14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

1. mál, fjárlög 1973

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Næstur talaði hér á undan mér hæstv. fjmrh. og taldi sig þurfa að svara fáeinum atriðum í sambandi við ræðu þá, sem frsm. 1. minni hl. fjvn. flutti hér fyrr á þessum fundi. En þær aths., sem hæstv. fjmrh. gerði, voru ekki ýkjamargar og ekki veigamiklar heldur. En ég tel þó ástæðu til að gera aths. við örfáar þeirra.

Hæstv. ráðh. taldi ekki neina ástæðu fyrir þeirri gagnrýni, sem við höfum haft uppi um það, hversu fjárlagafrv. er vanbúið nú við 2. umr., og taldi, að farnar væru nú troðnar slóðir við afgreiðslu fjárl. og þess vegna ekki um neitt nýtt að ræða. Ég efa það ekki, að þær upplýsingar voru réttar, sem hæstv. ráðh. gaf, að umr. er ekki seinna á ferðinni en oft hefur verið að dagatalinu til. En ég verð að segja það, þó að ég hafi ekki langan kunnugleika af afgreiðslu fjárl., þá er afgreiðslan að þessu sinni með nokkuð óvenjulegum hætti, og þó að við hefðum uppi gagnrýni um það um þetta leyti fyrir ári, hversu vanbúið fjárlagafrv. var fyrir 2. umr., þá var það þó með allt öðrum hætti en nú er. Í fyrra var það ákveðið, að þeirra tekna, sem á vantaði, skyldi aflað með sköttum. Það, sem ekki voru upplýsingar um, var aðeins það, hversu mikið þyrfti til. Nú er það hins vegar síður en svo ákveðið, með hverjum hætti verður séð fyrir þeim tekjum, sem þarf til að mæta útgjöldunum. Ég það er langt frá því, að maður viti með neinni vissu heldur, hversu há útgjöld fjárl. þurfi að vera. Ég hygg, að ríkisstj. sé sama sinnis og við um það, að þetta ástand fjárl. sé með nokkuð óvenjulegum hætti, þar sem hún er sjálf búin að hlutast til um það, að sérstök n. sérfræðinga hefur starfað síðan á miðju sumri að því að athuga og ráðleggja ríkisstj. um það, hvernig eigi að standa að endanlegri afgreiðslu fjárl. að þessu sinni. Ég tel því, að það sé fullkomin ástæða fyrir þeirri gagnrýni, sem við höfum haft uppi í þessu efni.

Í öðru lagi gerði hæstv. fjmrh. aths. við það, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Vestf. um framlög til verklegra framkvæmda. Fjmrh. gaf þær skýringar, að nú væri verið að greiða upp skuldir, sem hvílt hefðu á ríkissjóði vegna of lágra fjárveitinga á undanförnum árum til þessara framkvæmda. Mér er vel kunnugt um það, að þetta er í ýmsu falli rétt og fyllilega réttmætt að vekja athygli á því. Það er leitazt við nú að þessu sinni t.d., að því er varðar hafnarframkvæmdir, að greiða upp það, sem safnaðist á s.l. ári af skuldum, og að greiða að hluta til eftir áætlun þann hala, sem var frá fyrri tíma. Það er réttmætt, að þetta komi fram. Hins vegar er ekki því að leyna, að enn munu safnast upp skuldir í vissum málaflokkum, sérstaklega í sambandi við framlög til skólabygginga. Ég hef ekki við höndina tölur um það, hversu þær aukast mikið á þessu ári, en það er alveg sýnilegt, að bæði á þessu ári og á næstu árum, ef ekki verður aukið verulega við framlög til skólabygginga, munu þessar skuldir aukast, svo framarlega sem farið verður að lögum um afgreiðslu þeirra málaflokka.

