24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

10. mál, lánveitingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég get ekki búizt við því, að fyrirspyrjandi eða aðrir hafi getað hent reiður á öllum þeim tölum, sem ég las, en ég var tilknúinn að lesa sökum þess, um hvað spurt var. En ég hygg, að það hafi samt orðið ljóst af mínum upplýsingum að fjárveitingar til húsnæðislána á árinu 1972 miðað við sams konar fjárveitingar á árinu 1971 eru í öllum liðum hærri nú heldur en árið á undan. Samkv. þeirri áætlun, sem Seðlabankinn hefur hins vegar gert um árið 1973, þá er upplýst af því, að það verði nálægt 1200 millj. kr., sem Húsnæðismálastofnunin hafi yfir að ráða til framkvæmda og lánveitinga á því ári. Nú skulum við miða við meðaltalstölu íbúða á 4 árunum, sem spurt var um, en þar var meðaltalið 1160 íbúðir, þó að árið 1970 færi þetta niður í 1032. Við skulum segja, að íbúðatalan verði a.m.k. þessi og lánsupphæðin verði hækkuð um áramót úr 600 þús. í 800 þús. 1150 íbúðir sinnum 800 þús. eru, að ég hygg, 920 millj. kr., en Húsnæðismálastofnunin á að geta ráðið við lánveitingar allt upp í 1200 millj kr. Það blasir því ekki við neitt hörmungarástand, að því er snertir það, að byggingarsjóðurinn geti svarað þeirri eftirspurn eftir lánum, sem á honum hefur hvílt fram til þessa. En ég segi, að ef það reynist svo á árinu 1973, að hann verði í fjárþröng, þá verður ríkissj. að reyna að bæta úr og e.t.v. að leita til Alþ. um að styrkja tekjustofna byggingarsjóðsins, en á því hefur ekki orðið nein breyting frá hendi Alþ. fram til þessa. En tekjustofnar byggingarsjóðsins virðast nú nokkurn veginn hrökkva og þó liðlega fyrir eftirspurnunum. Og allar umsóknir, sem eru núna með fullum lánarétti, hafa verið afgreiddar og líkur til þess, að þær, sem á að afgreiða fyrir áramót, verði afgreiddar eins og til stendur.