14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

1. mál, fjárlög 1973

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. virtist vilja sýna mér mikla föðurlega umhyggju í ræðu sinni í dag, enda þótt ég væri enginn nýliði hér á þingi, eins og hann réttilega gerði grein fyrir. Það má nærri geta, hvort þessi hæstv. ráðh. telur sig ekki þess umkominn að taka nýliðana eða yngri menn á þingi undir hönd sér og veíta þeim föðurlega forsjá og kenna þeim að rata um erfiða stigu fjármálanna. En það var alveg óþarfi af hæstv. ráðh. að vera að leggja þetta á sig mín vegna, því að ég var alls ekkert að gagnrýna í aths. minni utan dagsrár í dag, að 2. umr. færi fram 14. des. Ég gat þess bara m.a., að hún hefði farið sama dag fram í fyrra. Ég hef ekkert á móti því, að 2. umr. fari fram 14. des., þegar það er meiningin að afgreiða fjárlög fyrir jól, ef það hefur verið unnið að fjárl. og þetta er eitthvað annað en ómerkilegt pappírsgagn opið í báða enda og alger markleysa eins og þm, eru stöðugt að segja hér. Það er það, sem ég var að finna að, og þetta verður hæstv. fjármálaráðherra Íslands að skilja, að það er vegna þess, sem gagnrýni okkar er sett hér fram, að það er ekki hægt að koma með pappírsgagn við 2. umr. fjárlaga 14. des., sem ekkert er í um þau veigamestu atriði, sem fjármál ríkisins hljóta að byggjast á. Þar eru götin og glompurnar. Þær voru þar við 1. umr., og þær eru þar enn við 2. umr. Frv. var stropegg, þegar það var lagt fram, og það kemur náttúrlega sjaldan ungi úr stropeggi.

Ég skil ekki í öðru en hæstv. forseti sjái eftir því að hafa ekki orðið við till. minni um að fresta þessari umr. í dag, eftir að hún hefur nú staðið fram til miðnættis og ljóslega hefur komið fram við þessa umr., eins og við 1. umr., að það, sem menn eru mest knúnir til að ræða um, er það, sem ekki er í frv. Þetta er auðvitað algerlega gagnstætt öllu eðli málsins og því, sem gera á. Samkv. þingsköpum á að ræða greinar frv. lið fyrir lið við 2. umr. og þær brtt., sem við þær eru. En hér þurfa menn að ræða fyrst og fremst það, sem ekki er í frv., það, sem vantar í frv. Það er kaldhæðni örlaganna, þegar við stöndum í þorskastríði og ríkisstj. er búin að lifa á því þann tíma, sem hún hefur starfað, að landhelgismálið hefði algeran forgang, flestar aðrar vitleysur hennar verið afsakaðar með því, þá skuli gleymast framlag, eins og hv. 1. þm. Vestf. talaði hér um áðan, til rannsókna á landgrunninu, sem var þó búið að taka upp í fjárl. 1971 það er enn þá meiri kaldhæðni örlaganna, að eftir að ríkisstj. sjálf er búin að bera fram frv. byggingu varðskips og fjvn. búin að skila nál. og mæla með því, að þetta frv. verði samþ., og búið að liggja fyrir þinginu frá því í byrjun þings frv. um eflingu Landhelgissjóðs, þá skuli ekki vera varið eyri til eflingar Landhelgissjóðs í frv. né til þess að kaupa varðskip eða bæta aðstöðu Landhelgisgæzlunnar. Hið litla framl. til Landhelgissjóðs er bara, eins og verið hefur áður, til þess að forða Landhelgissjóði frá því að standa í vanskilum með skuldir sínar, næstu afborganir af lánum. Þetta er hörmuleg skömm fyrir stjórnarliðið, — hörmuleg skömm, að hér skuli ekki varið eyri til að efla Landhelgissjóð né til þess að ýta undir framkvæmd till. ríkisstj. sjálfrar um byggingu varðskips og ekki eyri til þess að rannsaka landgrunnið. Á þetta kannske að standa svo enn við 3. umr.? Við höfum ekki flutt till. hér við 2. umr., en við látum ekki slíkt standa óbreytt án þess að flytja um það brtt. við 3. umr., þegar þar að kemur.

