24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

10. mál, lánveitingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þeir þm., sem taka til máls undir þessum lið, hafa ekki meira en 2 mín. til umráða, svo að maður gerir ekki mikið meira heldur en að koma hingað upp í pontuna og fara niður aftur. En það, sem ég vildi aðeins víkja að, úr því að húsnæðismál eru á dagskrá, er það, sem hæstv. ráðh. sneiddi hjá að skýra frá í sínum upplýsingum og má segja, að hann hafi gert það, vegna þess að hann hafi ekki beint verið spurður að því, en það er varðandi fjármagnsöflun byggingarsjóðsins. Nú upplýsir hann, ef ég hef tekið rétt eftir, að samkv. bráðabirgðaáætlunum fyrir næsta ár sé gert ráð fyrir því, að til þurfi 1195 millj. kr. í útlán og öllum má ljóst vera, að mikið fé skortir í byggingarsjóðinn til þess að mæta þessari áætlun. því spyr ég um, ef hæstv. ráðh. getur eitthvað upplýst um það, hvaða áætlanir eru uppi um það að afla þessa fjármagns, og þegar þessi tala er gefin upp, við hvaða lánveitingu er þá miðað pr. íbúð. Nú gaf hæstv. ráðh. það í skyn hér í umr. á þingi í fyrra, að hann vildi beita sér fyrir hækkun á lánveitingum, talaði um 600 upp í 800 þús. kr. Auk þess koma vegna verðlagsbreytinga einhverjar hækkanir, svo að spurningin er, við hvaða tölur er miðað, þegar talað er um 1195 millj. kr. á næsta ári?