24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

10. mál, lánveitingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil ekki reyna meira á þolinmæði forseta varðandi tímasetningu, en ég vil þakka hæstv. ráðh. mjög vel fyrir svörin og sé það, að nokkuð hefur áunnizt, þó að allmikið sé óafgreitt enn þá og ekki liggi ljóst fyrir, hvort tekst að veita þau lán. En þessi 931 umsókn, sem er nú óafgreidd, það eru tímasetningarumsóknir og tímasetning á, hvenær íbúðirnar verða fokheldar. Það mun koma í ljós, hvort þær verði allar undir lánshæfni, ef ég hef tekið rétt eftir í upplestrinum. En þar sem þetta var mjög mikið af tölum, sem ég vissi reyndar fyrir fram, þá gat ég ekki náð þeim öllum til þess að getað svarað þeim núna. En augljóst er, að það þarf að gera átak til þess að tryggja það, að allar umsóknir fái afgreiðslu, eins og hefur verið gert undanfarin 4 ár. Þess vegna vildi ég fá það á hreint, hvernig staðan væri í dag.