Þetta er ekki eina skömmin, sem komið hefur upp. Hér kemur hv. 12. þm. Reykv. og upplýsir það, að fjölskyldubætur hafi verið stórhækkaðar 1. des. Ég spyr fjvn: menn: Var ekki fjvn. gerð grein fyrir þessu? Nei, henni var alls ekki gerð grein fyrir þessu. Hver er þessi hækkun? fer maður að spyrja. Ja, það mundi kosta ríkissjóð á næsta ári hundruð millj. kr., kannske 400 mill. kr., er mér sagt. Við þurfum að fá að vita um það í þinginu, þegar slíkt er verið að gera. Hvað er verið að pukrast með þetta? Það borgar sig ekki, því að það kemst upp um strákinn Tuma. Það átti að borga þarna niður 1.1 stig eða eitthvað því um líkt í vísitölunni, til þess að það kæmi ekki fram 1. des., og því þá ekki að hækka fjölskyldubæturnar?

Ég skal reyna að lengja ekki mikið þessar umr. En það, sem ég vil leggja áherzlu á, er, að það er bæði við 1. umr., og það getum við sagt, að sé eðlilegt, og einnig við 2. umr., en þá á að vera búið að laga vankantana, verið að ræða hér um þá meginþætti efnahagsmála og fjármála í þjóðfélaginu, sem fjármál ríkisins og fjárlagafrv. byggjast meira og minna á. En það er ómögulegt að ráða í neitt af þessu í sjálfu fjárlagafrv., það er ekki gert ráð fyrir því. En þó eru að ýmsu leyti áætlaðar tekjur og gjöld, sem eru grundvölluð á þessum hliðarþáttum sumum hverjum, eins og ég skal koma að síðar. Við höfum fyrir okkur hluti eins og þá, að ríkisstj., sem fordæmdi verðstöðvun á sínum tíma, byrjar á því að framlengja verðstöðvun á árinu 1971. Á miðju ári 1972 framlengir hún svo verðstöðvun með tímabundnum ráðstöfunum í 6 mánuði. Þá er hún búin að hafa verðstöðvun í 9 mánuði. Síðan boðar forsrh. verðstöðvun í 12 mánuði til viðbótar. Þó að menn greini á um verðstöðvun, þá held ég, að menn hafi ekkert greint á um það, að í raun og veru getur hún aldrei verið nema bráðabirgðaráðstöfun. Það eru allir hættir að tala um hana núna, eftir að sérfræðingar fjölluðu um málið, og hennar er ekki sérstaklega getið í þeirra áliti. Þegar forsrh. kom hér í byrjun þings og flutti stefnuræðu sína, gerði hann sérstaklega grein fyrir efnahagsmálum, en þegar hann ætlaði að gera grein fyrir aðalatriði efnahagsmálanna, minntist hann ekki á ríkisfjármálin. Þegar hæstv. fjmrh. kemur hér með fjárlagafrv., segist hann ekki geta sagt neitt um efnahagsmálin. Þessi svikamylla er alveg stórkostleg. Þegar forsrh. falar um efnahagsmál, þá minnist hann ekki á ríkisfjármál, og þegar fjmrh. talar um ríkissjóð, minnist hann ekki á efnahagsmál. Geri aðrir betur. Það er von, að menn setji hljóða og vilji láta fresta umr. eins og þessari umr. og gefa hæstv. ríkisstj. tækifæri til að sýna þjóðinni, að hún sé þó fær um að hafa ríkisfjármálin og fjárlagafrv. í einhverju skaplegu lagi, en ekki algerlega botnlaus og fullkomna markleysu.