Í þriðja lagi taldi hæstv. fjmrh., að ekki hefðu verið tæmandi upplýsingar, sem hv. 2. þm. Vestf. gaf um þá fjölgun, sem orðið hafði á fastráðnu starfsfólki hjá ríkisfyrirtækjum á þeim tíma, sem ríkisstj. hefur setið að völdum. Hann vefengdi að vísu ekki þá tölu, sem gefin var upp, enda mun það ekki vera hægt. Hún er rétt. Hún er tekin eftir þeim heimildum, að hún mun vera hárrétt. Hins vegar gat hann um það, að fyrir nokkrum árum hefði komið í ljós, að fjöldi lausráðinna starfsmanna hefði verið ískyggilega mikill við þessar stofnanir, og því hefði verið gert ráð fyrir því að fastráða þetta fólk í áföngum og eftir áætlun. Ég efast ekki um, að þetta er rétt, og það hefur verið gert ugglaust. En við, sem nú erum í fjvn., höfum grun um það, án þess að vita það með nokkurri vissu, að enn sé margt um lausráðið fólk á vegum ríkisstofnana. Hvernig sú tala er í hlutfalli við það, sem áður hefur verið, get ég ekki fullyrt neitt um. En ég vil geta þess hér og láta það koma fram, að alveg á síðustu vinnudögum fjvn. núna fyrir þessa umr. barst okkur áætlun frá stjórn ríkisspítalanna, þar sem lýst var vandræðum þeirrar stofnunar í sambandi við fólksráðningar. Og það voru hvorki meira né minna en 222 starfsmenn, sem þessi stofnun óskaði eftir að fá að fastráða. Hvort þetta fólk er lausráðið fyrir, skal ég ekkert um segja. En þetta starfsfólk, sem óskað var eftir að fá að fastráða í ríkisspítölunum, er þannig: Vegna vinnutímastyttingar þarf að ráða fast starfsfólk 65 talsins, vegna nýrra deilda og nýrra þjónustu 69 manns og vegna aukinnar þjónustu á eldri deildum 88 manns, eða samtals 222. Það var áætlað, að það mundi kosta 51 millj. kr. á árinu 1973, ef þetta fólk yrði ráðið, ekki hærri upphæð en þetta, vegna þess að áætlun var um að ráða þetta fólk í áföngum á árinu, eftir því sem þörf yrði fyrir það. Ég hygg því án þess að geta fullyrt um það, að lausráðinn starfsmannafjöldi hjá ríkisstofnunum sé æðistór núna á þessum tíma, þó að ég kunni ekki að dæma um, hvort það er hlutfallslega jafnmargt því, sem var fyrir nokkrum árum.

En svo að ég snúi mér að því máli, sem hér er til umr., fjárlagafrv. fyrir árið 1973, þá hygg ég, að það sé hollt til þess að geta rætt um það í einhverju samhengi að rifja upp, að þegar hæstv. ráðh. og stuðningsmenn þeirra sátu við samningaborð á öndverðu sumri 1971 og þegar þeir börðu saman óskalista sinn í Ólafskver, þótti þeim að vonum flestir vegir vera færir. Þá var sól á lofti, þá voru atvinnuvegirnir á Íslandi í sæmilegri rekstrarstöðu og þá þótti hinum verðandi ráðamönnum vera peningalykt úr hverjum polli. Sá óskalisti, sem þessa sumardaga var barinn saman, vitnar um, að það var þá mat hinna nýju ráðh., að ríkissjóður stæði vel, staða hans væri traust og greiðslugeta ríkisins væri slík, að strax mætti hefja fullgildingu gefinna loforða, — loforða, sem oft voru rifjuð upp í kosningabaráttunni um vorið. Þá voru engar hugleiðingar uppi um háskalegan arf frá tímum viðreisnarstjórnarinnar og því var strax hafizt handa um stórfelldar greiðslur úr ríkissjóði, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir að inna af höndum, þegar fjárlög ársins 1971 voru unnin og sett. Það var því engum undrunarefni, þegar greiðsluhalli ríkissjóðs 1971 reyndist vera um 340 millj. kr. Þótt þá væri áætlaður samkv. fjárl. þess árs hjá ríkissjóði 270 millj. kr. greiðsluafgangur, þá gerðu þær greiðslur, sem ákveðnar voru utan fjárl., svo háa upphæð, að engan undraði, þótt um greiðsluhalla yrði að ræða. Þessi fyrstu spor núv. ríkisstj. voru illur fyrirboði þess, sem nú er komið fram. Hin nýja efnahagsstefna ríkisstj., sem boðuð var fyrir valdatöku hennar, en var þó aldrei skilgreind nánar, var talin fara vel af stað. En hún birtist okkur ljósast í því frv. til fjárl., sem hér um ræðir.

