14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

1. mál, fjárlög 1973

Páimi Jónsson:

Herra forseti. Frv. þetta til fjárl. fyrir árið 1973 liggur hér fyrir við 2. umr. við nokkuð sérstakar aðstæður. Það er vitað mál, að fram undan eru efnahagsaðgerðir, sem enginn veit á þessu stigi, hverjar verða, og þeim hlýtur að fylgja, að gera verður stórkostlegar breytingar bæði á tekjuhlið og gjaldahlið þessa frv. Það er því rökrétt, sem fram kom hjá formanni Sjálfstfl. í upphafi fundar fyrr í dag, að ástæða væri til að fresta þessari umr. Þó að ekki hafi verið orðið við þeirri kröfu, lít ég svo á, að ef það er ætlun núv. stjórnarliða að keyra frv. í gegn við 3. umr., áður en nokkuð kemur fram um, hvaða leiðir ríkisstj. hyggst fara í sambandi við aðgerðir í efnahagsmálum, séu það óforsvaranleg vinnubrögð.

Með þessu frv. er og náð sérstökum áfanga. Sérstakur kapítuli er hafinn í fjármálum ríkisins. Eins og nú er komið, hefur frv. til fjárl. fyrir næsta ár náð því, að gjaldahlið þess er um 20 milljarðar kr. Ég vil leyfa mér hér á þessum stað að óska núv. hæstv. fjmrh. til hamingju með þennan áfanga. Ég vænti þess, að bæði hv. þm. og landslýður allur veiti þessu athygli og beri saman við það, sem þessi hæstv. ráðh. hefur sagt fyrr á árum í sambandi við ríkisfjármál. Það er haft eftir núv. hæstv. fjmrh., að fjárlög hverju sinni birti spegilmynd stjórnarstefnu. Það verður ekki sagt að þessu sinni. Það fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, birtir alls ekki mynd neinnar stefnu. Sú mynd, sem þar birtist, er mynd óstjórnar, verðbólgu og ráðleysis í gerðum núv. ríkisstj. Þessi staðhæfing mín hefur verið rökstudd hér af ýmsum ræðumönnum, sem talað hafa fyrr í dag. Ég tel þó ástæðu til að láta enn nokkur orð fylgja þessari staðhæfingu.

Þann tíma, sem liðinn er síðan núv. ríkisstj. kom til valda, eða um það bil eitt og hálft ár, hefur ríkt einstakt góðæri í landinu. Gildir þar einu, hvort litið er til sveita eða að sjávarsíðunni. Bændur höfðu á s.l. hausti aflað meiri heyja og fengið meiri uppskeru en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar. Við sjávarsíðuna hefur yfirleitt verið góður afli, þó að nokkuð hafi brugðið út af með einstakar fisktegundir. Eftir því sem birtist í skýrslum Framkvæmdastofnunar ríkisins, er meiri afli á þessu ári til ágústloka en á fyrra ári, svo að nemur 66 þús. tonnum. Það er því út í hött, þegar hæstv. ráðh. og stjórnarliðar eru að tala um, að á þessu ári hafi orðið aflabrestur, enda þótt þorskafli hafi nokkuð dregizt saman.

