14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

1. mál, fjárlög 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að þakka hv. fjvn., formanni hennar og nm. öllum fyrir störf þeirra í n., sem ég þekki af fyrri reynslu, að eru mikil og vandasöm. Og ég vil þakka jafnt andstæðingum sem samherjum fyrir það starf, sem þeir hafa lagt á sig við það að koma málinu fram til 2. umr. og leggja þar a.m.k. kvöld við dag, til þess að það mætti takast, svo sem venja hefur verið um störf í fjvn. Þar hefur hvorki verið spurt um helgidag né kvöld, þegar liðið hefur að fjárlagaafgreiðslu, og svo hefur verið nú. Ég vil jafnframt þakka hagsýslustjóra og hans starfsmönnum fyrir störf þeirra í sambandi við undirbúning þessa fjárlagafrv. og öll hans störf í n., sem hann hefur unnið af miklum dugnaði, svo sem hans er háttur. Í sambandi við störf fjvn. vil ég einnig þakka þeim nm., sem setið hafa í undirnefnd fjvn., og einnig færa þeim úr þeirra hópi, sem fjarverandi er, hv. 2. þm. Vesturl., sem nú er hér fjarverandi vegna veikinda, — þakka þeim öllum fyrir samstarfið og þá vinnu, sem þeir hafa lagt í þetta verkefni, sem þeim hefur verið falið. Það er ánægjulegt að heyra það í ræðum þeirra hér á hv. Alþ., úr hvaða flokki sem þeir eru, að þá hafa þeir gert sér grein fyrir því, sem er mergur málsins, að í ríkisrekstri verður hvorki sparað né unnið skipulega, nema á bak við það liggi vinna, sem þeir menn verða að leggja fram, sem hafa nokkra kunnáttu til og kynnast verkefnunum sjálfir. Þetta var svo greinilegt í ræðum hv. þm., að það var ánægja á að hlusta. Eins og ég gat um í haust við 1. umr. fjárlfrv., hefur nú mjög verið efld hagsýslan, og er það einmitt gert með tilliti til þess að efla þetta samstarf og vinna þar að þeim verkefnum, sem fyrir liggja og fyrir munu liggja.

Í sambandi við mál þau, sem þeir nefndu, hv. frsm. allir, eins og frv. til l. um innheimtumenn, sem samið var af n., sem ég skipaði í fyrravetur, þá mun eftir áramótin verða samið frv. úr því nál. og þá með tilliti til þess, sem fram kom við athugun í undirnefnd fjvn. um málið í heild. Sama er að segja, að þar er alveg búið að vinna athugun á tryggingakerfi ríkisins, og í því efni er ekki um neitt annað að ræða en að taka ákvarðanir út frá þeirri vinnu, sem þegar liggur fyrir, til þess að meta það, hvort ríkið á að taka allar tryggingar í eigin hendur eða að bjóða þær út á annan hátt, eða hvernig með skuli farið. Sama er að segja um rekstur sjúkrahúsa og mötuneyta í sjúkrahúsum. Ég hafði ánægju af því, — það er svo sjaldan, sem maður sér nokkuð af léttara hjali, þegar lesin eru dagblöðin, — og ég sá eftir ræðu mína hér í haust, þar sem ég sagði frá þeirri hugmynd, að hið nýja eldhús Landsspítalans ætti að hafa víðtækari verkefni en það að elda matinn fyrir þá, sem þar væru, þá sá ég fyrirsögn í einni Staksteinagrein Morgunblaðsins, þar stóð: „Halldór brasar“, og ég hafði gaman af því, að þeir skyldu þó hafa fyndni til að bera á þeim bæ.

Út í fleiri atriði í þessu sambandi skal ég ekki fara, en vil í upphafi máls míns víkja lítilsháttar að því, sem hv. 1. þm. Reykv. kom að í sinni ræðu, sem hann flutti hér utan dagskrár, en það hefur verið háttur þeirra í stjórnarandstöðu að hefja umr. utan dagskrár í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Ég met náttúrlega að verðleikum þessa vinsamlegu uppástungu þessa hv. 1. þm. Reykv., og hefði hún verið vel fyrirgefanleg, ef hér hefði verið á ferðinni maður, sem hefði verið nýliði á hv. Alþingi. En hér er ekki um það að ræða, að hv. 1. þm. Reykv. sé nýliði á Alþ., því að hann er í hópi þeirra, sem einna lengst hafa hér setið. Hv. 1. þm. Reykv. virðist samt ekki muna það, hvenær fjárlagaumr. hafa yfirleitt farið fram hér á hv. Alþ., en ég mun hafa getið þess í fyrra við 2. umr. og hef yfirlit um það og ætla nú ekki að fara að lesa það allt, en t.d. 1962 fór 2. umr. fram 12. des., 1963 fór hún fram 16. des. og 1964 fór hún fram 14. des. eins og nú, svo að hér er ekkert nýtt, að 2. umr. fjárl. sé seint á ferðinni, það hefur yfirleitt átt sér stað. Hefur verið hér til umr. á hæstv. Alþ., hvort sá tími, sem fjvn. hefði til afgreiðslu og undirbúnings fjárlaga væri nægjanlegur frá 10. okt., þó að vel sé unnið. Þess vegna er hér ekki nein nýlunda á ferðinni, heldur gamall kunningi, að hin 2. umr. fjárl. hafi farið fram um þetta leyti.

