15.12.1972
Efri deild: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

105. mál, dómari og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég gleðst yfir því, að frv. til I. um sérstakan dómara og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum er komið fram. Okkur er víst öllum ljóst, að á síðustu árum hefur sigið á ógæfuhlið hjá okkur í þessu efni varðandi neyzlu og innflutning ávana- og fíkniefna. Á síðasta Alþ. fluttum við alþm. Ellert B. Schram og ég till. til þál. um rannsóknardeild vegna sölu og neyzlu fíkniefna. Í sambandi við þær umr., sem urðu þá, var greinilegt, að hér var orðið um verulegan vanda að ræða í okkar þjóðfélagi, enda þótt menn greindi nokkuð á um, hve vandinn væri stór. Það, sem er erfiðast fyrir okkur að sætta okkur við, er að geta ekki fundið þær orsakir, sem liggja til þessa. Við vitum, að þetta er kannske að einhverju leyti innflutt vandamál. Við vitum, að þetta er tízkufyrirbrigði í ýmsum löndum, og við vonumst til, að sú alda þessara óhappa, sem yfir gengur, gangi yfir á tiltölulega skömmum tíma. Hins vegar ber því ekki að neita, að hér er um vanda að ræða, sem verður að reyna að hafa hemil á svo sem unnt er. Við lögðum í þessari till. okkar til, að sérstök rannsóknardeild yrði skipuð, og það gleður mig sérstaklega, að hér er farið inn á þá braut að hafa sérstaka deild til rannsókna á ávana- og fíkniefnamálum.

Þeir, sem aðallega lenda í höndum lögreglu í sambandi við þessi mál, eru unglingar, og það hefur sýnt sig að vera einnig svo í öðrum löndum. Þess vegna er vafalaust ástæða til að leggja áherzlu á, að þeir lögreglumenn, sem rannsaka slík mál og starfa við rannsóknardeildina, séu sérhæfðir til starfa sinna og þá einkum með tilliti til þess, að þeir meðhöndla hér viðkvæm ungmenni, þar sem e.t.v. getur varðar miklu um framtíð þeirra, hvernig til tekst og hvort þeir lögreglumenn, sem að þessu starfa, þekkja andleg vandamál æskunnar og fara eins rétt og varlega í sakirnar og unnt er. Í því sambandi langar mig til að minnast á bréf, sem borizt hefur alþm. frá Neytendasamtökunum, þar sem getið er um, að 15 manns hafi kvartað yfir meðferð lögreglumanna á ungmennum, sem hafi verið tengd ávana- og fíkniefnamálum. Að sjálfsögðu er ekkert sérstakt fyrirbrigði, að kvartað sé undan slíku. En það, sem ég vildi leggja sérstaka áherzlu á, er, að hér er að mestu leyti um ungmenni að ræða, sem þurfa sérstakrar aðgæzlu og tillitssemi við. Ég segi þetta í þeim tilgangi einum, að frá upphafi verði reynt að mennta þessa menn til starfa og þeir fái leiðbeiningar félagsráðgjafa og sálfræðinga.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hetta mál. Ég sem sagt gleðst yfir því, að þetta frv. kom fram. Ég er ekki öruggur um, að sá háttur, sem hér er á hafður, að hafa sérstakan dóm fyrir þessa málaflokka sé æskilegur. Mér skilst, að sérdómstólar séu ekki sérlega vel þokkaðir eða ekki talið vera æskilegt nú á tímum að hafa marga sérdómstóla, og spurningin er, hvort hentugra hefði verið að fara þá leið, sem n. lagði til um sérstakan umboðsdómara. Ég tel mig ekki færan um að leggja dóm á það mál, en ég vil vekja athygli n. á þessu atriði, að það eru að mínu áliti nokkuð skiptar skoðanir um, hvort hér sé rétt að málum staðið. Hins vegar er meginatriðið fyrir mér það, að rannsóknardeild, þar sem vinna hæfir menn, er okkur nauðsyn, og ég vona, að það verði mikill og góður árangur af starfi hennar.