Ríkisstj. tók í upphafi við miklum fyrningum. Hún fór að í sambandi við þessar fyrningar líkast útigangspeningi, sem sleppt er í heystakk. Hún dreifði fé á báðar hendur úr ríkissjóði og öðrum opinberum sjóðum, svo að nam nærfellt 1 milljarði kr., þar af 650 millj. umfram fjárlög á síðustu mánuðum fyrra árs. Málefnasamningurinn bauð upp á loforð, sem birtu landslýðnum, að nálega hvaða gæði sem vera skyldu væru nú til reiðu og ástand þjóðarbúsins væri með þeim hætti, að það væri hægt að dreifa þessum gæðum eins og hver vildi hafa um alla landsbyggðina. Þessar fyrstu athafnir hæstv. ríkisstj. lögðu grundvöllinn að þeirri verðbólguþróun, sem hátt hefur risið síðan og hefur að meginefni skapað þann vanda, sem nú er við að fást í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ofan á þetta gerðist, eins og rakið hefur verið, að fjárlög voru hækkuð á síðasta ári um nærfellt 50%, og útlit er fyrir, að á þessu ári verði hækkunin 100%, ef saman eru lögð tvö fyrstu fjárlagaár þessarar ríkisstj. Með þessum aðgerðum er ekki einasta verið að magna þau áhrif, sem spretta af þessari miklu útbreiðslu fjármagnsins, þessu mikla bruðli á fjármagni þjóðarinnar. Þetta hefur haft þau sálrænu áhrif á þjóðina, að allir sjá, sem eitthvert skyn bera á fjármál, að þetta stefnir til ófarnaðar, og það hefur enn þau áhrif í för með sér, að hver og einn keppist við að fjárfesta, keppist við að kaupa hvaða hluti sem er til þess að festa það fé, sem þeir hafa handa á milli. Þeir keppast við að ná, sem mestu fjármagni út úr lánsfjárstofnunum þjóðarinnar til þess að koma því í fasteignir. Það er því ekki blöðum um það að fletta, að aðgerðir þessarar ríkisstj. í fjármálum á hennar fyrstu dögum hafa leitt yfir þjóðina þá verðbólguholskeflu, sem síðan hefur risið. Sá vandi, sem nú er við að fást, er því bein afleiðing af gerðum þessarar ríkisstj. Hann er heimatilbúinn vandi.

Það hefur hér mikið verið rætt um skattamál, og skal ég ekki fara út í þau efni. En það er ljóst mál. að engan þarf að undra, þegar svo er staðið að meðferð ríkisfjármála, að þá þurfi einhvers staðar að afla tekna til ríkissjóðs, enda urðu landsmenn við það varir á síðasta sumri, að þyngri skattar voru lagðir á þjóðina og lengra seilzt á ýmsum sviðum en nokkru sinni fyrr.

Má þó vera, að ég verði að gera hér eina undantekningu á, ef trúa má orðum hv. 3. þm. norðurl. v., þegar hann sagði, að skattar í tíð hæstv. forseta Sþ., Eysteins Jónssonar, hafi numið allt upp í 90% af nettótekjum. En hann man þetta ábyggilega betur en ég. Ég þori ekki að fullyrða þetta. Um skattamálin að öðru leyti skal ég ekki fara fleiri orðum.

Þrátt fyrir þessa háu skatta er nú gert ráð fyrir því, að tekjuhalli verði á ríkissjóði. Við vitum allir, að yfirdráttarskuldir ríkissjóðs á þessu ári hafa verið hærri en nokkru sinni fyrr, og munar meira en helmingi, þegar þær komust hæst, að ég hygg í júlí eða ágústmánuði. Samfara þessu hafa viðskipti við útlönd verið með þeim hætti, að innflutningur hefur verið langt umfram verðmæti útflutningsins og meiri skuldir safnazt erlendis en nokkru sinni hefur gerzt. Þó að hæstv. fjmrh. reyndi í dag að mótmæla því, að halli væri í utanríkisviðskiptum, hefur það þegar verið rakið og þarf ekki að lesa fleira upp úr gögnum þeim, sem stofnanir hæstv. ríkisstj. dreifa, þ. á m. Framkvæmdastofnun ríkisins, en þau gögn hafa allir hv. alþm. í höndum. Gjaldeyrisstöðunni hefur þrátt fyrir þennan mikla greiðsluhalla við útlönd verið haldið uppi með lántökum erlendis, og eru erlendar lántökur nú komnar upp í 16 milljarða, 16 þús. millj. kr., ef miðað er við föst lán, og talið er, þó að ég hafi ekki séð um það ábyggilegar heimildir, að lausaskuldir við útlönd séu álíka miklar. (Fjmrh.: Þetta getur þm. ekki meint.) Hæstv. ráðh. segir, að ég geti ekki meint þetta. Ég fullyrti þetta ekki, en ég hef heyrt þetta hjá mönnum, sem ég trúi allvel. En ég læt það fylgja með, að einhvern tíma hefðu hv. talsmenn Framsfl., bæði hæstv. fjmrh. og aðrir flokksmenn hans talið, að með þessu væri verið að leggja það, sem þeir kölluðu drápsklyfjar, á þjóðina.