Þá er það, sem hv. 1. þm. Reykv. deildi mjög á, að tekjuáætlun fjárl., eins og hún endanlega yrði, lægi ekki fyrir við 2. umr. Nú skal ég ekki treysta um of á mitt minni, en mér er nær að halda, að þau séu færri dæmin, sem hægt er að vitna til, að tekjuáætlun fjárl. hafi legið fyrir við 2. umr. fjárl. Ég hef hér nokkuð fyrir mér í því, t.d. 1967, fjárl. fyrir 1968, þá var halli við 2. umr. og við 3. umr. var bætt inn tekjum upp á 200 millj. kr. 1968 vantaði um 230 millj. kr. við 2. umr., — sem var nokkur upphæð miðað við fjárl. þá, — og var leiðrétt við 3. umr., eins og venja hefur verið. Í mörgum tilfellum hefur þetta einnig verið svo, að það hefur líka við 2. umr. vantað inn ýmsa framkvæmdaflokka, eins og skóla, í miklu ríkari mæli en nú er. 1969–1970 hafa tekjur verið hækkaðar við 3. umr. um rúmar 300 millj. kr., en þá var hallinn um 87 millj. kr. Ég vil geta síðustu fjárl. viðreisnarstj., sem að vísu sýndu greiðsluafgang, en þau voru afgr. hér, ef ég man rétt, 21. des., en kvöldið áður hafði verið skrifað undir kjarasamning við opinbera starfsmenn, sem kostaði ríkið á árinu 1971 um 570 millj. kr. Þá vantaði nokkuð á, að það væri náð því marki, að fjárl. væru samkvæmt því hallalaus. Ég vil líka minna á það, að það er ekkert nýtt í þingsögunni, að ríkisstj. hafi gert ráðstafanir fljótlega eftir áramótin og fjárl. hafi verið afgr. fyrir áramót, og vil ég í því sambandi nefna árið 1968, en þá voru gerðar ráðstafanir í janúar. Það munu vera mörg fleiri dæmi um það, að ráðstafanir vegna atvinnuveganna hafi verið gerðar skömmu eftir að fjárlagaafgreiðsla hefur farið fram. Þetta vildi ég biðja hv. 1. þm. Reykv. að festa sér í minni. Hér er ekki verið að taka upp neinar nýjar vinnuaðferðir, heldur fara í fornar slóðir. Hins vegar geta hv. þm. deilt um, hvort rétt væri að fylgja þeim fordæmum eða ekki.

Svo ætla ég að taka þetta í öfugri röð og snúa mér að hv. 5. þm. Reykn., Jóni Árm. Héðinssyni, frsm. 2. minni hl. Hann talaði um viðskiptahallann, hvað alvarlega mikill hann væri og mundi verða á þessu ári. Ég sé það hér í nál. hv. þm., að þar kemst hann svo að orði á 4. síðu um viðskiptahallann, með leyfi hæstv. forseta: „Reiknað er með mjög miklum viðskiptahalla annað árið í röð, og á þessum tveimur árum, 1972 og 1973, má gera ráð fyrir, að öfugur viðskiptahalli nemi tæpum 9 milljörðum kr.“

Ég er ekki alveg búinn að átta mig á því, því að ef ég segði, að um öfugan viðskiptahalla væri að ræða, þá mundi ég telja, að það þýddi, að það væri afgangur, en ekki halli.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykn. spurði um endurskoðun skattal., þá get ég sagt honum það, að það er mikið verk og að því verki er unnið. Ég get hins vegar ekki sagt honum, hvenær því verður lokið og sem heildarendurskoðun er það nokkuð langt undan.

