15.12.1972
Efri deild: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

105. mál, dómari og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fylgja þessu frv. um sérstakan dómara og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum úr hlaði með mörgum orðum. Þetta er mál, sem hv. alþm. er vel kunnugt um, m.a. frá umr., sem hafa farið fram um það, og í öðru lagi fylgja svo rækilegar skýringar með í athugasemdum, að ég get verið stuttorður í sjálfu sér.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ofneyzla fíkniefna hefur verið böl víða um lönd. Það má segja, að lengi vel höfum við hér sloppið betur við það en aðrir. Það hefur verið fyrirferðarminna hér en annars staðar að undanförnu. En það er samt staðreynd, sem ekki verður gengið fram hjá, að það er farið að brydda mjög á þessu hér, og þess vegna er nauðsynlegt að gera í tíma allar tiltækar ráðstafanir, sem gætu spornað við því, að þessi ófögnuður breiddist hér út.

Það er í aths. gerð grein fyrir því, hvernig þessum málum hefur verið og er nú fyrir komið hér, þar sem löggæzlunni er þannig háttað í þessu efni eins og á öðrum sviðum, að lögregla hvers löggæzluumdæmis hefur á böndum eftirlit með því, að ávana- og fíkniefni séu ekki á boðstólum eða þeirra neytt í því umdæmi. Tollgæzlan fylgist með því, að efnunum sé ekki smyglað inn. Þessir aðilar hafa svo sín á milli samráð og skiptast á upplýsingum. En reynslan í þessum efnum hefur sýnt, að í næstum því öllum þeim málum, sem upp hafa komið, hafa þau snert fleiri lögsagnarumdæmi en eitt.

Það hefur starfað að þessum málum sérstök samstarfsnefnd, sem dómsmrh. setti á fót í marzmánuði 1972, og í þeirri n. eiga sæti fulltrúar frá þeim rn., sem þessi mál heyra sérstaklega undir, en það er svo, að þessi málefni snerta málaflokka, sem heyra undir 3 eða 4 ráðuneyti. Þessi samstarfsnefnd hefur unnið gott starf að mínum dómi, þótt hún hafi haft nokkuð takmörkuð fjárráð og því verið takmörk sett, fyrir hverju hún hefur getað sérstaklega beitt sér. Hún sendi frá sér 15. ágúst s.l. bréf til dóms- og kirkjumrn., sem prentað er hér með sem fylgiskjal, þar sem hún gerir vissar till. Í fyrsta lagi er farið fram á það, að skipuð verði sérstakur umboðsdómari, er hafi með höndum rannsókn mála varðandi brot á löggjöf um ávana- og fíkniefni. Í öðru lagi, að tryggt verði, að a.m.k. 8 löggæzlu- og tollgæzlumenn starfi að jafnaði að fíkniefnalöggæzlu í Reykjavík og nágrenni, þar með talin Keflavík og Keflavíkurflugvöllur, og að þeim verði séð fyrir fullnægjandi starfsaðstöðu, bæði hvað snertir tækjabúnað og skrifstofuaðstoð. Það sé háð ákvörðun rn., hvort þessir löggæzlumenn starfa við eitt eða fleiri embætti á þessu svæði. í þriðja lagi er farið fram á, að rn. hlutist til þess í samráði við heilbrrn., að lækni með sérmenntun í geðlækningum verði falið að sinna þessu máli. Í þessu bréfi koma fram þau rök, sem n. færir fram fyrir þessari málaleitan. Ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þau hér. Enn fremur er þess að geta, að mér hafa borizt till. um þessi málefni, sem að sumu leyti ganga í sömu átt og sérstaklega hafa vikið að því, að sett yrði á stofn sérstök rannsóknardeild í fíkniefnamálum. Þær koma frá Kristjáni Péturssyni deildarstjóra á Keflavíkurflugvelli, sem hefur haft sérstakan áhuga á þessum málum og hefur unnið mikið að þeim. Má segja, að frv., sem hér liggur fyrir, hafi vissa stoð í þessum till., sem þannig hafa fram komið, þó að það hafi ekki verið hægt að þræða þær að öllu leyti, og þær eru grundvöllur undir frv. Aðalefni þess er, að stofnaður verði sérstakur dómstóll til að rannsaka og dæma brot varðandi ávana- og fíkniefni og taki hann til landsins alls.