Ég nefndi stefnu í efnahagsmálum. Vitaskuld er miklu réttara að segja stefnuleysi, því að svo gersamlega hefur verið látið reka á reiðanum um fjármál ríkisins. Allt frá fyrstu fótmálum ríkisstj. hefur sigið meir og meir á ógæfuhlið, og var það að lokum viðurkennt af ríkisstj., þegar valkostanefndin var sett til starfa í sumar. Þegar þeirri n. var fengið erindisbréf, var verkefni hennar ákveðið það, að hún skyldi gera till. um leiðir og valkosti í efnahagsmálum með það fyrir augum að halda verðbólgu í skefjum til þess að treysta grundvöll atvinnuveganna og til að tryggja atvinnuöryggi og kaupmátt launa. Það mun því hafa verið orðið ljóst þeim, sem skipuðu n., að nú væri orðin þörf aðgerða í þessum málum, þar sem sú stefna ríkisstj., ef við eigum að kalla það svo, hafði ekki ráðið við þennan vanda, sem nú var við að etja.

Það má kannske segja, að það sé betra seint en aldrei, að ríkisstj. staldraði þá við og kvaddi til liðs við sig sérfræðinga til þess að leiða stjórnarliðið út úr þeirri blindgötu, sem það hafði í fullkomnu andvaraleysi og óráði álpazt inn í. Þegar ríkisstj. hóf austurinn sumarið 1971, sem er upphafið að því endemisástandi, sem nú er ríkjandi í ríkisfjármálunum, þá er ekki vitað, að hún hafi borið undir sérfræðinga, hversu langt væri fært að ganga í fjármálunum, sem fjárlagadæmið fól ekki í sér. Nei, á þeim dögum var óskhyggjan og gleðivíman látin ráða upphæðunum, sem látnar voru af hendi. En eftirköstin hafa nú riðið yfir eins og reiðarslag, og ólgan og spennan er í algleymingi.

Valkostanefndin hefur nú skilað till. til ríkisstj., en líklegast er, að nokkur bið verði enn á því, að ákvörðun um nýjar aðgerðir í efnahagsmálum verði tekin. En þetta frv., sem hér er til umr., er vitamarklaust, fyrr en ákvarðanir hafa verið teknar um efnahagsaðgerðir, og meðan svo er ekki gert, verður frv. sjálft ekki rætt af neinu viti að mínum dómi. Ég segi þetta vegna þess, að af frv. verður ekki séð, að um neinn vanda sé að ræða eftir áramótin. Frv. gerir ráð fyrir því, að á árinu 1973 verði þær ráðstafanir í niðurgreiðslum vegna verðstöðvunarinnar, sem nú er í gildi, afnumdar með öllu, og þó er frv. byggt á því, að vísitalan hækki ekki hót um áramótin, þegar niðurgreiðslunum verður hætt. Mér er ekki ljóst og sennilega engum venjulegum manni, hvernig ætlazt er til, að umr. um slíkt frv. verði með eðlilegum hætti við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi.