Út af því, sem hann sagði um 4 ára byggingartíma skólahúsa, þá hefur það verið reynslan, að á 3 árum hafa þau aldrei verið byggð og að minni hyggju er með stærri skóla lítt framkvæmanlegt að koma því í verk á þeim tíma, vegna þess að byggðarlögin hafa ekki bolmagn til þess að keyra þessar stóru byggingar áfram með slíkum hraða, auk þess sem það er svo, að vinnuafl til þeirra er tæplega til á stöðunum. Frv. um þetta efni er nú komið í prentun og mun sennilega verða útbýtt hér á morgun.

Út af því, sem hv. þm. spurði um brbl., að því er varðar kostnaðinn við þau, þá verð ég að svara því til, að ég get ekki svarað þessu, því að stærstu liðirnir í kostnaðinum, eins og hv. þm. veit, eru niðurgreiðslur og fjölskyldubætur, og það verður ekki ljóst fyrr en í lok þessa mánaðar, hvað þessir liðir verða kostnaðarsamir.

Hv. þm. spurði einnig um fjármagnsþörf o.fl. viðvíkjandi efnahagsmálum. Ég held, að það sé búið að gera meiri grein fyrir þessu nú heldur en nokkru sinni fyrr, þar sem búið er að láta hv. þm. í té tvær bækur, sem eru skýrslur valkostanefndar, þar sem mat þeirra, sem í henni sátu, er sett fram og að mínu mati ekki af neinu dregið um það, að þarna geti verið um mikið hálfkák að ræða. Hitt er svo annað mál. hver kann að verða niðurstaðan eða hver kann að verða valin af leiðum þeim eða hvernig með það verður endanlega farið. Um það kann ég ekki að segja að þessu sinni, en ég held, að það þurfi ekki að spyrja um þetta frekar, fyrr en búið er að velja úr því, sem þarna kemur fram, eins og t.d. nefnt hefur verið í framkvæmdaáætluninni. Þar er þegar búið að velja og draga úr þeim óskum, sem mestar voru að dómi þessarar ágætu n. Ég sé því ekki ástæðu til að fara að rifja það frekar upp, sem þar er sagt, því að það er svo greinilegt, að það mundi ekki batna neitt við það, þó að ég færi að endursegja það.

Ég vil hins vegar segja það líka í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Reykn. minnti á varðandi viðskiptahalla við útlönd, að það skiptir meginmáli, hvað er um að ræða, hvort við erum að taka lán til þess að fjárfesta í framkvæmdum, sem annaðhvort verða gjaldeyrissparandi eða gjaldeyrisaukandi, eða hvort lánin eru tekin til venjulegrar daglegrar notkunar. Mér fannst hv. 1. þm. Reykn. heldur deila á ríkisstj. fyrir það að hafa ekki farið þá leið að gera meira að því að taka slík lán. Þegar á það er litið í heild, þá er um mikinn mun að ræða og staðan í nóvemberlok núna er hagstæðari en í fyrra um rúman milljarð. Hvort það verður endanleg niðurstaða, þegar upp er staðið, skal ég ekki spá um, en þetta er svona. Viðskiptajöfnuðurinn er hagstæðari um rúman milljarð í nóvemberlok heldur en hann var á sama tíma í fyrra. Þess vegna er ég ekki viss um, að það, sem er reiknað með í þessu efni, verði svo sem gert er ráð fyrir.

Hv. 2. þm. Vestf. flutti hér langa og að mörgu leyti skemmtilega ræðu að vanda, og ég verð a.m.k. að endurgjalda honum með því að svara honum nokkru, þó að ég megi nú tímans vegna ekki fara út í allt það, sem þar kom fram, þótt gaman hefði það nú verið. Ég vil minnast á það, sem hann talar um og hafði eftir mér, að fjárlagafrv. gæfi mynd af stjórnarstefnunni. hetta er að minni hyggju rétt. Ég tel, að þessi fjárl., núv. ríkisstj. hafi sýnt nokkuð aðra mynd en fyrrv. ríkisstj. sýndi áður, og tel ég, að félagslega sviðið skipi þar miklu meira rými en áður hefur verið, hvað sem á það sé litið.

Hitt geta menn svo deilt um, hvort of langt er gengið í því t.d. að taka tryggingakerfið í þjónustu fólksins í landinu, eins og þarna er gert. Hins vegar er það nú svo, að það hefur verið deilt á núv. ríkisstj. fyrir tekjutrygginguna, að hún skuli vera með þeim hætti, að hún sé raunveruleg tekjutrygging, en gangi ekki inn jafnt eftir sem áður, þó svo að fólk hafi tekjur. Þá er hún að mínu mati ekki lengur tekjutrygging og ekki heldur um það að ræða að tryggja það, að enginn hafi minna í tekjur en þetta, og þjóðfélagið eigi ekki að leggja annað til en það. Ef tekjurnar séu svo annars staðar frá, þá komi þjóðfélagið ekki til.

