15.12.1972
Efri deild: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

73. mál, búfjárræktarlög

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Land búnaðarlöggjöfin er margþætt, og einn þáttur bennar er frv. það, sem hér liggur fyrir, og fjallar það um búfjárrækt. En fyrr á þessu ári hefur Alþ. afgreitt annað mikilvægt landbúnaðarmál, og það eru jarðræktarlögin. Þessi tvenn lög fjalla annars vegar um ræktunarmál jarðar og hins vegar ræktun búfjár. Með sanni má segja að þau hafi, hvor tveggja verið mikil lyftistöng fyrir bændastéttina frá fyrstu tíð og gert henni kleift að sinna verkefnum sínum. Þrátt fyrir það, að bændum hefur fækkað, hefur þeim tekizt eindæma vel að halda uppi mikilli og góðri landbúnaðarframleiðslu.

Frv. þetta segir fyrir um það aðalverkefni, sem félagsstarfsemi landbúnaðarins þarf og á að beita sér fyrir. Það markar stefnu í búfjárræktarmálum frá grunni, þ.e. hjá bændunum sjálfum og þeirra hreppabúnaðarfélögum. Það mótar jafnframt leiðbeiningaþjónustu búnaðarsambanda og ákveður verksvið Búnaðarfélags Íslands, sem hefur heildarstjórn á leiðbeiningaþjónustu landbúnaðarins, og veitir einnig mikilvægar leiðbeiningar og innir af hendi margþætta opinbera þjónustu.

Frv. þetta er að mörgu leyti líkt þeirri löggjöf, er nú gildir um búfjárrækt. En að sjálfsögðu felur það í sér ýmsar nýjungar, sem byggjast á nýrri tækni, auknum vísindum og breyttum samgöngum á landi og í lofti. Allt samstarf hjá bændum er miklu auðveldara nú en áður var.

I. kafli frv. fjallar um félagskerfið, starfssvið þess á hinum einstöku stigum og þá þjónustu, sem veitt er af því opinbera, þ.e. leiðbeiningaþjónustu eða ráðunautaþjónustu. Allt er þetta mótað nánar í frv. þessu en áður í löggjöf, en þó eru stórvægilegar breytingar, þar sem fylgt hefur verið hefðbundnum reglum í þessum efnum. Undirstaða þess, að vel til takist í leiðbeiningaþjónustunni, er að ráðunautar fái haldgóða þekkingu á landbúnaði og að tilrauna- og rannsóknastarfsemi landbúnaðarins sé vel uppbyggð og góð tengsl séu á milli rannsókna annars vegar og leiðbeiningaþjónustunnar hins vegar. Eigi má heldur loka augum fyrir því, að allir bændur verða að hafa þekkingu á starfi sínu og getað tileinkað sér með góðum árangri þær nýjungar, sem eru að gerast og til heilla horfa. Ég hef hér að framan lýst félagskerfi landbúnaðarins og leiðbeiningaþjónustunni, og raunar kemur þetta allt fram í 4. gr. frv.

II. kafli þessa frv. er um nautgriparækt, og eru þar mestu breytingarnar frá gildandi löggjöf í þessu frv. Tekin eru upp sérstök ákvæði í frv. um það, að Búnaðarfélag Íslands skuli reka nautastöð til framleiðslu á djúpfrystu nautasæði, eins og þegar hefur verið gert að Hvanneyri í nokkurar með mjög góðum árangri. Gert er ráð fyrir því, að sérstök kynbótanefnd verði valin á Búnaðarþingi til þess að sjá um val kynbótanauta, og skal n. þannig valin, að hún geti haft sem nánust og bezt tengsl við bændur í hinum einstöku landshlutum. Þar af leiðir, að fellt er niður það ákvæði, sem gilt hefur um sérstakar kynbótanefndir í hverjum hreppi. Búnaðarsamböndin eiga að sjá um dreifingu á djúpfrystu sæði hvert á sínu félagssvæði. Til þess að standa undir kostnaði við starfsemi þessa fá samböndin framlög frá ríkissjóði, stofnstyrk, 1/3 af kostnaði stöðvanna og nauðsynlegra tækja, sem þeim fylgja. Þá skulu þau einnig fá 65% af viðurkenndum launum sæðingarmanns og 65 kr. í styrk á hverja sædda kú. Lagt er til. að búnaðarsamböndin geti innheimt allt að 0.7% af grundvallarverði innveginnar mjólkur hjá mjólkurbúunum, og mörg búnaðarsambönd hafa notið styrks frá mjólkursamlögum, annaðhvort á þennan hátt eða heildarupphæð á ári hverju. Nægi þessar tekjur ekki samböndunum til starfsemi sinnar, skal það, sem á vantar, tekið með sérstöku gjaldi á sædda kú á sambandssvæðinu.