Maður skyldi ætla, að það hefði t.d. verið talað eitthvað meira um greiðsluhallann hjá ríkissjóði, þegar fjárl. eru til meðferðar. Það hefur verið bent á það hér í umr., að sérfræðingar ríkisstj. hafi gert ráð fyrir því, að hann yrði 400 millj. kr. á árinu 1972. Hann var á fjórða hundrað millj. kr. á árinu 1971. Yfirdráttur ríkissjóðs við Seðlabankann hefur aldrei orðið eins mikill og hann var á miðju sumri. Nú heyrist, að fjmrh. sé að hvísla því að mönnum, að þetta sé allt saman að lagast og yfirdrátturinn sé að minnka, hröðum skrefum að minnka. En af hverju er hann að minnka? Er hann ekki að minnka m.a. vegna 13. mánaðarins í sambandi við innheimtu söluskattsins? Er hann ekki að minnka vegna þeirrar óskaplegu ofþenslu, sem ríkisstj. hefur efnt til í þjóðfélaginu, minnka vegna þess, að tekjurnar fara langt fram úr áætlun, og að sumu leyti einnig vegna þess, að það hefur eitthvað verið skorið niður af fjárl. þessa árs, eins og gerð hefur verið grein fyrir? Voru það ekki tæpar 300 millj. kr., en ekki 400 millj., eins og brbl. gerðu ráð fyrir? En hvað þýðir niðurskurður af þessu tagi? Hann þýðir aðeins, að fresta á framkvæmdunum fram á næsta ár. Það verða að koma peningar fyrir þessu á næsta ári. Þetta þýðir bara frestun og seinkun á verklegum framkvæmdum eða öðrum framkvæmdum, sem þetta fé hefur átt að ganga til og hv. stjórnarsinnar hældu sér af á síðasta þingi, að væri nú í ríkara mæli lagt til en áður.

Viðskiptahallinn við útlönd er auðvitað ofboðslegur. Hann er ofboðslegur. Þó grundvallast tekjur og útgjöld fjárlagafrv. á hallanum. Á þremur árum er gert ráð fyrir, að viðskiptahalli við útlönd sé um 15 þús. millj. kr., og það er engin tilraun gerð til þess að sníða fjárlfrv. við afturhvarf í þessum efnum, miða það við minnkandi greiðsluhalla og helzt engan greiðsluhalla, því að mál er að hætta þessum hallabúskap. Árin áður en þessi núv. ríkisstj. tók við var viðskiptajöfnuður við útlönd hagstæður á tveimur árum um 1000 millj. kr. En fyrir árin 1971 og 1972 og skv. spá um 1973 verið að tala um nálægt 15 þús. millj. kr. halla.

Þegar þannig er háttað í kringum sjálf fjárl. og það, sem þau grundvallast á, er von, að þm. vilji fá þessar myndir skýrar dregnar og málið betur undirbúið, áður en þeir ljúka 2. umr. um fjárl., eins og ég lagði til í dag, en ekki hefur verið hlustað á. Ofan á allt þetta bætist svo, að sjálf ríkisstj. svífur í lausu lofti og það veit enginn, hvort hún er í stjórnarráðinu á morgun eða ekki. Og vegna hvers? Af því að hún veit ekki, hvað á að gera í efnahagsmálum. Það er verið að pressa okkur í það að vera hér fram undir miðnætti til þess að afgreiða 2. umr. fjárl., og enginn veit, hvað á að gera í efnahagsmálunum. Af hverju er svona mikið öngþveiti í stjórnarráðinu? Af hverju situr ekki hæstv. viðskrh. hér, eins og sagt var áðan? Hann hefur ekki látið sjá sig. Hæstv. forsrh. hefur ekki heldur látið sjá sig. En það eru sumir, sem segja að þessir menn séu að reyna að stoppa í götin á Vindsval ríkisstj., þessum loftbelg, sem ríkisstj. fleytir sér enn þá á. Hver er það, sem hefur borið hann burt? Hvaðan koma þessi göt á loftbelgnum?

Við vorum í gær að ræða um, að það væri gengislækkunarhugmyndunum að kenna, og þá sagði hæstv. forsrh., að það væri ekkert meint með þessu ákvæði Ólafskvers eða stjórnarsáttmálans, að ríkisstj. mundi ekki grípa til gengislækkana, það stæði alls ekki þar, heldur ætti bara við þann vanda, sem þá var við að glíma, þ.e.a.s. þegar hann tók við. Það vissu allir að það var ekki við neinn vanda að glíma þá og það gat ekki komið til álita, að nokkur væri að tala um gengislækkun í því sambandi. Fráfarandi ríkisstj. hafði verið með tillögugerð um gengishækkun réttu ári áður, vorið 1970. Þetta er sennilega það furðulegasta, sem komið hefur fram í skýringum á Ólafskveri, að það væri ekkert meint með þessum ákvæðum sáttmálans um gengislækkun. Það er von, að þm. brosi að þessu.