Ég vil líka segja, að ég met það nú svo, að það hafi bæði með fjárl. nú og í fyrra verið mörkuð sú stefna að reyna að draga úr skuldum í framkvæmdaliðunum. Það voru verulegar skuldir í hafnarframkvæmdunum í fyrra, sem varð að verja til nokkrum tugum millj. kr., og því er haldið áfram núna að greiða upp þessar skuldir, svo að hægt verði, er nýju hafnalögin koma til framkvæmda, að byrja þá á nokkuð hreinum grundvelli. Þetta tel ég, að sé breyt. frá því, sem áður hefur verið. Það er reynt nú t.d. að taka greiðsluna af Reykjanesbrautinni inn á fjárlögin í staðinn fyrir að taka lán til þess að greiða með lán. Sýnist mér, að þar sé um algjöra stefnubreyt. að ræða. Þess vegna held ég, að spegilmyndin af þessu sé einmitt þessi: að auka hið félagslega svið og reyna að komast á það stig, að ríkissjóður fjármagni það, sem á að fjármagna með ríkisframkvæmdum, með samtímistekjum. Menn gefa svo um það deilt, hvort þessi stefna sé rétt eða ekki. Það er auðvitað pólitískt mat.

Ég vil líka bæta því við, að með skattalagabreyt. í fyrra hafi verið komið til móts við byggðarlögin, af því að þau voru komin í þrot með þær framkvæmdir, sem þau urðu að standa fyrir. Það er alveg sama, hvað margar ræður verða um það fluttar, að þeirra hlutur hafi verið gerður verri eða veitzt að þeirra umráðasvæði, þá er það staðreynd, að það var ekki hægt að breyta tryggingakerfinu á þann hátt, sem gert var — ekki einu sinni af viðreisnarstjórninni, hvað þá með þeirri viðbót, sem núv. stjórn gerði, — og láta sveitarfélögin borga sinn hlut eins og þau gerðu áður. Þá hefðu þau komizt í þrot með uppbyggingu í sínum heimabyggðum, og þá hefði fólkið ekki dvalizt þar lengur. Eitt eða tvö sveitarfélög hefðu haldið þessu áfram. Það var höfuðborgin Reykjavík, sem gat það, en byggðarlögin úti á landi gátu það ekki. Ég vil biðja ykkur, hv. alþm., að kynna ykkur fjárhagsástæður ykkar eigin byggðarlaga nú og í fyrra hvað þessu við vikur. Það voru 18 byggðarlög, sem urðu að fá sérstakt aukaframlag úr jöfnunarsjóði til þess að geta staðið undir þeim greiðslum, sem nauðsynlegar voru. Ég birti hér skýrslu í gær um það, hvað nú er meira fé til fjármögnunar framkvæmda á þessu ári en verið hefur hjá byggðarlögunum. Hinu held ég fram, að byggðarlag eins og Reykjavík hefði ekki þurft að auka sínar framkvæmdir um 100%. Það segi ég, að hafi verið ofrausn, og þess vegna ekki þurft að nota þær heimildir, sem notaðar voru. Þetta tel ég, að sé hin félagslega stefna, sem endurspeglist í þessu fjárlagafrv. Ég vil svo bæta því við, að það mun hvorki reynast mér né öðrum fjmrh. fært að standa fyrir slíkum útgjöldum án þess að afla tekna.

Ég tók eftir því í fréttapistli hjá Ríkisútvarpinu á sunnudaginn, þar sem sagt var frá fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, að þar var aðeins sagt frá því, sem gera átti, en það þurfti engra tekna að afla til þess fyrir fram. Skelfing væri lífið orðið skrýtið, ef það væri svona. En við skulum ekki vera með neinar vangaveltur yfir því. Svona getur lífið ekki verið. Það væri ekki þess vert að lifa því, ef það væri svona auðvelt.