Eins og áður sagði, er fjárlagafrv. byggt á því, að vísitalan fari ekki yfir 117 stig. Ef það er tekið alvarlega og ákveðið að halda vísitölunni kyrri við þetta ákveðna mark, er talið, að á ársgrundvelli þurfi sennilega um 800 millj. kr. í niðurgreiðslur á þeim hluta vandans, sem nú er í gangi. En það má ekki ganga fram hjá því, að það muni bætast við allavega 5 vísitölustig um eða upp úr áramótunum vegna hækkaðs verðlags, sem ekki hefur verið greitt niður, en þau vísitölustig auka vandann að líkum hluta eða um allt að 1000 millj. kr. Ég fæ ekki þetta dæmi til að ganga upp, og meðan það liggur ekki fyrir, er á þennan hátt ógerningur að tala um einstaka efnisþætti frv., þegar svo margar stærðir eru óþekktar. Ég verð að segja það, að þetta er ískyggilegt ástand og skammur tími er til stefnu, enda kom ríkisstj. ekki auga á eða viðurkenndi ekki úrræðaleysi sitt í efnahagsmálunum fyrr en í eindaga var komið, ekki fyrr en hún var búin að vera við völd í heilt ár, en þá tók hún sig til og kallaði sér til hjálpar valkostanefndina, sem skyldi leggja á ráð, svo að einhver slarkfær leið fyndist út úr ógöngunum. Ég verð að segja það, að mér finnst, að þessi uppsetning á fjárl., eins og ég hef verið að lýsa hér að framan, sé sannarlega þann veg vaxin, að það er fullkomin ástæða til að kvarta undan því og gera um það aths., að svona er staðið að málum, því að ég get ekki líkt þessum starfsaðferðum við neitt fremur en það, þegar börn leika sér á sleða. Þau geta rennt sér niður brekkuna, en þau hafa ekki afl til að draga sleðann upp aftur til þess að endurtaka leikinn.

Ég mun ekki að þessu sinni ræða um einstakar fjárlagatill., en ég tel. að það verði ekki hjá því komizt að ræða nánar þá valkosti, sem fyrir hendi eru í samhengi við fjárlagafrv. Skýrsla valkostanefndarinnar barst okkur alþm. fyrir nokkrum dögum sem trúnaðarmál. En hún hefur nú verið afhent fjölmiðlum og er þar með orðin opinbert plagg, og mun ég því koma lítillega að því og ræða helztu þætti þess.

Ég vil þá fyrst benda á það, að allar þær leiðir, sem valkostanefndin telur koma til greina að fara til lausnar efnahagsvandanum, gera ráð fyrir því að lækka opinber útgjöld og útlán um 1300–1700 millj. kr., og er þá alveg sama, hver leiðin valin er, hvort það er uppfærsla, niðurfærsla eða millifærsla. Nú tók ég eftir því í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan, að hann sagði, að í framkvæmdaáætlun, sem lögð var á borð hjá okkur alþm, nýlega, hefði verið gert ráð fyrir því að draga úr þeim upphæðum, sem ætlaðar voru til framkvæmda á árinu 1973, í samræmi við till. valkostanefndarinnar. Þegar tillit er tekið til þess, þá minnkar það fjárlagavandann frá því, sem gert er ráð fyrir í till. n., um 1300–1700 millj. Hversu miklu það nemur, veit ég ekki. Það verður upplýst síðar. En allavega er sá vandi, sem leysa verður með niðurskurði fjárl., gróflega mikill. Og það er hér um svo geipilega röskun að ræða frá því, sem áform hafa verið um hjá ríkisvaldinu til þessa, að ég tel það fullrar athygli vert.

Í þessu sambandi vaknar óhjákvæmilega sú spurning, hvort ekki væri eðlilegt, að Alþ. hefði eitthvað að segja um þetta stórfellda fráhvarf frá fyrri áætlunum og lagasetningum, eða sýnist mönnum sú aðferð eðlilegri að haga málum eins og gert var á þessu ári, þegar ríkisstj. ákvað einhliða og ákvað sjálf, hvernig niðurskurður á framkvæmdum skyldi koma niður? Ég held því hiklaust fram, að sá niðurskurður hafi verið gerður af fullkomnu handahófi, og þótt sá niðurskurður, sem gerður var á þessu ári og við höfum fregnir af, nemi ekki meira en 174.6 millj. kr., þykir mér hann í fyllsta máta koma óeðlilega niður. Og mig furðar það stórlega, að þeir menn, sem áður efndu til stórumr. um aðgerðaleysi stjórnvalda í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á öllum stigum hennar, og átti það jafnt við um aðstöðu og aðbúnað héraðslækna úti um land og byggingu sjúkrahúsa og fæðingarheimila, að þeir skuli nú sjálfir sitjandi í stólum ráðh. treysta sér til að skera niður fjárveitingar til þessara málaflokka um 71 millj. kr. á fyrsta stjórnarári sínu. Þetta hefur þó gerzt.