Þá eru í frv. þessu sett skýrari ákvæði en áður um afkvæmarannsóknir á nautum. Tvær afkvæmarannsóknir á nautum. Tvær afkvæmarannsóknastöðvar hafa starfað hér á landi, þ.e. á Lundi í Eyjafirði og Laugardælum í Árnessýslu. Stöðvar þessar hafa möguleika á að afkvæmarannsaka 6–8 naut árlega, en það þykir of lítið og verður vafalaust allt of lítið í framtíðinni. Möguleikar eru á því að rannsaka afkvæmahópa á búum bænda með því að semja við þá um notkun á vissum nautum og kvígnauppeldi. Þá er í þriðja lagi hægt að vinna upplýsingar upp úr skýrslum bænda um kúabúin, en það þykir ekki eins nákvæm athugun og þarf að hafa miklu fleiri gripi í athugun, þegar sú aðferð er notuð. Þessar tvær síðasttöldu leiðir eru í seinni tíð mikið notaðar erlendis, og gera má ráð fyrir, að þær verði fyrir valinu hér á landi í framtíðinni. Fjárframlög í þessu skyni eru miðuð við það, að hægt sé hér að velja og hafna um leiðir eða nota þær allar, eftir því sem hentar bezt. Þá eru tekin upp ákvæði um héraðssýningar á kúm, en þessar sýningar eru hánar ströngu eftirliti þeirra, sem fylgjast eiga með sjúkdómum búfjár, einkum garnaveiki og öðrum smitnæmum búfjársjúkdómum. Gert er ráð fyrir sérstökum verðlaunum á sýningum þessum, annars vegar fyrir afkvæmi og hins vegar fyrir einstaklinga og þar að auki fyrir beztu kúna á hverri sýningu.

III kafli frv. fjallar um sauðfjárrækt. Nýmæli er það í frv. þessu, að tekin eru upp ákvæði nm sauðfjársæðingarstöðvar, og eru þær fjárhagslega byggðar upp á sama hátt og dreifingarstöðvar fyrir nautasæði. Þá er tekin upp heimild fyrir Búnaðarfélag Íslands til að koma upp djúpfrystingarstöð fyrir hrútasæði og sjá um rekstur hennar. Stöð þessi mundi starfrækt á svipaðan hátt og nautastöðin á Hvanneyri. Tæknilega hefur ekki reynzt nógu vel að djúpfrysta hrútasæði og halda því nothæfu, en vonandi tekst að leysa þau vandamál innan tíðar. Það mundi skapa mikla möguleika á aukinni sauðfjárrækt, ekki sízt hjá þeim bændum, sem ekki hafa aðgang að úrvalssauðfjárstofnum, eins og enn þá er sums staðar á landinu. Að öðru leyti er þessi kafli ekki mikið breyttur frá gildandi lögum nema það, að tekið er inn ákvæði um héraðssýningar á sauðfé. Framlög ríkis miðast við það, að þátttaka þeirra, sem eru í sauðfjárræktarfélögum, sé meiri en verið hefur, og fer framlagið lækkandi, eftir því sem hver og einn hefur hlutfallslega fleiri ær skráðar í félaginu. Þetta hvetur bændur til þess að taka í stærri stíl þátt í þessari starfsemi en annars mundi verða.

Þá er nú sem fyrr lögð á það áherzla að viðhalda geitfjárstofni þeim, sem til er landinu, og greiðir ríkið nokkurn styrk í þessu skyni samkv. frv. þessu, eins og gilt hefur í lögum um nokkurra ára skeið.

