14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

1. mál, fjárlög 1973

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það voru nokkur atriði tiltölulega smá, sem mig langaði til að vekja athygli á í sambandi við þær tillögur, sem hér liggja á borðum okkar, og eitt atriði stórt. Ég ætla að byrja á þessum smáu.

Hv. 1. þm. Vestf. nefndi hér áðan, að vissar till., sem fyrir lægju núna, stöfuðu annaðhvort af gleymsku, mistökum eða misskilningi. Ég er dálítið hrædd um að þess sjái víðar stað í þessu frv., að of mikið hafi farið fyrir „gleymsku, mistökum og misskilningi“. Samt veit ég, að mikið starf hefur hvílt á hv. fjvn., og menn hafa reynt, eftir því sem þeir hafa framazt getað, að sinna þeim þörfum, sem nauðsynlegar hafa verið, en vitanlega hafa menn í öllum önnunum ekki haft tíma til að líta yfir ýmislegt, sem aflaga hefur farið.

Ég vil vekja athygli á því, að gert er ráð fyrir vissum fjárveitingum til kvenfélagasambanda á landinu. Hingað til hefur verið ein heildarfjárveiting til Kvenfélagasambands Íslands, sem hefur, eins og kunnugt er, um áratugaskeið annazt mjög mikið fræðslu- og menningarstarf víða um landið. Kvenfélagasamband Íslands hefur verið eins og miðstöð og miðlari fyrir þessa starfsemi, haldið ýmiss konar námskeið á ýmsum sviðum og miðlað starfsstyrkjum til kvenfélagasambanda úti um land. Nú bregður svo við, að það er að vísu fastur styrkur til Kvenfélagasambands Íslands í fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, og meira að segja lögð til hækkun í till. fjvn., og það er að sjáifsögðu góðra gjalda vert, því að Kvenfélagasambandið sem slíkt rekur mjög mikilsverða starfsemi, þar sem ekki sízt ber að nefna leiðbeiningastöð húsmæðra, sem heimili í landinu yfirleitt, bæði húsmæður sem húsbændur, karlar sem konur, hafa haft mjög mikið gagn af. Svo bregður við, að það er sérstakur styrkur til Sambands norðlenzkra kvenna 50 þús. kr., sérstakur styrkur til námskeiðahalds á vegum þess sambands 25 þús., til námskeiðs í heimilisgarðrækt, sem er eitt af mörgum sviðum, sem þær hafa fengizt við, og svo kemur núna í till. frá hv. fjvn. sérstakur styrkur til annarra sambanda á landinu. Norðlenzku konurnar höfðu fengið 50 þús. + 25 þús., svo kemur samband vestfirzkra kvenna, sem á að fá 50 þús., samband austfirzkra kvenna, sem á að fá 50 þús., samtals 3 kvenfélagasambönd á landinu með 50 þús. kr. hvert. Nú spyr spyr ég: Mun það ekki vera annaðhvort gleymska, mistök eða misskilningur að raða þessum fjárveitingum niður á þennan hátt? Sannarlega eru þessi samtök góðra styrkja verð, en ég vil vekja athygli á því, að í landinu eru ekki aðeins þessi sambönd, sem þarna eru 3 talsins, heldur hvorki meira né minna en 20 kvenfélagasambönd. Ef ekki á að vera um mismunun að ræða, er nauðsynlegt, að hin 17 samböndin fái líka sambærilegan styrk. Mér sýnist þetta líta út eins og hv. fjvn. hafi skyndilega tekið viðbragð og viljað hafa jafnvægi í byggð landsins, eins og sjálfsagt er, og jafnskjótt og norðlenzkar konur höfðu fengið 50 þús., hafi ötulir þm. frá öðrum fjórðungum einnig tekið sig til og viljað útvega sínum kvenfélagasamböndum annað eins, og ég efast ekki um, að hv. þm. Sunnlendinga vildu líka fá sín 50 þús. handa hvoru kvenfélagasambandi í þeim fjórðungi, og svona má áfram telja. Ég bendi á þetta, ég geri enga sérstaka tillögu í þessu að svo stöddu. Því hefur þegar verið lýst af hálfu talmanns okkar flokks, að við teljum fjárlög þessi, — ég veit ekki, hvort ég má leyfa mér að taka mér í munn orð eins hv. þm. úr öðrum flokki, sem hrutu honum af munni hér í dag, bann sagði, að raun og veru væru þetta ekki fjárlög, þessi ósköp, — en við höfum viljað leggja áherzlu á þá skoðun með því að flytja enga beina brtt. við þessa umræðu. Við ætlum að sjá, hvort ekki muni eitthvað úr rætast, þannig að betur sé hægt að átta sig á því við 3. umr., hvað um er að vera í þessari fjárlagaafgreiðslu. En alla vega vil ég eindregið beina því til hv. fjvn. að athuga, hvað er að gerast í þessari útdeilingu fjármagns til einstakra kvenfélagasambanda. Það gefur auga leið, að það er auðvitað ekkert vit í því, að 3 kvenfélagasambönd á landinu fái sínar 50 þús. kr. hvert, en hin 17 ekki neitt. Annaðhvort verður að vera þarna einhver jöfnuður á milli eða þá að öll upphæðin, sem sagt 20 sinnum 50 þús., bætist við þá fjárveitingu, sem þegar er ákveðin til Kvenfélagasambands Íslands, og síðan útdeili Kvenfélagasambandið því til hinna einstöku sambanda af þeirri sömu rausn og fjvn. hefur nú hugsað sér að gera og er ágætt, svo langt sem hún nær, til þessara þriggja sambanda.