Þá hafa og, eins og áður hefur komið fram í umr., verið skornar niður fjárveitingar til menningar- og menntamála um 75 millj. kr., og hefði ég haldið, að það hefði a.m.k. ýmsum þeim mönnum sjálfum, sem nú styðja ríkisstj., þótt fyrirsögn, að það skyldi nokkurn tíma koma fyrir í þeirra stjórn, að dregið verði úr framlögum til menntamála, en mjög þótti skorta um framlög til þeirra málaflokka, meðan viðreisnarstjórnin var við völd. Hið sama er að segja um hafnarframkvæmdirnar. Þær eru skornar niður um 27.9 millj. kr. á árinu, og ég verð að segja það eftir að hafa kynnt mér það sérstaklega, hvernig og hvar sá niðurskurður kom niður, að hann er fullkomlega af handahófi gerður. Það virðist vera gersamlega undir því komið, hversu fljótir og fjársterkir þeir aðilar hafa verið, sem framlaganna áttu að njóta, hvort þeir gátu farið seint eða snemma í framkvæmdirnar, hvort niðurskurður átti sér stað eða ekki. Þetta tel ég með öllu ósæmilegt og óeðlilegt, og ég hvet til þess, — ef þarf eins og valkostanefndin nú telur, — að fara í það að skera niður fjárveitingar, þá er sjálfsagt, að Alþ. fjalli um það, en ekki ríkisstj. ein.

Eins og ég gat um, hníga allar till. valkostanefndarinnar að því, að til framkvæmda komi lækkun á opinberum útlánum og útgjöldum. Þegar þetta er vitað á sama tíma og Alþ. fjallar um fjárlagafrv., segir það sig sjálft, að þingið hlýtur að fjalla sjálft um þær breytingar, sem væntanlega þarf að gera á fjárlagafrv., til þess að efnahagsaðgerðirnar nái tilgangi sínum. Ég legg á það höfuðáherzlu, að sú reynsla, sem fengizt hefur á yfirstandandi ári af því að fá ríkisstj. sjálfri í hendur vald til þess að breyta fjárl. og ákvarða, hvar lækkun útgjalda skuli koma niður, hún sýni og sanni, að þar hefur ráðið meiru hending en bein hugsun. Og í fjölmörgum tilvikum virðist það hafa ráðið úrslitum, hvort áfangi verks var hafinn seint eða snemma á liðnu sumri. Niðurstaða mín er sú, að ekki verði með neinu móti gengið endanlega frá fjárlagagerðinni, nema ákveðin efnahagsmálastefna fyrir næsta ár verði mótuð og felld að frv. Álit valkostan. mun eiga að vera leiðarvísirinn í þessum efnum fyrir hæstv. ríkisstj., og fyrr en hún hefur tekið sína ákvörðun um valkosti, verður með engu móti haldið lengra áfram við gerð fjárl., og vafalaust verður að vinna frv. upp að nýju, umreikna það til samræmis við uppfærsluleiðina, millifærsluleiðina eða niðurfærsluleiðina eftir því, hver þeirra verður endanlega fyrir valinu. Það er mikið verk og verður ekki hrist fram úr erminni í einu vetfangi.

