fremst að koma í veg fyrir, að sú löggjöf næði fram að ganga, og breyta skattal., áður en næðist að leggja skatta á eftir 1. frá 1971, ásamt þeim atriðum, sem ég taldi hér upp áðan.

Í skattalöggjöfinni frá 1971 voru fjölmörg ákvæði, sem voru atvinnuvegunum til hagsbóta og gerðu það að verkum, að staða þeirra var styrk. Hér var um að ræða afleiðingu af því, að Ísland hafði gerzt aðill að Fríverzlunarbandalagi Evrópu, og ríkisstj. vildi ganga til móts við atvinnuvegina og gera þeim kleift að vera samkeppnisfærir við fyrirtæki á hinum stóra markaði, sem við gerðumst aðilar að. Þar af leiðandi varð að endurskoða skattalöggjöfina og koma henni í það horf, að íslenzk fyrirtæki væru samkeppnisfær við þau erlendu. Auk þess höfðum við orðið fyrir biturri reynslu af ár unum 1967–1968, þegar illa áraði hér hjá okkur. Þá kom í ljós, að mörg þau fyrirtæki, sem hér starfa, höfðu ekki verið nægjanlega traust fjár hagslega og þar af leiðandi átt mjög erfitt, þegar á móti blés.

Þetta allt vildi núv. ríkisstj. í burtu og umfram allt koma þessum málum sem allra fyrst út úr heiminum, og því var farið inn á þá hroðvirknislegu framkvæmd á endurskoðun skattal., sem raun ber vitni. En með hvaða hætti var svo sú endurskoðun framkvæmd, sem átti sér stað, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum? Jú, í fyrsta lagi voru allir þeir nm., sem höfðu starfað um nokkurra ára bil varðandi endurskoðun skattalaganna, voru látnir víkja, að einum manni undanskildum, sem var ráðuneytisstjórinn í fjmrn. og hægri hönd ráðh. við störf þar. Þingflokkarnir, sem höfðu fengið að fylgjast með og haft tækifæri til þess að átta sig á því, hvað var að gerast í þessum málum, höfðu ekki lengur tækifæri. Þeim var vikið til hliðar. Árið 1970, þegar frv. kom fram um breytingu á skattal., kom sú ósk fram frá þáv, stjórnarandstöðu, að þingflokknum væri gefið tækifæri til þess að fylgjast með. Við því var orðið. Þá var skipuð n. þm., sem fékk tækifæri þá þegar og alla tíð til þess að fylgjast með endurskoðuninni, þar til skattalöggjöfin hafði verið samþ. hér á þingi. Í stað þess að hafa samráð við þá aðila, sem þessi löggjöf snerti, samtök sveitarfélaganna, svo og atvinnurekendur, þá var blaðinu snúið við og ekkert samráð haft við þessa aðila. Vinnubrögðin hafa verið með þeim hætti, að það er ekki nema eðlilegt, að reynslan sýni, að sú gagnrýni, sem hér kom fram á s.l. vetri, hafði við rök að styðjast.

Ég ætla í örfáum atriðum að stikla á stærstu þáttum þessarar löggjafar og sýna fram á, hvernig sú gagnrýni, sem við sjálfstæðismenn höfðum uppi, hefur öll staðfestst af reynslunni. Við bentum á, að sú kerfisbreyting, sem ráðizt var í, væri fljótvirknislega unnin og að óathuguðu máli, þar sem gert var ráð fyrir breytingu á verkefnaskiptingu milli ríkis og bæja og þar af leiðandi tekjuöflun til ríkis og til sveitarfélaga. Reynsla sveitarfélaganna allra saman, sem stærst eru og hafa við mest verkefni að glíma, hefur verið sú, að þau hafa orðið að gjörnýta alla gjaldstofna. Því hefur verið haldið fram og það hefur komið fram hér í umr. á Alþ., að meiri hluti borgarstjórnar Reykjavíkur hafi mótað þar stefnu, sem beinlínis hafi verið til þess að íþyngja skattborgurunum. Í stað þess að nýta alla þá gjaldstofna, sem mögulegir voru, hefði Reykjavíkurborg ekki átt að leggja á fasteignaskatt með álagi, heldur ekki útsvar með álagi.