Einu sinni stóð ungur talsmaður Framsfl. hér í þessum ræðustól, þegar erfiðleikar sóttu að í þjóðfélaginu og orðið hafði að taka nokkur lán erlendis. Hann gagnrýndi þær ráðstafanir með því, að það væri verið að leggja drápsklyfjar á þjóðina, ekki einasta núlifandi fólk, heldur og afkomendur þess um alla framtíð. Ég hef ekki orðið þess var, að þessi ágæti talsmaður Framsfl., sem nú er ritstjóri Tímans, tali nú mikið um þessi efni í málgagni Framsfl.

Þannig er ástandið í stórum dráttum, og hygg ég, að ég hafi leitt nóg vitni til sönnunar þeirri fullyrðingu minni, að sú spegilmynd, sem birtist í þessu fjárlagafrv., sé mynd óstjórnar, verðbólgu og ráðleysis. Hvarvetna blasir við fjárvöntun. Það blasa við uppsprengd fjárlög, óeðlilegar lántökur oo ráðleysi núv. ríkisstj. í sambandi við þau úrræði, sem hún hlýtur að verða að beita gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar, sem nú er við að glíma. Hæstv. fjmrh. minntist hér í dag á veizluna, sem núv. ríkisstj. bauð landslýðnum til í upphafi sins ferils. Ég lít svo á, að landbúnaðurinn og bændastéttin hafi ekki notið mikils af þessum veizlukostum. Ég ætla að vísu ekki að fara mörgum orðum um þetta atriði, en ég vil leyfa mér að bera saman útgjöld ríkisins til landbúnaðarmála á síðasta fjárlagaári viðreisnarstjórnarinnar, fjárl. 1971, og það fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir. Ef tekin eru útgjöld þau, sem fara í gegnum hendur landbrn., þá var hlutdeild þeirra gjalda í heildarútgjöldum fjárl. árið 1971 6.1%. Samkv. því frv., sem nú liggur fyrir, eru útgjöld til sömu þátta 4.9% og hafa því lækkað hlutfallslega, miðað við heildarútgjöld ríkisins, um um það bil fimmta part. Vissa er fyrir því, að þegar þetta frv. hefur hlotið afgreiðslu, hefur hlutfallið raskazt enn verulega landbúnaðinum í óhag.

Hv. talsmenn Framsfl. og hæstv. fjmrh. og landbrh. hafa löngum talið sig vera sérstaka málsvara landbúnaðarins, og það var títt í tíð fyrri ríkisstj., að þessir menn gerðu harða hríð að fyrrv. landbrh. fyrir það, hvað hann stæði illa á verði fyrir landbúnaðinn. Ég hygg, að þeim hefði verið sæmra að hafa um þetta færri orð. Svo kann að fara, að bændastéttin komist að raun um, að það voru ekki umskipti til hins betra, þegar núv. landbrh. tók við. Sumir álitu, að það yrði bændastéttinni hagstætt, að landbrh. væri jafnframt fjmrh. Ég var ekki í þeim hópi, sem gerði ráð fyrir því, að þetta væri hagkvæmt skipulag, og það mun koma í ljós eftir því sem meir kreppir að í fjármálum ríkisins, þá er mikil hætta á því, ef þessi hæstv. ráðh. tekur sig ekki verulega á landbúnaðinum til hagsbóta, að þetta hlutfall fari versnandi.