Ég hygg, að margur maðurinn geti verið mér sammála um það, að sú gífurlega hækkun, sem orðið hefur á fjárl. í hinni skömmu stjórnartíð vinstri stjórnarinnar, hafi í sér fólginn háskalegan hvata til verðþenslu og dýrtíðar. Það er skoðun mín, við getum sagt persónuleg skoðun, að sú ákvörðun núv. ríkisstj. að auka á miðstjórnarvald ríkisins á svo margvíslegan hátt sem gert hefur verið með því að flytja til Reykjavíkur ýmsa þætti félagslegra málefna, taka þá úr höndum sveitarfélaganna, en fá þeim þá ekki önnur verkefni í staðinn, — það er skoðun mín, að þessi ákvörðun sé veigamikill þáttur í þeirri þenslu, sem einkennir hina opinberu stjórnsýslu hvað helzt um þessar mundir. Ég er ekki að halda því fram, að rangt hafi verið stefnt með því, að ríkið yfirtók öll löggæzlumál og losaði sveitarfélögin við þann málaflokk, eða ekki hafi átt að létta af þeim greiðslum til almannatrygginganna. Ég gagnrýni þetta ekki, og og vil taka fram í sambandi við þær aths., sem hæstv. fjmrh. gerði við ræðu hv, l. þm. Vestf. um þetta efni, að það var ekki réttmætt. Hv. l. þm. Vestf. gagnrýndi það ekki, að þessum greiðslum var létt af sveitartélögunum. Það var ekki það, sem hann var að gagnrýna. Hann gagnrýndi það, að persónugjöldin voru ekki áfram greidd af þeim tryggðu sjálfum. Við gagnrýnum ekki, að þessar greiðslur voru teknar af sveitarfélögunum. En ég fullyrði, að um leið og þetta var gert, átti að fá sveitarfélögunum önnur verkefni til að leysa og tekjustofna í samræmi við þau verkefni. Þau verkefni, sem að mínum dómi kemur fyrst og fremst til greina að afhenda sveitarfélögunum, eru þessi, — og þá verð ég að segja aftur, að þetta er mín persónulega skoðun og ég tala hér ekki fyrir munn annarra, — ég tel, að þjónustustofnanir fyrir yngstu og elztu borgarana séu þau verkefni, sem sveitarfélögin eigi fyrst og fremst að leysa. Þar á ég við barnaheimili alls konar, skóla á skyldunámsstigi og elliheimilin. Ég er þeirrar skoðunar, að stofnkostnaður þessara stofnana yrði lægri eftir þá breytingu, og ég tel, að uppbyggingin gengi hraðar, ef ákvörðunarvaldið um uppbygginguna væri í höndum eins aðila, en ekki tveggja. Ég get ekki rökstutt þetta með neinum dæmum, en ég hygg, að þetta muni koma út, ef málið er skoðað niður í kjölinn. Ég ekki þarf að efa, að vel mætti fækka mönnum og minnka umsvif innan menntmrn., ef það þyrfti ekki að hafa önnur afskipti af skyldunámsstiginu en að fylgjast með því, að kennsluskyldan sé framkvæmd hvað námsefni snertir. Það er ég alveg viss um. Þetta nefni ég, þótt einhverjum sýnist e.t.v., að það snerti ekki fjárlagaafgreiðsluna. En það gerir það þó, þegar hækkun fjárl. er skoðuð í því ljósi, að hún sé verðbólguvaldandi, eins og ég lýsti hér áðan.

Ég hef reynt að draga fram í dagljósið, hversu fráleitt er að taka ábyrga afstöðu til fjölmargra þeirra þátta, sem fjárlagafrv. er byggt upp af. Ég hef leitt að því rök, að enn vantar mikið á, að allra þarfa sé gætt og fullnægt þeirri fjármagnsþörf, sem líkleg er eftir mati hinnar sérstöku valkostanefndar. Og að síðustu hef ég drepið á leið til þess að draga úr því miðstöðvarvaldi ríkisins, sem mjög hefur eflzt í valdatíð hæstv. núv. ríkisstj. Niðurstaða mín er sú að þessu öllu athuguðu, að fjárlagafrv. sé enn, eins og þegar það var lagt fram. Marklaust og óhæft til endanlegrar afgreiðslu.