IV. kafli frv. er um hrossarækt. Þar er um bæði félagslegar breytingar að ræða og verulega aukin fjárframlög til kynbótastarfseminnar. Frá því að íslenzki hesturinn var ómissandi þjónn á hverju heimíli og allir landflutningar byggðust á hestum, hefur orðið talsverð breyting á hlutverki hestsins. Margur hélt um tíma, að hlutverki hans væri lokið, en svo var þó ekki. Í dag er hesturinn þarfur þjónn á bændabýlum og hjá fjölda fólks í Reykjavík og í bæjum og kauptúnum víðs vegar á landinu. Auk þess er hann að verða eftirsóttur erlendis og á eftir að verða dýrmæt útflutningsvara, þegar meira verður vandað til kynbóta en hingað til hefur verið. Skoðun mín er, að við eigum ekki að flytja úr landi nema vel tamda gæðinga. Kaflinn um hrossarækt í frv. þessu miðast allur við það, að meira eftirlit verði haft með kynbótum hrossa en verið hefur og vandað til stóðhesta og þeir afkvæmaprófaðir og dæmdir eftir því. Það þykir aldrei góð mjólkurkýr, sem er skapvond og selur illa mjólkina. Eins er það með gæðinginn, hestinn, að hann getur eigi reynzt traustur og góður, nema lundin sé þjál, þótt að vísu sé nokkuð til í því, að oft verði góður hestur úr göldum fola. En þó er það nú svo, að sjaldnast verða þeir hestar góðir nema þá hjá þeim, sem hafa tamið þá og umgengist þá lengst.

Nýmæli í kafla þessum er það, að 5 manna sýningarnefnd á að starfa á vegum Búnaðarfélags Íslands til þess að semja reglur um fyrirkomulag og framkvæmd sýninga og skipan dómnefnda og forsendur dóma. Búnaðarþing kýs 2 menn í þessa sýningarnefnd og Landssamband hestamannafélaga tilnefndir 2 menn, en oddamann skipar Búnaðarfélag Íslands, og skal það vera ráðunautur félagsins í hrossarækt. Þá er lagt til að koma upp svonefndum Stofnverndarsjóði, sem myndast af útflutningi hrossa, 10% af útflutningsverði hryssa og 20% af útflutningsverði óvanaðra hesta. Sjóður þessi skal notaður til þess að styrkja og lána hrossaræktarsamböndum fé til kaupa á kynbótahrossum, sem annars yrðu seld úr landi. Mundi það vera mikill skaði, ef til þess þyrfti að koma.

Þá er það nýmæli í frv. þessu, að sýslunefndir og sveitarstjórnir fá heimild til þess að skylda hrossaeigendur til þess að hafa öll sín hross í vörzlu nema þann tíma, sem þau eru á afrétti. Þess má geta, að hross fara illa með haglendi, ekki sízt þegar krafsjörð er á vetrum. Auk þess er hættulegt að láta hross nöllta meðfram þjóðvegum, og getur það valdið slysum með sívaxandi umferð, eins og á sér stað hér á landi.

V. kafli þessa frv. er óbreyttur frá gildandi lögum, og er hann um svína- og alifuglarækt. VI. kafli er nýr og fjallar um hundarækt, þar sem Búnaðarfélagi Íslands er heimilað að semja við einstaklinga um að rækta, ala upp og venja hreinkynja fjárhunda, annaðhvort af íslenzku eða erlendu kyni. Við Íslendingar höfum yfirleitt ekki komizt upp á lag með að hafa eins mikil not af fjárhundum við smalamennsku og fjárgæzlu og t.d. skozkir bændur hafa getað og margir aðrir. Hugsunin með þessu ákvæði frv. er að gera tilraunir til að bæta úr þessu vandamáli, því að sannarlega er mikil þörf á góðum fjárhundum, þar sem fámenni er mikið í sveitum og mjög víða erfiðar smalamennskur.