Ég vil líka segja það, að það voru margir baggar, sem viðreisnarstj. batt kosningaárið 1971, en þeir voru hugsaðir þannig, að útgjöldin kæmu ekki fyrr en eftir kosningar. Það var munur að hafa lánasjóð námsmanna með 70–90 millj. kr. heldur en á fjórða hundrað millj., sem nú er orðið. Það hækkar fjárl. Ég sá það síðast í Mogganum í dag, að það væri ekki nóg að gert enn þá, enn þá væru þeir að snuða námsmennina, þessir herrar í ríkisstj. Ég hélt nú, að annað hefði verið að ske. En það munar um það á fjárlagafrv. að vera komið á 4. hundrað millj. kr. og skuldir að auki til þess að standa undir þessu. Ég líka segi það, það munaði um þær ákvarðanir, sem voru teknar hér, eins og t.d. tryggingabæturnar o.fl., sem viðreisnarstjórnin setti. Og svo voru það skattal. góðu. Þau voru nefnilega ágæt, því að þau kostuðu ríkissjóð ekki neitt fyrr en eftir árið 1971. Þá átti að koma tapið af hinum ágætu skattal., sem sett voru í auglýsingaskyni vorið 1971. Skattal., sem ég setti, voru ekki svona ódýr, það varð að innheimta skattana eftir þeim. Ég er ekki með neina tæpitungu eða hræsni um það. Hvorki ég né aðrir geta borgað út stórar fjárhæðir í félagslegar umbætur fólksins í landinu, í uppbyggingu skóla og vega, hafna, flugvalla og hvað það nú nefnist, án þess að hafa tekjur til þess. Ég hef einhvers staðar sagt það, að allir, sem innheimta skatta, — og ég hef tekið þátt í því að leggja á skatta í 30–40 ár, — verði aldrei varir við það, að nokkrir væru ánægðir með skattana sína, og ég veit ekki, hvernig færi um þann fjmrh., sem lifði þá stund, að allir væru ánægðir með skattana sína. Frá sjónarmiði skattborgarans er fjmrh. og skattheimtumaðurinn illmenni, og það er allt í lagi, hann má bara ekki vera aumingi líka. Það er staðreynd, og þess vegna þarf hann að taka nóg. Og ég verð að segja það, að mér sýnist, að hin ágæta sjálfstæðisstjórn hér í Reykjavíkurborg ætli sér skatt á næsta ári. Á sama tíma sem ríkissjóður hefur hækkað persónufrádráttinn frá því að vera 110, eins og átti að vera eftir verðlagsvísitölunni, í 128, ætlar Reykjavíkurborg sér að taka alla upphæðina og hækka skattana um 27%. Borgarstjórinn sagði í beinu línunni í gærkvöldi, að Framkvæmdastofnunin hefði áætlað fyrir sig, að þetta væri 28–29%, og þeir hefðu dregið frá fyrir ellilaunum og slíku, sem þeir gæfu alltaf eftir. Hitt ætlaði hann að taka alveg. Ég sé ekki, að þeir séu í neinum skattalækkunarhug. Ef sveitarfélögin hefðu yfirleitt ekki notað heimildirnar, var skattahækkunin á milli áranna 1970–1971 og 1971–1972 svipuð að prósentutölu bæði árin. En þegar hinu var bætt við, þá er hún hærri 1971–1972.

Þá kom hv. 2. þm. Vestf. að veizlunni, sem ríkisstj. hefði efnt til. Það er oft búið að tala um þessa veizlu og hún er ágæt, þegar menn tala um, að henni fylgi gjöld. Þegar er verið hér á hv. Alþ. að afgreiða þá, sem á að bjóða til veizlunnar, þá vilja allir vera með. Ég er sannfærður um, að þó að við hefðum ætlað að draga það, núv, stjórnarsinnar, að afgreiða tryggingalöggjöfina í fyrra fyrir áramót, þá hefðum við ekki haft frið fyrir stjórnarandstöðunni, sem hafði mikinn áhuga á að keyra þetta í gegn. En veizluföngin okkar voru að borga tryggingarnar út fyrr en gert var ráð fyrir. Það var sú stóra veizla. Það var það, sem við brutum af okkur, að við fórum að greiða þessu fullorðna fólki tryggingabæturnar 4 mánuðum áður en lögin sögðu til. Í öðru lagi brutum við það af okkur, að við héldum áfram að halda vísitölunni óhreyttri, þó að fyrrv. ríkisstj. hefði ákveðið að afla ekki fjár nema til 1. sept. Að okkar mati hefði þetta verið framkvæmanlegt, vegna þess að tekjur fóru fram úr áætlun, ef launagreiðslur og fleiri þættir, sem voru ákveðnir af fyrirrennurum okkar, hefði ekki farið svo mikið fram úr áætlun, að við gerðum alls ekki ráð fyrir því.

Ég vil til viðbótar því, sem ég sagði hér áðan, geta þess út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér í upphafi, að það var með svipuðum hætti mætt hér mínu fyrsta fjárlagafrv. í fyrra og talað um að vísa því frá sem óraunhæfu og annað slíkt. En ég hef nú látið gera samanburð í nokkra mánuði á útgjöldum og tekjum mánaðarlega milli áranna, og það er nú talið í nóvemberlok að mati ríkisbókara, að útgjöld fjárl. 1972 muni reynast miklu nær því að vera eins og áætlað var heldur en var árið 1971. Ég skýt þessu inn í út af tali manna þá, sem nú er verið að taka upp aftur.