Ég vil, þegar um þetta er rætt, sérstaklega minna á mikilvægi þess, að menn hafi skilning á og haldi í heiðri því starfi, sem unnið er á vegum Kvenfélagasambands Íslands. Það hefur dálítið viljað á því bera í seinni tíð, að menn hafa vanmetið þau störf, sem lúta að fræðslu um heimilishald, en ég vil leggja á það mikla áherzlu að slík fræðsla á ekki síður rétt á sér í dag en oft fyrr og raunar miklu fremur, þar sem það færist í vöxt, að konur starfi utan heimila, eða bæði hjón starfi utan heimila sinna. Þá þarf vitanlega sú fræðsla, sem lýtur að skipulagi á heimilisstörfum að vera í miklu betra horfi og ná til fleiri húsmæðra og húsbænda heldur en nú er. En þetta er einmitt það verkefni, sem Kvenfélagasamband Íslands hefur sinnt. Auk þess hefur Kvenfélagasamband Íslands sinnt miklu fleiri verkefnum. Það má segja, að víða úti um sveitir hafi það í raun og veru haldið uppi mjög fjölþættu menningarstarfi áratugum saman, og ég verð að segja, að mér sárnar það allt að því, ef þm. hinna ýmsu byggða á landinu hafa ekki vakandi auga með því, að þetta starf sé áfram styrkt, og sína, að þeir kunni að meta að verðleikum það, sem unnið hefur verið á þessu sviði.

Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta atriði, vildi aðeins vekja athygli á þeim undarlega — misskilningi, sem þarna virðist hafa verið á ferðinni, og óska þess, að hann verði leiðréttur. Annað atriði, sem ég vil vekja sérstaka athygli á og varðar ekki stóra upphæð í öllum þeim fjárhæðum, sem við eru hér að ræða um, er það, að nú vantar tveggja millj. kr. styrk til starfsemi svonefndrar leitarstöðvar B á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Ég veit, að Krabbameinsfélag Íslands væntir þess, að það fái þennan styrk. Að öðrum kosti verður þessari starfsemi ekki upp haldið eins og undanfarin ár, og ekki þarf að útlista það fyrir hv. þm. né öðrum. Þeim hlýtur að vera það kunnugt af ýmsum upplýsingum í fjölmiðlum og víðar, hvílíkt geysigagn þessi leitarstöð hefur unnið. Mér er óhætt að segja, að það eru ótalin þau líf kvenna, sem þessi leitarstöð hefur bjargað. Það hefur forðar mörgum börnum frá því að standa uppí móðurlaus, og þessi leitarstöð hefur fundið marga sjúkdóma, sem hefðu getað leitt til alvarlegs heilsubrests síðar meir, ef þessi starfsemi hefði ekki verið fyrir hendi. Það er því mjög nauðsynlegt heilsugæsluatriði, að þessi leitarstöð fái þann styrk, sem henni er nauðsynlegur til sinnar starfsemi, og ég veit raunar, að stjórnvöldum er það ljóst. En ýmis rn. og vafalaust flest rn. eru mikil útgjaldarn., og þess vegna vilja þau gjarnan koma ýmsum nauðsynlegum fjárveitingum yfir á einhverjar stofnanir, til þess að ekki þurfi að nefna hlutina í fjárl. sérstaklega. Sú leið var farin síðasta ár vegna algers neyðarástands, sem þarna var fyrir hendi, og ég má segja af einhverri gleymsku í sambandi við afgreiðslu fjárl., að þessari fjárhæð var beint í gegnum sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunarinnar. Núna hins vegar liggur fyrir, að á þessu þarf að halda. Fjárl. eru ekki enn afgreidd, og ég vil benda á, að Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki lagaheimild til þess að ráðstafa fé sínu til heilsugæzlu. Sjúkratryggingarnar eiga að greiða annan kostnað en þennan. Þess vegna er mjög nauðsynlegt, að þetta sé tekið inn á fjárl. Þar á það eðlilega heima. Vissulega er mestmegnis um ríkisfé að ræða í höndum Tryggingastofnunar ríkisins, en engu síður veitir henni nú sízt af því fé, sem henni er þegar ætlað á fjárl. til ýmissa verkefna, sem verið er að fella á herðar Tryggingastofnunarinnar. Raunar svífur það svo í lausu lofti, að varla verður auga á komið, hvernig á að reka Tryggingastofnun ríkisins á næsta ári. Ég veit ekki, hvort hv. alþm. er ljóst, að með reglugerð núna snemma í þessum mánuði var ákveðið að hækka fjölskyldubætur í 13 þús. kr. á ári með hverju barni. Það er 5 þús. kr. hækkun frá því, sem gert var ráð fyrir á fyrra helmingi þessa árs. Þá reiknuðu menn með því, að fjölskyldubætur yrðu 8 þús. kr. á ári. Núna er búið að ákveða, að þær verði 13 þús. kr. á ári. (Gripið fram í: Ríkissjóður borgar fjölskyldubæturnar.) Ríkissjóður borgar að vísu allar fjölskyldubæturnar, rétt er það. En hvergi sér þess stað, að fyrir þessari hækkun sé gert ráð í fjárl. Ef svo er, óska ég þess, að okkur verði bent á, hvaðan á að taka þessa peninga, hvar gert er ráð fyrir þessum útgjaldalið í fjárl. Á meðan kerfisbreyting á útborgun fjölskyldubóta hefur ekki farið fram, er það svo, að útborgun þeirra fer í gegnum Tryggingastofnun ríkisins. (Gripið fram í.) Víst er það rétt, að ríkissjóður borgar þær allar. Ríkissjóður stendur undir æðimiklum hluta almannatrygginganna yfirleitt í dag. Engu að síður á Tryggingastofnun ríkisins að sinna vissum þörfum, sem henni er ætlað með lagasetningu, þ. á m. er þetta. Það skaðar ekki, þótt ég nefni það í þessu sambandi, að stundum hefur komið til tals, að e.t.v. væri heilbrigðara fyrirkomulag á ýmsan hátt að hafa allt annan hátt á útborgun fjölskyldubóta í stað þess að láta þær ganga í gegnum kerfi almannatrygginga og valda með því þeim misskilningi, sem oft verður vart hjá fólki, að fjölskyldubætur séu hreinar og beinar tryggingabætur. hað væri mun eðlilegra að láta þær gagna í gegnum skattkerfið. Ég leyfi mér að halda því fram, að bara slík kerfisbreyting ein gæti sparað ríkissjóði stórfé. Og með því að það gæti kannske farið svo við 3. umr. fjárlaga, að ég leyfði mér að flytja einhverja till. til hækkunar, þá ætla ég að biðja hv. þm. að muna eftir því, að þarna er ein leið til sparnaðar, sem e.t.v. gæti staðið undir hugsanlegum hækkunartill. Ég veit, að ríkissjóði mun ekki af veita. Það er oft verið að ásaka stjórnarandstöðu fyrir að hrífast mjög að hvers kyns hækkunartill. og koma aldrei með sparnaðartill., en ég leyfi mér að nefna þetta atriði, um leið og ég vek athygli á þeim drengilega málflutningi, sem hv. 2. þm. Vestf. hafði hér uppi í dag, er hann gat þess, að hann vildi ekki hvetja til aukinna fjárframlaga til ýmissa framkvæmda, þótt þarfar væru, við hefðum hreinlega ekki efni á því. Og ég verð að segja það, að þau ár, sem ég fylgdist með störfum hv. Alþ. úr nokkurri fjarlægð, sýndist mér alltaf, að annað væri uppi á teningnum hjá þeirri stjórnarandstöðu, sem hér sat í þingsölum þá. Þá virtist í þeirra till., sem ekki nokkurri ríkisstj. væri vorkunn að sinna ýmsum þörfum málum, hvað svo sem þau kostuðu.