VII. Kaflinn er um loðdýrarækt. Hann er nýmæli, þar sem Búnaðarfélagi Íslands er falið að hafa ráðunaut í loðdýrarækt til þess að leiðbeina um fóðrun og kynbætur loðdýra. Þeir, sem staðið hafa fyrir innflutningi minka á undanförnum árum, hafa mjög sótt á með að fá leiðbeiningar á þessu sviði, og hefur Búnaðarfélagið leitazt við að sinna þessum verkefnum með því að fá bæði innlenda og erlenda menn til þess að taka að sér leiðbeiningar á þessu sviði, en þó ekki nema skamman tíma í einu. Hugsanlegt er, að þetta geti orðið fullkomið starf fyrir einn ráðunaut, og ætlazt er til þess í þessu frv., að þarna geti orðið um svo mikið verkefni að ræða, að til þess þurfi sérstakan ráðunaut, sem hefur kynnt sér til hlítar loðdýrarækt.

VIII kaflinn um æðarrækt er nýmæli í löggjöf nú í seinni tíð. Áður fyrr hafði Búnaðarfélagið leiðbeiningar á þessu sviði, og það hefur einnig haft þær með höndum í seinni tíð, enda hafa æðarræktarbændur óskað eftir leiðbeiningum á þessu sviði. Hér er líka um mjög þýðingarmikið mál að ræða, því að æðardúnninn, ef vel er til hans vandað að öllu leyti, er mjög dýrmæt vara, bæði innanlands og einnig til útflutnings.

IX. kaflinn er óbreyttur frá gildandi lögum, en hann fjallar um ræktun erlendra búfjárkynja og blöndun þeirra við innlent búfé. Í þessu sambandi má minna á það, að ákveðið er að reisa sóttvarnarstöð í Hrísey. Þangað skal flytja djúpfryst sæði úr erlendum nautum af Galloway-kyni og nota fyrir þann kúastofn, sem verður einangraður á þeirri sóttvarnastöð. Vonir standa til, að innflutningur þessi skapi möguleika á meiri og betri nautakjötsframleiðslu en hér hefur verið til þessa.

X. kafli frv. er um forðagæzlu. Hann er óbreyttur að öðru leyti en því, að lögð eru niður ákvæði um stofnun fóðurbirgðafélaga, þar sem reynslan hefur sýnt, að þau náðu ekki þeirri útbreiðslu, sem reiknað var með í upphafi. Því er áfram ætlazt til þess, að hlutaðeigandi sveitarstjórnir sjái um þessi mál.

XL kaflinn um almenn ákvæði felur ekki í sér nein nýmæli önnur en þau, að sektarákvæði eru tvöfölduð í upphæð frá því, sem er í gildandi lögum, og mun það ekki vera til ósamræmis við ýmsar aðrar verðhækkanir í landinu frá því, að þessi löggjöf öðlaðist gildi.

Þá hefur landbn. lagt fram nokkrar brtt. á þskj. 156, og eru þær að mestu teknar upp eftir till., sem hagstofstjóri sendi n. og hann taldi nauðsynlegt, að væri ákvæði um í löggjöf. Þessar brtt. fjalla um tvennt: í fyrsta lagi leiðréttingar á misritun í frv. og í öðru lagi breytingar við kaflann um forðagæzlu, en þar hefur hagstofustjóri farið fram á það við n., að hún tæki inn í frv. ákvæði um það, að bæði Reykjavíkurborg og bæjarfélögin í landinu hefðu sína forðagæzlu eins og sveitahrepparnir. Og það er ekkert óeðlilegt, að þetta sé gert, ekki sízt þegar það er haft í huga, að í öllum bæjum er nokkuð mikið um búfénað. Hestum fer fjölgandi í bæjunum og mjög ört fjölgandi hér í Reykjavík, og einnig má segja, að í fjölmörgum bæjum og kauptúnum sé mjög margt sauðfé. Allt bendir til þess, að nauðsyn sé á, að á þessum stöðum sé forðagæzla, það nái svipuð lög yfir þann búfénað, sem er í bæjum, og þann, sem er í sveitum. Það gefur líka auga leið, að þetta er miklu þægilegra á allan hátt fyrir úrvinnslu og þá upplýsingaþjónustu, sem Hagstofa Íslands veitir. Þetta mun hafa verið áður í lögum, en ég veit ekki vel, hvenær það hefur fallið úr. Það kemur ekki beint fram í gildandi löggjöf, en ég held, að það sé heppilegt og rétt, að þetta sé tekið inn. Allar brtt. að undanteknum leiðréttingum fjalla um breytingar, sem hagstofustjóri lagði til, og eru þær varðandi bæjarfélögin, og þar á að sjálfsögðu að greina frá fóðurforða, og einnig vill hann fá inn í skýrslur upplýsingar, sem aflað er í bæjum, um þá garðrækt eða garðuppskeru, sem til fellur á þeim stöðum, til þess að þær upplýsingar, sem Hagstofan veitir á þessu sviði, séu nákvæmari en annars mundi vera.