Í þessu frv. er ekki að finna neitt um það, hvað hugsað er fyrir því, ef verða kynnu hækkanir á landbúnaðarvörum á næsta ári. Þess er kannske heldur að vænta, vegna þess að þar er ekki að finna áætlanir um nokkurn skapaðan hlut, er varðar verðlagsbreytingar, kaupgjaldsbreytingar, sem þó eru ákveðnar samkv. kjarasamningum á næsta ári. En ég vil minna á það, að þegar ríkisstj, setti brbl. á síðasta hausti um tímabundnar efnahagsráðstafanir, var slegið á frest gerð nýs verðlagsgrundvallar fyrir landbúnaðarvörur. Þessi frestur var veittur til áramóta, og þess er að vænta, að við það verði staðið, að þessi grundvöllur verði þá tekinn til endurskoðunar og nýr grundvöllur taki gildi. Sá grundvöllur, sem enn er í gildi, er tveggja ára gamall. Það er vitað, að magntölur allar eru úreltar og þá ekki sízt þær magntölur, er snerta höfuðútgjöld búanna, — þar á ég við kjarnfóður og áburð, — og enn fremur hitt, að fjármagnskostnaður, sem bændum er reiknaður í verðgrundvellinum, er gersamlega úreltur, og nægir þar að minna á eitt atriði. Við gildistöku hins nýja fasteignamats varð stórkostleg hækkun á mati á öllum fasteignum bænda, og gefur auga leið, að fjármagnskostnaður stórhækkar við það, að mat fasteigna hækkar þannig stórkostlega. Þarna eru þess vegna liðir, a.m.k. fjármagnsliðurinn, sem hljóta, ef einhverrar sanngirni er gætt, að koma til hækkunar á verðlagsgrundvellinum. Það eru því ýmsir liðir, sem án efa eiga eftir að koma inn í myndina, áður en fjárlög fyrir næsta ár eru afgreidd, ef á að afgreiða þau án þess, að allt sé í óvissu. En ef á að afgreiða þau með þeim hætti, að botninn sé upp í Borgarfirði og þau opin í báða enda, þá er auðvitað ekki þess að vænta, að þessir liðir séu teknir inn, enda eru þá fjárl. marklaus, eins og sagt hefur verið hér fyrr af ræðumönnum.

Ég vil minnast á það hér, að fyrir nokkru flutti ég till. til þál. um breytingar á greiðslu jarðræktarframlaga, og leyfi ég mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh. og landbrh., hvort það sé ætlunin, um leið og þau framlög til jarðrækfar, sem áður voru greidd út af Landnámi ríkisins, en voru með lögum á síðasta Alþ. felld inn í jarðræktarl. og skyldu greidd út af Búnaðarfélagi Íslands, — hvort ætlunin sé að stiga með þessu skref til baka bændum til óhagræðis og framlögin, sem áður voru greidd út á framkvæmdaári, greiðast út ári síðar en framkvæmdir eru unnar. Það væri ágætt að fá þetta fram við þessa umr., því að þarna er um atriði að ræða, sem ekki einasta snertir fjárhag hvers einasta bónda í landinu, heldur hefur einnig mikla þýðingu í sambandi við fjárhag og rekstur ræktunarsambandanna, en þau munu mörg eiga við slíkan fjárhag að búa, að þeim veiti ekki af, að haldið sé í horfinu, fremur en skrefin séu stigin til baka.

Hina miklu útþenslu ríkiskerfisins, sem átt hefur sér stað í tíð núv. ríkisstj., hefur borið á góma í þessum umr., svo sem vænta mátti. Hæstv. fjmrh. flutti sínar skýringar við þetta efni, og skal ég ekki fara að orðlengja það, sem um það hefur verið rætt, hvorki um tölu nýrra ríkisstarfsmanna, sem fastráðnir hafa verið, né heldur hinna, sem eru lausráðnir. En eins og kom fram í þessum umr., er tala fastráðinna ríkisstarfsmanna nú 585 manns fleiri en var fyrir ári. En ég get ekki stillt mig um að minnast á í þessu sambandi, að á síðasta Alþ., þegar núv. hæstv. ríkisstj. hafði setið að völdum í 7–8 mánuði, tók það hæstv. forsrh. 45 mín. hér í þessum ræðustól að telja upp nýjar nefndir og nýja starfsmenn, sem ríkisstj. hafði ráðið á vegum ríkisins. Þetta hlýtur að gefa nokkra vísbendingu um það, að útþensla ríkiskerfisins sé nú þrátt fyrir allt meiri en hæstv. fjmrh. vildi vera láta hér í dag. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, að þessi sami hæstv. forsrh., sem því miður er hér ekki viðstaddur, hafði sérstakan kafla um það í flestum sínum framboðsræðum í mínu kjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar að úthrópa það, sem hann kallaði lúxusflakk, nefndafargan, ríkisbákn á vegum fyrrv. ríkisstj. Hér er enn eitt dæmi um það, að þeir menn, sem nú eru komnir í valdastólana og hafa gagnrýnt ýmislegt það, sem þeir hafa talið miður fara í tíð fyrrv. ríkisstj., hafa í flestum greinum farið langt fram úr því, sem þeir sökuðu aðra um. Er þar enn eitt dæmi um það ráðleysi, sem núv. ríkisstj. sýnir varðandi fjármál ríkisins og málefni þjóðarinnar í heild.

