14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

1. mál, fjárlög 1973

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um út af hinum skyndilega málvöndunaráhuga hæstv. fjmrh. að láta þess getið, að það er nú ekki komið svo fyrir hv. 5. þm. Reykn. eins og þeirri n., sem hæstv. fjmrh. skipaði til þess að leysa fyrir sig efnahagsvandann, að sérstaklega sé um það fjallað í þættinum um daglegt mál, en svo hefur verið um orðin valkostir og valkostanefnd, að þetta hefur sérstaklega verið tekið fyrir sem dæmi um málleysu og bent á, að miklu réttara væri að kalla þetta kosti og kostanefnd. Og réttilega heyrðist hvíslað hér einhvers staðar, að enn réttara væri náttúrlega ókostir og ókostanefnd.

Þessar umr. hafa nú staðið í allmargar klst., og það, að þær eru þó ekki orðnar lengri en þetta, er því að þakka, hve fáir forstöðumenn ríkisstofnana eiga sæti hér á hinu háa Alþ. En það mátti heyra undir ræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar, að slíkum mönnum er mjög þungt í skapi þessa dagana, svo að þess eru naumast önnur dæmi. Það er áreiðanlega rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að þó að undirbúningur fjárl. hafi oft verið bágborinn, hefur hann þó farið versnandi, sérstaklega þó þetta ár og s.l. ár. Ég minnist þess við fjárlagaafgreiðsluna s.l. ár, að hæstv. fjmrh, breiddi mjög úr sér hér í ræðustólnum og lýsti því yfir sem sérstakri stefnu sinni, að meðan hann yrði fjmrh., mundi hann leggja metnað sinn í það, að fjárl. gæfu sem bezta og réttasta mynd af ríkisbúskapnum, tekjum og gjöldum, eins og þau yrðu áætluð á næsta ári. Nú getum við séð það í nál. meiri hl. fjvn., að þar er sérstaklega um það talað, að á þessu stigi sé ómögulegt að gera sér grein fyrir, hvernig tekjuöflun fjárl. verður næsta ár, vegna þeirra efnahagsörðugleika, sem við blasa. Orðrétt segir svo í nál., með leyfi hæstv. forseta: „Eins og fyrr er getið í nál. þessu, er ljóst, að stjórnvöld munu gripa til sérstakra efnahagsaðgerða til þess að tryggja atvinnuöryggi og hallalausan ríkisbúskap. Af þeim aðgerðum hlýtur afgreiðsla fjárl. að markast, og gerir meiri hl. fjvn. því á þessu stigi ekki till. um breyt. á tekjuhlið frv.“ Þessi orð í nál. meiri hl. fjvn. verða ekki skilin öðruvísi en svo, að formaður n. treysti sér ekki fyrir sitt leyti til þess að afgreiða fjárlög nú fyrir jól. Hitt er annað mál, til hvers hann lætur þröngva sér af hæstv. fjmrh. En sýnt er nú, að hann ætlar að hafa að engu loforð frá því í fyrra um það, að hann muni leggja metnað sinn í að láta tekjur og gjöld ríkissjóðs koma sem skýrast fram í fjárlagafrv. Það voru því sannarlega orð í tíma töluð hjá þessum hæstv. ráðh. í gær, þegar hann var að gera því skóna, að hann þyrfti 12 ár í ráðherrastóli til að taka það aftur, sem hann lofaði í fyrra. Reynslan hefur nú sýnt, að hann þarf ekki eitt ár til þess, því að það vantar upp á það 3–4 daga.