Við skulum ekki staldra við Reykjavík, við þá vondu menn, sem þar eru í meiri hl. borgarstjórnar, að dómi núv. ríkisstj. Við skulum fara í heimsókn í sveitarfélögin hér í kringum Reykjavíkurborg og gera okkur grein fyrir því, hvernig staðið var að málum þar. Það skyldi þó ekki vera, að það fyndist það sveitarfélag, sem sjálfstæðismenn hefðu ekki meiri hluta í? Jú, það gerir það, — enn þá. Við förum suður í Kópavog. Þar eru í samstjórn framsóknarmenn og sjálfstæðismenn. Það skyldi þó ekki vera, að það hefði borizt boð frá fjmrh. um það, að þeir ættu að sýna þegnum Kópavogs, þeir væru miklu betri menn en sjálfstæðismenn? (Gripið fram í: Eru þeir ekki sprungnir?) Þeir voru í samstarfi, þegar þessi ákvörðun var tekin, og það er það, sem skiptir máli. Þessir tveir flokkar, sem þar voru í stjórn, notuðu sér alla þá gjaldstofna, sem þeir gátu, og dugði ekki til.

Við skulum fara hér enn sunnar, suður til Keflavíkur. Þar er meiri hlutinn ekki enn sprunginn. Þar starfa saman sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, og þeir gerðu nákvæmlega það, sem Reykjavíkurborg gerði. Þeir nýttu gjaldstofnana að fullu. En það skyldi þó aldrei vera, að þeir hafi verið það langt á eftir Reykjavíkurborg, að þeir hafi verið búnir að lesa stefnu hæstv. fjmrh., eins og hún birtist í skrifum Tímans, um aðgerðir Reykjavíkurborgar?

Ég hirði ekki að tala um sveitarfélögin, sem ég gat um áðan, svo sem Garðahrepp og Seltjarnarnes, þar sem jafnvondir menn að áliti ríkisstj. eru við völd og í Reykjavík. En við skulum þá skreppa suður í Hafnarfjörð og athuga, hvernig dæmið stendur þar. Þar gerðist það, að minnihlutaflokkurinn í Hafnarfirði, sjálfstæðismenn, greiddi atkv. gegn því, að það yrði notað aukaálag á fasteignaskatta. Ég veit, að einn hv. þm. hér í d. getur staðfest þetta með mér. Meiri hl. taldi sig þurfa að nýta þessa gjaldstofna að fullu. En meiri hl. er skipaður m.a. einum fulltrúa Framsfl. og þar hafði Framsóknarmaddaman, — því að hér er um að ræða kvenfulltrúa, — hér hafði Framsóknarmaddaman tækifæri til þess að sýna það, sem framsóknarmenn höfðu gagnrýnt Reykjavikurborg fyrir, þ.e. að greiða ekki atkv. með aukaálögum í sambandi við fasteignaskatta. Hún taldi sig ekki geta gert þetta, ef fjármálum þess bæjarfélags ætti að vera komið eins og meiri hl. taldi, að vera ætti. Og hvað hefur svo komið á daginn í Hafnarfirði? Þar hefur bæjarstjórnarmeirihl. orðið að skera niður framkvæmdir fyrir um það bil 8–9% af fjárhagsáætlun bæjarins, þrátt fyrir það að allir gjaldstofnar væru nýttir til fulls.

Hver er því reynslan af þeirri breytingu, sem gerð var með setningu skattal. og l. um tekjustofna sveitarfélaga? Sveitarfélögin hafa öll orðið að nýta gjaldstofnana að fullu, þ.e.a.s. þau stærstu, sem að verulegu leyti þurfa að sinna framkvæmdum á vegum sinna borgara, og það kemur í ljós, að ríkissjóður hefur tekið meira til sín af tekjum heldur en af framkvæmdum. Þannig hefur ríkisstj. ekki farið eftir þeirri stefnu, sem hún mótaði í sáttmálanum Ólafskveri, þ.e. að endurskoða þetta kerfi með það í huga að gera sveitarfélögin sjálfstæðari og skapa þeim aukin verkefni. Hér hefur verið farið þvert á móti þeirri stefnu, sem upprunalega var mótuð. Má vera, að þegar tímabilið er liðið hjá núv. ríkisstj. og Ólafskver verður borið saman við verknað ríkisstj., þá verði flestallir liðir með þeim hætti.

