15.12.1972
Efri deild: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

78. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var rætt á fundi fjh: og viðskn. hinn 13. des. N. kvaddi á sinn fund skrifstofstjóra fjmrn., Björn Hermannsson, og gaf hann n. upplýsingar og skýringar varðandi efni frv.

Eins og fram kemur í aths. frv., er það borið fram til að samræma íslenzku tollskrána þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á Brüsseltollskránni svonefndu frá því árið 1968, en íslenzka tollskráin er gerð eftir tollskrárfyrirmynd Tollasamvinnuráðsins í Brüssel, hinni svonefndu Brüsseltollskrá, eins og hún var árið 1959. Á árunum 1959–1968 voru samþ. þó nokkrar breytingar á Brüsseltollskránni, og hefur íslenzku tollskránni þegar verið breytt til samræmis við þær breytingar. Frá árinu 1968 hafa verið gerðar frekari breytingar, og í bréfi Tollasamvinnuráðsins frá 25. nóv. 1971 segir, að þær breytingar séu gerðar til þess, að Brüsseltollskráin megi fylgja þeirri tækniþróun, sem orðið hefur á síðustu árum, og þeim breytingum í alþjóðaviðskiptum, sem þessari þróun hafa verið samfara. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið, voru samþykktar í Tollasamvinnuráðinu hinn 9. júní 1970.

Til stóð, að þetta frv. yrði flutt á s.l. hausti, en það var þá of síðbúið og varð ekki af flutningi þess. Nú er lögð áherzla á, að frv. þetta nái fram að ganga. Hér er ekki um tollahækkun eða lækkun að ræða, og skráin er yfirleitt ekki opnuð, heldur eru fyrst og fremst fyllri skrýringar í aths. við tollflokka og kafla og textabreytingar við einstök tollskrárnúmer, sem miða í flestum tilvitnum að því að bæta inn í viðkomandi nr. heitum nýrra vörutegunda. Í Tollasamvinnuráðinu eru um eða yfir 100 þjóðir, þó hvorki Bandaríkjamenn né Rússar. Allar að a.m.k. langflestar þessara þjóða í Tollasamvinnuráðinu hafa þegar staðfest þær breytingar, sem hér er leitað staðfestingar á og lagt er til. að gerðar verði.

— Að fengnum upplýsingum og skýringum hefur n. orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt eins og það liggur hér fyrir á þskj. 82. Við afgreiðslu í n. voru fjarstaddir þm. Björn Jónsson og Geir Hallgrímsson.