12. brtt. er bráðabirgðaákvæði, sem kemur á eftir 66. gr., og er um það, að búnaðarsamböndum verði „heimilt að innheimta á árinu 1973 gjald af innveginni mjólk samkv. a-lið 2. tölul. d-liðar 7. gr., enda tilkynni stjórn búnaðarsambands það með mánaðar fyrirvara.“ En í frv. segir, að þetta skuli tilkynnt eigi síðar en 1. des. árið áður en gjaldið skuli á lagt. En miðað við það, að senn er þessi mánuður á enda, desembermánuður, og vonandi verður þetta frv. að lögum annað tveggja nú fyrir jólin eða snemma á næsta ári, þá mundu búnaðarsamböndin geta notfært sér þennan gjaldstofn, ef þau vildu, og gætu tilkynnt það með mánaðar fyrirvara, eftir að lögin öðluðust gildi, hvenær svo sem það yrði á næsta ári.

Þá kemur fram í nál., að n. bárust bréf frá fleiri en hagstofustjóra. Það kom bréf frá Landssambandi hestamannafélaga, sem óskaði eindregið eftir því, að þetta frv. yrði samþ. óbreytt. Einnig barst n. bréf frá sýslumanni Húnvetninga, þar sem hann óskaði eftir smávægilegum breytingum við frv., og eru þær einkum tvær. Það er við 31. gr., þar sem sagt er, að óheimilt sé að láta stóðhesta ganga lausa. Breytingin, sem sýslumaður fer fram á, er sú, að oddvitum verði falið þetta starf í stað hreppstjóra, og rökstyður hann það nokkuð. En n. sá ekki ástæðu til að fara að taka upp þessa breytingu, ekki sízt vegna þess, að hreppstjórarnir hafa alltaf haft þessi störf með höndum, og okkur er ekki heldur kunnugt um það, að þeir hafi ekki staðið sig vel. þar sem á slíku hefur þurft að halda. Þá er önnur breyting, sem kom fram í sama bréfi. Það er varðandi forðagæzluna, þar sem sýslumaður taldi, að það mætti gjarnan fella niður tvær greinar, sem um þau mál fjalla, þ.e. 58. og 59. gr. frv., og rökstyður hann það með því, að það, sem í þessum gr. standi, komi fram í 55. gr. og 65. gr. En n. fannst það ítarlegra að láta þessar gr. standa og gat því ekki fallizt á þær breytingar, sem þar er farið fram á.

Þá barst n. bréf frá ráðunautum Búnaðarfélags Íslands. Það er um, að tekinn verði upp sérstakur styrkur til kaupa á sjálfvirkum mælum, sem nauðsynlegt er að nota, eftir að sjálfvirku mjaltavélakerfin komu og mjólkurtankar á heimilin. Þessir mælar eru alldýrir og hafa verið tollaðir nokkuð hátt að undanförnu, en vonir standa til þess, að tollskrá verði endurskoðuð nú síðar í vetur, og hef ég rætt þessi mál við fjmrn., og hafa þeir heitið bót og betrun í því, að tollur af þessum tækjum skyldi verða svipaður og af mörgum öðrum landbúnaðartækjum eða um 7%, og teljum við þá, að úr þessu sé bætt.

Fleira er það ekki, sem ég sé ástæðu til að gera grein fyrir í sambandi við þetta mál, en vonast eftir því, að hv. þm. samþykki frv. og þær breytingar, sem fyrir liggja, og allir nm. eru líka á einu máli um, að svo verði gert.