Ég vil þá minna á breytinguna á skattal. varðandi atvinnureksturinn. Eins og ég gat um hér áðan, höfðu í l. frá 1971 verið mjög margar breytingar gerðar, sem var ætlað að tryggja betur undirstöðuatvinnuvegina skapa möguleika til meiri myndunar eigin fjármagns, m.a. í breyttum afskriftareglum og öðru slíku. Þetta var gert, eins og ég sagði áðan, vegna inngöngu Íslands í Fríverzlunarbandalag Evrópu? Hver er reynsla atvinnufyrirtækjanna í þessum efnum? Við skulum minna á mótmæli iðnrekenda, þegar skattal. voru sett. Þeir þekktu bezt, hvar skórinn kreppti. Þeir höfðu fylgzt með gangi mála í tíð fyrri ríkisstj. og gerðu sér þess vegna grein fyrir því, hvað það var, sem hér var verið að nema úr lögum. Hér var enn gengið gegn stefnu ríkisstj., eins og hún birtist í stjórnarsáttmálanum.

Og þá komum við að breytingunni á skattlagningu einstaklinga. Hér voru uppi á þingi margar yfirlýsingar um það, að ríkisstj. ætlaði ekki að þyngja skattbyrðina. Það var jafnvel látið liggja að því, að skattbyrðin myndi léttast og það yrði réttlátlegar skipt niður á skattborgarana, — eins og það var orðað, — að breiðu bökin skyldu bera skattana. Þær breytingar, sem lagðar voru til 1971, voru allar þurrkaðar út. Í stað þess að aldraðir áttu þá að fá aukafrádrátt, sem nam 2/5 af persónufrádrætti, þá skyldu þeir engan frádrátt fá nú, eftir að búið var að fella niður nefskattana, sem þýddi auðvitað það, að þar með var þeim eldri íþyngt.

Í sambandi við þessa lagasetningu 1971 ræddi núv. formaður þingflokks framsóknarmanna, hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, mjög um það skattvísitölufals, sem átt hefði sér stað í tíð viðreisnarstjórnarinnar, og hann hélt á lofti ákveðnum hugmyndum um, hvernig þeir mundu hafa þetta, framsóknarmenn, ef þeir fengju að ráða. Þegar núv. skattalög eru sett, er ekkert af því, sem sagt var við umr. hér 1971, framkvæmt. Þar var ekki nein skattvísitala, sem Þórarinn Þórarinsson, hv. 4, þm. Reykv., taldi, að ætti að vera 1971, tekin í notkun, nema síður væri. Og á það var bent af hálfu stjórnarandstöðunnar, að þau skattkerfi, sem hér voru til umr. og reiknuð höfðu verið út, myndu öll verka íþyngjandi fyrir skattborgarana, og það sem sízt skyldi, gamla fólkinu skyldi gert að greiða mun hærri hluta en það hafði gert.

Hver er nú reynslan af þessu? Hvernig er útkoman, þegar dæmið er gert upp og skattalög núv. ríkisstj. hafa fengið að njóta sín? Skattur hefur verið á lagður eftir þeim og borinn saman við það, sem gerðist áður. Áður en ég kem sérstaklega að gamla fólkinu, sem þetta frv. hér fjallar um, vildi ég mega gera grein fyrir því, hvernig skattlagningin 1972 kemur út miðað við skattlagningu 1971. Þegar við ræddum skattamálin hér á s.l. þingi, voru menn með mismunandi stærðir, með mismunandi tölur, jafnvel stjórnarliðar komu með mörg kerfi undir ýmsum nöfnum til þess að reyna að sannfæra okkur hv. þm. um það, að kerfi 1 eða 2, eftir því hvort það var kennt við fjmrh. eða hv. 4. þm. Norðurl. v., — allt til þess að sanna, að um skattalækkun væri að ræða. Þegar svo kom að lokum þessara umr., var sagt: Við skulum bara bíða og sjá hvað setur og sjá, hvernig dæmið kemur út. Þá tala staðreyndirnar um skattlagninguna 1971 og um skattlagninguna 1972, og þá getur enginn þrætt. Tölurnar tala sínu máli.