Þá kom hv. 2. þm. Vestf. og sömuleiðis hv. 1. þm. Reykn. að fjölgun ríkisstarfsmanna. Höfuðuppistaðan í fjölgun ríkisstarfsmanna er það, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir 1971 urðu miklar umr. í fjvn. Alþ. um það, hve mikill hópur manna væri lausráðinn í ríkiskerfinu. Sérstaklega var þetta áberandi hjá ríkisspítölunum. Þar voru ekki tugir, heldur hundruð manna, sem höfðu ekki verið teknir inn sem fastráðið starfsfólk, en greitt af öðrum útgjöldum spítalanna. Þá þegar var gerð áætlun um það í sambandi við Kleppsspítalann að taka þetta inn á 2–3 árum, og nú er þessu lokið. Það er búið að koma þessum málum þar í viðunandi horf. Sama er að gerast með Landsspítalann og önnur slík sjúkrahús, þar sem var mikill hópur lausráðinna. Það er nú verið að taka þetta inn sem fastráðið fólk, eins og það raunverulega er, og það er vandamál hjá ríkinu, hve mikið er af hinu lausráðna fólki, vegna þess að það nýtur ekki þeirra réttinda, sem það ætti að njóta, ef það væri fastráðið. Þess vegna er verið að reyna að vinna þetta mál upp með skipulegum hætti.

Bremsunefndin hefur verið endurvakin af núv. ríkisstj. og þykir, eins og bremsunefnd hefur þótt vera áður, fullkomlega íhaldssöm, enda þarf hún að vera það, og hleypir engu í gegn hjá sér, nema það séu fullkomin rök fyrir því. Það var farið að slakna mjög á starfi bremsunefndar, — og það þótti raunar dálítið skrýtið, að einn af ráðh. fyrrv. ríkisstj. sat í þeirri n. Hún var svo endurskipulögð og starfar nú eins og lög gera ráð fyrir, auk þess sem áfram hefur verið unnið að því að endurskoða í ríkiskerfinu. Út af því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði um sjónvarp og útvarp, að það væri halli á þeim rekstri, þá hygg ég, að þær stofnanir séu kannske ekki þær saklausustu um fólksfjölgun, enda eru þær ekki, eins og því miður þær stofnanir, sem hafa sjálfstæðan fjárhag, eins háðar ríkiskerfinu og hinar, sem þurfa að sækja beint inn í fjárlögin.

Hv. 2. þm. Vestf. minntist á þann niðurskurð, sem gerður var á verklegum framkvæmdum í sumar, og á mig hefur verið deilt fyrir að hafa ekki gert grein fyrir því fyrr. Ástæðan til þess, að það hefur ekki verið, er nákvæmlega sú sama og með útgjöldin. Það var unnið að þessum málum með þeim hætti, að það truflaði sem minnst framkvæmdir hins opinbera og þyrfti ekki að verða til þess að tefja þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar voru og hægt var að vinna. Hann sagði, að hæstv. ráðh., bæði utanrrh. og heilbrmrh., hefðu mætt hér á sparifötunum til þess að tala fyrir fæðingardeildinni á sínum tíma við ágæta áheyrn þeirra, sem hér voru á þingpöllum. Nú finnst mér, að þessir hæstv. ráðh. gætu mætt a.m.k. í smóking, því að það hefur svo vel verið búið að þessu, að það var mögulegt að lækka fjárveitinguna um 14 millj. án þess að tefja verkið. Og þegar búið er nú að veita 60 millj. til þess að ljúka verkinu, þá verða þeir sennilega næst að mæta í kjól, og þá fyndist mér ekki nema skikkanlegt, að ég yrði í för með þeim, sem hef orðið að leggja á skattana til að afla fjárins. Og ég hefði talið það ósköp sanngjarnt að bjóða hv. 2. þm. Vestf., sem dyggilega hefur unnið að málunum í fjvn., að vera með til að sjá, hvað vel hefur verið að verkinu staðið og fjármagnið verið vel nýtt. Og ef ég mætti ráða þar einhverju um, þá mundi ég nú leggja það til. (Gripið fram í: Gjarnan vildi ég skoða fæðingardeildina.) Það gæti vel verið, að hv. þm. þyrfti að koma við á fæðingardeildinni, ef hann á börn og barnabörn koma hjá honum, svo að það verður allt með eðlilegum bætti. Og ekki efast ég um það, að það verða góðir borgarar í þjóðfélaginu, sem af honum eru komnir.