En menn bentu á, að það hefði verið aðalboðskapurinn hjá stjórnarliðum, að þessi ríkisstj. mundi aldrei framkvæma gengislækkun það var ekki bara 1971, heldur á síðustu mánuðum og vikum. Hv. 1. þm. Sunnl. var með blað í hendinni með fallegri mynd af hæstv. fjmrh., þar sem var sagt frá því, að hann hefði á fundi á Selfossi fyrir nokkrum vikum sagt, að ríkisstj., sem nú situr, mundi aldrei grípa til gengislækkunar. Menn fóru að rifja upp fyrir sér, að þeir hefðu heyrt hæstv. forsrh. segja hið sama ekki alls fyrir löngu. Ég hef hérna fyrir framan mig ljósrit af fréttum í ríkisútvarpinu 25. okt., og þar var þessi frétt: „Forsrh. sagði í dag, að hann áliti, að verðstöðvun ætti að standa næsta ár og gengislækkun yrði ekki, á meðan núv. stjórn væri við völd“. Hvað á aumingja fólkið í landinu að hugsa, þegar svo forsrh. í gær kemur og segir: Við meintum ekkert með þessu í Ólafskveri, nema meðan við var að glíma þann vanda, sem var eftir viðreisn? Svo er sagt í seinni fréttum: „Forsrh. kvað gengislækkun ekki gerða af núv. ríkisstj.“ Það hefur verið hnykkt á þessu, og það er fullt af þessu. Framsfl. hefur haldið fundi um gervallt landið á s.l. hausti, og sögum af þeim fundum ber öllum saman um eitt helzta atriðið, sem þeir hafi sagt, að gagngerðasta stefnubreyting, sem mörkuð var, þegar núv. ríkisstj. tók við, væri sú, að hætt yrði að nota gengislækkun sem eitthvert úrræði í efnahagsmálum. Það ætlum við ekki að gera, berrar mínir, var sagt. Þetta var sagt bæði fyrir norðan, austan, vestan og sunnan.

Hitt er svo annað mál. að ég mundi fagna því, ef þessir hv. menn tækju þetta allt saman aftur og hefðu vitkazt á þeim tíma, sem þeir hafa verið í stjórn, og teldu, að það væri ráðlegast að framkvæma einhverja gengislækkun til þess að ráða bót á vandræðum, sem þeir hafa stofnað til í efnahagsmálum. En þá er ég hræddur um, að það þurfi að breyta ýmsum liðum fjárl. Það hefði verið gott að eiga 2. umr. eftir, og sennilega væri næstum því nauðsynlegt að eiga eftir 3. umr., þó að hæstv. forsrh. hafi sagt í gær, að fjárl. yrðu afgreidd fyrir jól. En það getur vel verið, að gengisbreyting verði komin fyrir jól, ég veit það ekki.

Ég held, að meðferðar fjárlagaafgreiðslunnar í ár verði lengi minnzt í þingsögunni og af þeim sökum, sem ekki aðeins ég hef verið að reyna að draga fram hér, heldur vegna þess, sem fram hefur komið í ræðum allra þm. og kemur mjög greinilega fram í nál. minni hl. í fjvn., þar sem þeir gera grein fyrir því, hve mikið vanti á í raun og veru, að grundvöllur sé til að láta 2. umr. fjárl. fara fram. En það þýðir ekki að hafa fleiri orð um það, og umr. fer nú senn að ljúka. Spurningin er þá aðeins, hversu mikið hæstv. ríkisstj. auðnast að taka til hendinni til þess að koma þessari frv.- ónefnu í eitthvert sæmilegt horf við 3. umr., hvenær sem hún á að fara fram, því að ég get ekki trúað hæstv. ríkisstj. að ætla sér að reyna að afgreiða 3. umr. fjárl alveg út í bláinn, án þess að hún sjálf sé búin að gera sér grein fyrir því áður, hvaða efnahagsaðgerða hún ætlar að grípa til. Það væri of mikil lítilsvirðing fyrir hv. Alþ. og fullkomin lítilsvirðing fyrir þjóðina í heild, ef þannig ætti að fara að því að afgreiða fjárlög landsins.