Árið 1971 voru brúttótekjur landsmanna 32 milljarðar 215 millj. til skattlagningar. Árið 1972 voru þessar tekur 42 milljarðar. Álagður skattur 1971 var 4 milljarðar 651 millj., 1972 6 milljarðar og 700 millj. Hér hækka tekjurnar á milli ára um 30%, en álagður skattur um 44%. Við skulum halda áfram að reikna út og gera okkur grein fyrir því, sem er þarna mergurinn málsins, hversu hátt hlutfall af tekjum manna skatturinn er. Og fyrst skulum við taka skatt af tekjum ársins 1971. Þá er skatturinn 20,8%. Hann hafði orðið hæstur í tíð fyrrv. ríkisstj. árið á undan, 18.3%. Hér er um að ræða 13.7% hækkun. Það er 13.7% meira af tekjum ársins 1971, sem fólk þarf að borga í skatta, heldur en það þurfti að gera af tekjum ársins 1970. Sé nú þetta miðað við tekjur ársins, kemur í ljós, að 1972 eru álagðir skattar hlutfallslega af tekjum greiðsluárs 16%. Þeir höfðu verið hæstir 1968 14.9%, en voru árið 1971 14.4%, þannig að hér er um að ræða hækkun upp á 11.1%. Það er nákvæmlega sama, með hvaða hætti við lítum á þetta dæmi. Það kemur alltaf út það, sem sagt var hér í sölum Alþ., þegar þessi mál voru til umr. á útmánuðum 1971, að skattal. þessarar ríkisstj. mundu þýða aukna skattbyrði á skattborgarana. Þessar tölur staðfesta það.

Þá komum við að því frv., sem hér liggur fyrir, þ.e.a.s. gamla fólkinu. Við bentum á það við þessar umr., að samkv. þessu frv. mundi skattbyrði hinna öldruðu þyngjast mjög. Það var ekkert hlustað á þetta og talið, að hér væri eins og í öðrum tilfellum, verið að fara með fleipur eitt. Þegar svo skattseðillinn kom út, blasti allt annað við heldur en sagt hafði verið af stjórnarsinnum hér á Alþ. við umr. þessa máls. Suður í Hafnarfirði er félagsskapur, sem nefnir sig Styrktarfélag aldraðra í Hafnarfirði. Það fólk hefur unnið mikið og þarft verk við að sinna málefnum aldraðra þar. Þessi samtök létu reikna út, hvað heildarálögur aldraðra hefðu hækkað í Hafnarfirði. Ég skal taka það fram, að í þessum samtökum er fólk úr öllum flokkum. Þetta eru ópólitísk samtök, sem líta á málefnin eins og þau koma fyrir, en ekki gegnum gleraugu stjórnmálaflokkanna. Þessi samtök létu reikna út, hvað heildarálögur hækkuðu á aldraða í Hafnarfirði, og það kom í ljós, að þau hækkuðu um 108.3%.

Ýmsir aðilar hafa látið í sér heyra í sambandi við álögur á aldraða, og í dagblaðinu Tímanum 28. sept. 1972 er bréf frá Flateyringi einum, sem Kolbeinn heitir Guðmundsson. Mun sá maður hafa verið staddur á fundi, þar sem þeir voru mættir, hæstv. félmrh. og hv. 7. landsk. þm., og hann ræddi skattaálögur aldraðra og lagði á borð fyrir þá, hver hefði orðið niðurstaðan um sig. Þetta bréf birtist svo í Tímanum. Það birtist einnig í öðrum blöðum. En til þess að vera ekki að koma hér með úrklippur úr öðrum blöðum en blaði hæstv. fjmrh., þá tók ég greinina þaðan. Reynsla þessa Flateyrings er með nákvæmlega sama hætti og styrktarfélags aldraðra í Hafnarfirði. Hann bar sig upp við þá 2 þm., sem þar voru, en einhvern veginn hafði hann fengið ábendingu um það, að hann skyldi tala við hann Jón, en það mun vera skattstjórinn á Ísafirði og bréfið er sent Jóni til þess að fá leiðréttingu á þessum málum. Ég hirði ekki að lesa bréfið hér upp, en þeir, sem vildu, gætu fengið af því ljósrit. Það er sama reynsla hér og annars staðar. Skattbyrðin hefur aukizt verulega hjá hinum öldruðu og kannske hvað mest þar.

Þá grípur hæstv. fjmrh. til þess að gefa út brbl. og leiðrétta það, sem hér hafði skeð og hann hafði ekki viljað taka til greina við umr. hér á Alþ., og fer ríkisstj. fram á staðfestingu Alþ. á brbl. Ég verð að segja, að mig furðaði á, þegar ég sá þessi brbl., hvernig öldruðum er mismunað. Hér skiptir það máli, á hvaða tekjubili fólk er, hvað það snertir að fá slíkan frádrátt. Það munu fá dæmi um slíkt í íslenzkri skattalöggjöf. Þau munu þó vera til. Þau munu vera frá tíma Eysteins Jónssonar. En ég held, að það hafi allir verið búnir að þurrka það út og talið, að þeir aðilar, sem unnið hafa um hálfrar aldar skeið, greitt til ríkisins, og ríkið telur rétt að greiða til baka örlitla upphæð sem lífeyristryggingu, þeir aðilar eiga rétt á því, hvaða tekjur svo sem þeir hafa, að fá þá lífeyristryggingu skattfrjálsa eins og aðrar tryggingar, sem fólk fær.