Hins vegar er það svo, að það, sem þarf að gæta að í sambandi við þessar framkvæmdir, er bæði að haga þeim skipulega, og ég verð að segja það, að ég tel, að n. sú, sem vinnur í sambandi við Innkaupastofnunina að eftirliti með opinberum framkvæmdum, — ég man nú ekki heitið á henni, — hafi unnið mikið og gott verk. Það er alveg óhugsandi, að slíkir hlutir eins og ríkisframkvæmdirnar geti verið látnar gerast alveg eftirlitslausir. Ég veit, að sumir hv. þm. hafa verið sárir út í þessa n. fyrir að láta ekki framkvæmdir ganga með meiri hraða, og m.a. var einn læknisbústaður úti á landi mjög til umr. í sambandi við útboð, sem gert var um þá framkvæmd. Ef útboðinu hefði verið tekið, — það var útboð um að gera húsið fokhelt, — þá var nokkurn veginn öruggt, að bústaðurinn hefði farið upp í ca. 10 millj. kr., og lái það hver sem vill. þó að hvorki n., sem vinnur trúnaðarstarf í þessu, eða fjmrh. vilji standa að slíku, að það sé byggður yfir einn embættismann bústaður, sem kostar um 10 millj. kr. Nú er verið að vinna að þessum málum með skipulegum hætti og er búið að ákveða, hve stór þau hús megi vera, sem á að byggja yfir þessa stétt embættismanna. Og það er ekkert vit í öðru, fyrst verið er með embættisbústaði á annað borð, sem að verulegu leyti getur orkað tvímælis, og ég vil segja það mínum fyrirrennara til hróss, að hann gerði þar breytingu á til bóta, og ég fylgi henni fast eftir og mun í engu slaka á, að það verður mjög að gæta sín í því að byggja ekki yfir embættismenn alveg í ósamræmi við það, sem fólk býr við á þeim stöðum. Þessi n. hefur unnið mikið og gott starf og þakkarvert.

Hv. 2. þm. Vestf. vék að rafvæðingunni, og auðvitað er það svo í því sem öðru, að það getur orðið dráttur á framkvæmdum, vegna þess að snjói. Við því er ekkert að segja, og því verður að taka eins og er, og það segir ekki það, að stjórnvöld hafi ekki gert sitt til þess að koma málunum áfram, eins og nauðsyn bar til. Og það er nú svo með rafvæðinguna úti um landsbyggðina, eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði um hafnirnar, að til þess að fólkið búi á þessum stöðum, verður það að hafa sambærileg kjör við aðra þegna þjóðfélagsins. Lífið er eins og það er, og það þýðir ekkert fyrir okkur að gera ráð fyrir því, að við getum haft úti á landsbyggðinni annars pláss fólk. Þess vegna verðum við að taka þátt í þessari félagslegu uppbyggingu, þó að það kosti það að innheimta skatta og annað, sem þarf til þeirra hluta. Við eigum að sjálfsögðu að gera það með skynsamlegum hraða, og við reynum að gera það, en þetta er mál. sem mjög hefur brunnið á mörgum. Og það veit hv. 2. þm. Vestf. eins vel og ég, að þegar komið er ljós hjá nágrannanum, þá liður hinum, sem verður að vera í myrkrinu illa að horfa á það. Og okkar reynsla af þessu er Litur og við reynum að hraða þessu eins og föng eru á, en auðvitað innan þeirra skynsamlegu takmarka að vera ekki að vinna það á óhagkvæman hátt og gera það þannig dýrara. Það er ekki okkar hugsun.

Hv. 2. þm. Vestf. vék að hafnamálunum og hlut byggðarlaganna í þeim. Með þeirri afgreiðslu, sem nú verður á hafnalögum, verður hlutur byggðarlaganna verulega lagður, þar sem ríkið greiðir nú upp sínar skuldir, sem byggðarlögin hafa orðið að standa undir eða útvega fé í, meðan ekki var fram úr því ráðið. Hér er því um stórkostlega bót að ræða. Hvort það nægir, það er önnur saga, sem ég skal ekki fara lengra út í að þessu sinni. En ég er honum sammála um það, að þetta er félagsleg uppbygging og atvinnuleg, sem verður að komast í framkvæmd, og það verður að afla til hennar þess fjár, sem þarf. Það hefur orðið æðimikil breyting á þeim tveimur árum, sem núv. ríkisstj. hefur setið, því að þessi fjárhæð hefur meira en tvöfaldazt. Ég held, að það sé eins með skólamálin, það sé mjög unnið að því að koma þeim áfram með skipulegum hætti og að lengja greiðslutímabilið upp í 4 ár. Það er að mínu mati hyggilegt að gera það, því að hitt réðum við ekki við, eins og skólabyggingarnar eru nú orðnar dýrar.