Í sambandi við útgjöld almannatrygginga, sem ekki hefði verið gert ráð fyrir á fjárl. og ég nefndi áðan, að því er varðaði fjölskyldubætur, þá hygg ég, að þarna sé um að ræða um það bil 400 millj. kr. hækkun, sem þegar er ákveðin, en kemur alls ekki fram í fjárl. Þetta varðar greiðslu fjölskyldubóta einna. Ég sé ekki betur en hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða. Og sú hækkun, sem ákveðin var á fjölskyldubótum um síðustu mánaðarmót, mun, að því er ég bezt veit, — nú tek ég fram, að ég er fjarri því að vera mjög leikin í meðferð vísitölunnar eins og margir eru eða a.m.k. flestir stjórnmálamenn þurfa mjög á að halda, ekki sízt í seinni tíð, — þá mun sú hækkun, sem gerð var á fjölskyldubótum, nema um það bil 1.1 vísitölustigi. Sé þetta ekki rétt hjá mér, þá vil ég leyfa mér að óska þess að fá upplýst, hvað hið rétta er í þessu máli, og hv. alþm. verði skýrt frá því, hvað hér hefur gerzt. Tryggingastofnun ríkisins mun ekki geta greitt þessa fjölskyldubótahækkun fyrr en eftir áramót, ekki a.m.k. skrifstofan hér í Reykjavík. Til þess var þessi breyting of seint á ferðinni. En bréf hefur verið sent til umboða úti um land um, að þeir, sem treysta sér til, geti greitt þessa hækkun strax núna fyrir des. Hún á sem sagt að gilda frá 1. nóv.

Annað atriði sýnist mér vera mjög alvarlegt í sambandi við áætluð útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins. Nú er það svo, að það leiðir af breytingu, sem gerð var á tryggingal. í fyrra, að nú verða að ligga fyrir áætlanir um kauphækkanir, væntanlegar kauphækkanir á næsta ári, til þess að tekjuáætlun Tryggingastofnunar ríkisins geti staðist, vegna þess að núna er sú lagaskylda felld á Tryggingastofnun ríkisins að hækka bætur um leið og kauphækkun verður. Þess vegna sýnist mér a.m.k. um þær kauphækkanir, sem þegar eru séðar fyrir, eins og t.d. væntanleg kauphækkun 1. marz 6% til verkalýðs og 7% til opinberra starfsmanna, þá hljóti a.m.k. að verða að gera ráð fyrir þessum hækkunum. En ég veit ekki til, að fyrir þessu sé gert ráð í áætlun fjárl. Við þetta bætast svo alls konar hækkanir aðrar, sem við hljótum að búast við, að orðið geti eftir ýmsar væntanlegar ráðstafanir, sem nú hafa mjög legið í loftinu hér í þingsölum og annars staðar. Þær hljóta einnig að leiða til stórfelldra hækkana, þannig að fjárhagsáætlun Tryggingastofnunar ríkisins, eins og hún er í þessu frv., hlýtur að vera mjög í lausu lofti. Hér er um svo stórfellda fjármuni að ræða, að það hlýtur að vera nauðsynlegt að leggja fyrir Alþ. einhverja útreikninga hér að lútandi. Enn fremur vil ég taka fram í þessu sambandi, að vissar hækkanir er skylt að gera eftir lögum um almannatryggingar skv. ársgömlum lögum. Þær geta leitt til þess, að þær áætlanir, sem nú liggja fyrir, verði alrangar og geti gerbreytzt eftir svo sem hálft ár og jafnvel miklu fyrr. Hvenær sem er getur ríkisstj. gripið til þess ráðs án þess að leita til tryggingaráðs og án þess að leita til Alþ. að hækka fjölskyldubætur svo mikið sem henni sýnist. En fyrir öllu þessu þarf að gera ráð í fjárlögum, að því er ég bezt veit. Ég veit ekki betur en það frv., sem við höfum hér á borðum, eigi að sýna okkur áætluð ríkisútgjöld á næsta ári.

Herra forseti. Ég vildi aðeins benda á þessi atriði. Ég mun ekki fara að flytja hér neina eldhúsdagsræðu um störf ríkisstj. Það væri vafalaust allt of langt mál, og margir þm. munu verða til þess. Ég vildi aðeins benda á þessi atriði, sumpart smá og sumpart stór, sem ég tel, að þurfi nauðsynlega að athuga vegna „gleymsku, mistaka og misskilnings“.