Það liggur ljóst fyrir, að við þessa umr. verða ekki fluttar neinar brtt, frá einstökum þm., a.m.k. hafa þær ekki komið fram enn þá. Ég lít svo á, að svo kunni að fara, að ekki verði unnt að komast hjá því að flytja nokkrar brtt. við 3. umr., ef ekki verður gerð breyting á frv. sjálfu í ýmsum greinum, og þá einnig í sambandi við skiptingu þess framkvæmdafjár, sem þegar liggja till. fyrir um frá hv. fjvn. Ég vil hér aðeins drepa á tvö eða þrjú atriði og vænti þess, að það, sem ég ætla að ræða um, sé fremur í því horfi, sem raun ber vitni, vegna mistaka, en að það hafi verið ætlan þeirra manna, sem um þetta fjölluðu í hv. fjvn. Enda er það svo, að það kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir hér á Alþ., á engan fulltrúa í þessari hv. n.

Það kom fram hér í dag, að hæstv. ríkisstj. hefur á yfirstandandi ári skorið niður framlög ríkisins til heilbrigðismála um 71 millj. kr. Nú hefur það verið svo í tíð þessarar ríkisstj., að hæstv. heilbrmrh. hefur ekki látið nokkurt tækifæri ónotað til þess að básúna þau miklu verk, sem að væri unnið á sviði heilbrigðismála. Það má ekki koma fram fsp. um einstaka þætti þessara mála, svo að þessi hæstv. ráðh. taki sig ekki til og flytji langan lestur um það, sem hann sé með á prjónunum til úrbóta í læknamálum strjálbýlisins og í heilbrigðismálum yfirleitt, og nægir að vitna til ræðu hæstv. ráðh. nú fyrir fáum dögum. Þetta fer ekki beinlínis saman við það, að svo skuli þessi hæstv. ráðh. standa að því að skera þessi framlög niður á síðasta ári um 71 millj. kr. En ég vil láta þess enn getið hér í sambandi við læknamál strjálbýlis og þann vanda, sem þar er við að etja, en hann er einn alvarlegasti félagslegi vandi strjálbýlisins, að það er einmitt fjármagn til framkvæmda, þ.e. uppbygging heilsugæzlustöðvanna og sköpun viðunandi aðstöðu fyrir lækna og starfsfólk sjúkrahúsanna, sem gerir okkur helzt kleift að halda starfsfólki við þessa lífsnauðsynlegu þjónustu, en missa ekki alla lækna og hjúkrunarfólk fyrst til aðalþéttbýlisins og jafnvel til annarra landa.