Eins og ég sagði áðan, er þessum brotum flestum þannig háttað, þegar upp kemst um þau, að þau snerta fleiri en eitt lögsagnarumdæmi, og er óþægilegt bæði í rannsókn og dómsmeðferð að þurfa að dreifa því í fleiri en einn dómara. Hitt er augljóst hagræði, að rannsókn málsins geti farið fram undir stjórn einnar lögregludeildar og dómara. Þessi dómstóll á að hafa aðsetur í Reykjavík, dómari, er ráðh. skipar og á að hafa þekkingu á þessum málaflokki. Það er gert ráð fyrir því, að fulltrúar geti starfað við þennan dómstól eftir því sem þörf krefur. Málsmeðferð í þessum dómi á að lúta meðferð opinberra mála. Þegar ávana- og fíkniefnabrot blandast öðrum brotum, sem vel getur átt sér stað, skal leita úrskurðar saksóknara ríkisins um, hvort þessi fíkniefnadómstóll eða hinn almenni sakadómur skuli fara með málið í heild. Verði héraðsdómari var brots varðandi ávana- og fíkniefni, gerir hann þessum sérstaka dómi aðvart, og flytz þá málið þangað. Það er enn fremur gert ráð fyrir því, að dómsmrh. geti úrskurðað, hver störf skuli lögð undir þennan dómstól, að öðru leyti en lagafrv. ákveður. Starfslið dómarans skal ráðið af ráðherra. Svo er það loks, sem er þýðingarmikið og raunar annað aðalefni frv., auk þess að gera ráð fyrir að setja á stofn þennan sérstaka dómstól. að við embætti dómarans starfi undir hans stjórn sérstök lögregludeild, og er gert ráð fyrir, að það sé byrjað þar í smærri stíl en Kristján og samstarfsnefndin fóru fram á, þar sem gert er ráð fyrir að byrja með aðeins 3 menn. Þessi sérstaka deild á að starfa með lögreglumönnum hinna einstöku umdæma, sem vinna að ávana- og fíkniefnamálum, en slíkt mundi auðvitað haldast áfram og það yrðu sérstakir menn við embætti hvers lögreglustjóra, einkum hér í nágrenninu, sem hefðu sérstaklega með þessi mál að gera. Þessi sérstaka lögregludeild á að aðstoða þá, en að öðru leyti eiga þeir að vera dómaranum til aðstoðar við rannsókn mála. Það er svo gert ráð fyrir því, að nánari ákvæði um þetta verði sett í reglugerð.

Það er auðvitað svo, að þessari starfsemi, sem hér er gert ráð fyrir, fylgir allmikill kostnaður, og fyrir honum er gerð grein í athugasemdum frv. Það er auðvitað atriði, sem þarf að huga að í þessu sambandi, hve mikinn kostnað menn telja fært og rétt að leggja í við þetta, og verður að sjálfsögðu Alþingis að meta og ákveða.

Í sambandi við þetta mál hafa vaknað vissar spurningar. í till. n. er gert ráð fyrir því, að það verði skipaður umboðsdómari til að fara með þessi mál. en umboðsdómari er nú, eins og menn vita, skipaður til að fara með sérstakt og ákveðið mál. Að athuguðu máli þótti vafasamt, hvort það hentaði að hafa þá skipan á, sem leggur þá af sjálfu sér nokkuð mikið vald í hendur dómsmrh. að ákveða, hvaða dómur í hverju einstöku falli fari með hvert einstakt mál, þannig að horfið var að því, að gera ekki ráð fyrir þessum svokallaða umboðsdómara, sem fari með þetta, heldur föstum dómara, enda er það svo, þegar sett er upp sérstök rannsóknarlögregludeild, sem ein fer með þetta embætti, að þá væri dálítið erfitt að koma því við, ef aðeins ætti að vera um umboðsdómara að ræða. Enn fremur kom það til athugunar, að við vonum öll, að hér sé um tímabundið ástand að tefla, sem geti liðið hjá, og þess vegna var það mjög athugað, hvort ekki væri rétt að binda í þessu frv., að í lögunum væri dómari aðeins skipaður til ákveðins tíma. Um það verð ég einnig að segja, að athuguðu máli og að áliti fróðustu manna var líka talið dálítið vafasamt, að slíkt væri a.m.k. í samræmi við venju um skipun dómstólakerfisins, að það væri hægt að skipa dómara þannig til ákveðins tíma. En það er vitaskuld atriði, sem hv. n., sem fær málið til meðferðar, getur tekið til athugunar, og er sjálfsagt, að hún taki það til athugunar. En þrátt fyrir það, að hér sé ekki gert ráð fyrir því, að dómarinn sé skipaður tímabundið, þá er eftir sem áður auðvitað sú von fyrir hendi, að hér sé um tímabundið ástand að ræða, og yrði þá auðvitað, að binda endi á starfsemi þessa dóms, sem þannig væri skipaður til óákveðins tíma, í samræmi við almennar reglur þar um.

Ég skal svo, herra forseti ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Það er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því, að þetta mál sé afgr. nú fyrir jól, og þess vegna ástæðulaust að vera að tefja tímann nú með löngum umr, um þessi efni, sem eru þó auðvitað þess eðlis, að þau verðskulduðu það. Það getur komið til athugunar, þegar betri tími gefst til þess. Það var aðeins ætlunin að koma frv. til n. fyrir jólaleyfi, og ég skal láta hér staðar numið, nema það komi fram fyrirspurnir, sem ég gæti leyst úr. Ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.