15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

121. mál, launaskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 169 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 14 15. marz 1965, um launaskatt. Hér er um að ræða að framlengja launaskatt þann, sem lagður hefur verið á um tveggja ára skeið, 2.5%, og skiptist þannig, að 1% rennur í Byggingarsjóð ríkisins sem stofnfjárframlag og 1.5% í ríkissjóð, en það var tekið upp vegna niðurgreiðslna, sem upp voru teknar á árinu 1970 og hefur verið haldið síðan.

Með l. nr. 94 19. nóv. 1970, um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis, var ákveðið að leggja á sérstakan launaskatt, 1.5%, á tímabilinu frá 1. des. 1970 til 31. ágúst 1971, sbr. 2. gr. téðra laga. Með brbl. nr. 77 21. júlí 1971 var framangreint tímabil um, að innheimta skyldi launaskatt þennan, framlengt til 31. des. 1971. Með l. nr. 96 27. des. 1971, um breyt. á l. um almannatryggingar, var ákveðið, að skattur þessi skyldi innheimtur á árinu 1972, sbr. ákvæði til bráðabirgða í 3, lið. Það er óhjákvæmilegt, eins og nú er háttað, að þessi 1.5% launaskattur verði gerður að varanlegum tekjustofni handa ríkissjóði. Er því rétt að breyta ákvæði l. nr. 14 1965 til samræmis við það og felur 1. gr. frv. í sér þá breytingu.

Með 2. gr. frv. er gerð till. um orðalagsbreytingu, til þess að hlutverk Byggingarsjóðs í kostnaði við álagningu og innheimtu skattsins verði óbreyttur frá því, sem verið hefur, þrátt fyrir hækkun skattsins.

Ég vænti þess, að um þetta frv. geti einnig orðið samstaða hér á hv. Alþ., þó að það sé seint fram komið, og takast megi að afgreiða það fyrir áramót, þar sem brýna nauðsyn ber til að halda þessum skatti.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn: og viðskn.