Ég get ekki látið hjá líða hér við þessa umr. að vekja athygli á því, hvernig eitt kjördæmi landsins hefur verið gersamlega afskipt í sambandi við þær till., sem hér hafa birzt frá hv. fjvn. Eins og ég sagði, vænti ég, að hér sé um mistök að ræða og að hv. fjvn. og hv. meiri hl. hér á Alþ. sjái sér fært að ráða þarna nokkra bót á. Eftir þeim till., sem fyrir liggja, er ætlunin að verja 2 millj. 940 þús. kr. til heilbrigðismála í Norðurl. v. Ef litið er til nágrannakjördæma, og ég tek það fram, að allur slíkur samanburður er mér næsta ógeðfelldur, en ekki verður hjá því komizt að gera þarna nokkurn samanburð til þess að greina þann mun, sem þarna kemur fram, þá er ætlað að verja til Vesturlandskjördæmis 30 millj. 530 þús., Vestfjarða 29 millj. 450 þús. kr., til Norðurl. e. 16 millj. 800 þús. kr., til Austfjarða 21 millj. 87 þús. kr. og til Suðurlandskjördæmis 36 millj. 250 þús. kr. En þetta eru, að ég kalla strjálbýliskjördæmi landsins, og skil ég þá eftir Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Það kemur sem sé í ljós, að í flestum kjördæmum er um það bil 10 sinnum meira fjármagn ætlað til framkvæmda í heilbrigðismálum en í Norðurl. v. Ég hlýt að segja það hér, að þetta er algerlega óviðunandi niðurstaða, og eins og ég hef þegar tekið fram, vænti ég, að hér sé a.m.k. að einhverju leyti um mistök að ræða, sem hv. fjvn. sér sér fært að leiðrétta með velvilja, áður en 3. umr. fer fram.

Það má vitaskuld nefna fleiri framkvæmdaþætti, og er þá skýrast að benda á hafnir og fjárframlög til hafnaframkvæmda. Það er gert ráð fyrir því, að fjárframlög til hafna í Norðurl. v. verði á næsta ári 7 millj. 250 þús. kr. Ef aðeins er litið til þeirra kjördæma, sem eru sitt hvorum megin við þetta kjördæmi, þá er gert ráð fyrir tæplega 56 millj. kr. til hafna á Vestfjörðum og í Norðurlandi eystra rúmlega 43 millj. kr. Hafnir eru, eins og öllum alþm er kunnugt, lífæðar þeirra byggðarlaga, sem byggja á sjósókn og flutningum á sjó.

Það er varla einleikið, að unnt skuli vera að benda á, eftir að till. hv. fjvn. kom fram, að eitt kjördæmi landsins sé svo gjörsamlega afskipt eins og fram hefur komið í því, sem ég hef bent á varðandi heilbrigðismál og þennan þátt samgöngumála. Það getur jafnvel hvarflað að manni, að formenn tveggja stærstu stjórnarflokkanna, sem eru þm. þessa kjördæmis, hafi beítt áhrifum sínum til þess, að framlög til þessa kjördæmís yrðu svo skorin niður.

Ég sé ekki ástæðu til þess að víkja að fleiri einstökum liðum í sambandi við þetta frv. á þessu stigi. Það er ljóst, að eftir er að afgr. fjölmörg erindi hjá hv. fjvn., og svo er stóra málið eftir, — stóra málið, sem er: hvaða leið velur núv. hæstv. ríkisstj. til úrbóta í þeim ógöngum, sem fjármál ríkisins og efnahagskerfi þjóðarinnar eru komin í.