Ég átti satt að segja ekki von á því við þessar fjárlagaumr. að heyra einn af hæstv. ráðh. kveinka sér undan því, að illa væri með þá farið í hljóðvarpi og sjónvarpi. En svo var þó að heyra rétt áðan á hæstv. fjmrh., og þótti honum illa farið með sig í sambandi við kjaradeilur BSRB. Ég fylgdist mjög náið með þessum deilum, bæði á Alþ., í fjölmiðlum og á almennum fundi í Háskólabíói, og það verð ég að segja, að engan mann fann ég koma eins aftan að hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, í Háskólabíói. Það gefur náttúrlega enn tilefni til þess að rifja upp framkomu þessa ráðh. fyrr og síðar í garð samráðh. sinna. Enda er svo komið nú, að svo er að sjá, sem hann þori ekki að setjast á ráðherrabekkina, því að hann sést aldrei orðið hér í hinu háa Alþ.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að hann ætlaði ekki að tala neina tæpitungu. Og hvaða orð lét hann þá falla? Jú, það, að skattal. 1971 hefðu verið sett í auglýsingaskyni. Ég verð að segja, að mér fannst þetta hraustlega mælt. Hæstv. fjmrh. er mjög vel kunnugt um það, að þau skattalög, sem þá voru lögfest, eru einhver bezt undirbúnu skattalög, sem hafa verið lögfest á Alþ. Öðrum þræði voru þau við það miðuð að búa atvinnuvegina undir inngöngu í EFTA og við það sniðin, að atvinnuvegirnir byggju við sambærileg skattakjör og er í öðrum EFTA- löndum. Á hinn bóginn var í þessum skattal. um mikilsverðar leiðréttingar að ræða, m.a. elztu borgurunum til handa, sem hæstv. fjmrh. skar allar niður á s.l. vetri, en treysti sér þó ekki, til annars, þegar í ljós kom, hvernig nýju skattal. verkuðu, en að veita þessum elztu borgurum nokkra leiðréttingu, eftir að Sjálfstfl. og málgagn hans höfðu gert harða hríð að ríkisstj. og höfðu svo að ekki varð um villzt, sýnt fram á, að þarna var um hreint ranglæti að ræða. Stjórnarsinnar reyndu fyrst í stað að ljúga því að elztu borgurunum, að þeir borguðu minna en áður, en þeir létu ekki glepja sig, enda muna þeir vel aðra vinstri stjórn, þó að fjmrh. væri þá annar.

Ég vil líka í þessu sambandi, fyrst hæstv. fjmrh. talar svo mjög um skattalög, spyrja, hvað líði því loforði hans frá síðasta Alþ., þegar hann var að reyna að fá flokksbræður sína og aðra stuðningsmenn ríkisstj, til þess að samþykkja skattal., eins og frá þeim var gengið, um það, að endurskoðun skattal. haldi áfram og þau verði leiðrétt á þessu þingi. Þetta var eitt aðalloforðið og það, sem hæstv. fjmrh. taldi skattal. mest til gildis, á síðasta þingi, að þau yrðu löguð nú aftur á þessu þingi. Hvað líður þeirri endurskoðun? Ég spyr einnig: Er það rétt, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að svo sé komið, að hæstv. ríkisstj. þori ekki að hækka beinu skattana meira en gert var? Beinir skattar hækkuðu frá 1971–1972 um 50%, á sama tíma og tekjuaukningin nam 26%, og það er ekki lítil hækkun. Eða verður stefna hæstv. heilbrmrh. ofan á? Svo var að heyra á honum í útvarpsþætti nú á dögunum sem honum þætti, að enn mætti hækka beinu skattana, hæsta þrepið.

Hæstv. fjmrh. státar mjög af því, að hann hafi í fórum sínum tölur um, að það fé, sem fer í framkvæmdir á vegum sveitarfélaga, sé hlutfallslega meira í ár en s.l. ár, ef miðað er við heildarútgjöld sveitarfélaganna nú og þá. Þegar þessi mál voru til umr. á síðasta Alþ. gerði hæstv. fjmrh. mjög mikið úr því, að miklum útgjöldum hefði verið létt af sveitarfélögunum. Í því dæmi, sem hann tók um heildarframkvæmdir sveitarfélaganna nú, sleppti hann ekki þessum miklu útgjöldum, sem hann státaði sem mest af í fyrra. Hann bar ekki heldur heildarfjárfestingu sveitarfélaganna saman við heildarfjárfestingu ríkisins. Hvernig skyldu þær tölur vera? Hvað skyldu ríkisframkvæmdirnar hafa vaxið mikið á þessum tíma?