Ég skal nú ekki fara að deila við hv. 2. þm. Vestf. um notkun núv. ríkisstj. á sjónvarpi eða útvarpi. Það hefur verið talað um það hér fyrr, og ég hef a.m.k. ekki þangað farið nema að beiðni þeirra. Ég verð að segja það, að það hefði kannske einhvern tíma verið talið hæpið, eins og átti sér stað í fyrra, þegar deilur voru á milli ríkisstj. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja út af kaupgjaldsmálum, sem oft á sér stað í þjóðfélaginu, þá var það svo, að þeirra starfsmönnum og m.a. stjórnarmanni, sem er fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, þeirra fréttum var mjög haldið til haga, — ég fékk yfirlit um það frá Ríkisútvarpinu, — mér var aldrei boðið af Ríkisútvarpinu að segja þar eitt einasta orð eða neinum frá ríkisins hendi. Einu sinni boðaði ég blaðamannafund, og þar voru þeir. Það var það eina. Ég fékk hins vegar yfirlit um það, að í kjaradeilum, sem t.d. höfðu átt sér stað þá haustið áður, hafði aldrei verið talað við nema báða aðila samtímis. En út í þetta skal ég nú ekki fara.

Þetta með niðurgreiðslurnar og efnahagsráð stafanirnar er verk, sem enn er óunnið, og til þess að halda áfram þeim niðurgreiðslum, sem nú eru framkvæmdar, þarf meiri fjárhæð á fjár lagafrv., og það er ákvörðun, sem verður tekin, áður en fjárlagafrv. verður afgreitt.

Þá sagði hv. 2. þm. Vestf., að ógætilegar hækkanir gætu verið mjög varasamar, og nefndi þar til náttúruverndarráð eða fjárveitingar til náttúruverndar. Það, sem verður að meta í sambandi við slíkar fjárveitingar, er ekki eingöngu, hvað þær hafa verið, heldur einnig m.a., hvert verkefnið er. Og þannig hefur það verið með náttúruverndarráð, að það hefur raunverulega sama og engar fjárveitingar haft. Það hefur ekki verið sótt á það að fá fjárveitingar, svo að þess vegna hafa þær ekki verið, en hins, — ég er rétt að verða búinn, svo að ég skal ljúka þessu, — en hins er svo að gæta, að gerðar hafa verið á nokkrum árum ýmsar ráðstafanir til náttúruverndar, m.a. var keypt jörðin Skaftafell til að setja þar upp þjóðgarð. Ég geri ráð fyrir því, að þeir, sem fyrir því stóðu, hafi gert sér grein fyrir því, að það mundi kosta sína fjármuni síðar. Það, sem hér er um að ræða, er að dómi þeirra manna, sem fyrir standa, hin mestu nauðsynjaverk, sem ekki má draga, að sé sinnt, og ég held, að það hafi verið svo með þá eins og fleiri, að það hafi verið skorið niður frá því, sem þeir töldu sínar þarfir vera í þeim efnum. En við skulum gæta þess, að við bætum ekki landið eða verjum það áfalli, eftir að áfallið er orðið.

Út af því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði í sambandi við vegaframkvæmdir og tekjuöflun til þeirra, þá er ekkert um að ræða annað en það að afla tekna til þeirrar vegáætlunar, sem við settum hér upp í fyrra og vorum nokkurn veginn sammála um, að nauðsyn bæri til. Og ég vona, að verði eins með þá tekjuöflun nú og var meðan fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, að stjórnarandstaðan styðji hana ekki siður en við gerðum þá.

Ég skal svo ekki þreyta þm. lengur að sinni, þar sem nauðsyn er á að gera fundarhlé. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara almennt út í að ræða efnahagsmálin, — þau koma hér síðar til umr., og þá er hægt að gera það, — heldur víkja að því, sem fram kom í sambandi við fjárlagafrv. sjálft. Og ég vil segja það, að núv. stjórnarandstæðingar þurfa ekki að leita lengi í þingsögunni í sínum eigin aðgerðum til þess að finna sannanir fyrir því, að afgreiðsla fjárl. og efnahagsmála hefur ekki alltaf farið saman. Hefur oft og tíðum verið skammt á milli, frá því að fjárlög hafa verið afgreidd, þar til upp hefur verið tekinn nýr þáttur.