Eins og ég hef þegar tekið fram, er það óviðunandi niðurstaða, ef á að afgr. fjárl. nú fyrir jól, án þess að það sé komið fram, hvaða leiðir hæstv. ríkisstj. ætlar að fara í þessum efnum, og gerð sé grein fyrir því, hvernig þær leiðir verka á gjaldabálk og tekjuhlið fjárl. Þessi atriði hafa að vísu glögglega verið rakin af fyrri ræðumönnum hér í dag, og ég mun þess vegna ekki fara út í þau, en eins og þetta horfir við nú, er ljóst, að fjárlagafrv. er botnlaust og fjármál ríkisins í þeim ólestrí, að efnahagsástandið er fyrir tilverknað núv. stjórnarherra komið í það ófremdarástand, sem við blasir. Ef skynsamlega hefði verið á málum haldið og varlega farið í sakir af þessari ríkisstj., væri ekki við þá erfiðleika að etja, sem raun ber vitni í dag. Þessi ríkisstj. fékk e.t.v. betra tækifæri í hendur en nokkur önnur ríkisstj. hefur fengið á þessu landi. Hún tók við blómlegu búi og hafði færi á því að halda svo á málum, að unnt hefði verið að sigla áfram þjóðarskútunni, án þess að þyrfti að steyta á skeri á næstu árum. Hún sigldi ekki með þetta sjónarmið fyrir augum. Hún fór ekki að í samræmi við það, sem var yfirlýst stefna Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar, sem var að varðveita efnahagsbata síðustu ára eftir áföllin 1967–1968 og auka kaupmátt launa til samræmis við það, sem greiðslugeta atvinnuveganna leyfði. Þessi ríkisstj. fór ekki eftir þessum markmiðum. Hún dreifði fé á báðar hendur, og einn hæstv, ráðh. lét þau orð falla í sambandi við þá samninga, sem gerðir voru á síðasta hausti milli aðila vinnumarkaðarins, að atvinnurekendur yrðu að stökkva, það yrði að ráðast, hvort þeir næðu til lands. Það er ljóst nú, að atvinnuvegir þjóðarinnar eru á sundi. Þeir ná ekki til lands, nema sérstakar aðgerðir ríkisvaldsins komi til og eru þær aðgerðir raunar þegar hafnar í sjávarútveginum með uppbótakerfi.

Ég vil skiljast við þetta mál með því að láta í ljós, að ein meginorsök að öllu þessu og kannske stærstu mistök, sem núv. ríkisstj. hefur gert, er, að hún skyldi lögfesta á síðasta Alþ. styttingu vinnuvikunnar. Ég átti ekki sæti á Alþ., þegar þessi löggjöf var afgr. úr þessari hv. d., en ég get látið það koma fram, að ég álít, að þetta hafi verið ein mestu mistök, sem ríkisstj. hefur gert. Ég var þessu frv. þá mjög andvígur og hefði greitt atkv. gegn því. Ég álít, að það þurfi ekki mörgum orðum að styðja þessa skoðun mína. Ég álít, að heilbrigð skynsemi segi hverjum sem er, bæði hv. alþm. og öðrum, að íslenzkir atvinnuvegir eru ekki svo í stakk búnir og voru ekki einu sinni þá, að þeir geti búið við það að greiða verkamönnum og öðrum launþegum fullnægjandi laun fyrir skemmri vinnutíma hér á Íslandi en gerist í nokkru nágrannalandi okkar. Sum þessara nágrannalanda okkar eru þó þróaðar iðnaðarþjóðir, og það er alkunna, að við slíkar þjóðfélagsaðstæður er auðveldara að komast af með stuttan vinnutíma, vegna þess að tæknin hefur þróazt á hærra stig en gerist við þá atvinnuhætti, sem hjá okkur ríkja. Það er enda svo, að í undirstöðuatvinnugreinum okkar, frumframleiðslunni, sjávarútvegi og landbúnaði, verður þessum vinnutíma ekki við komið. Það hefur enn þau áhrif, að fólk vill ógjarnan hverfa til þessara starfa. Það forðast undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og leitar til þjónustugreina, þar sem það getur notið þessa stutta vinnutíma. Það má telja marga annmarka á þessari löggjöf, sem auk þess var brot á þeirri hefð, að til þess tíma hafði ekki verið sett löggjöf um vinnutíma á Íslandi, heldur hafði það efni jafnan verið útkljáð í samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Ég lít svo á, að þetta atriði eigi eftir að draga á eftir sér langan slóða vandræða í okkar þjóðfélagi, og þótt ekkert annað hefði komið til, hefði það vissulega leitt af sér erfiðleika. En þegar ofan á bætist öll sú óráðsía og rangar aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. í fjármálum, þá er ekki von, að vel fari. Þá er ekki von, að sú mynd, sem við blasir, sé fögur, að það sé björt sól, sem skín yfir hæstv. ráðh. í dag. Sú sól skein vissulega glatt, sem þeir áttu yfir höfði sér, þegar þeir tóku við völdum, en það virðist svo sem geislar hennar nái ekki til ráðh. um þessar mundir.