1971 lögðum við til í fjhn. Nd. við 3. umr., að í skattalagafrv. yrði tekinn sérstakur frádráttur fyrir aldraða. Þetta hafði verið á dagskrá hér í þinginu. Frv. hafði verið flutt um þetta af tveimur hv. þm. þáverandi stjórnarandstöðu, framsóknarmönnum, 1970, og það stóðu allir að þessari breytingu, hvort heldur það voru stjórnarliðar eða stjórnarandstæðingar. Þegar sú breyting er gerð á skattal., að nefskattar eru felldir niður, þ.e.a.s. greiðslur til trygginganna frá fólki á aldrinum 16–67, — greiðslur, sem fólk fékk dregnar frá skatti, og allar greiðslur til trygginganna koma nú frá ríkissjóði, þá má til sanns vegar færa, að hinir öldruðu eru látnir tvíborga skatt af þeim styrk, sem þeir fá frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir greiða af tekjum sínum til ríkissjóðs þann hluta, sem þeim ber, fram til 67 ára. Þeir eru þar með búnir að leggja fjármagn í tryggingakerfið frá 16 ára aldri til 67 ára aldurs. Þegar þeir svo eru komnir yfir 67 ára aldur og njóta líftrygginga, þá eru þeir líka látnir greiða skatt. Það sjá allir, hvað hér er rangt að farið.

Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því hér áðan, hvernig það frv. sem hér er til umr. verkar. Það þýðir það, að einstaklingar, sem hafa tekjur frá 200 þús. til 300, fá aukafrádrátt frá 54 400 kr. niður í ekki neitt. 54 400 kr. eyðast því á þessu tekjubili frá 200 þús. til 300 þús. kr. Hjá hjónum eyðist upphæðin 76 800 á tekjubilinu frá 296 800 til 446 800 kr.

Till. sú, sem við sjálfstæðismenn flytjum hér, er á þá lund, að það, sem aldraðir og öryrkjar fá frá Tryggingastofnun ríkisins, menn orðnir 67 ára gamlir, verði ekki skattskylt. Þessi till. er mjög svipuð þeirri till., sem við fluttum 1971 og fengum þá lögfesta. Það er að vísu örlítil tilfærsla, sem skiptir kannske innan við eitt þús. kr., hvort heldur farin er sú leið að miða þetta við 2/5 hluta af persónufrádrætti eða telja, að ellilífeyrir og örorkulífeyrir skuli vera skattfrjáls. En þar sem búið er að fella niður greiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins, nefskattinn, sem var, þá töldum við eðlilegast, að sú till., sem greidd yrðu um atkv. hér í sambandi við þessi brbl., yrði þess eðlis, að það væri ákveðið í l., að ellilífeyrir og örorkulífeyrir samkv. þessum ákvæðum, sem þar um getur, verði undanþegnir skatti.

Það hefur komið fram í Sþ. till. um svipað efni. Hún er flutt af þremur Alþfl.- mönnum. Í þeirri till. er getið um annað atriðið. Ég tel eðlilegt, að þegar mál þetta verður rætt í fjhn., verði athuguð þau sjónarmið, sem þar koma fram. Við töldum rétt, sjálfstæðismenn, að einskorða okkur við það málefni, þann þátt skattamálanna, sem hér er sérstaklega fjallað um, þ.e.a.s. skattlagningu aldraðra, — blanda þar ekki inn í öðrum till., sem við fluttum á seinasta þingi varðandi breytingu á öðrum þáttum skattalaganna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um þetta mál. Ég taldi eðlilegt og rétt, þegar nú er flutt brtt. við skattal. frá því í fyrra, að í stórum dráttum væri gerð úttekt á þeirri löggjöf, sem núv. ríkisstj. stóð að, og hver reynslan hefur orðið. Ég taldi eðlilegt og rétt að bera saman þá gagnrýni, sem sjálfstæðismenn voru með hér á þingi, og draga fram í dagsljósið, að sú gagnrýni var í alla staði rétt. Það hefur reynslan sýnt, og það þarf að koma skýrt fram.