Einna broslegast var þó, þegar hæstv. fjmrh. hrósaði sér af því, að hann hefði nú á þessu ári athugað gjöld og tekjur ríkissjóðs á milli mánaða og séð, hvernig þetta stemmdi saman. Væri þá í þeim samanburði fróðlegt að sjá hvar hann setti 13. söluskattsmánuðinn, en hann getur sennilega ekki hrósað sér af því einnig á næsta ári að geta innheimt söluskattinn fyrir 13 mánuði, eins og hann gerði á þessu ári, og verður fróðlegt að fá það inn í dæmið. Annars var eitt í ræðu hæstv. fjmrh., sem gladdi mig mjög hér í sölum Alþ. í gær, og það var, að hann viðurkenndi, að unga fólkið stendur mjög illa að vígi skattalega, og það er veruleg ástæða til að undirstrika þetta hjá hæstv. fjmrh. Það er svo komið í þjóðfélaginu nú undir ríkisstj., sem kennir sig við hinar vinnandi stéttir, að það er orðið gersamlega útilokað að eignast eitthvað með vinnu sinni, — gjörsamlega útilokað. Það er sannarlega tíma til kominn, að ríkisstj. beiti sér fyrir leiðréttingu að þessu leyti. Unga fólkið á nú erfiðara uppdráttar en nokkru sinni fyrr. Það er ekki aðeins, að óvissan í peningamálum og fjármálum sé meiri en nokkru sinni fyrr, og er þá mikið sagt, heldur er einnig hitt, að ríkissjóður seilist nú dýpra í vasana en áður. Auk þess bætist við óvissa um úthlutun á lánum húsnæðismálastjórnar, og fleira mætti til tína.

Eins og fram hefur komið hjá ýmsum þm. Sjálfstfl., hefur Sjálfstfl. markað og undirstrikað sína fyrri stefnu í sambandi við skattamál, sem byggist á tveimur grundarvallaratriðum: annars vegar á því, að frekar eigi að skaftleggja eyðslu en tekjur, og hins vegar því, að skattar megi aldrei verða of háir, aldrei fara yfir 50%. Ég undirstrika, að að minni hyggju er 50% algert hámark í þessu efni og nauðsynlegt að stefna að því að lækka beinu skattana enn þá meira.

Ég get ekki látið hjá líða, áður en ég fer úr ræðustól, að minnast örlítið á nokkur atriði í sambandi við Norðurl. e. og það, hvernig búið er að því á margan hátt í fjárlagafrv., sem nú liggur hér fyrir. Á Akureyri stendur svo á, að þar eru fram undan tvær geysimiklar framkvæmdir, annars vegar nýtt sjúkrahús og hins vegar höfn, hvort tveggja mjög stórar framkvæmdir. Í fjárlagafrv., eins og það er lagt fyrir, eru einungis ætlaðar 5 millj. kr. til sjúkrahússins, sem er að sjálfsögðu hlægilega lítið fé og til vansæmdar fyrir ríkisstj. Ég vek athygli á því, að í frv., sem dreift var hér á Alþ. fyrir nokkrum dögum um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1973, er gert ráð fyrir 38 millj. kr. framkvæmdum til hafna og vega, — hafna og flugvalla ætla ég, að þarna eigi að standa, og er prentvilla þar í grg., sem náttúrlega kemur ekki að sök. Af þessu fé er ekki að sjá, að eyrir eigi að renna til Norðurl. e.

Að síðustu ætla ég aðeins að minna á, að við afgreiðslu fjárl. s.l. ár var svo að heyra á hæstv. fjmrh. sem hann bæri mjög mikið fyrir brjósti leikhús, leiklistaráhuga og almennan menningaráhuga úti um byggðir landsins. Ég man, að hann ræddi sérstaklega um leiklist í því sambandi. Af því tilefni flutti ég á s.l. ári till. um, að Leikfélag Akureyrar yrði gert að sérstökum fjárlagalið og fengi nokkru hærri framlög en áður hefði verið. Nú liggur fyrir Alþ. beiðni frá þessu leikfélagi, sem ákveðið hefur verið að gera að atvinnuleikfélagi, um verulegt framlag til þess að undirbyggja þessi djarflegu áform. Ég á ekki von á því og fer ekki fram á það, að hæstv. fjmrh. eða fjvn. sjái sér fært að verða við beiðni Leikfélagsins að öllu leyti. En hitt vona ég, að þessir aðilar sjái sér fært að koma að nokkru til móts við hið duglega áhugamannafólk, sem þarna hefur lagt á sig mjög mikla vinnu, ótrúlega mikla vinnu, með þeim árangri, að Leikfélag Akureyrar hefur nú jafnmörg verkefni á starfsskrá sinni og Leikfélag Reykjavíkur. Ég vænti þess, að þetta mál fái mjög góðar undirtektir í fjvn. Erindi þess liggur nú óafgreitt hjá fjvn., eins og raunar mörg erindi önnur, og ég vænti þess, að það fái meðbyr þar í nefndinni.